Feykir - 25.03.2020, Blaðsíða 10
Allir spila úr þeim spilum sem á hendi eru
Eins og öllum er kunnugt
hefur fjöldi fólks þurft að laga
sig að breyttum aðstæðum á
tímum þess illskeytta
faraldurs sem nú gengur yfir
heimsbyggðina. Í kjölfar
samkomubanns á Íslandi og
viðtækra smitvarna hefur
samkomuhald lagst af og
félagsstarfsemi almennt.
Fyrirtæki skipuleggja
starfsemi sína upp á nýtt,
víða vinnur helmingur
starfsmanna heima meðan
hinn helmingurinn mætir á
vinnustað, aðrir hafa
möguleika á að nýta annað
húsnæði fyrir hluta starfs-
manna og svo má áfram telja.
Víða á landsbyggðinni eru
skólarnir með stærstu vinnu-
stöðum samfélagsins. Leikskólar
og grunnskólar starfa áfram í
samkomubanni og hafa flestir
þurft að ráðast í umfangsmiklar
skipulagsbreytingar til að
uppfylla þær reglur sem settar
hafa verið. Nemendur þurfa að
læra nýjar umgengnisreglur og
gefur að skilja að þeir yngstu
gætu átt í erfiðleikum með að
átta sig á í hverju þær felast.
Feykir skoðaði lítillega hvernig
starfsemi grunnskólanna hefur
verið þessa rúmu viku síðan
samgöngubannið skall á.
Fróðlegt er að sjá hvernig hver
skóli spilar úr þeim spilum sem
hann hefur á hendi og er eins
misjafnt og skólarnir eru margir
hvernig formið er á skipulaginu.
Þegar þetta er skrifað hefur
greinst smit í einum grunnskóla,
Grunnskóla Húnaþings vestra.
Þar eru allir nemendur og
starfsmenn í sóttkví til og með
30. mars og hefur starfsfólk
verið í sambandi við nemendur
með hjálp tækninnar og sinnt
aðstoð við þá gegnum netið.
Grunur um smit í Höfðaskóla
Í Höfðaskóla á Skagaströnd kom
upp grunur um smit í gær og var
strax tekin ákvörðun um að færa
kennslu alfarið yfir í fjarkennslu
frá og með deginum í dag
(miðvikudegi). Mun það
fyrirkomulag vara á meðan
beðið er eftir niðurstöðum úr
sýnatöku. Þar voru nemendur
yngsta stigs heima í síðustu viku
og miðstig átti að vera heima í
þessari viku. Nemendur elsta
stigs tóku sig til í síðustu viku og
gengu milli húsa og mokuðu
snjó frá dyrum, af göngustígum
og frá ruslafötum hjá fólki.
Í Árskóla hefur elstu
nemendunum, í 7.-10. bekk,
verið kennt að mestu í fjarnámi.
Aðrir nemendur hafa komið í
skólann á mismunandi tíma og
þeir ganga inn um mismunandi
innganga hússins til að koma í
veg fyrir samskipti þeirra á milli.
Skólaakstur innanbæjar fellur
niður og ekki er boðið upp á
morgunverð eða hádegismat í
skólanum. Því þurfa nemendur í
1.-6. bekk að koma með nesti að
heiman sem þeir snæða í
stofunum.
Í Blönduskóla er kennt frá
8:00 til 12:00 alla daga og er
árgöngum kennt hverjum í sinni
stofunni og einnig í
íþróttamiðstöð, eins dreift og
hægt er. Hver námshópur verður
að vera í sinni stofu allan
skólatímann fyrir utan útiveru
og má ekki blandast öðrum
hópum. Í Blönduskóla hefur
verið lögð áhersla á útiveru og
útikennslu á hverjum degi og
nýttu flestir bekkir sér
hvalrekann sem varð í síðustu
viku og skoðuðu hann. Einnig
hefur snjórinn, sem nóg er af,
verið nýttur vel til húsbygginga.
Í Varmahlíðarskóla hefur
nemendum verið skipt upp
þannig að ekki mæta allir
nemendur í skólann alla daga.
Yngsta stig mætir alla daga og
miðstig alla daga nema einn.
Eldri nemendur eru meira
heima en allir fá einhverja
skóladaga ásamt því að verið er
að þreifa sig áfram með
fjarkennslu og hefur gengið vel.
Lögð er áhersla á útivist og
hreyfingu undir stjórn
íþróttakennara. Ekki er boðið
upp á morgunmat en
hádegisverður er borinn fram í
kennslustofunum.
Í Húnavallaskóla er kennt frá
klukkan 8:30 til 13:00 og er
nemendum kennt í þremur
námshópum. Þeim er haldið
aðskildum og fær hver hópur
sinn tíma í morgunmat,
hádegismat og útiveru. Í skólabíl
eiga nemendur sem koma frá
sama bæ að sitja saman og lögð
er áhersla á að nemendur hafi
þvegið sér vel með sápu og
sprittað áður en farið er í bílinn.
Hluti nemenda Húnavallaskóla
hefur verið í fjarkennslu þessa
daga.
Í Grunnskólanum austan
Vatna á Hofsósi hefur verið
hægt að bjóða upp á heila
skóladaga þar sem aðstaða í
félagsheimilinu spilar stórt
hlutverk. Skólahúsnæðinu er
skipt upp í tvö aðskilin svæði
með sitt hvoru starfsmanna-
teyminu og þriðja hópnum er
kennt í félagsheimilinu, alveg
aðskilinn frá öðrum nemendum.
Þá er matsal í félagsheimili skipt
í tvö aðskilin svæði fyrir yngsta-
og miðstig sem borða á
mismunandi tímum en eldra
stig borðar í öðrum sal. Í
starfsstöð skólans á Hólum
hefur verið hægt að halda nær
óbreyttu skipulagi utan þess að
enginn samgangur er milli leik
og grunnskóla. Auk þess er
enginn samgangur kennara
Hofsóss og Hóla meðan þetta
ástand varir. Sem víðar er lögð
mikil áhersla á útivist og fær
hver hópur eina kennslustund á
dag.
Eins og sjá má hefur alls
staðar verið afar vel að verki
staðið og starfsfólk skólanna lagt
mikinn metnað í að tryggja
nemendum sínum eins lítið rask
og unnt er við þessar erfiðu
aðstæður. /FE
Skólarnir leggja mikla áherslu á útiveru með nemendum sínum meðan íþróttatímar liggja niðri og víða er snjórinn nýttur til skemmtunar. Hér eru nemendur á Hofsósi í útivist
með kennara sínum. MYND: KRISTÍN SIGURRÓS EINARSDÓTTIR
Skólastarf á tímum COVID-19
Sungið fyrir heimilisfólk HSN
COVID-19 | Tónleikar í skugga veiru
Heimilisfólk Heilbrigðis-
stofnunar Norðurlands á
Sauðárkróki hefur verið í
afar vernduðu umhverfi
síðustu vikurnar en
heimsóknarbann var sett á
og hefur verið í gildi í
nokkurn tíma.
Til að brjóta daginn upp
hefur fólkinu verið boðið á
gluggatónleika þar sem
hópur tónlistarfólks mætti sl.
laugardag og söng að
fyrirmynd annarra lista-
manna sem hafa einmitt stillt
saman strengi og skemmt
fólki sem sæta þarf
fyrirmælum almannavarna
um að sitja í nokkurs konar
sóttkví meðan Covid 19
ógnar heilsu þjóðarinnar og
alls heimsins. Þá arkaði 3.
bekkur Árskóla upp á
Spítalahæðina og söng fyrir
fólkið lög úr Kardi-
mommubænum en krakk-
arnir höfðu æft vel og lengi
fyrir árshátíð sína sem vera
átti sl. mánudag í Bifröst en
ekki orðið af vegna
samkomubanns. Á Face-
book-síðu skólans segir að
veðrið hafi ekki spilað með
þeim en það létu krakkarnir
ekki á sig fá og sungu af
innlifun. /PF Þrátt fyrir að dag sé tekið að lengja getur verið napurt á útitónleikum í mars. MYND: PF
10 12/2020