Morgunblaðið - 20.07.2022, Síða 13

Morgunblaðið - 20.07.2022, Síða 13
13 MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 20. JÚLÍ 2022 Fjölskylda Fuglalíf á Reykjavíkurtjörn er með miklum blóma um þessar mundir og þessi duggandarfjölskylda undi sér þar vel í gær. Duggöndin er með sjaldgæfari varpfuglum við Tjörnina. Hákon Pálsson Það hafa verið og verða alltaf til stjórn- málamenn sem hafa horn í síðu einstakra fyrirtækja eða jafnvel heilla atvinnugreina. Sumir vegna þess að þeir boða byltingu samfélagsins og þjóð- nýtingu framleiðslu- tækjanna. Aðrir vegna þess að þeir eru í leit að vinsældum – eru á veiðum eftir atkvæðum. Þar fara fremstir póli- tískir lukkuriddarar og tækifæris- sinnar. Ólíkt byltingarmönnum byggja þeir ekki á skýrri hug- myndafræði. Í sókn að lýðhylli flæk- ist hugmyndafræði fyrir. Stjórnmálamenn lýðhyggjunnar voru ekki lengi að taka við sér þeg- ar fréttir bárust um að Síld- arvinnslan í Neskaupstað hefði keypt fjölskyldufyrirtækið Vísi í Grindavík – rótgróið og glæsilegt sjávarútvegsfyrirtæki. Hátt var reitt til höggs með dyggri aðstoð fjölmiðla sem virðast hafa það í rit- stjórnarstefnu sinni að flytja fréttir sem ýta undir tortryggni og öfund í garð fyrirtækja í sjávarútvegi. Þannig er vatni veitt á myllu lýð- hyggjunnar – popúlismans. Það er umhugsunarvert að ann- ars vegar er lagst gegn því að aukin hagræðing verði í íslenskum sjávarútvegi (hagræðing sem styrk- ir samkeppnisstöðu fyrirtækjanna á hörðum alþjóðlegum markaði) og hins vegar er þess krafist að álögur á fyrirtækin verði hækkaðar stór- kostlega. Þannig er sótt að fyr- irtækjunum frá öllum hliðum. Verði lýðhyggjustefna – popúlismi lukku- riddaranna – ofan á verður hægt en örugglega grafið und- an sjávarútvegi og hann gerður að þurfa- lingi líkt og sjávar- útvegur flestra þjóða. (Við erum fljót að gleyma þeim tíma þeg- ar stjórn efnahagsmála snerist um að tryggja rekstur óhagkvæms sjávarútvegs, þar sem auðlindum var sóað með rotnu kerfi milli- færslna, bæjarútgerða og gengisfellinga, þar sem launahækkanir voru étnar upp með óðaverðbólgu). Fyrir þann sem barist hefur fyrir beinni þátttöku almennings í ís- lensku atvinnulífi eru kaup Síldar- vinnslunnar á Vísi fagnaðarefni. Fjölskyldufyrirtæki kemst í eigu al- menningshlutafélags með vel á fimmta þúsund hluthafa, – öfluga fjárfesta, lífeyrissjóði og einstak- linga. Verkefnið sem blasir við er að fjölga þeim sjávarútvegsfyrir- tækjum sem eru skráð á opinn hlutabréfamarkað – vinna að kerf- isbreytingum sem auðvelda fyr- irtækjunum og jafnvel knýja þau til að stíga skrefið til fulls og verða op- in hlutafélög. Þannig samþættast enn betur hagsmunir sjávarútvegs- ins og almennings. Gagnleg lesning Ég hef áður í skrifum um íslensk- an sjávarútveg sótt í smiðju Daða Más Kristóferssonar, prófessors í hagfræði og núverandi varafor- manns Viðreisnar. Árið 2010 vann hann greinargerð um áhrif svokall- aðrar fyrningarleiðar á afkomu og rekstur sjávarútvegsfyrirtækja. Greinargerðin var unnin að beiðni nefndar um endurskoðun á stjórn- kerfi fiskveiða. Þingmenn allra flokka, jafnt flokksfélagar Daða Más sem aðrir, hefðu gagn af því að lesa greinargerðina í heild sinni en þar segir meðal annars: „Aflamarkskerfið hefur skapað mikil verðmæti gegnum hagræð- ingu og verðmætari afurðir. Stærst- ur hluti hlutdeildarinnar í heildar- aflamarki, varanlegu veiðiheimildanna, hefur skipt um eigendur síðan kerfinu var komið á. Sá umframhagnaður sem afla- markskerfið skapaði hefur því þeg- ar verið fjarlægður að mestu úr fyr- irtækjunum með sölu aflaheimildanna. Nýir eigendur aflaheimilda hagnast ekki meira en eðlilegt er miðað við áhættuna í rekstri útgerðarfyrirtækja. Þetta takmarkar mjög tækifæri ríkisins til að auka gjaldtöku á útgerðinni án þess að það feli í sér eignaupptöku og hafi veruleg neikvæð áhrif á rekstrarskilyrði hennar.“ Okkur Íslendingum hefur tekist að byggja upp arðbæran sjávar- útveg með fiskveiðistjórnunarkerfi sem stuðlar að hagkvæmri og sjálf- bærri nýtingu auðlinda hafsins. Aðrar þjóðir sem hafa sjávarútveg í súrefnisvélum skattgreiðenda líta öfundaraugum til Íslands. Sú stað- reynd að sjávarútvegur greiðir skatta og gjöld til ríkisins, í stað þess að vera á opinberu framfæri líkt og keppinautar í öðrum löndum, hefur ekki komið í veg fyrir að tæki- færissinnar í stjórnmálum og fjöl- miðlun, geri árangurinn tortryggi- legan. Þrátt fyrir að sjávar- útvegurinn sé eina atvinnugreinin sem greiðir sérstakt auðlindagjald, er stöðugt hamrað á því að lands- menn njóti ekki „réttmætrar“ hlut- deildar í hagnaði af nýtingu auðlind- ar. Sjávarútvegurinn greiðir þriðjung af afkomu fiskveiða í veiði- gjöld, auk annarra skatta og gjalda, s.s. tekjuskatt af hagnaði. Hversu langt á að ganga? Auðvitað er fiskveiðistjórnunar- kerfið ekki gallalaust. Hið sama má segja um innheimtu veiðigjalda, ekki síst hversu langur tími líður frá lokum rekstrarárs til þess sem veiðigjöld eru lögð á og innheimt. Þessi langi tími hefur skapað jarð- veg sem hentar lukkuriddurum. Samhengið milli veiðigjalda og af- komu verður illskiljanlegt. Brimbrjótur framfara Fyrir rúmlega ári kom út skýrsla óháðra sérfræðinga um stöðu og horfur í sjávarútvegi og fiskeldi, sem unnin var að beiðni þáverandi sjávarútvegsráðherra. Niðurstaðan var skýr: Sjávarútvegur hefur verið uppspretta helstu tækniframfara og nýsköpunar í hinu íslenska hagkerfi. Árangur Íslands er einstakur þar sem við höfum tekið alþjóðlega for- ystu, ekki síst í nýsköpun og verð- mætasköpun sem tengist hinum ýmsu hliðargreinum sjávarútvegs. Möguleikar til aukinnar verðmæta- sköpunar eru gríðarlegir, sé rétt haldið á spilunum. Fyrir utan greinargerð Daða Más, sem áður er nefnd, er skýrslan gagnleg lesning fyrir þingmenn og fjölmiðlunga. Öflug sjávarútvegsfyrirtæki á grunni fiskveiðistjórnunarkerfisins hafa verið uppspretta annarra auðlinda og til hafa orðið glæsileg fyrirtæki sem eiga rætur í þjónustu við sjáv- arútveg og eru leiðandi á sínu sviði í heiminum. Þannig hefur sjávar- útvegur verið brimbrjótur tækni- framfara og nýsköpunar á síðustu áratugum. En um það vilja þau sem sækja fram á grunni lýðhyggju ekki tala. Er ekki kominn tími til þess að nálgast sjávarútveg með öðrum hætti en gert hefur verið. Spurn- ingin sem stjórnmálamenn ættu að velta fyrir sér er hvað við getum gert til að styrkja íslenskan sjávar- útveg í harðri alþjóðlegri sam- keppni. Hvernig getum við lagað regluverkið? Hvernig getum stutt við arðsemi fyrirtækjanna og þann- ig aukið sameiginlegar tekjur og lagt grunn að enn meiri fjárfestingu í nýsköpun og þróun? Hvernig eru skattar og gjöld á sjávarútveg hér á landi borið saman við helstu sam- keppnislönd? Með hvaða hætti get- um við stuðlað að skráningu allra helstu sjávarútvegsfyrirtækja á hlutabréfamarkað og byggt undir beina þátttöku almennings í at- vinnurekstri? Þetta eru sömu spurningar og eiga við um allrar aðrar atvinnugreinar. Það er miður hve margir stjórn- málamenn veigra sér við að tala með stolti um glæsileg fyrirtæki sem byggð hafa verið upp af elju og hugviti í sjávarútvegi og tengdum greinum. Hræðslan við að samfagna þegar vel gengur í sjávarútvegi hef- ur náð yfirhöndinni. Föngum tor- tryggni og öfundar stendur stuggur af velgengni og dugmiklum fram- taksmönnum. En það er ekkert nýtt. Eftir Óla Björn Kárason »Margir stjórn- málamenn veigra sér við að tala með stolti um glæsileg fyrirtæki sem byggð hafa verið upp af elju og hugviti í sjávarútvegi. Óli Björn Kárason Höfundur er alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Hræðslan við að fagna árangri

x

Morgunblaðið

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.