Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.08.2021, Blaðsíða 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 29.08.2021, Blaðsíða 10
AFGANISTAN 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 29.8. 2021 eftir árásir hryðjuverkamanna á Bandaríkin 11. september 2001. Og nú eru þeir komnir aftur. Anderson segir í grein á vefsíðu tímaritsins New Yorker að leið talíbana til valda á ný sé klassískt dæmi um skæruhernað, sem gengur út á að þreyta andstæðinginn. Flestir þeirra, sem hann hafi hitt fyrir tveimur áratugum og börðust gegn talíbönum, séu nú látnir. Næstum allir hafi verið drepnir, teknir af lífi. Að verki voru talíbanar. Þreytistríð þeirra hafi gengið út á að gera árásir og láta sig hverfa, taka útvalin fórnar- lömb af lífi, yfirleitt embættismenn og áberandi konur, til þess að draga úr baráttuþreki and- stæðinga sinna og fremja hryðjuverk, sem bæði veiktu stjórn landsins og bjuggu til andrúmsloft ógnar til að ýta undir auðsveipni fólks þar sem þeir voru að ryðja sér til rúms. Um leið hafi talíbanarnir reynt að vinna hugi og hjörtu fólks. Þeir hafi farið í viðræður við stjórnvöld og bandamenn þeirra án þess að hug- ur fylgdi máli til að telja andstæðingum sínum trú um að talíbanar væru í raun ekki öfgafullir og væru tilbúnir að ræða málin. Í eðli sínu væru þeir hins vegar bókstafstrúarmenn og tryðu á ósveigjanlega útleggingu á Kóraninum. Illvígari en fyrir 20 árum Pakistanski blaðamaðurinn Ahmed Rashid er kunnugri innviðum talíbana en margur annar og bók hans „Talíban“ frá því um aldamótin var mikið lesin á sínum tíma. Rashid segir í grein í tímaritinu The Spectator að talíbanar séu nú mun herskárri og róttækari en fyrir 20 árum. Þar spyr hann hvort komið sé fram nýtt af- brigði af talíbönum. Mennirnir, sem lögðu undir sig Kabúl, geri sitt besta til að virðast hófsamir. Þeir segi að konur muni fá að vinna og ganga menntaveginn. Þeir hafi heitið embættis- mönnum hinnar föllnu stjórnar sakaruppgjöf, sem gömlu talíbanarnir hefðu aldrei látið sér detta í hug. Of snemmt sé að segja til um hvort við þetta verði staðið. Stóra spurningin snúist hins vegar ekki um eldri leiðtoga talíbana held- ur hina ungu foringja, sem í raun lögðu Kabúl undir sig. Rashid segir að talíbanar hafi aldrei sýnt áhuga á að flytja sína útgáfu af íslömsku bylt- ingunni út í heim. Þeir hafi aðeins verið með Afganistan í huga. „En nýju ungu liðsmennirnir eru mun herskárri og róttækari,“ skrifar hann. „Margir hafa setið í fangelsi fyrir öfgahyggju. Þó nokkrir hafa setið í Guantanamo þar sem þeir urðu fyrir miklum áhrifum af al-Qaeda og þeirra gerð af alþjóðlegu dsjíhadi (heilögu stríði).“ Hann rekur að um tugur harðlínuhópa frá Pakistan, Mið-Asíu, Rússlandi og jafnvel Kína hafi barist við hlið talíbana árum saman. Þeir séu farnir að hafa gríðarleg áhrif meðal óbreyttra liðsmanna. „Nú munu þessir ungu gikkir segja: „Hvers vegna að nema staðar í Kabúl? Við vorum að sigrast á mesta herveldi heims! Við ættum að fara með okkar dsjíhad til múslímskra granna okkar og fá þá til liðs við okkar málstað,““ skrifar Rashid og bætir við að hinir eldri talíbanar hafi minni áhuga á að fara þessa leið, en óljóst sé hver völd þeirra séu. Í bandalagi við al-Qaeda Innrásin í Afganistan í lok árs 2001 var gerð til þess að kæfa ógnina af hryðjuverkum eftir árás al-Qaeda undir forustu Osama bin Ladens á Bandaríkin 11. september það ár. Atburðir síð- ustu daga í Afganistan hafa orðið til þess að áhyggjur, sem undanfarið hafa farið vaxandi um að hryðjuverkahópum sé nú að vaxa ásmegin, hafa orðið háværar. Í grein í New Yorker kom fram að áður en ta- líbanar tóku völd hafi liðsmenn al-Qaeda í Afg- anistan verið orðnir sex hundruð, samkvæmt sérfræðingum. Ekki hafi farið mikið fyrir þeim, en þeir hafi leikið lykilhlutverk þegar talíbanar lögðu landið undir sig. Bruce Hoffman, sérfræð- ingur um hryðjuverkasamtök og öryggismál hjá Council of Foreign Relations, bandarískri hug- veitu um utanríkismál, og höfundur bókarinnar „Inside Terrorism“, sagði við blaðið að þeir hefðu verið hryggjarstykkið í sókn talíbana. Kunnátta þeirra í upplýsingaöflun og sam- skiptum auk bardagahæfni hafi gefið talíbönum aukinn sóknarþunga. Vígamenn al-Qaeda væru „betur menntaðir og veraldarvanari en talíb- anarnir, sem eru nýkomnir niður úr fjöllunum. Þeir bæta miklu við her sveitastráka. Þeir voru ekki margir, en skiptu þeim mun meira máli“. Hoffman er þeirrar hyggju að staðan sé válegri nú en hún var 1999 og 2000. Það hefur ekki farið leynt að liðsmenn al- Qaeda hafi barist við hlið talíbana. Í desember greindi afganska varnarmálaráðuneytið til dæmis frá því að 15 vígamenn al-Qaeda hefðu verið felldir í átökum við talíbana í héraðinu Helmand. Átök talíbana við Ríki íslams Þegar Bagram-flugvöllur féll í hendur talíbön- um eftir að Bandaríkjamenn fóru þaðan í skyndingu opnuðu þeir dyr Pul-i-Charkhi- fangelsisins þar skammt frá og hleyptu út fimm þúsund föngum. Meðal þeirra voru bæði liðs- menn al-Qaeda og hryðjuverkasamtaka, sem nefnast Ríki íslams-Khorasan (ISIS-K) og eru grein af Ríki íslams, sem fyrir sjö árum lagði undir sig stóra hluta Íraks og Sýrlands og stofn- aði svonefnt kalífat. Þar sáu margar öfgahreyf- ingar griðastað og auðveldir sigrar Ríkis íslams fylltu öfga- og harðlínumenn eldmóði. Þar á meðal voru vígamenn úr röðum talíbana í Pak- istan, sem nokkrum mánuðum eftir að lýst var yfir stofnun kalífatsins í Írak og Sýrlandi 2014 klufu sig frá talíbönum og lýstu yfir tryggð við Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtoga Ríkis íslams. Í frétt AFP segir að þau tengsl hafi orðið formleg árið eftir og undirsamtökin fengu nafnið Ríki íslams-Khorasan. Khorasan er gamalt heiti á landsvæðinu þar sem hreyfingin hefur náð mestri fótfestu í Afganistan, en nær einnig inn í Pakistan og Íran. Samkvæmt Sameinuðu þjóð- unum eru á þeirra vegum útsendarar og hópar víða í Pakistan og Afganistan, svefnsellur, sem láta lítið á sér bera, en eru tilbúnir að láta til skarar skríða þegar kallið kemur. Í skýrslu, sem öryggisráð Sameinuðu þjóðanna birti í júlí, er talið að virkir vígamenn á vegum samtak- anna geti verið allt frá 500 til nokkur þúsund. Í frétt AFP kemur fram að Ríki íslams-Khorasan hafi myrt almenna borgara bæði í Afganistan og Pakistan í moskum og á almannafæri. Liðs- menn þess hafa sérstaklega beint aðgerðum sínum gegn múslimum, sem tilheyra greinum íslams, sem þeir telja villutrú, þar á meðal sjít- um. Í fyrra voru samtökin sökuð um villimann- lega árás á fæðingardeild í hverfi í Kabúl þar sem búa margir sjítar. Myrtu þeir sextán konur, sem voru nýbúnar að eignast börn eða voru barnshafandi. Samtökin hafa hins vegar ekki náð að leggja neitt landsvæði undir sig. Ástæðan fyrir því er ekki aðeins sú að Bandaríkjamönnum hafi tek- ist að halda þeim í skefjum, heldur er grunnt á þvi góða milli þeirra og talíbana. Talíbanar og Ríki íslams-K deila um trúaratriði og hvorir séu með réttu hinir einu og sönnu fánaberar hins heilaga stríðs, dsjíhad. Komið hefur til blóðugra átaka milli hreyfing- anna og höfðu talíbanar betur fyrir tveimur ár- um þegar Ríki íslams mistókst að leggja undir sig landsvæði líkt og í Írak og Sýrlandi. Í yfirlýsingum Ríkis íslams eru talíbanar kall- aðir trúníðingar. Þegar aðrar íslamskar öfga- hreyfingar fögnuðu sigrum talíbana í Afganist- an sakaði Ríki íslams þá um svik með því að ganga til samninga við Bandaríkjamenn og hétu því að halda baráttunni áfram. Grunur hafði leikið á um að liðsmenn Ríkis íslams-K myndu láta til skarar skríða með ein- hverjum hætti til að egna saman talíbönum og Bandaríkjamönnum. Höfðu viðvaranir komið úr ýmsum áttum, meðal annars frá bandarískum embættismönnum, um að vígamenn tengdir Ríki íslams-K hygðust gera sjálfsmorðs- sprengjuárás á flugvellinum í Kabúl til að skapa glundroða áður en brottflutningi þaðan lyki um mánaðamótin. Á fimmtudag sprungu tvær sprengjur við flugvöllinn og lýsti Ríki íslams ábyrgðinni á sjálfsmorðssprengjuárásinni á hendur sér. Yfir 85 manns féllu í valinn, þar af 12 bandarískir hermenn. Er það mesta mann- fall í röðum Bandaríkjamanna í Afganistan á einum degi í tíu ár. Hin illræmda Haqqani-hreyfing Önnur hreyfing hefur einnig rutt sér til rúms í landinu og er öllu nánari talíbönum. Hún er kennd við Jalaluddin Haqqani, sem á níunda áratug 20. aldarinnar var einn af forkólfum and- spyrnunnar við Sovétmenn. Hann var þá mikil- vægur tengiliður bandarísku leyniþjónust- unnar, CIA, þegar Bandaríkjamenn, Pakistanar og fleiri sendu peninga og vopn til þeirra, sem börðust gegn Sovétmönnum í Afg- anistan. Meðan á þeim átökum stóð var Haqq- ani í tengslum við íslamska hryðjuverkamenn, þar á meðal Osama bin Laden. Þegar talíbanar tóku völdin í Afganistan 1996 gekk hann til liðs við þá og var ráðherra í stjórn þeirra þar til hún féll eftir innrásina í Afganistan 2001 undir for- ustu Bandaríkjamanna. Jalaluddin Haqqani lést 2018 og tók þá sonur hans, Sirajuddin, við forustu Haqqani-hreyfing- arinnar. Hreyfingin nýtur nokkurs sjálfdæmis, en er þó hluti af talíbönum, og er alræmd fyrir grimmd og miskunnarleysi. Haqqani-hreyfing- in hefur framið mörg blóðug hryðjuverk í Afg- anistan á undanförnum tveimur áratugum og gerir iðulega sjálfsmorðssprengjuárásir og hik- ar ekki við að ráðast á hernaðarmannvirki og sendiráð. Því hefur einnig verið haldið fram að hún hafi náin tengsl við pakistönsku leyniþjón- ustuna, en Pakistanar neita því. Hún er einnig nátengd al-Qaeda. Bandaríkjamenn hafa lagt háar fjárhæðir Sirajuddin og Anasi bróður hans til höfuðs. Nú er hreyfingin þátttakandi í stjórn- armyndun í Afganistan og Sirajuddin næst- æðstur í valdapíramída talíbana. Ekki er nokkur leið að sjá fyrir hvernig mál munu þróast í Afganistan eftir að skelfingar- ástandinu í kringum brottflutninginn þaðan lýk- ur. Verður landið gróðrarstía öfga og ofbeldis og stökkpallur fyrir hryðjuverkamenn til að fremja ódæðisverk um allan heim? Talíbanar láta sem þeir séu hófsamari en fyrir 20 árum þegar þeir stjórnuðu af mikilli grimmd, beittu konur kúgun og aftökur og limlestingar fóru fram á almannafæri. Enda vilja þeir koma í veg fyrir að landið eingangrist . Nú hafi konur og embættismenn hinnar föllnu stjórnar ekkert að óttast, en hins vegar hafa þeir lýst yfir að tekið verði upp íslamskt réttarkerfi, sjaría, sem þeir framfylgdu af einstrengingslegri hörku á sínum tíma. Þar til annað kemur í ljós má búast við hinu versta. Særður maður fluttur á sjúkrahús eftir sjálfsmorðs- sprengjuárásina á flugvöllinn í Kabúl. Talið er að 85 manns að minnsta kosti hafi dáið. AFP Talíbani gengur með alvæpni fram hjá snyrtistofu í Kabúl þremur dögum eftir fall borgarinnar. Myndir af konum utan á stofunni hafa verið afskræmdar með málningu úr úðabrúsum. AFP ’ En nýju ungu liðsmennirnir eru mun herskárri og róttæk- ari. Margir hafa setið í fangelsi fyrir öfgahyggju. Þó nokkrir hafa setið í Guantanamo þar sem þeir urðu fyrir miklum áhrifum af al Qaeda og þeirra gerð af al- þjóðlegu heilögu stríði.

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.