Morgunblaðið - 14.06.2022, Blaðsíða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 14. JÚNÍ 2022
Ragnhildur Þrastardóttir
ragnhildur@mbl.is
Danshöfundurinn og listakonan
Sigríður Soffía Níelsdóttir hefur
marga fjöruna sopið: Flakkað með
dansverk um landið, stundað nám
við sirkusskóla í Brussel, troðið upp
í Frakklandi og víðar í Evrópu og
hannað flugeldasýningar í Reykja-
vík og Barcelona, svo fátt eitt sé
nefnt.
Íslenskur líkjör sem hún fram-
leiðir í samstarfi við Foss Distillery
og ilmur sem hún skapaði ásamt
Lilju Birgisdóttur eru nýjustu verk
Sigríðar Soffíu og ganga þau bæði
undir vörumerki Eldblóma. Þrátt
fyrir að viðfangsefni Sigríðar
Soffíu, sem er nýjasti gestur Dag-
mála, séu fjölbreytt eiga þau sér öll
sameiginlega rót: Dansinn.
Í þættinum fer Sigríður Soffía
meðal annars yfir ferilinn. Tólf ára
byrjaði hún í dansi þegar hún
fylgdi vinkonu sinni í djassballett.
Aðspurð segir Sigríður Soffía að
hún hafi ekki endilega ætlað sér að
verða atvinnudansari og ákvað hún
að fara í Menntaskólann í Reykja-
vík vegna þess að hún var áhuga-
söm um stjarneðlisfræði. Leiðin lá
þó ekki í þá grein heldur fór Sigríð-
ur Soffía í Listaháskólann eftir út-
skrift úr MR. Þegar hún var í þann
mund að klára námið í LHÍ barst
henni afdrifaríkt starfstilboð um að
dansa í sýningu hjá Ernu Ómars-
dóttur, sem nú starfar sem list-
rænn stjórnandi Íslenska dans-
flokksins, í Frakklandi.
„Þetta var og er stærsta tæki-
færi lífs míns. Ég gleymi aldrei
símtalinu þegar hún hringdi í mig,“
segir Sigríður Soffía og minnist
þess að hún hafi verið í matsal LHÍ
þegar símtalið barst.
Hún dansaði með danshópi Ernu,
Shalala, í um fjögur ár og ferðaðist
með þeim um Evrópu. Á sama tíma
dansaði Sigríður Soffía í verki eftir
belgískan höfund og söng í óperu í
Frakklandi.
„Þetta var allt sem mann dreym-
ir um sem einhvern lítinn bóhem úr
LHÍ. Á einhverjum geggjuðum
rauðvínsbörum að hlusta á djass,
fara á leik- og danssýningar á
hverju einasta kvöldi,“ segir Sigríð-
ur Soffía um reynsluna. Þó henni
hafi liðið vel á meginlandinu, þyrsti
hana í að komast til Íslands og
breiða út samtímadansinn. Út á
land fór hún með sólóverk sem hún
sýndi 32 sinnum, þar af einungis
þrisvar eða fjórum sinnum í
Reykjavík.
„Mér fannst mjög gaman að
koma inn á mismunandi staði og
setja upp sýningu með tækni og
leikmynd og ljósum og öllu,“ segir
Sigríður Soffía. Jónas Sen tónlistar-
maður var með í för og spilaði lif-
andi tónlist á flygil undir dansinn.
En Sigríður Soffía hefur reynt
fyrir sér á fleiri sviðum listarinnar,
til dæmis hefur hún hannað flug-
eldasýningar, fyrst fyrir menning-
arnótt Reykjavíkurborgar þrjú ár í
röð. Einnig var hún fengin til þess
að standa að flugeldasýningu í
Barcelona sem var hálftíma löng og
um tvær milljónir manna fylgdust
með.
Nú hefur Sigríður Soffía hannað
verk úr blómum, líkjör og ilmvatn
sem allt er sprottið úr þeim inn-
blæstri sem hún hefur fundið í flug-
eldunum. Hún komst nefnilega að
því þegar hún hannaði sýninguna í
Barcelona að flugeldar voru upp-
runalega hannaðir „til að upphefja
náttúruna“, en flestir flugeldar eru
í grunninn hannaðir til þess að líkj-
ast trjám eða blómum.
„Það sem átti að upphefja náttúr-
una er núna byrjað að tortíma
henni. Nú erum við bara farin að
menga svo ógeðslega mikið með
ódýrri framleiðslu, ódýrri vöru,
hættulegum eiturefnum,“ segir
Sigríður Soffía, sem er ekki endi-
lega á þeirri skoðun að banna eigi
flugelda yfirhöfuð, frekar eigi að
finna jafnvægi í þeim efnum.
Hátt hlutfall af samtímadansi
Eftir að hún uppgötvaði tengingu
flugelda við blóm ákvað hún að
nota blóm sem flugeldar byggjast á
og rækta úr þeim verk sem sett var
upp í Hallargarðinum og var þar í
tvö sumur. Verkefnið hlóð sífellt
utan á sig, til dæmis þegar hún átt-
aði sig á því að öll blómin mætti
borða og væri því hægt að nota í
líkjör, „hinn fyrsta íslenska spritz“.
„Það er mjög hátt hlutfall af
samtímadansi í þessum drykk
vegna þess að [hann er gerður] úr
kóreógröfuðum blómum; þannig að
við höldum því fram að það sé
öruggt að þú munir finna fyrir
frumlegum danshreyfingum brjót-
ast út á þriðja glasi,“ segir Sigríður
Soffía. Samhliða drykknum var
hannaður ilmur og gengur hann,
rétt eins og líkjörinn, undir nafninu
Eldblóm.
Drykkurinn verður fáanlegur í
verslunum ÁTVR í haust en ilm-
vatnið er uppselt sem stendur.
Eins og farið hefur verið yfir hér
er ferill Sigríðar Soffíu afskaplega
fjölbreyttur en öll hennar verk
tengjast þó dansi.
„Allt sem ég geri kemur frá
dansi. Jú, ég er að gera líkjör en
þetta er dansdrykkur,“ segir
Sigríður Soffía.
Í þættinum nefnir hún t.a.m. að
hún hafi hannað flugeldasýning-
arnar eins og dansverk og að ilm-
urinn sem hún hannaði ásamt Lilju
sé „dansandi“.
„Allt sem ég geri er dans. Svo er
spurning hver útkoman verður,“
segir Sigríður Soffía.
Morgunblaðið/Ágúst Óliver
Danshöfundur „Allt sem ég geri er dans. Svo er spurning hver útkoman verður,“ segir Sigríður Soffía í nýjasta
þætti Dagmála. Sköpun hennar hófst líklega í drullukökubakstri á barnsaldri en hefur nú blómstrað í allar áttir.
Ljósmynd/Lilja Birgis
Eldblóm Sigríður ásamt líkjörnum sem verður fáanlegur í ÁTVR í haust.
„Allt sem ég geri kemur frá dansi“
- Fjölbreyttur ferill Sigríðar Soffíu til umræðu í nýjasta þætti Dagmála - Flugeldasýningar,
verk úr blómum, líkjör og ilmur hafa komið úr smiðju hennar - Á allt rætur að rekja til dansins
Verk sem upphaflega voru sett upp
á West End í Lundúnum og í fram-
haldi á Broadway í New York gerðu
það gott á bandarísku leiklistarverð-
laununum Tony sem afhent voru um
nýliðna helgi. Voru það The Lehman
Trilogy og Company sem sönkuðu
að sér verðlaunum og hlaut það fyrr-
nefnda verðlaun sem besta leikritið,
fyrir bestu leikstjórn og besta leik-
ara í aðalhlutverki. Höfundur verks-
ins, Ben Power, sagði í þakkarræðu
að hann hefði samið verkið sem óð til
New York og leikstjóri sýningar-
innar, Sam Mendes, sem einna
þekktastur er fyrir kvikmyndir sín-
ar, hreppti sín önnur Tony-verðlaun.
Simon Russell Beale hlaut verðlaun-
in sem besti leikari í aðalhlutverki í
leikriti. Sýningin hlaut einnig verð-
laun fyrir leikmynd og lýsingu.
Besti enduruppfærði söngleik-
urinn þótti Company og hlaut Patti
LuPone verðlaun sem besta leik-
kona í aðalhlutverki í söngleik.
Þakkaði hún sérstaklega öllu fólkinu
sem gætt hefði að öryggi þeirra sem
tóku þátt í sýningunni í faraldrinum.
Matt Doyle hlaut verðlaun sem besti
aðalleikari í enduruppfærðum söng-
leik, fyrir Company, og hlaut sýn-
ingin auk þess verðlaun fyrir leik-
mynd og leikstjórn.
Lansbury heiðruð
Verðlaun fyrir besta nýja söngleik
hlaut A Strange Loop sem hlaut alls
11 tilnefningar. Söngleikur byggður
á lögum Michaels Jacksons, MJ,
hlaut einnig verðlaun fyrir besta
aðalleikara, Myles Frost, auk
þrennra annarra verðlauna, og
Joaquina Kalukango hlaut verðlaun
sem besta leikkona í nýjum söngleik
fyrir Paradise Square. Af öðrum
verðlaunum kvöldsins má nefna að
leikkonan Angela Lansbury hlaut
heiðursverðlaun fyrir ævistarfið en
hún er orðin 96 ára og hefur hlotið
fimm Tony-verðlaun á ferlinum.
Fjölbreytni þótti einkenna Tony-
verðlaunin að þessu sinni og segir í
frétt The Guardian að sjö þeldökk
leikskáld hafi átt verk sem voru til-
nefnd. Lista yfir alla verðlaunahafa
má finna á vef verðlaunanna,
tonyawards.com.
helgisnaer@mbl.is
Frá West End yfir á Broadway
- The Lehman Trilogy og Company
gerðu það gott á Tony-verðlaununum
AFP/Angela Weiss
Hátíðarstund Höfundur og leikarar The Lehman Trilogy sem gerði það gott á Tony-verðlaunahátíðinni um nýliðna
helgi. Leikarinn Simon Russell Beale fjórði frá vinstri og leikskáldið Ben Power þriðji frá hægri með verðlauna-
gripina í höndunum. Tony-verðlaunin voru afhent í 75. sinn um helgina í borginni sem aldrei sefur, New York.