Feykir


Feykir - 23.09.2020, Blaðsíða 8

Feykir - 23.09.2020, Blaðsíða 8
 Heilir og sælir lesendur góðir. Einhverju sinni, reyndar fyrir margt löngu, hafa verið haldin vísnakvöld á Hótel KEA á Akureyri. Meðal þátttakenda þar var hörkuskvísan Ósk Þorkelsdóttir frá Húsavík, sem trúði áheyrendum fyrir eftirfarandi niðurstöðum úr sínum rannsóknum: Það er ekki illa meint frá okkur Þingeyingum, aldrei hef ég getað greint gáfur í Skagfirðingum. Sá ágæti félagi Kristján Stefánsson frá Gilhaga mun hafa talið ástæðu til að senda nokkra kvittun fyrir þessari sendingu og dundaði sér við að gera þrjár úrvals hringhendur, sem trúlega hafa borist til frúarinnar. Barst á kreik í blendinn leik bendir veikum putta. Anar keik í eld og reyk ekki smeik sú stutta. Á skotmark einatt skammt frá sér skyttan beinir hendi. Vit að greina vandi er viðbragðs – seinu kvendi. Þótti frægt ef þingeyskt var. En það hefur lægt, til saka. Því af nægtum naumt er þar núna hægt að taka. Nú fer að nálgast það sem sumir kalla tímamót sumars og hausts. Látum samt ekki í ljósi þörf á að flýta þeim varmaskiptum þrátt fyrir næstu vísur sem ortar eru nær vetri. Það mun hafa verið á haustdögum sem hin kunna skáldkona Ólína Andrésdóttir orti svo: Senn má varma sumarbáls síðsta bjarma líta, hlíðar barminn faðmar frjáls fönnin armahvíta. Þegar meira líður á haustið verða þessar til hjá Ólínu: Barn á hóli hættir leik harðnar gjólan tíða, farna sól þá byrgir bleik bjarnarnjólan stríða. Dómar falla, dauða þá, drómar alla beygja. Blómið hallar höfði und snjá hljómar snjallir þegja. Held endilega að næstu vel gerðu vísur séu eftir hinn kunna hagyrðing Önnu Eggertsdóttur sem kennd var við Steðja í Borgarfirði. Hrekkjum lífsins hlæðu að harma tölur spara, hægt með gætni hugsa um það hvernig með skal fara. Allt þó verði á tundri og tjá tapaðu aldrei móði. Bíttu á jaxlinn bara þá og bölvaðu í hljóði. Hef áður birt í þessum þáttum vísur eftir Sigurð Bjarnason, sem var Reykvíkingur. Þessar munu eftir hann: Flest í heimi finnst mér valt Vísnaþáttur 768 ( GUÐMUNDUR VALTÝSSON ) palli@feykir.is fátt sem treysta megi, það á sveimi iðar allt enda – fram að degi. Þegar snót með þelið flátt þeytir grjóti og sóti, út mín brjótast ósjálfrátt önughót á móti. Sá magnaði Þingeyingur Sigurður Jóns- son, bóndinn á Arnarvatni, hlýtur að hafa verið önugur í skapi er hann orti svo: Gleðin mín er grafin kvik gnagar eiturnaðra. Líf mitt allt er sífelld svik við sjálfan mig og aðra. Eftir að hafa hugsað málið betur varð þessi til: Ósanngjarnan garminn við gjörast nú dómar þínir. Alltaf sér hann þó eina hlið ef hann fer og rýnir. Að lokum þessi auðskilda vísa eftir Sig- urð: Orðið getur erfitt spaug eftir þrá og vonum, ef að maður magnar draug og missir stjórn á honum. Það mun hafa verið gamli Káinn sem orti svo magnaða mannlýsingu: Æru þrotinn, þrútinn, blár þögull greipar spennir, hæruskotinn, grettur, grár glóðaraugum rennir. Það mun hafa verið Heiðrekur Guð- mundsson, skáld frá Sandi, sem sagði svo frá högum sínum: Skuldir mínar aukast enn, af þeim vandi stafar. Fjöldi víxla en fáir menn fylgja mér til grafar. Gaman höfðu þessir snjöllu hagyrðingar, þess tíma á Akureyri, að glettast hver við annan. Rósberg G. Snædal greip á lofti yfirlýsingu Heiðreks og sendi á skáldbróður. Ekki var hans líkfylgd löng, lýður um það brigslar, hér og þar í hálfa stöng héngu fallnir víxlar. Í þungum þönkum mun Heiðrekur hafa verið er hann orti svo: Það er kalt í þessum heimi þar er valtur sess. Lífið allt er öfugstreymi ungur galt ég þess. Gott þá að enda með þessari fallegu vísu Heiðreks: Þó að stundum þyki mér þungur lífsins róður. Þá er guð í sjálfu sér sínum börnum góður. Veriði þar með sæl að sinni. /Guðmundur Valtýsson Eiríksstöðum, 541 Blönduósi Sími 452 7154 Nýliðar voru áberandi í starfi GSS í sumar en metþátttaka var á árlegu nýliðanámskeiði í júní. Formaður klúbbsins brá sér í hlutverk blaðamanns og tók nokkra þeirra tali og mun Feykir birta viðtöl í næstu blöðum. Helgi Freyr Margeirsson ríður á vaðið en hann er þekktur úr körfunni fyrir að raða niður þristum. Því biðu kylfingar spenntir eftir að sjá hvort framhald yrði á þristaröðinni. Helgi hlær að þessu en útilokar ekki að þristunum fjölgi en hann segist hafa spilað töluvert í sumar. Hvernig var svo að ganga í GSS? „Þetta var nánast náttúrulegt skref fyrir mig því ég hef gaman að því að skora á sjálfan mig og læra eitthvað nýtt. Ekki skemmdi fyrir að þetta getur verið mikið fjölskyldusport og hvetur til útiveru sem er öllum holl.“ Var eitthvað sem kom á óvart? „Já, hvað mér finnst golfið raunverulega skemmtilegt þó að mér gangi stundum bölvanlega, en maður verður að horfa til þess jákvæða og það eru alltaf einhver högg inn á milli sem bæta upp fyrir allt það sem var ómögulegt,“ segir Helgi brosandi og bætir við: „Ég hefði viljað vera búinn að fara af stað fyrr, allavega að sækja námskeið til að vera aðeins kominn af stað. En þetta er frábært fjölskyldusport. Annað er að við hér í Skagafirði eigum alveg ótrúlega flottan völl sem er öfundsverður og ekki skemmir fyrir að maður getur skotist upp á völl og tekið tvær, þrjár, holur í hádegishléinu á góðviðrisdegi, það er nánast ómögulegt á öðrum völlum.“ Hvað stendur svo upp úr í golfinu eftir sumarið? „Öll góðu höggin í sumar sem á einhvern ótrúlegan hátt fara nákvæmlega eins og maður hafði hugsað sér að þau ættu að gera, eða þannig. Annars var líka mjög gaman að vinna núverandi, og vonandi áframhaldandi, formann GSS í litlu móti í sumar, gegn öllum líkum, ætli það sé ekki hápunkturinn“ segir Helgi Freyr glottandi í lokin. ( NÝLIÐAR Í GOLFI ) @Kristján Bjarni Halldórsson Áskorun að læra eitthvað nýtt Helgi Margeirs ásamt spúsu sinni, Margréti Helgu Hallsdóttur. AÐSEND MYND Helgi Freyr Margeirsson | starfsmaður Landsbankans 8 36/2020

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.