Norðurslóð - 21.04.2022, Blaðsíða 2

Norðurslóð - 21.04.2022, Blaðsíða 2
2 – Norðurslóð Jóna Magnea Snævarr, prófastsfrú á Völlum og síðar Dalvík fæddist á Sökku í Svarfaðardal 9. febrúar 1925. Hún lést á Dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund 8. mars 2022. Okkur tvö systkini frá Tjörn langar að minnast hennar í fáeinum orðum hér á síðum Norðurslóðar. Segja má að aldalöng vinátta hafi ríkt á milli heimilanna á Tjörn og Sökku sem einnig teygði sig yfir fjölskyldu Jónu og séra Stefáns Snævarr á Völlum á meðan þau bjuggu þar frá 1949-1968, og áfram eftir að Jóna og Stefán fluttu í Hólaveginn á Dalvík. Ekki vitum við hvenær sá siður hófst að halda gagnkvæm jólaboð á milli Sökku og Tjarnar. Vísast var það á tímum afa okkar og ömmu og hefur haldist fram á þennan dag í meir en 100 ár. Þegar Jóna var flutt í Velli var líka farið í jólaboð þangað. Frá þessum dýrðarveislum eru fyrstu minningar okkar um Jónu og æ síðan er matarilmur órofa tengdur minningu hennar í huga okkar. Bæði á Sökku og Völlum ríkti þjóðleg menning og andrúmsloft gamla sveitasamfélagsins. Þrjár kynslóðir bjuggu þar í harmónísku samkurli í þröngum húsakynnum sem voru þó meira en nógu stór og virtust alltaf getað rúmað fleiri. Jóna hélt utan um allt og alla, menn og skepnur, með sinni ásköpuðu glaðværð og dugnaði og munaði ekki um að rigga upp stórveislum fyrir allan söfnuðinn á messudögum á Völlum eða fylgja bónda sínum í messur í öðrum kirkjum, m.a. á Tjörn. Árið 1968 var prestsetrið lagt af á Völlum og fluttu þau hjón þá til Dalvíkur. Þessi flutningur í Hólaveginn reyndist happ fyrir okkur tvö því þar áttum við síðan innhlaup þann eina vetur sem við þurftum að afplána eins og hverjir aðrir nýbúar í landsprófi í Dalvíkurskóla eftir áhyggjulausa æskudaga í Húsabakkaskóla. Steinunn veturinn 1969-70 og Hjörleifur veturinn 1974-75. Mömmu og Jónu samdist svo um að hún gæfi okkur að borða hádegismat á skóladögum og veitti okkur húsaskjól þegar veður og færð hömluðu því að við kæmumst heim. Jóna reyndist okkur ekki einasta frábær matmóðir, sem hafði unun af að gleðja og gæla við bragðlauka okkar, heldur líka kær félagsskapur. Börnin hennar þrjú, Stebba Rósa, Inga Fríða og Gulli Valdi voru flogin úr hreiðrinu þegar hér var komið sögu og e.t.v. vorum við enn meiri aufúsugestir fyrir vikið. Jóna var sérlega glaðsinna og hjartahlý og það ríkti einhver kankvísleg spaugsemi á heimilinu sem litar mynd og minningu Jónu og reyndar alla fjölskyldu hennar. Það var vissulega mikill missir að Jónu og séra Stefáni af Dalvíkinni þegar þau fluttu suður, en Hólavegurinn var einn af föstum innlitsstöðum Sigríðar á Tjörn og hennar fylgifiska á Dalvíkinni. Þar var alltaf hægt að stóla á að fá gott kaffi, kökur, hressilegar og hlýjar móttökur. Mamma mat Jónu Snævarr sem eina af sínum bestu vinkonum. Vinskapur þeirra breyttist ekkert við það að þau hjónin flyttu suður því heimsóknir til Jónu voru fastur dagskrárliður Sigríðar á Tjörn í suðurferðum hennar. Að leiðarlokum þökkum við Jónu fyrir ævarandi vináttu og tryggð hennar við okkur Tjarnarfjölskylduna og vottum fjölskyldu hennar einlæga samúð við fráfall elskaðrar móður, tengdamóður, ömmu og langömmu. Hjörleifur Hjartarson & Steinunn Hjartardóttir Bakhjarlar Þessir styrkja útgáfu Norðurslóðar Norðurslóð Útgefandi: Spássía ehf, Bjarkarbraut 25 620 Dalvík. S. 8461448. Netfang: nordurslod22@gmail.com Ritstjóri og ábyrgðarmaður: Jón Bjarki Hjálmarsson Umbrot: Björk Eldjárn Kristjánsdóttir & Jón Bjarki Hjálmarsson Prentvinnsla: Prentsmiðjan Litróf Hagprent ehf., Reykjavík Í síðasta blaði sögðum við frá og birtum efni upp úr dagbókum og bréfum Árna Jónssonar á Þverá (f. 1885 d. 1923) sem afhent var fyrir skemmstu af afkomendum á Héraðsskjalasafn Akureyrar. Að þessu sinni er gripið niður í þjóðsögu sem Árni hefur fært í letur innan um dagbókarfærslur frá árinu 1905. Þar má einnig finna lausnir á gátum sem skólapiltar Hólaskóla virðast hafa skemmt sér við að ráða ásamt jarðalýsingum á fáeinum Skagfirskum jörðum svo eitthvað sé nefnt. Grásteinninn á Hofi. Svo hagar til á Hofi í Svarfaðardal, að stór melhóll er stutt fyrir ofan bæinn, stendur þar stór steinn, sem nefndur var grásteinn. Þegar þessi saga gjörðist, bjuggu á Hofi hjón þau er hjetu Sveinn og Elín, mestu atkvæða-hjón á sínum tíma; þau áttu börn saman. Það var venja að lofa börnunum á hverjum sumardegi fyrsta, upp hjá grásteini til að leika sjer. Einn sumardag fyrsta þegar börnin voru komin upp á hólinn og áttu stutt eptir að steininum, sjá þau hvar kvenmaður situr sunnan undir steininum og er að leika sér [...] Segja börnin þá sín á milli, að þar sjé leiksystir þeirra komin, er þau höfðu átt von á frá Hofsá, næsta bæ fyrir sunnan, fór þau þá að hlaupa. Rjétt í þessari svipan lítur stúlkan við og sjér börnin, stekkur hún þá á fætur með flýti miklum, eru þá börnin komin all nærri steininum; fóru þau þegar að elta stúlkuna, en misstu sjónar af henni rjétt [...] við stein, sem er skammt fyrir ofan grástein. Höfðu nú börnin þetta fyrir visst, að stúlka þessi hefði verið huldukona og farið inn í steininn. Þessi saga veit jeg með vissu að er sönn, því móðir mín sagði mér hana, eptir móðir sinni, sem var ein af börnunum er sá stúlkuna. Geta má þess sögunni til styrktar að aldrei máttu börnin ganga upp um grástein, kasta smásteinum í hann eða aðhafast annað þvílíkt. Árni Jónsson Grásteinn á Hofi úr fórum Árna Jónssonar á Þverá Jóna M. Snævarr 9. febrúar 1925 - 8. mars 2022 Göngur og réttir. Landbúnaðarráð samþykkti á 144. fundi sínum að fyrstu göngur fari fram venju samkvæmt aðra helgina í september þann 9-11. Gert er ráð fyrir því að seinni göngur verði viku síðar. Stóðgöngur verða haldnar dagana 30. sept. - 1. okt. Á þeim sama fundi lýsti ráðið því yfir að það væri algerlega mótfallið ákvörðun núverandi sveitastjórnar um að fella landbúnaðarráð inn í umhverfisráð eftir næstu kosningar. Mikill viðbúnaður var þegar snjóflóð féll í Skeiðsfjalli í Svarfaðardal þann 7. apríl sl. Þrír Bandaíkjamenn lentu í flóðinu, einn þeirra lést. Annar hinna tveggja var lengi þungt haldinn á sjúkrahúsi en samkvæmt heimildum Norðurslóðar er sá á batavegi en framundan langt endurhæfingarferli. Þriðji maðurinn slasaðist lítillega miðað við aðstæður. Fréttahorn BRIMARSBRÚ ART-INN GALLERY BRIMARSBRÚ ART-INN GALLERY BRIMARSBRÚ ART-INN GALLERY

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.