Morgunblaðið - 26.01.2022, Blaðsíða 10
10 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 26. JANÚAR 2022FRÉTTIR
Netöryggi
NÁNARI UPPLÝSINGAR:
Erling Adolf Ágústsson
Sími 569 1221, erling@mbl.is
Sigrún Sigurðardóttir
Sími 569 1378, sigruns@mbl.is
SÉRBLAÐ
Aldrei hefur verið brýnna
að hafa netöryggið á hreinu
Auglýsendur athugið
–– Meira fyrir lesendur
fylgir Morgunblaðinu miðvikudaginn 2. febrúar
Ef mannkynssagan er skoðuð í gegn-
um linsu þróunarlíffræði þá kemur
ekki á óvart að hjá flestum menning-
arsamfélögum megi finna goðsagnir
sem minna fólk á að vera viðbúið
skelfilegum náttúruhamförum. Ham-
farirnar verða nefnilega með reglu-
legu millibili og þeir þjóðflokkar og
samfélög sem sögðu börnunum sín-
um sögur sem innrættu þeim hæfi-
lega varkárni og fyrirhyggjusemi
voru þau sömu og áttu auðveldast
með að lifa af flóð, jarðskjálfta, eld-
gos og innrásir– og þess vegna eru
það þeirra sögur sem lifa enn.
Þjóðflokkarnir sem kenndu börn-
um sínum ekki að reisa háa virkis-
veggi eða eiga nægar birgðir af mat
hurfu einfaldlega af yfirborði jarðar
þegar veturinn var óvenju langur eða
óvinurinn birtist við túngarðinn.
Óútreiknanlegur fiskur
Ein af mínum uppáhalds hamfara-
goðsögnum kemur frá Japan. Þar er
börnunum kennt að djúpt ofan í jörðu
búi risvaxin leirgedda, Namazu að
nafni, og er hún svo stór og kröftug
að þegar hún skekur sig þá skelfur
jörðin. Guðinn Kashima hefur það
hlutverk að hafa gætur á fiskinum og
halda föstum með stórum steini, en
Kashima á það til að þreytast og losa
um takið svo að Namazu nær að
sveifla sporðinum og leikur þá allt á
reiðiskjálfi.
Á lítilli eyju þar sem alltaf er von á
jarðskjálftum, fljóðbylgjum og eld-
gosum minnir þessi saga landsmenn
á að þeir þurfa að vera við öllu búnir.
Enda er engin þjóð jafn vel búin und-
ir náttúruhamfarir og Japan og í
hvert skipti sem jörðin skelfur eða
spúir upp hrauni er reynt að læra af
því til að geta ráðið enn betur við
næsta áfall. Hefur reynslan m.a.
kennt japönskum heimilum að eiga til
birgðir af mat og allan helsta neyðar-
búnað en vinnustaðir eru skyldugir til
að eiga þriggja daga matarbirgðir
enda hefur þeim tilmælum verið
beint til almennings að halda kyrru
fyrir (jafnvel svo dögum skiptir) ef
stór skjálfti verður á vinnutíma.
Í næstu heimsókn til Tókýó ættu
lesendur að reyna að finna skilti við
suma vegi sem tilgreina að aðeins við-
bragðsaðilar megi nota þessar um-
ferðaræðar eftir jarðskjálfta. Skiltið
er skreytt með mynd af stórum
bláum fiski sem allir Japanir þekkja.
Flagan sem velti hlassinu
Er svolítið skrítið, fyrst Japanir
eru einstaklega varkár þjóð, að það
voru japönsk fyrirtæki sem ruddu
brautina í straumlínustjórnun. Þekkt
er hvernig Toyota kom sér upp kerfi
á fjórða áratugnum sem miðaði að því
að leita í sífellu leiða til að hámarka
skilvirkni og fínstilla aðfanga- og
framleiðslukeðjuna þannig að allt
sem berst í hús sé notað jafnóðum
frekar en að safnast upp á lager –
„just in time“ eins og það er kallað í
fræðunum. Stjórnendur um allan
heim kolféllu fyrir Toyota-aðferðinni
enda kjörin leið til að draga úr sóun
og hámarka nýtingu aðfanga og
vinnuafls.
En gallinn er að straumlínu-
stjórnun er línudans, og ef meirihátt-
ar röskun verður á aðfangakeðjunni
situr allt stopp. Toyota og flestir aðr-
ir bílaframleiðendur ráku sig einmitt
á þetta í kórónuveirufaraldrinum
þegar óvæntur skortur varð á tölvu-
kubbum. Toyota þurfti á tímabili að
draga úr bílaframleiðslu sinni um
40%, General Motors lokaði heilu
verksmiðjunum svo vikum skipti og
fyrr í þessum mánuði var Opel loks-
ins að hefja aftur starfsemi í Eisen-
ach eftir að hafa skellt verksmiðjunni
þar í lás í september.
Svigrúm og sveigjanleiki
Markus Brunnermeier, hagfræði-
prófessor við Princetonháskóla,
sendi nýlega frá sér bók þar sem
hann fjallar um hvernig þær raskanir
sem urðu í kórónuveirufaraldrinum
sýna hvernig fyrirtæki, einstaklingar
og stjórnvöld þurfa að gæta þess að
ganga ekki of langt í skilvirkni og
hagkvæmni. Hann spáir því að „just
in time“-hugsunarhátturinn muni
víkja fyrir „just in case“-nálgun, þar
sem meira svigrúm gefst til að takast
á við óvænt áföll. Segir Brunner-
meier að rétt eins og bankar þurfi að
þreyta álagspróf ættu fyrirtæki að
gera álagspróf á sínum eigin
aðfangakeðjum.
Bókin heitir The Resilient Society
og lenti á lista FT yfir áhugaverðustu
viðskiptabækur ársins 2021.
Greining Brunnermeiers minnir
um margt á skrif Nassims Talebs um
„antifragile“ kerfi og fjallar
Brunnermeier með nokkuð sannfær-
andi hætti um að seigla sé það sem
hjálpi hagkerfum að komast í gegn-
um hvers kyns skakkaföll. Brunner-
meier notar seiglu-hugtakið til að
lýsa því að takast jafnharðan á við
vandamálin (frekar en að forðast
þau) og rétta svo hratt úr kútnum.
Ekki er að sjá að Brunnermeier
hafi rannsakað Ísland sérstaklega,
en það er margt við niðurstöður hans
sem smellpassar við íslenskt sam-
félag. Sýnir t.d. reynslan úr banka-
hruninu og kórónuveirukreppunni að
íslenskt atvinnulíf og stjórnvöld búa
yfir töluverðri aðlögunarhæfni. Sömu
sögu er ekki að segja um lönd eins og
Grikkland, Ítalíu, Spán og Portúgal
sem hafa ekki enn náð sér á strik eft-
ir fjármálakreppuna 2008, eða jap-
anska hagkerfið sem tók stórt stökk
á áttunda og níunda áratugnum en
hefur staðið í stað í þrjá áratugi eftir
að fasteigna- og verðbréfabólan
mikla sprakk með látum árið 1992. Í
Tyrklandi hefur hagkerfið verið á
niðurleið í nærri áratug eftir að
þrótturinn fór úr efnahagsstefnu Er-
dogans og ekki von á umskiptum í
bráð.
Byrgi fyrir alla Svisslendinga
Reyndar má deila um að hve miklu
leyti það er að þakka gjörvileik frek-
ar en gæfu að Íslandi hefur farnast
tiltölulega vel eftir meiriháttar áföll.
Oft virðist heppnin hafa verið með
eyríkinu sem hefur „þetta reddast“
sem sitt óformlega þjóðarmottó.
Seiglan virðist hér um bil hafa orðið
til af sjálfu sér, frekar en af ásettu
ráði.
Öðru máli gegnir um lönd eins og
Sviss. Ef heimurinn ferst þá munu
nefnilega Svisslendingarnir lifa af, lit-
lausir og leiðinlegir sem þeir eru.
Til marks um hugsunarhátt Sviss-
lendinga þá ver engin þjóð í heim-
inum hærra hlutfalli ráðstöfunar-
tekna sinn í að kaupa tryggingar. Þá
er sú krafa gerð í byggingarreglu-
gerð að í öllum svissneskum húsum
sé rammbyggt sprengjubyrgi með
fullkomnum lofthreinsibúnaði. Hefur
það verið skylda frá árinu 1963 þegar
stjórnvöld óttuðust að sovéskar
kjarnorkusprengjur gætu lent á Evr-
ópu hvenær sem er. „Hlutleysi veitir
enga vörn gegn geislun“ – var eitt af
þeim slagorðum sem notuð voru í
svissneskum stjórnmálum á þeim
tíma.
Er nú svo komið að pláss er fyrir
114% landsmanna í svissneskum
sprengjubyrgjum. Voldugir hlerar
geta t.d. lokað Sonnenberg-
göngunum við Luzern og breytast
þau þá í byrgi sem rúmar 20.000
manns!
Ekki nóg með það heldur er innan
við áratugur síðan svissneski herinn
lauk því verki að fjarlægja sprengju-
hleðslur sem komið hafði verið fyrir
undir vegum, brúm og flugbrautum
og í göngum ef ske kynni að hægja
þyrfti á för innrásarhers – eins og
jóðlið og harmoníkuleikurinn væru
ekki nóg til að fæla óvinaheri í
burtu.
Umgjörð fyrir aðlögunarhæfni
Íslendingar ættu ekki að láta kór-
ónuveirufaraldurinn breyta sér í
taugatrekkta og ofurvarkára Sviss-
lendinga, en það sakar ekki að svipast
um eftir hættunum og vinna hæfilega
markvisst að því að vera undirbúin
fyrir höggið þegar það kemur. Und-
irbúningurinn ætti ekki bara að snú-
ast um að fylla gömlu kartöflu-
geymslurnar af Ora-fiskbollum,
Nóa-konfekti og Krónu-klósettpappír
til vonar og vara ef aðfangakeðjur
heimsins skyldu raskast, heldur líka
að skapa hagkerfinu ramma sem
styður við aðlögunarhæfnina frekar
en að draga úr henni: stilla þarf
sköttum í hóf, einfalda reglur, auka
dreifstýringu, fækka hindrunum af
öllu tagi og tryggja greiða leið að sem
flestum mörkuðum.
Aðlögunarhæfnin er meiri eftir því
sem íslensk fyrirtæki renna fleiri
stoðum undir reksturinn og finna
kaupendur og seljendur í fleiri lönd-
um. Aðlögunarhæfnin er meiri ef við
löðum til okkar hæfileikafólk með
ólíkan bakgrunn frá öllum heims-
hornum og leyfum öllum sjónar-
miðum að heyrast í samfélagsumræð-
unni. Ekkert fær okkur grandað ef
íslenskir námsmenn halda áfram að
sækja sér menntun við heimsins
bestu háskóla og ýmist landa störfum
hjá virtum erlendum risafyrirtækjum
eða spreyta sig á eigin rekstri hvort
heldur í Ríó, Múmbaí, Kaíró eða
Tókýó.
Ef Namazu og aðrir hamfarafiskar
þora þá að láta sjá sig tökum við þá
með hælkrók.
Þeir varkáru lifa af áföllin
Ásgeir Ingvarsson
skrifar frá Playa del Carmen
ai@mbl.is
Fyrirtæki og stjórnvöld ættu
að læra það af faraldrinum
að hagkerfið má ekki skorta
aðlögunarhæfni.
AFP
Sápa skorin með gamla laginu í Sýrlandi. Þar má finna rótgrónar sápuverksmiðjur sem starfa með allt öðrum hætti
en stóru alþjóðafyrirtækin. Hráefnið er fengið úr nærsveitum og vélvæðingin í lágmarki. Þrátt fyrir róstur og stríð
hafa sápugerðirnar sýnt næga seiglu til að geta haldið rekstrinum gangandi í margar kynslóðir.