Morgunblaðið - 20.07.2022, Síða 9
FRÉTTIR 9Innlent
MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. JÚLÍ 2022
577-1515 •
Sigtryggur Sigtryggsson
sisi@mbl.is
Árlegur leiðangur Náttúrufræði-
stofnunar Íslands á Hornstrandir fór
fram dagana 19. júní til 4. júlí sl. í
þeim tilgangi að kanna ástand refa-
stofnsins og lífríkis á svæðinu, sem er
mikilvægt friðland refa. Ástand refa-
stofnsins hefur verið kannað í meira
en tvo áratugi og hefur það reynst
misjafnt eftir árum. Sum árin hefur
staðan verið góð en önnur ár varð af-
komubrestur.
„Í fyrstu leit út fyrir að ábúð refa
væri með besta móti þetta sumarið.
Refir voru sýnilegir á öllum hefð-
bundnum óðulum í austanverðri
Hornvík og litu flestir þeirra vel út,
farnir úr vetrarfeldi og heilbrigðir að
sjá,“ segir í frásögn um leiðangurinn
á vef Náttúrufræðistofnunar.
Eftir vikulangar athuganir varð
leiðangursmönnum þó ljóst að yrð-
lingar voru einungis á tveimur af 4-5
óðulum í Hornbjargi. Reyndar voru
þrjú got staðfest í Hornbjargi en á
einu grenjanna drápust yrðlingarnir
og var enginn eftir á lífi í vikulok. Á
öðru grenjanna sáust fjórir mórauðir
yrðlingar og voru þeir allir á lífi eftir
vikuna og á því þriðja voru í upphafi
sjö yrðlingar, þar af tveir af hvítu lit-
arafbrigði, en þar voru aðeins fimm
yrðlingar eftir viku síðar.
Á óðulum við sjóinn voru engin got
staðfest, eitt óðalið var tómt eða not-
að af nágrannarefum, segir í yfirlit-
inu. Innst í víkinni er greni sem ekki
hefur verið í ábúð um langa hríð og
sú var einnig staðan í ár. Í Látravík
var mórautt par með fimm mórauða
yrðlinga í nágrenni við Hornbjargs-
vita, eins og árið á undan. Hefð-
bundin greni á þessu svæði voru ekki
í notkun í ár. Sömu sögu er að segja
úr vestanverðri Hornvík, þar voru
engin greni í notkun nú en þrjú geld-
dýr héldu hins vegar til á svæðinu við
Höfn. Í Rekavík bak Höfn, Hælavík
og Hlöðuvík var betra ástand hjá ref-
um, got var staðfest á hefðbundnum
svæðum og fullorðin dýr litu vel út.
Annað lífríki var kannað og reynd-
ist gróður vera snemma á ferðinni.
Blágresið var víða í blóma en smádýr
voru lítt sjáanleg fyrstu vikuna,
mögulega sökum kulda. Það breyttist
í byrjun júlí þegar stytti upp og
grasmaðkur varð áberandi.
Fuglalífið var fjölskrúðugt og sást
mikið af bjargfugli, bæði á sjó og í
bjarginu. Mikil hreyfing var þó á
fuglinum sem gæti bent til þess að
þeir væru ekki í varpi. Hjá öðrum
tegundum var ástandið svipað og árin
á undan en líkur eru á að varp hafi
misfarist hjá mörgum tegundum að
mati leiðangursmanna. Athygli vakti
að heiðagæsir sáust inni í Hornvík og
þar var par með þrjá litla unga í lok
júní. Það er í fyrsta skipti sem teg-
undin verpir á svæðinu eftir því sem
best er vitað.
Leiðangursstjóri ferðarinnar var
Ester Rut Unnsteinsdóttir spendýra-
vistfræðingur. Auk hennar tóku þátt
í leiðangrinum þau Hidde Kressin og
Joyce Mulder frá Hollandi, Rebecca
Baker frá Bretlandi, Ingvi Stígsson
frá Íslandi, Elsa Brenner frá Banda-
ríkjunum, John Mavrikov frá Grikk-
landi, Steffi Scheer frá Þýskalandi og
Jacob Ahlberger frá Svíþjóð. Siglt
var með Sjöfn, nýju farþegaskipi Sjó-
ferða.
Yrðlingar drápust í grenjum
- Ástand refastofns-
ins og lífríkis var
kannað í leiðangri á
Hornströndum
Ljósmynd/Ester Rut Unnsteinsdóttir
Lágfóta Eitt af mórauðu dýrunum við Höfn, geldlæða sem lét sér fátt um finnast þó mikið rigndi þarna. Hún fór um svæðið tvisvar á sólarhring í ætisleit.