Fylkir


Fylkir - 01.12.2021, Side 17

Fylkir - 01.12.2021, Side 17
17FYLKIR - jólin 2021 ° ° liðin, fékk þaðan góð meðmæli að sögn Hrefnu Hilmsdóttur barnabarns hennar. Tæplega fer- tug réðist Guðný sem vinnukona í Vatnsdal. Heimilið í Vatnsdal var stórt og þar var búrekstur og gekk Guðný til allra verka sem voru ærið mörg úti sem inni. Að sögn Hrefnu bar þar hæst umönnun barnanna og fljótlega bættust barnabörnin í hópinn en þau voru nokkur á svipuðum aldri og Hilmir. Dvöldu þau mörg sumur í Vatnsdal og hafa þau sagt frá því á fullorðinsár- um að hjá Guðnýju áttu þau sínar bestu æskustundir. ,,Glatt var á hjalla í Vatnsdal, börn- in ærslafull og lífleg og veittu þau henni næg verkefni sem hún innti af hendi með sínu jafnaðargeði og ró. Hún hafði í nógu að snúast við að elda mat, þvo þvotta, baka og strauja auk þess að blása á bágtið og hvetja til dáða. Þau voru mörg börnin sem sóttu til ömmu í blíðu og stríðu. Aldrei heyrðist hún kvarta. Hún var athvarf allra barn- anna og umvafði þau ást og um- hyggju sem hvert og eitt geymdi í hjarta sínu, í minningum er amma umvafin birtu,” segir Hrefna. Hún rifjar upp sögu sem Hilmir faðir hennar sagði. Þau náðu fjög- ur börnin að ríða berbakt á Jarpi og fannst það mikið afrek. Hann lýsti þessu fyrir Guðnýju móður sinni með fleygum orðum sem honum var stundum strítt með: ,,Stella halti sér í Önnu, Anna halti sér í Garða, Garði halti sér í mér og ég halti mér í mér”. Það var lán að þau héldust öll á baki. Hrefna segir að það sé eins og hún sjái ömmu sína brosa að sögunni og blikka afa. Hrefna fæddist í Vatnsdal og á þó nokkrar minningar frá frum- bernsku um Guðnýju ömmu sína sem var þá orðin 67 ára. Elsta minn- ingin er um hlýjan faðm ömmu Guð- nýjar en hún hélt með annarri hendi undir bossann á Hrefnu og klappaði með hinni á bakið og raulaði en þarna var Hrefna eitthvað óvær. Þetta mun hafa verið þegar Guðný systir henn- ar var að koma í heiminn en fæðing hennar var mjög erfið enda kom hún sitjandi. Í þá tíð fæddu konur heima en þarna var Hrefna aðeins 20 mánaða. Eftir þetta var Guðný amma athvarf Hrefnu rétt eins og hún var allri barnahjörðinni sem tengdist Vatnsdal með einhverj- um hætti. Það var alltaf hlýtt og notalegt í eldhúsinu Guðnýjar. Í einu horn- inu stóð kolaeldavél. Hrefna segist eiga sterka minningu af ömmu sinni að baka pönnukökur á nýju eldavélina sem stóð í blámáluðu panel-innréttingunni við glugga- vegginn. ,,Hvítar eldhúsgardínur með ísaumuðu mynstri í bláum lit, sams konar puntuhandklæði á vegg yfir eldhúsborðinu. Afi að kenna mér að syngja ,,ríðum heim að Hofi, pabba kné er klárinn minn” og ég sá Hof út um glugg- ann, amma hellti upp á kókómalt með lummunum. Við lærðum ótal sönglög og texta, sögur og æv- intýri. Fyrsta vinnan sem ég man eftir, kannski fjögurra ára, þá fékk ég litla hrífu í hönd og gekk á eft- ir ömmu um túnið að raka hey í garða, það var mikil upphefð. Á sumrin tók hún á móti Vatnsdæl- ingum af fastalandinu en það var Edda, yngsta dóttir afa, með alla fjölskylduna. Þau hjálpuðu líka til við heyskapinn. Þá stóð amma í eldhúsinu, sauð hangikjöt, svið og lunda, bakaði kleinur, jólakökur og randalínur. Þannig var það sumar eftir sumar,” rifjar Hrefna upp. Hún man eftir ömmu sinni við rokkinn að spinna þráð í sokka og vettlinga sem krakkarnir fengu í jólagjöf, hún sagði sögu eða spjall- aði bara á meðan. Gömlu hjónin voru með hænsni, þar fékk Hrefna vinnu hjá Guðnýju ömmu við að þurrka af eggjunum og telja í poka sem áður voru notaðir undir kaffi, Braga eða Kaaber. Það kom fyrir að egg brotnaði í höndum Hrefnu. En ekki fékk hún skammir held- ur kennslu um innihaldið og svo bætti hún við að það vantaði lík- lega kalk í fæðu hænsnanna, það styrkir skurnina. Svo voru kýrnar mjólkaðar og Guðný amma kom inn með fulla fötu af spenvolgri, freyðandi mjólk sem hún lét setj- ast til áður en hún fleytti rjómanum ofan af og í búrinu var strokkur þar sem hún bjó til smjör. ,,Hún Guðný var mikil amma og gott var að koma í hlýjuna eftir að hafa skautað á Vilpunni eða rennt sér á sleða á Vatns- dalshólnum. Þá voru kaldir fætur nuddaðir og kald- ar hendur hitaðar í armkrikum og hún hughreysti okkur með sinni fallegu syngjandi rödd. Aldrei sá ég hana kvarta en auðvitað var hún farin að reskjast. Þegar þau höfðu brugðið búi þá gat hún dundað sér við að leggja kapal sem við krakkarnir lærðum af henni. Svo fengum við spilastokkinn og byggðum kastala á meðan hún bakaði pönnukökur og hellti upp á kaffi og kókómalt. Öll sín verk vann amma af ró og ánægju og þau afi voru samhentir, leiðbeinandi og ástríkir uppalend- ur barnaskarans alls. Vatnsdalur er sveipaður ljóma í minningum okk- ar afkomenda og sjálfsagt stafar ljómanum af því hverjar mann- eskjur þau Guðný og Högni voru, við nutum forréttinda að eiga þau að,” segir Hrefna jafnframt. Guðný lést 4. júlí 1966. Fram kemur í minningargrein um Högna á sínum tíma að öll eru börn Högna myndarfólk, „enda hlutu þau gott uppeldi á myndarheimili, sem Högni átti jafnan, enda konur hans báðar ágætar húsfreyjur.“ Högni Sigurðsson í Vatnsdal lést 14. maí 1961 nær 87 ára gamall. Þann dag átti að ferma tvö barna- börn hans, Huldu og Hörð. Hvíldi því mikil sorg yfir fermingardegi þeirra. Högni var kvaddur með þess tíma kistulagningu, þ.e. með svokallaðri húskveðju þar sem hinn látni var kvaddur á heimili sínu. Líkið var látið standa uppi, eins og það var kallað, í kistunni. Kista Högna var opin í stofunni á 2. hæð í Vatnsdal og svo borin út um hurðina vestan megin, út á pallinn ofan á vatnstanknum og svo sett út á vörubíl Guðmundar. Á eftir vörubílnum gengu svo Vatnsdæl- ingar í Landakirkju þar sem jarð- sungið var. Sveinbjörn Á. Benónýsson ritaði eftirfarandi dánarminningu um Högna Sigurðsson í Eyjablaðið: Hinzta kalls þú hlýddir tónum, hrökk í brjósti lífs þíns strengur, þar með hniginn, horfinn sjónum höfuðkempa, snillidrengur. Þinn með lestri efldir anda, orðs að speki líkur Njáli. Maður stórra sæva og sanda, sást hið rétta í hverju máli. Enda varstu gáfnagarpur Guðs af náð, má hiklaust segja, á allar greinar skilnings skarpur skjótur beztu ráð að eygja. Víðlesinn og víða heima varst þú, hvað sem bar á góma, lést í hæðir hugann dreyma hulda að grunda leyndardóma. Lærðir sögu landa og þjóða, last á hverrar tungumáli. Kunnir grip á gígju-ljóða, gneistar hrukku af andans stáli. Samtíð þinni fórstu framar, frjóvar græddir töðulendur, voru þar að verki tamar vizka þín og traustar hendur. Vörpulegur varstu að líta, víkingsættar hetjumaki, vildir aldrei heimsku hlýta, hugans lyftir grettistaki. Þökkum Guði göfga drenginn, gáfumanninn dagfarsprúða, nú til móðurmoldar genginn mitt í vorsins blómaskrúða. Hún þig að sér örmum vefur, eins og móðir barni vaggar, þreyttum hvílu góða gefur glitvef undir blóma og daggar. Farðu vel til sælusala, sólarkonungs fjörru stranda, risnum upp af dáinsdvala dagur ljómar skyggnum anda. Mannlífið í Vatnsdal Hér verður reynt að draga upp mynd daglegs lífs í Vatnsdal til viðbótar við það sem að framan er greint. En eðli málsins samkvæmt verður sú mynd aldrei heildstæð eða djúp í svo stuttri grein. Vatns- dælingar eru sammála því að daglegt líf þeirra einkenndist af vinnusemi, sjálfsþurftarbúskap, glaðværð og ýmsum uppátækj- um unga fólksins, sönggleði enda ófáir gítaristar í ættinni, pólitísk- um áhuga þar sem vinstri sjón- armið voru allsráðandi, þátttöku og metnaði í íþróttum og svo almennri lífsgleði. Oft var glatt á hjalla í veislum. Vatnsdælingar komu víða við í atvinnulífinu og lögðu sitt af mörkum í fjölbreytt- um störfum. Ýmsir sorglegir at- burðir settu jafnframt mark sitt á Vatnsdælinga eins og ótímabært Þessi mynd er tekin á fermingardegi Ölvers Haukssonar 1959. Aftari röð f.v.: Guðmundur Högnason, Kolbrún Harpa Kolbeins­ dóttir í fangi Hauks Högnasonar, Anna Sigurðardóttir sem heldur á Sigríði Högnadóttur, Guðný Magnúsdóttir, Högni Sigurðsson eldri, Jóhanna Jósepsdóttir, Svala Hauksdóttir og Kristín Þórðardóttir. Fremri röð f.v.: Ölver Hauksson, Hörður Hilmisson, Guðný Hilm­ isdóttir, Sigurður Hauksson, Hrefna Hilmsdóttir, Hulda Sigurðar­ dóttir, Ágústa Högnadóttir og fyrir framan hana Birna Hilmisdóttir, Svana Högnadóttir, Eiríkur og Óskar Einarssynir frá Hofi. Unglingarnir í Vatnsdal, myndin er tekin í stofunni hjá Högna og Önnu á 3. hæð í Vatnsdal á jólunum upp úr 1962. Frá vinstri: Ágústa Högnadóttir, Sigurður Hauksson, Ölver Hauksson, Svana Högna­ dóttir og Hulda Sigurðardóttir. Vatnsdalur skömmu áður en hann fór undir hraun í eldgosinu 1973. Vikurskaflinn er það hár að aðeins sést efsta hæðin af þremur. Högni, Guðný, Stella Sigurðardóttir, Guðmundur Högnason, Sigríð­ ur Tómasdóttir og hesturinn Skjóni, við heyskap í túni Högna við Strembu sem síðar var tekið undir norðurhluta flugbrautarinnar. Landspildan sem Högni leigði til túnræktar var tæplega 30 þús­ und fermetrar og ræktaði hann túnið ásamt sínu fólki frá grunni. Samkvæmt erfðafestusamningi dags. 15. sept. 1928 var túnið leigt til 75 ára. Flugmálastjórn ríksins tók landið eignanámi fyrir flugbrautina í óþökk Vatnsdælinga og neitaði að greiða bætur. Svo fór að erfingjar Högna Sigurðssonar fóru þess á leit við Mats­ nefnd eignarnámsbóta 1979 eftir áralangar deilur, eða frá 1972, að metið yrði samkvæmt matsreglum hæfilegt endurgjald fyrir töku Flugmálastjórnar á túninu. Svo fór að Matsnefndin úrskurðaði að Flugmálastjórn þyrfti að greiða erfingja Högna nokkrar bætur og málskostnað. Guðný Magnúsdóttir, seinni kona Högna Sigurðssonar, Elín Esther og Hilmir. Hvítar eldhúsgardínur með ísaumuðu mynstri í bláum lit, sams konar puntuhandklæði á vegg yfir eldhúsborðinu. Afi að kenna mér að syngja ,,ríðum heim að Hofi, pabba kné er klárinn minn” og ég sá Hof út um gluggann, amma hellti upp á kókómalt með lummunum.

x

Fylkir

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fylkir
https://timarit.is/publication/878

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.