Morgunblaðið - 28.05.2022, Page 45

Morgunblaðið - 28.05.2022, Page 45
MENNING 45 MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 28. MAÍ 2022 Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Verk mín fjalla um lífið, allt frá hinu smæsta til hins stærsta,“ segir Margrét H. Blöndal sem opnar sýninguna Liðamót / Ode to Join í Listasafni Íslands í dag kl. 15. Aðspurð segir Margrét sýninguna búna að vera ár í vinnslu, en hún samanstendur af teikningum gerðum með olíu og litadufti og þrívíðum skúlptúrum sem Margrét vann beint inn í rými sýningar- salarins. „Ég vinn alltaf út frá rýminu sem ég sýni í hverju sinni. Þegar ég skoðaði salinn hér fann ég strax að ég vildi gera ákveðnar breytingar til að hleypa birtunni inn og einnig breyta strúktúr hans með nýjum veggjum til að draga úr samhverfunni í rýminu og hafa þann- ig áhrif á hreyfingu áhorfenda um salinn,“ segir Margrét og bendir á að þegar hún und- irbúi sýningu sé það líkt og að undirbúa „in- tensívan performans“ eða átak í ætt við strembna fjallgöngu eða flutning á krefjandi tónverki. Óþekktin getur gert mann óöruggan „Þetta er hægur undirbúningur og mjög ósýnileg vinna. Ég er stöðugt að horfa í kring- um mig og skoða hreyfingu og taktinn í tilver- unni. Ég kóreografera það síðan í rýmið, sem er alltaf ákveðin glíma,“ segir Margrét og bendir á að glíman felist í því að stilla tví- og þrívíðu verkin af þannig að rétt heildaráhrif skapist. „Verkin þurfa að standa jafnfætis. Það er að segja teikningar sem objektar og skúlptúrar sem teikningar þannig að skynj- unin renni að ákveðnu leyti saman,“ segir Margrét og tekur fram að verk hennar séu undir áhrifum frá líkamanum, hreyfingunni og hverfulleika hins lifandi, hvort heldur það eru manneskjur, dýr eða plöntur. Margrét er í framhaldinu spurð nánar út í vinnuferli sitt. „Ég byrja oft að vinna út frá hlutum sem ég þekki, en svo finn ég fljótt að það er ekki nóg og þá kemur óþekktin upp. Óþekktin getur gert mann óöruggan, því í henni felst áhætta og jafnvel angist. Þá verður maður að trúa og treysta því að komast í gegnum angistina á stað sem hugann óraði ekki fyrir að væri til en er réttur,“ segir Mar- grét og viðurkennir fúslega að það fylgi því mun meiri pressa að vinna beint inn í sýning- arrými en að skapa verk á vinnustofunni, sem sé hennar griðarstaður. „Í sýningarsalnum er tíminn afmarkaður og við það kristallast svo skýrt öll blæbrigði vinnuferils listamannsins.“ Upptekin af ytri og innri hreyfanleika Á vef Listasafns Íslands segir að verk Mar- grétar „eru handan orða og búa yfir fegurð og yfirskilvitlegu aðdráttarafli enda hefur inn- setningum hennar verið líkt við tónaljóð“ og bent á að enski hluti titilsins, Ode to Join, sé „óður til tengingar þar sem hver skúlptúr eða teikning verður eins og ein eining í pólí- fónísku tónverki“, eins og segir í kynningar- efni. „Mér finnst það að hafa enska titilinn ekki beina þýðingu víkka út hugmyndina að titl- inum. Öll viljum við tilheyra einhverju. Sama hversu miklir einfarar við erum þá verðum við og viljum alltaf tilheyra einhverju. Í sýn- ingunum mínum er það alltaf þannig að það er ekki hægt að taka einhvern einn þátt í burtu án þess að heildin riðlist. Það er svo hárfínt stillt að ef ég fjarlægi eða færi eitt- hvað til þá hrynur allt kerfið. Þetta er því óð- urinn til heyratilsins,“ segir Margrét. Spurð nánar út í titil sýningarinnar segir Margrét hann hafa komið til sín. „Fyrir mig er rýmið annars vegar og titillinn hins vegar sá fasti grunnur sem ég vinn út frá þegar kemur að sýningum. Það sem mér finnst áhugavert við liðamót er að þar sem þrír eða fleiri liðir koma saman verður til hreyfing,“ segir Mar- grét og tekur fram að hún sé ekki aðeins upp- tekin af líkamlegri hreyfingu heldur ekki síður innri hreyfingu á borð við gleði, angist og önn- ur hughrif. „Þetta er líka mót liða í þeim skiln- ingi að það eru mismunandi lið sem mætast. Vegna þess að sýningin samanstendur af ólík- um eigindum. Verkin 20 sem á sýningunni eru mynda hópa og eftir því sem maður gengur um salinn getur maður alltaf séð mismunandi sjónarhorn og það eru ólík lið sem raða sér saman,“ segir Margrét og bendir á að þar megi sjá ákveðna samsömun við samfélagið þar sem fólk skipar sér iðulega í ólíka flokka. Verk sem læðast aftan að manni Í ljósi þessarar samfélagslegu vísunar sýn- ingarinnar liggur beint við að spyrja Margréti hvort hún líti á verk sín og sýningar sem póli- tískar. „Öll verk eru pólitísk. Ef áhorfandi gengur inn í sýningarsal og sýning fær við- komandi til að horfa örlítið öðruvísi á heiminn þá ertu að hafa áhrif með listinni þinni. Í verk- um mínum fjalla ég um tilbrigði lífsins. Í verk- um mínum safna ég saman ólíkum eiginleikum lífsins. Þarna birtist ólga, jafnvægi, fegurð samfara einhverju sem er óþægilegt, klunna- legt og á mis. Um leið og mér finnst vera kom- in regla inn í rýmið þá reyni ég að sveigja hlutum frá, af því að þannig er lífið. Stundum eru verk þannig að þau hrópa ekki á mann heldur læðast aftan að manni eftir því sem maður sér þau oftar. Þá seitla þau inn og leiða mann inn í sjónarhorn ein- eða flertölu sem áður voru manni hulin. Verk sem láta lítið yfir sér í fyrstu geta lymskulega læðst aftan að manni og smogið inn í formi eins konar áhrifa- valda,“ segir Margrét að lokum. „Verk mín fjalla um lífið“ - Margrét H. Blöndal opnar sýninguna Liðamót / Ode to Join í Listasafni Íslands í dag - „Um leið og mér finnst vera komin regla inn í rýmið þá reyni ég að sveigja hlutum frá, af því að þannig er lífið“ Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Tilbrigði „Í verkum mínum fjalla ég um tilbrigði lífsins,“ segir Margrét H. Blöndal. Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.is „Það er innbyggt í okkur að vilja setja hluti í kerfi til að skoða þá, greina og stjórna. Á sama tíma upplifum við öll að þegar hlutir eru orðnir of stífir og strangir þá förum við að veita kerf- inu viðspyrnu eða viðnám og reynum að brjóta hluti upp,“ segir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir sem opnar sýninguna Ekkert er víst nema að allt breytist/The Only Constant is Change í Listasafni Íslands í dag, laugardag, kl. 15. Á vef safnsins segir að skoða megi sýninguna „sem hugleiðingu og jafnvel óð listakonunnar til þeirrar kerfishugsunar sem einkennt hefur verk hennar til þessa en þó í víðara samhengi. Samhliða þróun á eigin hugmyndakerfi beinir Ingunn nú einnig sjónum sínum að þeim tækni- legu og hugmyndafræðilegu kerfum sem stýra, leynt og ljóst, mannfólkinu og heiminum í heild. Hvort sem um ræðir algóritma og kóða, eða litið er til pólitískra kerfa, fjármálakerfa, eða per- sónulegt vafur um netið er grandskoðað, þá veltir verkið Ekkert er víst nema að allt breytist upp spurningum um hver sé við stjórnvölinn og hver áhrif og forráð einstaklingsins raunveru- lega séu.“ Óljóst hver sé aflvaki verksins Aðspurð segist Ingunn hafa unnið innsetn- ingu sína beint inn í rými Listasafnsins og sé m.a. að skoða aðkomu áhorfenda þar sem óljóst sé hver sé aflvaki verksins hverju sinni. „Úti á gólfi er ég með 32 frístandandi ramma af ýms- um stærðum sem mynda geómetrískt mynstur í rýminu og minna á völundarhús. Ég er með níu einingar af þráðum sem ferðast frá gólfi og upp í loft keyrðir áfram af mótorum. Síðan eru pí- anóstrengir sem aðrir mótorar slá á með reglu- bundnum hætti. Loks eru málaðir fletir á veggj- unum. Það eru því mismunandi element inni í rýminu. Hvert element fylgir ákveðnum takti. Áhorfendur hafa áhrif á sum þessara elementa því það eru hreyfiskynjarar í rýminu sem setja sumt af þessu í gang, meðan annað fylgir rytma verksins. Einnig má nefna að lýsingin er breyti- leg, þannig að allt í rýminu er alltaf að fylgja einhverjum takti og yfir daginn er alltaf eitt- hvað að breytast og hreyfast, en samt á svo mildan hátt að áhorfandinn áttar sig ekkert endilega á því hvað það er sem er að breytast eða hvenær,“ segir Ingunn en blaðamaður náði tali af henni fyrr í vikunni þegar undirbúningur sýningarinnar stóð sem hæst. Ingunn bendir á að við manneskjurnar sköp- un kerfi til að hjálpa okkur að rata um heiminn og skilja hann. „Á sama tíma náum við aldrei að skilja allt. Það eina sem er gefið í lífinu er að það er alltaf einhver óvissa,“ segir Ingunn og tekur fram að óvissan í sýningu hennar felist í því að áhorfandinn geri sér ekki almennilega grein fyrir því hvað hann hefur áhrif á og hvað ekki. „Af því hann veit ekki hvaða hreyfingu hann er að setja af stað og hvaða hreyfing bundin er í verkinu,“ segir Ingunn og bendir á að hún vinni í verkum sínum oft með ákveðnar sjónhverf- ingar. „Það er oft þannig í verkunum mínum að það eru fínir þræðir og málaðir fletir á veggj- unum þannig að þegar allt er komið saman þá byrja hlutirnir aðeins að víbra þannig að þú ert ekki alveg viss hvort þú sért að sjá eitthvað sem er raunverulegt eða hvort það er sjónhverfing. Svo er ég líka að virkja skynjun áhorfandans og búa til skynhrif í rýminu.“ Spurð nánar um vinnuferli sitt segist Ingunn, þegar hún geri innsetningar, alltaf hugsa hlut- ina út frá rýminu sem hún muni sýna í. „Ég skissa hugmyndirnar upp í þrívíddarmódeli í tölvu og bý síðan til módel úr raunverulegu efni,“ segir Ingunn og tekur fram að það sé allt- af eitthvað sem komi á óvart í ferlinu þar sem tölvan nái aldrei alveg að fanga rýmið. Ekkert sem helst óbreytt „Þegar maður teiknar í tölvu getur hún blekkt mann til að halda að hlutir gangi upp, því það lítur vel út í tölvunni. Svo þegar maður kemur á staðinn upplifir maður með líkamanum hlutföllin öðruvísi. Á sama hátt er alltaf snúið að fanga réttu birtuna. Það verða því alltaf ein- hverjar breytingar á staðnum og ég skil eftir ákveðnar ákvarðanir þangað til ég er kominn á staðinn. Sem dæmi þá er ég enn að pæla í og móta fletina sem ég mun mála á veggina. Það er ekki hægt að plana alveg allt fyrir fram, en auð- vitað reynir maður að plana eins mikið og hægt er því maður hefur bara takmarkaðan tíma í rýminu til að vinna.“ Ekki er hægt að sleppa Ingunni án þess að spyrja um titil sýningarinnar. „Titillinn vísar til þess að við náum aldrei algjörri yfirsýn yfir lífið. Það eina sem er alveg víst í lífinu er að það er alltaf einhver óvissa og hlutirnir að breytast. Hvort sem við horfum til hins agnarsmá eða risastóra þá er ekkert kjurrt; minnstu frumur eldast og alheimurinn þenst út. Lífið er breyt- ing. Oft er sagt að dauðinn sé eina kyrrstaðan, en á sama tíma er það svo að þegar við deyjum þá byrjar líkaminn að brotna niður. Þannig að í raun er ekkert sem helst óbreytt,“ segir Ingunn og tekur fram að tilvistarlegar spurningar hafi með tímanum smám saman fengið aukið vægi í list hennar. „Hér áður fyrr hugsað ég frekar formrænt og abstrakt, en svo eru tilvist- arspurningar að verða sífellt meira áberandi. Meðal þeirra spurninga sem ég hef velt fyrir mér er hversu miklu við stjórnum í lífinu. Það er alltaf ástæða fyrir öllu, en við vitum ekki alltaf hver ástæðan er, því við vitum ekki inn í hvaða kerfi við erum að ganga.“ „Náum aldrei algjörri yfirsýn“ - Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir opnar sýninguna Ekkert er víst nema að allt breytist/The Only Constant is Change í Listasafni Íslands í dag - „Það er innbyggt í okkur að vilja setja hluti í kerfi“ Morgunblaðið/Kristinn Magnússon Plana „Það er ekki hægt að plana alveg allt fyrir fram,“ segir Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir.

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.