Morgunblaðið - 28.05.2022, Blaðsíða 42

Morgunblaðið - 28.05.2022, Blaðsíða 42
42 MENNING MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. MAÍ 2022 VIÐTAL Ragnheiður Birgisdóttir ragnheidurb@mbl.is „Mér finnst eiginlega best að hugsa um Listahátíð sem nokkurs konar tengistykki og stundum hef ég meira að segja borið hana saman við sveppagró í jarðvegi,“ segir Vigdís Jakobsdóttir, listrænn stjórnandi Listahátíðar í Reykjavík sem fram fer dagana 1.-19. júní. „Við erum með þessar stóru flottu stofnanir hér á Íslandi með sínar voldugu rætur og tengsl við sam- félagið og við erum með allan ný- gróðurinn og grasrótina. Og svo er Listahátíð það sem getur tengt þetta saman, á næstum ósýnilegan hátt,“ skýrir hún. „Við getum verið aflvaki samstarfs og flæðis í ís- lensku menningarlífi, og líka út í heim og til baka.“ Vigdís segir stefnu sína í starfi listræns stjórnanda Listahátíðar hafa orðið til í samtali fyrsta ár hennar í starfi. „Við fórum í heljar- innar stefnumótunarvinnu og héld- um stóra fundi með eiginlega öllum af fagvettvangi lista. Það gerist í því ferli að sýnin og stefnan mótast. Það verður samt að segjast að ég kem svolítið úr þeirri átt að virkilega trúa á mátt listarinnar til þess að gera heiminn betri og að við eigum að hafa jafnt aðgengi að listum, að allir eigi að hafa aðgang að listum á einhvern hátt. Ég brenn fyrir þau mál. Það hefur auðvitað áhrif á hvernig stefnan hefur þróast. En það er ekkert bara ég, þetta er það sem er að gerast bæði úti í heimi og hérna heima. Við erum öll að átta okkur á þessum mætti sem listirnar hafa og hvernig þær geta verið til góðs fyrir samfélagið á breiðum grundvelli,“ segir hún. Sýnileikinn skiptir máli Aðgengi í víðasta skilningi þess orðs er Vigdísi hugleikið og mikið hefur verið lagt upp úr að ná til ýmissa minnihlutahópa. „Aðgengi snýst um að þér finnist þetta vera hátíðin þín, hver sem þú ert. Þá skiptir sýnileiki alls kyns hópa máli, að við sjáum fjölbreytileika mann- lífsins endurspeglast á sviði. Við getum öll gert betur.“ Hún nefnir í þessu samhengi verkið Every Body Electric, sem sýnt verður á lokadegi hátíðarinnar, 19. júní. Það er dansverk fyrir hóp fatlaðra dansara sem allir þurfa að nota einhver tæki til þess að hreyfa sig. „Þetta er með magnaðri dans- verkum sem ég hef séð,“ segir Vig- dís. Markmið Listahátíðar hefur frá upphafi verið að bjóða upp á „það besta af íslenskum og erlendum vettvangi lista almenningi til heilla“. En það er hægara sagt en gert að setja saman metnaðarfulla dagskrá fyrir listahátíð af þessari stærðar- gráðu, sem allar listgreinar heyra undir, og bæði íslensk og erlend list kemur til greina í dagskrárgerðinni. „Listahátíð er hátíð allra listgreina. Þú getur ímyndað þér hvernig það er að vera með þennan vettvang og geta í raun prógrammerað hvað sem er. Það er allt undir. Auðvitað verð- ur maður að treysta á eigið hyggju- vit að einhverju leyti en ég ráðfæri mig líka við mjög marga í ferlinu.“ Þá minnir hún á að erlendar stór- stjörnur séu oft bókaðar mörg ár fram í tímann. „Það sama á við um okkar stóra listafólk og stóru stofn- anir.“ Undirbúningsferið sé því langt. Gjörbreytt heimsmynd Meðal annars til þess að skerpa valið og gera stefnuna skýrari velja skipuleggjendur hátíðarinnar þema fyrir hverja hátíð. „Við reynum að hafa það mjög einfalt. Reglan er að barn ætti að geta skilið þemað á sinn hátt en að þemað sé síðan marglaga og bjóði upp á dýpt í túlk- un.“ Að þessu sinni varð þemað „Hin- um megin“ fyrir valinu. Vigdís segir þemað tengjast meðal annars Co- vid-faraldrinum, umhverfismálum og hinsegin menningu. „Heimsmynd okkar er breytt,“ segir Vigdís. Jafnvel þótt heims- faraldurinn sé ekki alveg afstaðinn segir hún samfélagið komið „hinum megin“ við Covid að því leyti að við lítum heiminn öðrum augum en áður. „Við horfumst í augu við gjör- breytta heimsmynd á hverjum ein- asta degi. Og núna síðast bætist við þetta ógeðslega stríð í Úkraínu sem hefur líka rosaleg áhrif á hvernig við sjáum heiminn og hvernig við erum í heiminum. Í gegnum listirnar er hægt að gera svo ótrúlega margt og hafa svo mikil áhrif, líka í þessum stóru málum.“ Þótt skipulagningin hafi verið langt komin þegar stríðið skall á segir Vigdís að þau hafi reynt að koma með einhvers konar við- brögð við því í dagskrárgerðinni. Þemað „Hinum megin“ snýst líka um að sjá eitthvað hinum megin frá, bæði bókstaflega og á táknrænan hátt. „Við erum líka með viðburði sem hvetja okkur til þess að sjá hlutina frá öðru sjónarhorni, sem mögulega verður til þess að við stækkum að innan.“ Þá bætir Vigdís við að hinsegin menning sé „ákveðinn þráður á há- tíðinni“. Hún nefnir einnig að mikið af listafólki sé upptekið af heims- endapælingum, bæði í tengslum við loftslagsvána og það að stríð sé komið í „bakgarðinn hjá okkur“. Fljótum sofandi að feigðarósi Af verkefnum sem tengjast um- hverfismálunum nefnir Vigdís sem dæmi litháísku óperuinnsetninguna Sun & Sea sem hlaut Gullna ljónið á Feneyjatvíæringnum 2019. Verkið er stór manngerð baðströnd sem verður komið fyrir í porti Hafnar- hússins í Listasafni Reykjavíkur og krefst þátttöku um hundrað sjálf- boðaliða auk stórs hóps sem kemur frá Litháen. „Þetta er tónverk sem rúllar í fjóra tíma hvorn daginn, fyrstu helgina á hátíðinni, sem er hvítasunnan. Það fjallar eiginlega um hvernig við fljótum sofandi að feigðarósi í umhverfismálum.“ Sun & Sea er eitt af mörgum er- lendum verkefnum en hlutfall ís- lenskra og erlendra verka er yfir- leitt nokkuð jafnt á Listahátíð. „Ég er sérstaklega stolt af því hvað það eru mörg verkefni í ár sem eru sam- starfsverkefni íslensks listafólks og erlends. Það eru mjög mörg dæmi um það. Það er eitthvað sem Listahátíð getur svo vel stutt við og verið vettvangur fyrir. Við reynum markvisst að grípa verkefni sem eiga varla heima annars staðar,“ segir hún og bætir við að hátíðin henti líka vel sem vettvangur fyrir verkefni þar sem listgreinar mætast á óvæntan hátt. Viðburðir Listahátíðar fara fram um alla borg og teygja sig auk þess út fyrir borgarmörkin. „Við reynum að teygja okkur eins langt og við getum. Þótt þetta sé sannarlega Listahátíð í Reykjavík þá er hún ekki bara listahátíð Reykvíkinga. Hún er listahátíðin okkar allra. Stefnan er að reyna að hafa dag- skrána þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi en ekki þó þannig að allt sé fyrir alla.“ Vigdís var gestur Dagmála fyrr í mánuðinum. Þá útgáfu viðtalsins má finna á mbl.is. Allt það besta úr listaheiminum - Listahátíð í Reykjavík haldin 1.-19. júní - Þemað „Hinum megin“ má skilja á marga vegu - Listrænn stjórnandi hátíðarinnar segist trúa á mátt listarinnar til þess að gera heiminn betri Morgunblaðið/Hákon Hátíðin „Stefnan er að reyna að hafa dagskrána þannig að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi en ekki þó þannig að allt sé fyrir alla,“ segir Vigdís. Aðgengi Dansverkið Every Body Electric fellur vel að áherslum skipuleggj- enda hátíðarinnar um aðgengi og sýnileika ýmissa minnihlutahópa. Sólarströnd Litháísku listakonurnar á bak við Sun & Sea hlutu Gullna ljón- ið á Feneyjatvíæringnum 2019. Þær sýna verk sitt í Hafnarhúsi. Tónlistarmaðurinn Justin Timber- lake hefur selt safn laga sinna fyrir hátt í þrettán milljarða íslenskra króna eða rúmar 100 milljónir bandaríkjadala. Fyrirtækið Hip- gnosis Song Management, með að- stoð fyrirtækisins Blackstone, hef- ur fest kaup á lagasafninu en það býður fjárfestum sínum að hagnast á höfundarréttargreiðslum vin- sælla laga eftir ýmsar stórstjörnur. Samningurinn við Timberlake gefur kaupendunum fulla stjórn á rétti söngvarans á tvö hundruð lögum sem hann hefur samið, einn eða með öðrum. Um er að ræða lög sem hann samdi á meðan hann var meðlimur ’NSync og síðar þegar hann starfaði sjálf- stætt. Hann er þekktur fyrir lög á borð við „Cry Me a River“, „Rock Your Body“, „Sexy Back“, „My Love“, „What Goes Around … Comes Around“, „Suit & Tie“ og „Mirrors“. Söngvarinn segist spenntur að vinna með Hipgnosis og Merck Mercuriadis, stofnanda fyrirtækisins. Justin Timberlake selur lagasafn sitt Justin Timberlake Indverski rithöfundurinn Geetanjali Shree og þýðandinn Daisy Rockwell hlutu alþjóðlegu Booker-verðlaunin fyrir skáldsöguna Tomb of Sand. Verðlaunin eru veitt fyrir alþjóðleg verk sem þýdd hafa verið á enska tungu. Þetta er í fyrsta sinn sem verðlaunin eru veitt bók sem þýdd er úr hindí og í fyrsta sinn sem bók skrifuð á einu af þeim tungumálum sem töluð eru á Indlandi verður fyrir valinu. Tomb of Sand fjallar um áttræða konu sem leggst í þunglyndi þegar eiginmaður hennar deyr en rís síðan upp úr því og hefur nýtt líf. Hún ferðast til Pakistans og horfist þar í augu við áföll unglingsáranna þegar Indlandi var skipt upp. Þar lærir hún að meta upp á nýtt hvað það er að vera móðir, dóttir, kona og femínisti. Frank Wynne, formaður dóm- nefndar verðlaunanna, segir bókina einstaklega fyndna og skemmtilega. Sagan sé létt og heillandi, þrátt fyrir efniviðinn. Hin indverska Shree hefur skrifað þrjár skáldsögur og nokkur smá- sagnasöfn en Tomb of Sand er fyrsta bók hennar sem gefin hefur verið út í Bretlandi. Rockwell er myndlist- arkona, rithöfundur og þýðandi frá Bandaríkjunum sem hefur þýtt tölu- vert bæði úr hindí og úrdú. Ljósmynd/Wikipedia/R schein Höfundurinn Geetanjali Shree. Tomb of Sand, þýðing úr hindí, hlaut alþjóðlegu Booker-verðlaunin

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.