Fréttablaðið - 17.05.2022, Side 25

Fréttablaðið - 17.05.2022, Side 25
Það var árið 1991 sem við gáfum öllum sjö ára börnum á Akureyri hjálma í fyrsta skipti. Einstaklingurinn á að vera í fyrirrúmi og kerfið að aðlaga sig honum, ekki öfugt. Við bindum miklar vonir við að notandinn verði settur á oddinn og þann- ig breytist þjónustan hér á landi. Geðhjálp vinnur að fjölda verkefna sem miða að því að bæta geðheilsu landsmanna og hag þeirra sem glíma við geðrænar áskoranir. Þar eru vonir bundnar við að geð- heilbrigðisþjónusta verði notendavænni með því að setja einstaklinga í fyrsta sæti og láta kerfið laga sig að þeim, ekki öfugt. „Geðhjálp hefur starfað síðan árið 1979, þegar aðstandendur fólks með geðrænar áskoranir og fagfólk tók sig saman og stofnaði samtök- in,“ segir Elín Ebba Ásmundsdóttir, varaformaður Geðhjálpar. „Við erum framsækin í vinnubrögðum og fyrir örfáum árum settum við upp nýja aðgerðaáætlun til að bæta geðheilsu landsmanna. Við förum svo reglulega yfir hana og berum verkefni saman við hana til að sjá hvaða markmiðum hefur verið náð og hvar þarf að gera betur.“ Alls kyns verkefni til að bæta geðheilbrigði „Geðhjálp vinnur að mörgum verkefnum, en það sem mér finnst kannski merkilegast núna er Geðlestin, sem er verkefni sem hefur verið unnið í samstarfi við Hjálparsíma Rauða krossins 1717 og er styrkt af félags- og heil- brigðis ráðuneytunum,“ segir Elín Ebba. „Við höfum fengið marga styrktaraðila fyrir verkefnin okkar, sem gefur okkur miklu meiri kraft og þeim ber að þakka. Stuðningurinn skiptir öllu. Geðlestin er búin að fara í 8.-10. bekk í yfir 100 grunnskólum um allt land og tala um hvað geð- heilsan er ekkert frábrugðin líkamlegri heilsu. Við getum öll lent í að veikjast á geði rétt eins og líkamlega. Það eru til ýmis verk- færi til að hlúa að geðheilsu, rétt eins og líkamlegri, og þetta er ekki aðskilið,“ útskýrir Elín Ebba. „Ef fólk sinnir ekki líkamlegri heilsu með hreyfingu, góðum svefni og góðu mataræði fer geðheilsan líka. Geðhjálp setti líka á fót styrktar- sjóð geðheilbrigðis. Fyrsta úthlut- un var í fyrra og styrkir verkefni sem tengjast aðgerðaáætluninni. Þar erum við að leggja áherslu á forvarnir og að skoða orsakir fyrir geðrænum áskorunum,“ segir Elín Ebba. „Við höfum líka sett á odd- inn að skapa störf fyrir fólk sem hefur dottið af vinnumarkaði svo það geti nýtt þekkingu og reynslu sína, en við höfum verið aftarlega á merinni hér á landi þegar kemur að atvinnuþátttöku fólks með geð- rænar áskoranir. Síðustu tvö ár höfum við líka verið með G-vítamín verkefnið á þorranum, þar sem við gefum fólki hugmyndir um verkfæri til að efla geðheilsu,“ segir Elín Ebba. „Svo er Geðhjálp að fylgjast með öllum lagafrumvörpum og bregðast við þeim. Við erum með fulltrúa í alls kyns nefndum og ráðum og nú er til dæmis verið að gera drög að aðgerðaáætlun 2022–2025 í geðheilbrigðismálum þar sem formaðurinn er okkar fulltrúi. Þar eru lagðar línur fyrir það sem á að leggja áherslu á næstu árin, með von um meiri áherslu á notendur, að þeir hafi áhrif á þróun mála- flokksins og að skapa fleiri störf fyrir þá.“ Notendur eiga að vera í fyrirrúmi „Í lok mars fór tíu manna hópur fagfólks af ýmsum sviðum geðheil- brigðisþjónustu í ferð til Noregs og Danmerkur sem Geðhjálp sá um og skipulagði. Markmiðið var að kynna sér starfsemi þar til að átta okkur á því sem þarf að leggja meiri áherslu á hér heima. Þar kynntumst við alls kyns ólíkum nálgunum, svo sem lyfjalausri geð- deild, og sáum mörg flott verkefni sem notendur höfðu komið á kopp eða krafist,“ segir Elín Ebba. „Þar virðast notendur vera meira í fyrir- rúmi og þjónustan og fræðslan meira á jafningjagrundvelli. Það á að vera hægt að leita til fólks sem hefur reynslu af því að þurfa aðstoð og þannig nálgun gefur notendum mun fleiri atvinnutækifæri,“ segir Elín Ebba. „Þar er líka ekki bara litið til þess að sérfræðingar séu í forgrunni í tengslum við bata fólks heldur er allt nærsamfélagið virkjað til að styðja við fólk sem glímir við geð- rænar áskoranir, enda eru þær ekki bara vandamál einstaklingsins, heldur verða þau til í samspili við umhverfið. Einstaklingurinn á að vera í fyrirrúmi og kerfið að aðlaga sig honum, ekki öfugt. Við bindum miklar vonir við að notandinn verði settur á oddinn og þannig breytist þjónustan hér á landi,“ segir Elín Ebba. „Þekkingin á því hvernig hægt er að rækta geð- heilsu er líka orðin mun almenn- ari. Við sem samfélag berum öll ábyrgð á því og viðhald geðheilsu er stöðug vinna.“ n Kerfið á að laga sig að einstaklingunum Elín Ebba Ásmundsdóttir, varaformaður Geðhjálpar, vonast til að geðheil- brigðisþjónusta á Íslandi verði notendavænni í framtíðinni. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI Kiwanisklúbburinn Kald- bakur var stofnaður á Akureyri árið 1968 og hefur starfað óslitið í 54 ár. Að sjálfsögðu hefur klúbburinn tekið þátt í öllum K-dögum sem haldnir hafa verið frá árinu 1974 þegar fyrsti K- dagurinn var haldinn. „Það skiptast á skin og skúrir í svona klúbbastarfsemi eins og gengur en ávallt hefur verið góð stemning í kringum K-dagana. Hluti af afrakstri sölunnar á K- lyklinum hefur nokkrum sinnum komið til Akureyrar, til dæmis til Lautarinnar, Geðdeildar sjúkra- hússins, þjálfunarstöðvar og endurbyggingar áfangaheimilis að Álfabyggð 4 á Akureyri og fleira sem mætti telja hér,“ segir Kristinn Örn Jónsson, einn félaganna og bætir við að Kaldbakur hafi ljáð Píeta samtökunum afnot af félags- heimili sínu til fundahalda þeirra. „Við þekkjum vel til þeirra sam- taka og munu þau njóta stuðnings hreyfingarinnar í ár til að byggja upp sína starfsemi á lands- byggðinni. Það verkefni sem er okkur kært og langstærst í sniðum er endurbygging Álfabyggðar 4 sem var áfangastaður þeirra sem voru að koma af geðdeild og voru að komast út á vinnumarkaðinn aftur. Það var það stórt verkefni að skipta þurfti því á tvo K-daga. Þetta er þriggja hæða hús og í fyrra skiptið voru tvær efri hæðirnar teknar í gegn og eftir síðari söfnun- ina var neðsta hæðin endurgerð og húsið málað að utan. Þetta verk- efni var okkur Kaldbaksfélögum mikil hvatning til að vinna vel við sölu K-lykilsins og við fundum strax að viðtökur Norðlendinga voru mjög góðar þar sem stór hluti söfnunarinnar kom í heimabyggð,“ segir Kristinn Örn. Öflugir sölumenn „Okkur langar að segja frá stemn- ingunni sem myndaðist á þessum tíma. Þetta byrjaði í bílskúr eins félagans þegar skipulagning hófst og lyklum sem voru barmmerki þá var skipt í poka. Á þessum tíma átti Kaldbakur ekki húsnæði en góður bílasali og velunnari klúbbsins rýmdi sýningarsalinn og lánaði okkur hann endurgjaldslaust til afnota frá fimmtudagskvöldi til sunnudags. Síðan hófst salan. Hver félagi fékk úthlutað hverfi til húsasölu sem fór fram á kvöldin en síðan stóðu Kaldbaksfélagar vaktina við stórmarkaði og aðrar vinsælar búðir. Allt gekk þetta vel fyrir sig og allir í góðu stuði og þegar komið var í hús á laugar- dagskvöldið sagði einn félaginn: „Strákar, við eigum eftir Svalbarðs- ströndina og Grenivík,““ segir Kristinn Örn og bætir við: „Undirtektirnar voru á þann veg þótt flestir væru búnir að fá nóg og þetta var ekkert mál. Nokkrir félagar fóru um kvöldið á svæðið og seldu vel meðal annars vegna þess að fyrstavetrardagsball var á Grenivík og margir komnir í gírinn til að fara á ballið og tóku vel á móti okkur. Varla voru félagar búnir að nudda stírurnar úr augunum morguninn eftir þegar símhringing glumdi við og forseti klúbbsins tjáði mönnum að eftir væri að selja í sveitunum innan Akureyrar. Svarið hjá þeim sem leitað var til var eins og áður „ekkert mál“. Á þessum árum voru greiðslu- kort lítið notuð og það var ekki leiðinlegt þegar við á mánudags- morgni fórum í bankann með nokkra poka fulla af peningum. Þarna hafði þessi eini klúbbur selt K-lykilinn við allar stærstu versl- anir á Akureyri, gengið í öll hús á staðnum og sveitirnar í kring. Það þarf líklega ekki að taka það fram að Kaldbaksmenn voru langsölu- hæstir á landinu að þessu sinni. Þessi frásögn sýnir hve mikið er hægt að gera þegar kynning er góð fyrir gott málefni og stemning myndast í hópnum,“ segir Kristinn Örn. Gáfu börnum hjálma „Kiwanisklúbbar koma að ýmsum góðum málum en það sem við Kaldbaksmenn erum stoltastir af er að við vorum frumkvöðlar að því að sjö ára börn fengu gefins reiðhjólahjálma. Það var árið 1991 sem við gáfum öllum sjö ára börnum á Akureyri hjálma. Fyrstu árin keyrðum við hjálmana heim til barnanna en síðan þróaðist þetta í að haldinn er hjálmadagur við félagsheimili okkar og eru þá grillaðar pylsur og gert eitthvað skemmtilegt. Þá erum við með happdrætti þar sem ein stúlka og einn drengur fá ný reiðhjól í vinning. Fljót- lega spurðist þetta verkefni út og nágrannaklúbbar okkar tóku þetta upp og voru með í pöntun á hjálmum. Síðan bættust við klúbbar víða á landinu og þá fór af stað umræða hvort ekki ætti að gera þetta að landsverkefni Kiw- anis. Ekki varð af því fyrr en árið 2004 að Kiwanis fékk Flytjanda- Eimskip í lið með sér og hafa þeir verið styrktar aðilar verkefnisins síðan. Gríðarlega gott verkefni. Fundur á Kaldbaki Þegar Kaldbakur varð 30 ára kom upp hugmynd um að halda fund á toppi fjallsins sem klúbburinn heitir eftir. Þetta var rætt fram og aftur og á endanum ákveðið að gera þetta laugardaginn fyrir páska. Sömuleiðis var ákveðið að ekki yrði farið nema veður og skyggni væri gott. Viðmiðið var að ef ekki sæist í toppinn á Kaldbaki klukkan 9 að morgni þá færum við ekki. Föstudaginn langa snjóaði stanslaust allan daginn þannig að útlitið var ekki gott. Á laugardags- morgninum voru félagar snemma á fótum og mun bjartara var en daginn áður. Ekki sást í toppinn á Kaldbaki. En viti menn, rétt fyrir tilsettan tíma birti upp og Kald- bakur blasti við. Var nú þeyst út á Grenivík með marga vélsleða og lagt til atlögu við fjallið. Er skemmst frá því að segja að veður- blíðan var einstök allan daginn og var fundurinn haldinn undir berum himni og var þetta hin mesta ævintýraför. Alls voru 25 manns sem fóru í ferðina. Það að vera í Kiwanis er ekki bara að safna peningum til góðra málefna. Félagsskapurinn heldur vel saman. Við í Kaldbak fundum reglulega og heimsækjum aðra klúbba á svæðinu. Við stöndum fyrir og sækjum viðburði af ýmsum toga með fjölskyldum okkar. Má þar nefna útivistarhelgi að vetri, förum í leikhús og höldum jólatrésfagnað fyrir börnin. Þá er stór fjölskylduhátíð árlega þar sem fjölskyldur allra Kiwanismanna á Norður- og Norðausturlandi hitt- ast og eiga góða helgi saman. Kaldbaksfélagar þakka öllum sem hafa lagt klúbbnum lið á liðnum árum, hvort sem það er við K-dagsverkefni eða annað. Við hvetjum alla landsmenn til að taka vel á móti K-lykils sölufólki okkar og styrkja þar með gott málefni.“ n Frábært starf hjá Kaldbaki á Akureyri Kiwanisklúbb- urinn Kaldbakur átti frumkvæði að því að gefa börnum hjálma. MYND/AÐSEND 5ÞRIÐJUDAGUR 17. maí 2022 LYKILL AÐ LÍFI

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.