Morgunblaðið - 10.12.2021, Side 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. DESEMBER 2021
120 OG 200 LJÓSA
INNI- OG ÚTISERÍUR
Við Fellsmúla | Reykjavík | Sími: 585 2888 | rafmark.is
Kíktu á nýju vefverslunina okkar
rafmark.is
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
„Ég er að fara að sýna röð nýrra
skúlptúrverka sem eru áframhald af
skúlptúriðkun minni,“ segir myndlist-
armaðurinn Styrmir Örn Guðmunds-
son um sýningu sína UFO. Hún verð-
ur opnuð í Y gallery, gömlu
bensínstöðinni í Hamraborg, á morg-
un, laugardag, kl. 15. Listamaðurinn
sýnir þar origamiskúlptúra sem búnir
eru til úr messing-málmi. Hann hefur
beygt málminn í ýmiss konar skutlur,
pílur og fljúgandi loftaflshluti. Skúlp-
túrarnir minna því helst á gylltar út-
gáfur af þeim skutlum sem maður
býr til úr hefðbundnum A4-pappír.
„Í rauninni er útgangspunktur
þessara skúlptúra að búa til eitthvað
fallegt úr hversdagslegum hlut eins
og A4-blaði nema þetta er náttúrlega
úr málmi svo það er aðeins fallegri
bragur yfir því. Ég lít líka á þetta sem
brúður í einhvers konar leikhúsi vís-
indaskáldskapar, þetta er svolítil sci-
fi-sýning.“ Hann hefur áður notað
slíka hluti sem brúður í svokölluðum
„leikbrúðuslamm“-gjörningum í Pól-
landi og Mexíkó.
Lærði á hljóðfæri eftir þrítugt
Styrmir heldur ekki aðeins mynd-
listarsýningu heldur verður hann líka
með tónleika í galleríinu á sunnudag-
inn, 12. desember, kl. 17. „Það eru
tónleikar með framandi hljóðfæri
sem nefnist stálpanna og er upp-
runnið á eyjunum Trínídad og Tóbagí
í Karabíska hafinu. Ég er búinn að
vera að spila á þetta hljóðfæri síðan
ég var síðast á eyjunni Aruba. Þang-
að fer ég oft til að kenna í listaskóla.
Ég kynntist þar fólki sem spilar á
svona hljóðfæri og datt einhvern veg-
inn alveg í það.“
Styrmir mun leika vel valin jólalög,
bæði íslensk og erlend, en tónleikarn-
ir verða frumraun hans í að flytja tón-
list á stáltrommuna fyrir framan
áhorfendur.
Tónlistarferill Styrmis byrjaði eftir
þrítugt. Hann lærði ekki á hljóðfæri
sem barn heldur fór að kynnast þeim
heimi á fullorðinsárum. „Síðustu tvö
ár hef ég mikið verið að spila á þessa
pönnu heima hjá mér og æfa mig. Ég
féll fyrir tónfræði og tónlistariðkun á
síðustu árum,“ segir hann.
Eitthvað splunkunýtt
Þótt hljóðfæraleikur sé nokkuð
nýr fyrir Styrmi er sýning af þessu
tagi nokkuð lýsandi fyrir hans feril.
„Ég held að týpískt fyrir mig sé ein-
mitt að skeyta saman fjölbreytta
miðla og form. Ég er eiginlega alltaf
að reyna eftir bestu getu að prófa
eitthvað nýtt, ýta sjálfum mér út í
eitthvað nýtt. Frekar hefðbundnir
tónleikar á órafmagnað hljóðfæri er
splunkunýtt fyrir mig. Ég hef haldið
tónlistargjörninga áður, en þá er ég
meira að nota röddina, syngja eða
rappa, en í þetta skiptið er það bara
hljóðfærið sem syngur.“
Það er ekki tilviljun að Styrmir
skuli skeyta þetta tvennt saman, stál-
pönnuna og messingskúlptúrana.
„Skúlptúrarnir eru svolítið búnir til
með tileinkun til þessa hljóðfæris.
Hljóðfærið er úr stáli og er krómhúð-
að, þannig að það er rosa fallegt.
Þetta er upphaflega olíutunna sem er
barin í þetta form og úr verður þetta
hljóðfæri. Skúlptúrarnir eru líka
svona glitrandi málmur svo það rím-
ar svolítið við estetíkina á hljóðfær-
inu.“
Leikur á olíutunnu á bensínstöð
Á sýningunni verður líka olíu-
málverk til sýnis. Sá miðill er líka nýr
fyrir Styrmi, hann hefur ekki málað
með olíumálningu áður. „Þetta eru
þrír strigar, eitt verk, sem sýna út-
sýni yfir bæði himingeim og landslag
sem minnir á jörðina en gæti verið
einhver framandi pláneta líka.“ Þar
kemur tengingin við vísindaskáld-
skapinn einnig fram.
„Innblásturinn er kannski svolítið
staða náttúrunnar og umhverfisins
og hvernig við mannfólkið og náttúr-
an eigum í reiptogi. Mér finnst sú
krísa og sci-fi ljóðrænt spila vel sam-
an,“ segir hann og bætir við að stál-
pannan tengist líka því þema.
„Hljóðfærið er búið til úr olíutunnu
svo mér finnst eiga vel við að flytja
tóna á þetta olíutunnuhljóðfæri inni í
bensínstöðinni. Við erum hægt og
bítandi að fara að kveðja olíuna sem
einhvers konar kraft í okkar lífi.“
Styrmir er búsettur í Berlín ásamt
konu sinni og dóttur. Þar segist hann
„fást við myndlistina og öll þau æv-
intýri“.
Fjölhæfur Innblástur sýningarinnar segir Styrmir vera „hvernig við mannfólkið og náttúran eigum í reiptogi“.
Jólalög eða ómur af olíu
- Styrmir Örn Guðmundsson opnar myndlistarsýninguna UFO í Y gallery
- Leikur jólalög á stálpönnu frá Karíbahafi á tónleikum á sunnudag
Hollensk stjórnvöld hyggjast festa
kaup á einni af þekktustu sjálfs-
myndunum sem hollenski meist-
arinn Rembrandt van Rijn málaði,
Merkisberanum frá árinu 1636, en
verkið er sagt afar mikilvægt fyrir
hollenska menningu og sögu. Þarf
hollenska þingið að samþykkja
kaupin áður en af þeim verður en
hlutur ríksins er, samkvæmt frétt
BBC, 150 milljónir evra, rúmlega
22 milljarðar króna. Ríkislistasafn
Hollands greiðir 10 milljónir evra
til og félagsskapurinn Rembrandt
Association aðrar 15 milljónir evra.
Á löngum ferli málaði Rem-
brandt meira en fjörutíu sjálfs-
myndir. Voru þær mikilvægur hluti
listsköpunar hans og þykja skrá-
setja með einstökum hætti sýn lista-
mannsins á sjálfan sig á ólíkum
tímabilum. Langflest verkanna eru
í eigu safna en Merkisberinn hefur
um aldir verið í einkaeigu. „Merkis-
berinn er nú á heimleið eftir að
hafa verið á nokkurra alda ferða-
lagi,“ segir menningarmálaráð-
herra Hollands í yfirlýsingu. Frá
árinu 1844 hefur verkið verið í eigu
franskrar greinar Rothschild-
bankafjölskyldunnar og hafa
frönsk stjórnvöld valið það
„franska þjóðargersemi“. Þau setja
sig þó ekki upp á móti sölu mál-
verksins til Hollands.
Verkið var lánað á sýningu í
Rijksmuseum áður 2019 og vakti
mikla athygli. Rembrandt málar sig
þar í búningi merkisbera sem leiddi
herdeildir fram á vígvöllinn í Átta
ára stríðinu sem lauk með sjálf-
stæði Hollands árið 1648.
Meistaraverk Rembrandt van Rijn málaði
sig sem Merkisberann árið 1636.
Hollenska ríkið
kaupir Merkisbera
Endurgerð Stevens Spielbergs á
dans- og söngvamyndinni West Side
Story hefur verið bönnuð í ýmsum
Austurlöndum nær, þeirra á meðal
Sádi-Arabíu, Kúveit, Barein, Óman,
Katar og Sameinuðu arabísku
furstadæmunum. Þessu greinir
tímaritið Variety frá. Þar kemur
fram að í sumum landanna hafi
Disney, sem framleiðir myndina,
hreinlega ekki fengið dreifingar-
leyfi en í öðrum hafi Disney ekki
sætt sig við ritskoðunarkröfu þar-
lendra stjórnvalda.
Ekki hefur fengist staðfest hvað
nákvæmlega veldur banninu, en
talið er líklegt að persónan Any-
bodys fari fyrir brjóstið á ritskoð-
urum. Í myndinni er Anybodys
trans manneskja og leikin af Iris
Menas sem er kynsegið (e. non-
binary). Kvikmyndir sem innihalda
hvers kyns hinsegin málefni eða
vísanir hafa löngum verið ritskoð-
aðar í Austurlöndum nær sem og
Kína.
West Side Story var frumsýnd í
liðinni viku og hefur víða hlotið
afar góðar viðtökur. Þannig hrós-
aði Owen Gleiberman, aðalgagn-
rýnandi Variety, Spielberg fyrir
vandratað einstigi milli þess að
vera trúr ástarsögunni frægu og
setja persónulegt mark sitt á efnið.
Peter Bradshaw, rýnir The Guardi-
an, gefur myndinni fullt hús og
hrósar Spielberg fyrir listræna
nálgun sína sem sé einstök og eng-
inn hefði getað leikið eftir.
Nanna Frank Rasmussen, rýnir
Politiken, deilir ekki ofurhrifningu
kollega sinna og gefur myndinni
þrjú hjörtu af sex mögulegum. Seg-
ist hún ekki skilja hvers vegna
Spielberg hafi viljað skapa endur-
gerð á klassískri mynd þar sem
henni finnist hann litlu bæta við.
Hún segir virðingarvert að vilja
endurgera myndina með leikurum
af suðuramerískum uppruna, en á
sama tíma og Spielberg sé aug-
ljóslega upptekin af rasismanum
sem í sögunni birtist skauti hann
léttilega fram hjá vandanum sem
skapist af feðraveldinu.
Söngvamynd bönnuð
í Austurlöndum nær
- Ritskoðun vegna trans manneskju
Par Ansel Elgort og Rachel Zegler
sem elskendurnir Tony og María í
myndinni West Side Story.