Morgunblaðið - 21.05.2022, Side 34
34 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 21. MAÍ 2022
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Yfirlitssýningin Í undirdjúpum eigin vitundar
verður opnuð í aðalsal Hafnarborgar í dag,
laugardag, kl. 14. Þar verða sýnd verk lista-
mannsins Gunnars Arnar Gunnarssonar
(1946-2008), verk frá öllum ferli hans sem
spannar tæplega fjörutíu ár.
Gunnar Örn var virkur í sýningarhaldi hér á
landi, auk þess sem verk hans voru meðal
annars sýnd í Danmörku, Tókýó, Búdapest og
í galleríi Achims Moeller í New York. Þá var
hann fulltrúi Íslands á Feneyjatvíæringnum
árið 1988. Verk eftir listamanninn eru í eigu
fjölmargra safna á Íslandi auk merkra safna á
borð við Guggenheim í New York, samtíma-
listasafnið Sezon í Tókýó og Moderna-safnið í
Stokkhólmi.
Aldís Arnardóttir, sýningarstjóri og for-
stöðumaður Hafnarborgar, segir að hug-
myndin að sýningunni hafi komið til vegna
þess að bók um Gunnar er nýkomin út hjá
Forlaginu, en hún skrifar um feril Gunnars
Arnar fyrir útgáfuna.
„Verk Gunnars Arnar hafa ekki verið sýnd
hér á landi mjög lengi en hann lést árið 2008.
Okkur fannst því tímabært að halda sýningu á
verkum hans og varpa ljósi á feril listamanns-
ins.“
Tilvist mannsins var aðalviðfangsefnið
Á sýningunni verða verk frá ferli hans öllum
og þrátt fyrir að list hans hafi tekið breyt-
ingum í gegnum tíðina, segir Aldís að allt frá
því að hann hélt sína fyrstu sýningu í Unuhúsi
1970, hafi ákveðið þema einkennt hans verk.
„Tilvist mannsins, það að vera til í heim-
inum, er viðfangsefni sem hann glímdi við alla
tíð. Það er undirliggjandi þráður hjá honum og
samnefnari í gegnum ferilinn. En hann gengur
í gegnum ýmis tímabil og verkin eru ólík eftir
því frá hvaða tíma þau eru.“
Aldís segir Gunnar hafa verið mjög afkasta-
mikinn og eftir hann liggi verk af ýmsum toga,
teikningar, einþrykk, málverk, skúlptúrar,
vatnslitaverk og fleira.
„Gunnar vakti strax athygli þegar hann
byrjaði að sýna. Hann hafði bara farið á stutt
teikninámskeið en að öðru leyti var hann sjálf-
menntaður myndlistarmaður. Hann var ungur
faðir og vann sem sjómaður en var alltaf að
teikna. Það var ekki þannig að hann vildi ekki
fara í nám heldur hafði hann ekki tök á því. Þá
gekk fyrir að sjá fyrir fjölskyldunni.“
Gunnar hóf sinn feril sem myndlistarmaður
á ákveðnum umbrotatímum, tímum 68-
kynslóðarinnar. „Fólk var að velta fyrir sér
afleiðingum stóriðju. Þetta voru viðsjárverðir
tímar. Maðurinn er á vissan hátt ofurseldur
tæknihyggjunni. Gunnar fékkst við þetta í
byrjun og hann var alltaf að velta fyrir sér
þessum tilvistarspurningum í hraða nútíma-
samfélagsins en hann lýsti því að hraðinn í
heiminum hefði haft áhrif á hann þarna í upp-
hafi ferilsins,“ segir Aldís.
„Svo fer hann að gera verk þar sem hann
afbyggir kvenlíkamann og notar hann til form-
rænna tilrauna. Hann er alltaf að túlka glímu
mannsins við sjálfan sig. Fígúrurnar eru oft
máðar, þannig að ekki er hægt að greina and-
litin. Hann hlutar í sundur líkamann og teygir
á líkamsforminu.“
Síðan fer hann að gera verk þar sem lita-
fletirnir verða hreinni, fara meira út í abstrakt.
„Hann er enn að fást við mannslíkamann en
hann er farinn að nálgast viðfangsefnið á svo-
lítið varfærnari hátt,“ segir sýningarstjórinn.
„Þegar við komum nær 1980 þá verða aftur
ákveðin umskipti í verkum hans. Hann var
sjálfur að ganga í gegnum breytingar í sínu
persónulega lífi og málaði ekki mikið á þessum
tíma.“
Ormurinn og mannveran takast á
Síðar verður hann fyrir miklum áhrifum af
nýja málverkinu auk þess sem hann sá dóms-
dagsmynd sem tilheyrir Flatatungufjölunum á
Þjóðminjasafninu sem átti eftir að veita honum
innblástur. „Þar kemur fram nýtt viðfangsefni
í verkum hans, ormur og mannvera, sem tak-
ast á á myndfletinum. Ormurinn verður að
uppsprettu formrænna tilrauna sem sáust
áður í mannslíkamanum, eins og ormurinn taki
svolítið yfir á þessu tímabili.“
Gunnar varð síðan fyrir andlegri uppljómun
og ákvað að flytja með fjölskyldu sína að
Kambi í Rangárvallasýslu í ársbyrjun 1986.
„Þá verður algjör uppstokkun. Hann sagðist
hafa orðið að flytja út á land, til þess að vera í
meiri tengslum við náttúruna. Þar var hann
með vinnustofu og hafði meira rými til að gera
skúlptúra og stærri verk,“ segir Aldís. Þar hafi
hann meðal annars gert skúlptúra úr tré, grá-
grýti og gifsi.
Aldís segir að næsta umbylting í myndefni
Gunnars hafi orðið um aldamótin 2000. „Þá fer
hann að leita enn meira inn á við og gerir ein-
faldari verk sem hann kenndi við sálina, svo-
kölluð sálarverk.“
Á sýningunni í Hafnarborg má finna verk
frá þessum ólíku tímabilum í lífi listamannsins.
„Það er ekki alveg línulegt ferli í gegnum sýn-
inguna heldur lenda stundum verk frá ólíkum
tímum saman. Þótt verkin taki umbreytingum
þá er sami þráðurinn greinilegur í gegnum fer-
ilinn og tengir verkin saman.“
Aldís segir titil sýningarinnar, Í undir-
djúpum eigin vitundar, koma frá listamann-
inum sjálfum. Hann hafi eitt sinn sagt í viðtali:
„Ég byrjaði sem sjómaður og er ennþá að fiska
nema hvað nú legg ég netin í undirdjúp minnar
eigin vitundar, ef ég má vera skáldlegur.“
Lagði net í eigin undirdjúp
- Yfirlitssýning með verkum Gunnars Arnar Gunnarssonar opnuð í Hafnarborg í dag - Fjölbreytt
verk frá ferli sem spannar um fjörutíu ár - Sýningarstjóri segir tímabært að varpa ljósi á feril hans
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Myndlist Aldís Arnardóttir sýningarstjóri segir að þótt verk Gunnars Arnar hafi tekið
umbreytingum á ferli hans, þá sé að finna í þeim sameiginlegan þráð sem tengi þau saman.
Ragnheiður Birgisdóttir
ragnheidurb@mbl.is
Samhliða opnun yfirlitssýningarinnar með verk-
um Gunnars Arnar Gunnarssonar verður önnur
sýning opnuð í Sverrissal Hafnarborgar kl. 14 í
dag. Það er einkasýning Sigurðar Ámundason-
ar, What’s Up, Ave Maria? Þar sýnir Sigurður
níu nýjar og nýlegar teikningar. Þær eru allar
mjög stórar og hverfast á einn eða annan hátt
um fyrirbærið vörumerki eða lógó. Þó ekki
þekkt vörumerki heldur er hvert þeirra tilbún-
ingur listamannsins.
Teikningarnar eru tvenns konar. „Annars
vegar eru þetta teikningar þar sem lógóið er
fyrir framan einhvers konar umhverfi, til dæmis
landslag eða þá borgarlandslag. Hins vegar er
um að ræða teikningar sem eru í raun stór lógó
sem ég er búinn að teikna á pappír með bleki,
blýanti eða kúlupenna,“ segir Sigurður. Hann
klippir þessi síðarnefndu lógó út og líkir aðferð-
inni við dúkkulísugerð. Síðan lætur hann skera
fyrir sig plexígler í sama formi og lógóið og sam-
an mynda þau ákveðna einingu.
Táknin eru tákn fyrir tákn
Sigurður hefur valið stafi og tölur af handa-
hófi, eitthvað sem táknar ekki neitt, og raðað
þeim saman í lógó. Hann lýsir því meðal annars
að austurevrópsk kvikmyndaplaggöt hafi veitt
honum innblástur. Kýrillíska stafrófið sem þar
sé oft notað hafi í för með sér ákveðið
merkingarleysi fyrir þá sem ekki þekkja letrið.
Hann notar þannig íslenska stafrófið, með ð
og þ, og tökustafi til þess að búa til merkingar-
lausar stafarunur. „Lógóin tákna ekkert ákveð-
ið svo það er undir þér komið sem áhorfanda að
túlka þau. Þetta eru tákn fyrir tákn en ekki tákn
fyrir eitthvað ákveðið,“ segir listamaðurinn.
„Teikningarnar eru ekki fljótunnar, það tekur
mig margar vikur að vinna hvert einasta lógó.
Þannig að ég tek þessa fagurfræði eða menn-
ingu alvarlega. Ég meina þetta virkilega.“ Sig-
urður segist blanda saman hefðbundnum sym-
bólisma og formfræði við nútímaleg gildi
vörumerkjanna sem við tökum varla eftir.
Auk teikninganna sýnir Sigurður eitt mynd-
bandsverk. „Það er lúppa af Universal Studios-
lógóinu. Í hvert sinn sem myndbandið er spilað
fylgir því nýtt undirspil, nýtt lag. Þannig að það
er eins og það sé einhver stemning að byrja,
Rolling Stones, Beethoven eða eitthvert popp-
lag. En um leið og þú ert kominn inn í stemn-
inguna þá hættir lógóið og næsta lag kemur.“
Titill sýningarinnar What’s Up, Ave Maria?
vísar einmitt í tvö af þeim lögum sem spiluð
eru. Annars vegar lagið „What’s Up“ með
bandarísku stúlkna-rokksveitinni 4 Non
Blondes og hins vegar Ave Maria eftir J.S.
Bach. Sigurður bendir á að íslensk þýðing á titl-
inum gæti verið eitthvað á þessa leið: „Guð
minn góður, hvað er að gerast?“
„Ég lít ekki á lógóin sem vísun í neysluhyggj-
una heldur hefur þetta meira að gera með
áherslu samtímans á sjálfsmyndina, þessa öld
sem við lifum á, og tákn fyrir upplýsingar líka.
Allir hafa sitt þemalag og allir hafa sitt lógó.
Þitt lógó breytist á hverjum degi.“
„Það er sársauki sem ég þekki“
„Listin mín fjallar miklu meira um ein-
staklinginn, það persónulega, heldur en hópinn.
Hvernig hvert vandamál hjá okkur er jafn stórt
og heimsvandamálin. Ég er bara einhver hvítur
karlmaður á Íslandi og get ekkert mikið talað
um það sem ég hef lent í, einhverjar hörm-
ungar, en ég þekki samt sársauka og þungar
tilfinningar. Í staðinn fyrir að tala um stríð úti í
heimi eða fordóma sem fólk lendir í, en ég þekki
ekki sjálfur, þá tala ég frekar um minn sárs-
auka,“ skýrir listamaðurinn.
„Þannig að ég reyni að tala um sársaukann
sem allir hafa, ekki einhvern ýktan sársauka
heldur þennan almenna sársauka, því það er
sársauki sem ég þekki. Og þeir sem eru að
stýra í heiminum eru oft hvítir karlmenn eins
og ég. Allir þessir vondu karlar eiga við einhver
persónuleg vandamál að stríða sem eru mjög
svipuð þeim sem ég á. Sem er náttúrulega
fáránlegt. En það situr eitthvað í brjósti þeirra
sem brýst svona út. Þetta er almennur sárs-
auki, „universal“ sársauki en þetta „universal“
er samt líka svo persónulegt því hvert einasta
lag lýsir eiginlega hverjum einasta ein-
staklingi,“ segir Sigurður og vísar þar með í
myndbandsverk sitt. Hann bætir við að hann
velti mikið þessari tvíhyggju fyrir sér, hinu
smáa og hinu stóra í heiminum.
Spurður hvort hann þekki til verka Gunnars
Arnar Gunnarssonar sem sýnd verða samtímis
í Hafnarhúsi segir hann: „Foreldrar mínir áttu
verk eftir Gunnar heima. Það var eitt af þessum
verkum sem hann gerði eftir að hann frelsaðist.
Ég er sérstaklega hrifinn af verkunum sem
hann gerði á 9. áratugnum, þau eru alveg stór-
kostleg. Það er alveg smá tenging á milli okkar,
kannski ekki í þeim verkum sem ég er að sýna
núna en í öðru sem ég hef verið að gera.“
Allir hafa sitt þemalag, sitt lógó
- Sigurður Ámundason opnar einkasýninguna What’s Up, Ave Maria? í Sverrissal Hafnarborgar
- Vinnur stórar teikningar út frá vangaveltum um vörumerki og sjálfsmyndina í samtímanum
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Listamaðurinn Sigurður Ámundason við uppsetningu á sýningu sinni í Hafnarborg fyrr í
vikunni. Þar sýnir hann níu teikningar og eitt myndbandsverk sem allt tengist vörumerkjum.