Morgunblaðið - 22.10.2021, Blaðsíða 21
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 22. OKTÓBER 2021
hjartað brestur. Svona átti þetta
ekki að fara. Þú háðir á end-
anum átján mánaða orustu við
geðsjúkdóm og við ofurefli var
að etja.
Elsku hjartans Einar hennar
Guðrúnar. Gullin Olga og Gunn-
hildur ykkar hjóna, yndislegu
tengdasynir ykkar og fallegu
barnabörnin. Guð gefi ykkur
styrk í að snúa bökum saman í
þungri sorg og megi allir englar
alheimsins vaka yfir ykkur um
ókomna tíð.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt,
þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því,
þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti,
þá auðnu að hafa þig hér,
og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer,
þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð,
þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sigurðardóttir)
Hvíl í friði, elsku fallega
frænka okkar.
Eyrún, Sverrir og börn,
Jórunn og börn,
Bjarni og Bergrós.
Kallið er komið,
komin er nú stundin,
vinaskilnaðar viðkvæm stund.
Vinirnir kveðja
vininn sinn látna,
er sefur hér hinn síðsta blund.
Þannig orti Valdimar Briem
og nú er kallið komið og stundin
komin sem við verðum að segja
skilið við þá yndislegu konu sem
Guðrún Viktorsdóttir var. Fyrir
tveimur áratugum vorum við svo
heppin að kynnast Guðrúnu og
Einari manni hennar þegar leið-
ir barnanna okkar Kristins
Smára og Gunnhildar lágu sam-
an. Það er ekki sjálfgefið að
tengdafjölskyldur tengist góðum
böndum en frá okkar fyrstu
kynnum hefur heimili þeirra
hjóna staðið okkur opið og djúp
vinátta skapast. Margs að minn-
ast og margt sem ber að þakka
frá dýrmætum samverustundum
okkar saman með börnum og
barnabörnum bæði í Mosfells-
bænum, á Akureyri og í Flórída.
Við minnumst Guðrúnar sem
kraftmikillar konu með stóra
faðminn sinn, fallega brosið og
brúnu augun. Það skipti ekki
máli á hvaða tíma dags var
bankað að dyrum í Litlakrika,
alltaf stóð faðmur hennar opinn
hvort heldur sem var til að
spjalla eða bjóða fram veitingar
í þeirri fullvissu að öllum liði
sem best í návist hennar. Hún
var einstök fjölskyldukona og
það var aðdáunarvert að sjá
hvernig samband hún átti við
dætur sínar, tengdasyni og
barnabörn. Það var ósjaldan
þegar börnin og barnabörn okk-
ar bjuggu á Akureyri að hún
birtist óvænt eða með stuttum
fyrirvara til að styðja við bakið á
þeim og bara fullvissa sig um að
allt gengi vel. Í huga okkar er
mikil sorg en jafnframt þakklæti
fyrir þau ár sem við fengum að
ferðast gegnum lífið með Guð-
rúnu.
Elsku Einar, Gunnhildur,
Olga, tengdasynir og barnabörn.
Skarðið er stórt sem elskuleg
eiginkona, mamma, tengda-
mamma og amma skilur eftir.
Við biðjum Guð að leiða ykkur
og gefa styrk í gegnum þann
tíma sem framundan er. Við
biðjum þess jafnframt að elsku
Guðrún fari í friði, friður Guðs
hana blessi með kærum þökkum
fyrir allt.
Olga Ásrún og
Sigurjón Bergur.
Okkar kæra vinkona Guðrún
Ólafía Viktorsdóttir er fallin frá.
Við eigum margar og einstakar
minningar um þann tíma sem
við höfum átt saman í gegnum
u.þ.b. 40 ára kynni okkar. Allt
hófst það með starfi okkar vin-
kvennanna í leikskóla og styrkt-
ist samband okkar árið 1989
þegar við hófum nám í Fóstur-
skóla Íslands. Við vorum saman
í bekk og alltaf samferða í skól-
ann en við skiptumst á að vera á
bíl. Okkur fannst skólinn
skemmtilegur og áhugavert var
að læra um uppeldi og nám
yngstu barna. Við lærðum sam-
an, og vorum mikið saman öll
þrjú skólaárin. Við vorum kall-
aðar „Bakkasystur“ því við vor-
um ætíð þrjár saman. Eftir út-
skrift hófum við störf á
leikskólum sem hefur verið okk-
ar starfsvettvangur síðan.
Guðrún var síðustu árin að-
stoðarleikskólastjóri í Huldu-
bergi í Mosfellsbæ þar sem hún
og Einar höfðu búið undanfarin
ár. Guðrún var fagleg og áhuga-
söm um uppeldi og velferð
barna. Hún lagði mikinn metnað
í starf sitt, ávallt að leita nýrra
leiða og fræðast um starfið.
Þegar minnst er á Guðrúnu
þá er Einar eiginmaður hennar
oft nefndur í sömu andrá. Einar
og Guðrún eru búin að vera
saman síðan þau voru unglingar
og þau voru falleg hjón sem
sýndu hvort öðru ást og um-
hyggju. Þau voru sérlega sam-
hent hjón og þeirra áhugamál
tvinnuðust saman. Þau áttu hús
í Orlando sem þau fóru oft í og
dvöldu í öllum sínum fríum. Þar
voru þau samstiga um að gera
sér annað fallegt heimili. Þeim
fannst gott að vera í sólinni og
nutu sín þar. Áhugamálin voru
mörg, hreyfing s.s. hjólaferðir
og göngur og ekki síst golf en
þau spiluðu golf í mörg ár.
Ömmugullin sem Guðrún var af-
ar stolt af voru fimm. Hún var
Amma með stórum staf. Vissi
ekkert betra en að umgangast
þau og gera eitthvað skemmti-
legt og sinnti hún þeim vel,
hvort sem var að fylgjast með
þeim í íþróttum, námi þeirra,
prjóna peysur á þau eða búa til
ratleiki sem allir tóku þátt í.
Guðrún var mikil fjölskyldukona
og skipti fjölskyldan hana miklu
máli.
Okkar samvera undanfarna
áratugi hefur verið mikil. Við
höfum ásamt eiginmönnum okk-
ar ferðast mikið saman og farið
á marga áhugaverða tónleika er-
lendis sem við höfðum gaman af,
hvort sem það var að sjá Tinu
Turner, Paul McCartney, Eag-
les, Rod Stewart, Billy Joel eða
á fótboltaleik í Englandi. Við
fórum einnig oft til Orlando með
þeim og áttum þar góðar stund-
ir. Allar þessar ferðir gefa okk-
ur góðar minningar. Guðrún
okkar var glaðleg og geðgóð og
virk í öllu sem hún gerði. Hún
beið ekki með að gera hlutina til
morguns sem hún gat gert í
dag. Hún var bóngóð og vildi
allt fyrir alla gera og var góður
vinur.
Það verður erfitt að að vera
án hennar og heyra ekki lengur
í henni Guðrúnu okkar. En við
höldum áfram og yljum okkur
við allar minningarnar. Elsku
Einar, Olga, Gunnhildur, Björn,
Kristinn og barnabörn, missir
ykkar er mikill og megi góður
Guð leiða ykkur áfram og veita
ykkur styrk. Takk fyrir allt
elsku Guðrún og við höldum ut-
an um Einar þinn. Blessuð sé
minning þín en hún mun lifa.
Þínir vinir,
Elvíra og Guðmundur,
Margrét og Ólafur Jón.
Það var mikil gæfa að við
skólasysturnar frá Fósturskóla
Íslands skyldum hittast á ný
fyrir 22 árum og saman taka
það verkefni að okkur að opna
nýjan leikskóla, Hulduberg.
Guðrún var mikil driffjöður í að
byggja upp gott og faglegt starf.
Hún var leikskólakennari af lífi
og sál og naut þess að vinna
með börnum. Í gegnum hennar
tengslanet hafa margir starfs-
menn komið til starfa og margir
af þeim starfsmönnum halda
hópinn hvort sem þeir eru nú-
verandi eða fyrrverandi starfs-
menn. Margir starfsmenn hafa
farið í leikskólakennaranámið
eftir hvatningu frá Guðrúnu.
Hún sá um samstarfið við for-
eldrafélagið til margra ára,
starfið var alltaf öflugt og
margt gert til að gleðja börnin.
Það er svo margs að minnast;
kraftsins og gleðinnar og hvern-
ig hún hreif alla með sér.
Við minnumst þess þegar hún
kom út í garð með brunaslöng-
una börnunum til mikillar kát-
ínu. Þegar við lékum Karíus og
Baktus. Þemaverkefnin sem
hún vann að með svo mikilli
gleði og fagmennsku með börn-
unum. Þegar hún kom með
bangsabúninga fyrir mig og sig
til að eiga á öskudag. Hvað hún
var alltaf sæt, brún og fín, þeg-
ar hún kom frá Flórída. Guðrún
var hrókur alls fagnaðar á kaffi-
stofunni, í óvissuferðunum, í
námsferðunum sem farnar voru
utan og oftar en ekki hittist
starfsmannahópurinn á hennar
heimili til að eiga góða stund
saman. Starfsmenn minnast
þess hvað hún var dugleg að
leiðbeina og hrósa. Allra besta
minningin er samt sú hvað Guð-
rún var góð manneskja.
Með þakklæti og söknuði
kveðjum við. Minning þín lifir á
Huldubergi og í hjarta okkar.
Við vottum fjölskyldu og að-
standendum okkar dýpstu sam-
úð.
Fyrir hönd starfsmanna á
Huldubergi,
Þuríður Stefánsdóttir
leikskólastjóri.
Með sorg í hjarta viljum við
kveðja vinkonu okkar Guðrúnu
með örfáum orðum.
Vinátta okkar spannar um
hálfa öld. Við vorum allar
„Breiðholtsvillingar“ eins og við
köllum okkur stundum, frum-
byggjar Neðra-Breiðholts.
Æsku- og unglingsár okkar lágu
um lendur bakka og stekkja,
þessa barnvæna hverfis. Þar
hnýttum við vináttuböndin, sem
hafa varað óslitin til dagsins í
dag.
Saumaklúbbur var stofnaður
um níu ára aldur, hjá sumum
okkar, sem stendur enn, við all-
ar orðnar sextugar. Í hverjum
mánuði hittumst við í saumó,
tókum okkur þó sumarfrí, og
störtuðum svo klúbb aftur að
hausti. Alltaf er svo mikið fjör
hjá okkur skellibjöllum; blaðrað,
slúðrað, borðað og hlegið út í
eitt, eins og sæmir í sauma-
klúbbum. Þannig átti það líka
að vera núna og þannig var það,
en núna var stóllinn hennar
Guðrúnar okkar auður. Við
þurftum, aldrei meira en nú,
hver á annarri að halda við
skyndilegt fráfall vinkonu okk-
ar. Sorgin er svo óendanlega
djúp að það er erfitt að ná utan
um hana. Mikið eigum við vin-
konurnar eftir að sakna hennar,
dillandi hlátursins og kátínunn-
ar sem einkenndi Guðrúnu alla
tíð.
Sofðu nú blundinum væra,
blessuð sé sálin þín hrein.
Minningin, milda og tæra,
merluð, í minningar stein.
Man ég þig ástkæra meyja,
meðan að lifi ég hér.
Minning sem aldrei skal deyja
samverustundin með þér.
(Bryndís Halldóra Jónsdóttir)
Við viljum þakka Guðrúnu
samfylgdina í gegnum öll árin
okkar saman og biðjum henni
Guðs blessunar.
Elsku Einar, Olga, Gunnhild-
ur og fjölskyldan öll. Megið þið
öðlast styrk til að takast á við
komandi tíma. Guð blessi ykkur
öll.
Sólveig, Lára, Kristín,
Indíana og Bryndís.
✝
Jónína Þ. Arn-
dal var fædd í
Hafnarfirði 22.
nóvember 1941.
Hún lést á
hjúkrunarheim-
ilinu Sólvangi í
Hafnarfirði 15.
október 2021.
Foreldrar Jón-
ínu voru Þorsteinn
Finnbogason Arn-
dal og Guðrún
Aðalheiður Arndal. Hálfbræður
Jónínu samfeðra eru Albert og
Jón Gunnar, albróðir er Sig-
urður Arndal.
Jónína ólst upp í Hafnarfirði
og byrjaði ung að vinna í Rafha.
Á fullorðinsárum vann hún
lengst af í heil-
brigðisgeiranum.
Jónína var virk í
félagsstörfum, var
m.a. einn af stofn-
endum Bergmáls
líknarfélags.
Fyrri maður Jón-
ínu var Guðbjartur
Benediktsson, lát-
inn. Þeirra dætur
eru Guðrún Guð-
bjartsdóttir (6.1.
1959), búsett á Húsavík, gift
Benedikt Jónassyni. Börn þeirra
eru Kristjana Snædís, Guð-
bjartur Fannar og Þorsteinn
Snævar. Barnabörnin eru 6;
Lilja Guðbjartsdóttir (3.3. 1961),
búsett í Skagafirði, gift Ólafi
Sigurjónssyni. Börn Lilju og
fyrri eiginmanns, Eyþórs Þor-
gríms, eru Guðný og Viggó.
Ólafur átti fyrir Fanneyju Dögg
og Jónu Björg. Lilja og Ólafur
eiga samtals 10 barnabörn; Vig-
dís Guðbjartsdóttir (28.10.
1964), búsett í Danmörku. Vig-
dís átti tvö börn með fyrri eig-
inmanni, Guðmundi Karli Hall-
grímssyni, þau Jónínu og Jón
Gunnar. Barnabörnin eru 5.
Jónína giftist seinni eigin-
manni sínum, Hjalta Skaftasyni
bifreiðaestjóra, 29. júlí 1989.
Þau áttu engin börn. Hjalti átti
úr fyrri samböndum Matthías
Ingvar, Guðlaug Örn, Óskar
Þór, Valdimar Núma og Pálínu
Ósk.
Útför fer fram í Hafnarfjarð-
arkirkju 22. október 2021 kl. 10.
Jarðsett verður í Hafnarfjarð-
arkirkjugarði að útför lokinni.
Víst er harla mjög harla sár
harmur að okkur kveðinn
ljúfasta vina liðinn nár
lögð nú á hinsta beðinn
falla af hvörmum tregatár
tungan bundin og freðin.
(JHJ)
Þegar Bergmál, líknar og vina-
félag var stofnað, var það félaginu
mikil gæfa að Jónína Arndal gaf
jákvætt svar um stjórnarsetu.
Hún var einstök kona, dugnaðar-
forkur og enginn var einn sem
átti hana að. Svo sannarlega vin-
ur með stórum stöfum. Við unn-
um saman að öllu sem viðkom
Bergmáli, ásamt fleira góðu fólki,
um árabil, m.a. byggingu Berg-
heima. Það þótti mörgum mikið í
ráðist og fjármagnið í byrjun, 10
þúsund krónur, hlægilega lítið fé.
En Nína var tilbúin að láta á það
reyna hvort þessi draumur um
hús gæti orðið að veruleika. Og
með Guðs og góðra manna hjálp
vígðum við húsið okkar Berg-
heima tveimur árum seinna. Ég á
margar ógleymanlegar minning-
ar um Nínu frá þessum tíma,
enda unnum við mikið og náið
saman. Við áttum líka hauk í
horni þar sem Hjalti eiginmaður
Nínu var og voru ófáar Bergmáls-
ferðir sem hann kom að. Bæði út-
vegaði hann okkur farartæki hjá
fyrirtækjum sem hann tengdist
og hafði unnið hjá og ók svo hópn-
um hvert á land sem hugur okkar
leitaði og það var víða! Sannkall-
aðar ævintýraferðir! Við Nína
fórum líka saman í nokkrar utan-
landsferðir og ekki eru þær síður
gleðilegar minningar. Og matar-
boðin hjá þeim hjónum! Nína var
snilldarkokkur og við vinir þeirra
nutum góðs af. Það var líka þann-
ig að í fyrstu orlofsvikum Berg-
máls sáu Nína og vinur okkar Örn
Jónsson um alla matargerð og
var haft á orði, að eftir þessa einu
viku sem fólk dvaldi hjá okkur,
hefði iðulega orðið að víkka einn
og einn buxnastreng, svo vel færi!
Það er ómetanlegt að eiga góðar
minningar. Við Bergmálsfélagar
eigum þær svo sannarlega um
Nínu. Hún var okkur öllum svo
kær, sú einstaka kona. Guð blessi
minningu hennar og alla hennar
ástvini.
Bergmálskveðja,
Kolbrún Karlsdóttir.
Jónína Þ. Arndal
✝
Kristbjörg
Inga Magn-
úsdóttir fæddist í
Bolungarvík 10.
desember 1940.
Hún lést á hjúkr-
unarheimilinu
Droplaugarstöðum
4. október 2021.
Foreldrar hennar
voru hjónin Laufey
Guðjónsdóttir, f.
22.10. 1910, d. 11.2.
1968, og Magnús Jónsson, f.
8.12. 1905, d. 20.4. 1991. Þau
bjuggu í Bolungarvík og síðar í
Reykjavík.
Kristbjörg var fjórða elsta
systkinið sem voru alls níu. Elst
var Hulda Bertel, f. 17.6. 1929,
d. 24.12. 2017. Jón Friðgeir, f.
5.2. 1933. Elías Þórarinn, f.
19.4. 1939. Laufey Maggý, f.
2.10. 1944. Jónína Líneik, f.
23.9. 1949. Símon Sigurður, f.
27.6. 1951. Hafdís Guðrún, f.
24.11. 1953. Sævar Guðjón, f.
20.2. 1957.
Fyrri maður Kristbjargar
var Jóhannes Guðmannsson f.
28.1. 1934. Þau
slitu samvistum.
Börn þeirra eru: 1)
Laufey Margrét, f.
6.9. 1957. Börn
hennar eru fimm
og barnabörnin tíu.
2) Guðmann Sig-
urður, f. 5.6. 1959.
Kona hans er Rósa
Fanney Friðriks-
dóttir, f. 13.1. 1962.
Börn þeirra eru
þrjú og barnabörn fimm. 3)
Birgir Smári, f. 17.4. 1962.
Kona hans er Anna Margrét
Bragadóttir, f. 30.1. 1965. Börn
þeirra eru þrjú og barnabörnin
þrjú. 4) Kári Ragnar, f. 19.4.
1965, d. 16.7. 1966. 5) Rósa, f.
7.5. 1970. Börn hennar eru tvö
og tvö barnabörn. 6) Hulda
Björg, f. 21.5. 1972. Börn henn-
ar eru tvö.
Seinni sambýlismaður Krist-
bjargar var Jóhannes Geir
Gíslason, f. 6.9. 1938. Þau eiga
ekki börn saman.
Útför Kristbjargar fór fram
21. október 2021.
Kynni okkar urðu fyrst sum-
arið 1997 þegar hún um sumar-
tíma var ráðskona Eysteins bróð-
ur míns í Skáleyjum.
Þau kynni fengu sinn alvö-
rublæ árið 1999 og hún flutti
sunnan til mín og gerði tvö heim-
ili okkar bræðra að einu. Hún var
húsfreyja af lífi og sál. Fastri bú-
setu okkar lauk árið 2002. Við
bræður vorum bændur, hún hús-
freyja, „hins síðasta fasta búseta
í Skáleyjum“. Ég hefi titlað hana
svo og okkur þrjú „síðustu geir-
fuglana“.
Ég bjó með henni sex vetur í
íbúð hennar að Krummahólum 10
í Reykjavík, en vorum heima í
Skáleyju á sumrin. Ég hafði aldr-
ei ætlað mér þetta fyrirkomulag
og 2008 var ég endanlega kominn
að Barmahlíð. Hún mátaði sig í
hvíldarinnlögn þar nokkrum
sinnum næstu árin. Hún valdi
ekki þá vist en var í óraunsæi við-
loðandi íbúð sína í Reykjavík þar
til hún að annarra ráði fékk inni á
Droplaugarstöðum, þar sem hún
fékk góða vist í höndum fagfólks.
Öllu því fólki, sem að hennar ráð-
um kom, sendi ég með þessu
skrifi innilega þakkarkveðju.
Hún var fædd í Bolungarvík
10. desember 1940, hún dó 4.
október 2021. Banalega hennar
varð aðeins einn sólarhringur.
Því er ég þakklátur.
Ég heimsótti hana daglega
hvert sinn er ég kom til Reykja-
víkur. Við fórum í bíltúra, út að
borða eða í leikhús. Það voru okk-
ar beggja ánægjustundir. Þegar
við horfðum á sviðsverk saman
var ég að horfa á söguna, hún á
tæknina. Þar var hennar svið,
hún varð sviðsmanneskja sjálf.
Við vorum hvorki gift né skilin
þótt alheimsdrepsótt fækkaði
fundum.
Stærsta hluta sinnar starfsævi
átti hún á Hvammstanga.
Þar var hún virk í félagslífi,
einkum leiklistinni, þar naut
sviðsmanneskjan sín.
Mér er minnisstæð ljósmynd
hennar af henni, sem Pálína Æg-
is. Þar var hún heima.
Mér eru minnisstæðar ferðir
okkar til Lapplands, Grænlands,
Írlands, Færeyja og að síðustu til
Kanarí, en þá varð mér ljóst að
fullferðast var.
Elli kerling var komin með
klærnar í okkur bæði.
Mér er þökk í huga og bið ég
blessunar börnum hennar, ætt-
ingjum og vinum og kveð hana
með ljóðkorninu, sem ég skaut að
henni á sextugsafmælinu.
Kidda sextug 10. desember 2000
Mér þykir stundum skáldin hafi lagt
þau mér í munn
öll mest ástarljóð til sinna kvenna,
svo kannski get ég ausið upp
reynslugagnagrunn
og gusað ögn úr slitnum aulapenna.
En þótt ég svo sem kunni engan
snilldarglæsigang
og geti engu skáldi staðið snúning,
þá vil ég koma með þau öll og færa þér
í fang
og fata þau í aðeins nýjan búning.
„Enn birtist mér í draumi“ í dags míns
hversdagsönn
hve dregur mig þinn sterki ástarkraftur
og lund mín verður mjúk eins og tugga
undir tönn
af tilhlökkun að koma til þín aftur.
„Og ástarljóð til þín“ út úr penna
mínum gýs,
en aldrei þrýtur blek til þeirra nota.
Þótt ljóðið mitt verði bæði klúrt og
hrjúfara en hrís,
þá hríslast um mig tilfinningaþota.
„Þú varst minn vetrareldur“,
þú vermdir hugans þela,
þú mýkir gráa geðið
sem guðaveig úr pela.
Þú gólst þinn töfragaldur
að gömlum eyjadela
og vaktir æðsta unað
sem enginn kann að fela.
„Fegin vildi ég vera strá“
sem vex í þínu spori,
og mætti svala þinni þrá
og þorsta eftir vori.
Ævarandi sé og utan pretta
sú ástar-blóma-helga sálargletta.
Því „kristilega kærleiksblómin spretta
kringum hitt og þetta“.
Jóhannes Geir Gíslason.
Kristbjörg Inga
Magnúsdóttir