Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.12.2021, Qupperneq 14
Í
Mexíkó eru réttindi kvenna fótum troðin,
morð á konum daglegt brauð og ofbeldi
og nauðganir viðgangast án afskipta lög-
reglu, sem sjálf er oft gerandinn. Stjórn-
völd bregðast ekki við kvennamorðunum
og segja þær Edith og Wendy að í langflestum
tilvikum sé enginn dæmdur. Konur víða um land
reyna nú að sameinast og mótmæla en lenda þá
oft sjálfar í lögregluofbeldi.
Wendy er ein þeirra kvenna, en fyrir ári varð
hún fyrir skotum lögreglu og er enn að glíma við
eftirköstin. Hún hættir þó aldrei að mótmæla því
óréttlæti sem mexíkóskar konur eru beittar.
Morðingjar kvenna sleppa
Kvenréttindi og almenn mannréttindi eru það
sem þær Edith og Wendy brenna fyrir, og þrátt
fyrir hættuna á ofbeldi og mannréttindabrotum
halda þær ótrauðar áfram sinni baráttu.
„Við höfum verið að vinna hjá Amnesty að
réttindum kvenna núna í fimm ár og í fyrra gáf-
um við út bækling um réttindi kvenna og þá
kúgun sem við verðum fyrir þegar við förum út
að mótmæla. Við segjum þar frá því að í mót-
mælum þann 9. nóvember í fyrra varð Wendy
fyrir ofbeldi. Í ár völdum við hana því til að vera
röddina sem talar fyrir réttindum kvenna,“
segir Edith sem komin er alla leið til Íslands
ásamt Wendy til að vekja athygli á því óréttlæti
og ofbeldi sem konur í Mexíkó búa við dags-
daglega. Þær voru sérstakir gestir á málþingi
hjá Íslandsdeild Amnesty um stöðu kvenna í
Mexíkó og eru á leið til fleiri landa Evrópu til
að opna augu heimsins fyrir vandamálum
kvenna í Mexíkó. Heimsóknin var hluti af ár-
legri, alþjóðlegri herferð Amnesty Inter-
national, Þitt nafn bjargar lífi, en hægt er að
skrifa undir mál hennar og fleiri þolenda á am-
nesty.is.
„Þarna eru stór vandamál og hafa verið
lengi. Það sem hefur aukist eru kvennamorð en
tíðni þeirra er ofboðslega há. Í fyrra voru 3.723
konur myrtar og í ár, frá janúar til október,
hafa 3.100 konur verið myrtar og flestar af
hendi karlmanna sem þær þekkja,“ segir Edith
og hún segir ástæðurnar margar og flóknar.
„Fyrst og fremst er Mexíkó mikið karlaveldi
og réttindi kvenna fótum troðum. Svo er ekkert
sem heitir fyrirbyggjandi aðgerðir frá ríkinu.
Almennt séð er mikið ofbeldi gagnvart konum
og embætti saksóknara gerir lítið og sópar
vandamálunum undir teppið. Af öllum þessum
morðum eru mjög fá rannsökuð formlega. Fjöl-
skylda fórnarlambanna verður fyrir hótunum
frá ríkinu, hreint út sagt,“ segir Edith sem seg-
ir nánast vonlaust fyrir fjölskyldur kvennanna
að fá réttlætinu fullnægt.
„Fjölskyldan þarf sjálf að rannsaka morðið,
og ég meina bókstaflega, að safna gögnum og
fleira. Það geta liðið áratugir þar til einhver er
ákærður og eru 98% af morðum í Mexíkó aldrei
rannsökuð,“ segir hún.
„Fólk í þessari stöðu upplifir mikla niður-
lægingu og vonleysi.“
Löng saga kvennamorða
Hverju viljið þið ná fram með því að fara á mál-
þing og ræða við fjölmiðla, hér og víðar í Evr-
ópu?
„Við erum að reyna að vekja athygli því við
viljum að réttakerfið sé lagað. Við förum út að
mótmæla reglulega en liður í því að knýja fram
breytingar er að fara út fyrir landsteinana og
segja frá,“ segir Edith og segir kvennamorð
eiga sér langa sögu í Mexíkó.
„Fyrir tveimur áratugum byrjuðu kvenna-
morð í Juárez,“ segir hún en á árunum 1993 til
2005 voru yfir 370 konur myrtar þar, þar af var
þriðjungur hinna myrtu drepinn í ofbeldis-
samböndum.
„En það er ekkert nýtt; sagan er löng. En
þessi morð í Juárez voru kornið sem fyllti mæl-
inn. Það var talað um þetta um allan heim. Á
þessum árum voru kvennamorðin aðallega í
Juárez, en nú eru konur myrtar út um allt í
Mexíkó. Réttarkerfið var alls ekki í stakk búið
að takast á við öll þessi morð og er það ekki
ennþá. Það hefur verið sett á fót rosalega
„flott“ embætti sem á að takast á við haturs-
glæpi og ofbeldi gagnvart konum, en það virkar
ekki.“
Nú er Amnesty að berjast fyrir réttindum og
konur víða um Mexíkó að mótmæla slæmu
kerfi stjórnarinnar. Hefur eitthvað áunnist?
„Það er eitthvað að þokast í rétta átt því alla
vega erum við að vekja athygli allra á þessu.
Við búum við niðurlægingu og kúgun og það er
nú komið upp á yfirborðið. Við erum að einbeita
okkur að því að hafa þetta gegnsætt og mögu-
lega verða einhverjar breytingar hjá ríkis-
valdinu.“
Metoo og sýnileikinn
Hvernig áhrif hefur Metoo-byltingin haft á
samfélagið í Mexíkó?
„Hún sýndi okkur hvernig við konur gætum
sameinast, rætt málin og verið sýnilegar.
Metoo-byltingin hefur verið í fjölmiðlum, í há-
skólum og á samfélagsmiðlum og hefur því orð-
ið gífurleg vakning og margar konur hafa stigið
fram og sagt sínar sögur. En spurningin er,
hvernig ætlum við að bregðast við þessum upp-
lýsingum og þessum sýnileika? Í samfélagi eins
og okkar þar sem ofbeldi er daglegt brauð
verður fólk samdauna ástandinu. Fólk veit ekki
lengur hvað er ofbeldi. Og þegar konur fóru að
stíga fram með sínar sögur áttuðu sig margar
aðrar á því að það sem þær lentu sjálfar í var
ofbeldi. Enda heitir þetta Metoo; konur áttuðu
sig á því að þær voru líka fórnarlömb ofbeldis.“
Hvernig hafa karlmenn í Mexíkó tekið þess-
ari byltingu?
„Það er álitamál og erfitt að svara þessari
spurningu. Við erum að eyða meiri orku í unga
fólkið því það er erfitt að breyta hugsunarhætti
hjá fólki sem hefur hugsað eins í hálfa öld.
Sumir segja að karlmenn verði að fá að vera
með í þessari jafnréttisbyltingu en aðrir segja
að þetta eigi bara að vera kvennabarátta. Svo
er það staðreynd að flestir sem vinna hjá ríkinu
eru karlmenn, og hvað ætlum við að gera þar?“
Reiðar og hræddar
Wendy, sem er þrítug, er mikill jafnréttissinni
og vill að heimurinn heyri hennar sögu.
„Ég er baráttukona og femínisti og fyrst og
fremst mjög reið. Það er ekkert gert í Mexíkó
og engin réttindi fyrir konur. Þessar konur sem
eru myrtar eru ekki bara ókunnugar konur;
þær tilheyra okkar litla samfélagi og geta verið
fjölskyldumeðlimir, vinkonur og vinnufélagar.
Það er verið að myrða konur í okkar samfélagi
og við erum reiðar, en við erum líka hræddar.
Það er mikil hræðsla meðal kvenna. Það sem
kom fyrir mig getur komið fyrir aðra og konur
hugsa; er ég næst?“ segir Wendy.
„Þegar ég lenti í að vera skotin vorum við
einmitt að mótmæla morði á vinkonu vinkonu
minnar. Konur eru ekki bara að mótmæla
kvennamorðum, heldur hafa þær einnig oft
sjálfar lent í miklu ofbeldi og þær vilja líka mót-
mæla því,“ segir Wendy og nefnir að konur sem
kæra líkamlegt, andlegt eða kynferðislegt of-
beldi mæti oftar en ekki hótunum hjá ríkis-
valdinu.
„Þetta er vítahringur og það er ekkert annað
hægt en að sameinast og fara út að mótmæla.
En sumar konur eru of hræddar og sitja
heima,“ segir Edith og bætir við að nú sé vakn-
ing í gangi hjá konum í Mexíkó.
„Það sem hefur breyst er að nú eru það ekki
bara samtök eins og Amnesty sem mótmæla
Tók eftir því að
ég var öll í blóði
Edith Olivares Ferreto, framkvæmdastjóri Amnesty
International í Mexíkó, og baráttukonan Wendy Andrea
Galarza voru á Íslandi í vikunni til að vekja athygli á
kúgun, ofbeldi og morðum kvenna í heimalandi þeirra
Mexíkó. Þar eru tíu konur myrtar dag hvern.
Ásdís Ásgeirsdóttir asdis@mbl.is
14 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 5.12. 2021
VIÐTAL
Kynbundið ofbeldi, mannshvörf og morð á
konum í Mexíkó eru tíð en fáir eru látnir
sæta ábyrgð. Að meðaltali eru tíu konur
myrtar á degi hverjum. Í skýrslu sem Amn-
esty International í Mexíkó gaf út í sept-
ember 2021 og nefnist Justice on Trial kem-
ur fram að á síðasta ári voru 3.723 morð á
konum skráð en þar af voru 940 konur
myrtar af hendi karlmanns fyrir það eitt að
vera konur. Yfirvöld láta undir höfuð leggj-
ast að rannsaka morðin með fullnægjandi
hætti, ýmist vegna þess að vettvangur
glæps er ekki skoðaður nægilega vel, sönn-
unargögn týnast eða áhugi er ekki fyrir
hendi á að sinna rannsókn. Þessir alvarlegu
ágallar koma í veg fyrir að málin rati til
dómstóla og hinir seku sæti ábyrgð. Oft
þurfa fjölskyldur hinna myrtu sjálfar að
rannsaka morðin með tilheyrandi álagi og
kostnaði en þessi ábyrgð fellur oftast á kon-
ur. Í sumum tilfellum hóta og ógna yfirvöld
fjölskyldunum í þeim tilgangi að reyna að
kæfa málið. Embætti saksóknara er einnig
vanbúið til að framfylgja rannsókn á morð-
um á konum, ýmist vegna skorts á mann-
afla, búnaði eða sérfræðiþekkingu. Að auki
sæta konur sem rísa upp og mótmæla of-
beldinu kúgun af hálfu yfirvalda, geðþótta-
handtökum, útskúfun og margvíslegu of-
beldi.
Tíu myrtar á dag