Norðurslóð - 21.04.2022, Blaðsíða 3

Norðurslóð - 21.04.2022, Blaðsíða 3
Norðurslóð – 3 Sendir íbúum Dalvíkurbyggðar og landsmönnum öllum kærar kveðjur í tilefni sumarkomu Óskum íbúum Dalvíkurbyggðar gleðilegs sumars Óskum íbúum Dalvíkurbyggðar gleðilegs sumars og þökkum fyrir liðinn vetur Óskum íbúum Dalvíkurbyggðar og landsmönnum öllum gleðilegs sumars Ég er borinn og barnfæddur Dalvíkingur og hef lagt minn skerf til samfélagsins. Stundum kom það upp í hugann að flytja eitthvert annað þegar upp komu ýmis góð tilboð en ég hætti alltaf við. Ég vildi vera hér og hvergi annars staðar. Mér fannst þetta vera minn staður og mitt fólk. Ég byrjaði snemma að vinna eins og algengt var og þótti sjálfsagt í þá daga. Ég er málarameistari, rak fyrirtæki í mörg ár og það eru ansi mörg húsin hér í bæ sem ég hef málað, bæði íbúðarhús og atvinnuhúsnæði. Ég var ekki gamall þegar ég lærði og gerðist sjúkraflutningamaður. Það var bæði sár og undarleg tilviljun sem réði því. Var ég í því starfi og þjónaði samfélaginu hér sem sjúkraflutningamaður í u.þ.b. þrjátíu ár. Ég hef í gegnum allan þennan tíma komið að fjölmörgum hræðilegum slysum og oft þurft að sinna og reyna að bjarga fólki sem ég þekkti mjög vel og þótti vænt um. Í fyrsta sinn sem mér var boðin áfallahjálp var eftir að ég bjargaði lífi ungs drengs í sundlaug Akureyrar. Til minningar um þessa björgun á ég viðurkenningarskjal og heiðursmedalíu og var ég heiðraður á Akureyri. Þeir létu mig finna að þeim þótti þetta þakkarvert. Þeir eru svo ófáir Dalvíkingarnir og aðrir reyndar líka sem ég hef sungið yfir síðasta spölinn. Það er þakklátt verk. Ég starfaði í kirkjukórnum til fjölda ára og er enn í karlakór sem tekur að sér að syngja á jarðarförum. Árið 2002 bauðst mér starf í Dalvíkurskóla sem stuðningur við barn sem var frá Kosovo. Eftir að flóttamennirnir fluttu til Reykjavíkur bauðst mér að vinna áfram í Dalvíkurskóla því þar vantaði myndmenntakennara. Ég þáði þá stöðu og naut mín vel í kennslunni. Nemendur og starfsfólk skólans tóku mér afar vel. Eftir fjögur ár í kennslunni losnaði staða húsvarðar við skólann og ég ákvað, ekki síst vegna hvatningar frá yfirmönnum skólans, að sækja um. Ég fékk stöðuna og iðnmenntunin kom sér þá afar vel þar sem sinna þarf ótal mikilvægum störfum því tengdu. Þar til fyrir u.þ.b. þremur árum hef ég sinnt húsvarðarstörfum af metnaði og samviskusemi. Þann 1. apríl árið 2019 var ég boðaður til sveitarstjóra Dalvíkurbyggðar sem tilkynnti mér að mitt starf væri í uppnámi vegna skipulagsbreytinga og að leggja ætti niður starf húsvarðar. Þetta átti við þrjú önnur störf á vegum bæjarins. Þessi orð hennar komu mér algjörlega í opna skjöldu því hún sagði jafnframt að þetta hefði ekkert með mig eða mín störf að gera, hún gæti ekki sett út á mín störf. Samt er það fast í huga mér þegar hún sagði: „Áttu ekki bara þrjú ár eftir í vinnu?“ Mjög óviðeigandi fannst mér. Nei, bæjarstjórnin var búin að ákveða, án þess að ræða við einn eða neinn innan veggja skólans (eftir því sem mér var sagt af yfirmönnum mínum), að stofna ætti „deild“ sem sjá skyldi um allt sem við kom starfi húsvarðar. Skipulagsbreyting til þess að bæta þjónustu við stofnanir bæjarfélagsins. Eftir höfðinu dansa limirnir og enginn innan þessarar nefndar, að sveitarstjóranum meðtöldum, kom í skólann til að ræða við okkur starfsfólkið eða kynna sér hvort þetta væri svo góð hugmynd. Nei, búið var að taka ákvörðun og ég varð að svara innan fjögurra daga hvort ég vildi prófa að sækja um í þessari nýju deild. Ekki var farið að reglum þarna. Vegna ólöglegra uppsagna þurftu bæjaryfirvöld að greiða mér og hinum bætur og viðurkenna þar með mistökin. Þeim var oftar en einu sinni boðið að bakka með aðgerðirnar en það var hundsað. Ég veit að fólki er sagt upp störfum og alltaf má búast við því en uppsögnin verður að fara eftir lögum og reglum og af virðingu við fólk. Bæjarstjórn gat ekki rökstutt þessa ákvörðun sína sem hefði ekki átt að vera neinni bæjarstjórn ofviða. Þessar uppsagnir kostuðu bæjarfélagið peninga sem hefði mátt nota í eitthvað skynsamlegra. Skipulagsbreyting sem bætti ekki þjónustu við skólann, það eitt er víst og staðfest af mörgum innan veggja hans. Börnin fóru að Ráðhúsinu og mótmæltu uppsögn húsvarðar en voru rekin til baka og ekkert á þau hlustað. Menn fóru bara í fýlu og sökuðu starfsmenn skólans um að senda börnin. Starfsfólk mótmælti einnig oftar en einu sinni en ekki var hlustað. Hvers vegna lá svona mikið á? Mátti ég ekki klára minn starfsferil með reisn? Ekki var það til að spara peninga að koma mér frá, svo mikið veit ég. Þetta var högg og það sem hefur hjálpað mér er að ég á sterka fjölskyldu sem stendur þétt við bakið á mér og ég á vini sem hafa einnig veitt mér mikinn styrk. Ég hef enn áhyggjur. Það er ekki lengur húsvörður í 100% stöðu og eðlilega er þá væntanlega ekki lengur hægt að sinna öllu því sem þarf að gera strax? Það bitnar eðlilega á viðhaldi? Mér er hreint ekki sama því innanhúss eru börn sem mér eru kær og frábært starfsfólk sem eru vinir mínir. Einhver hafði nefnt það að ekki væri húsvörður á Krílakoti og Árskógsskóla. En mátti þá ekki ræða það? Þurfti það að bitna á Dalvíkurskóla og fólkinu þar? Sveitarstjóri talaði um að bæta ætti þjónustu við stofnanir. Ekki tókst það vel. Starfsmenn skólans hafa reynst mér vel og er ég endalaust þakklátur fyrir þeirra stuðning. En alltaf þegar svona mál koma upp þá skiljast sauðirnir frá höfrunum. Ég veit og skil í dag hverjir eru mínir traustustu vinir. Ég spyr mig um mannauðinn. Viljum við ekki hafa fólk sem vinnur sitt starf af metnaði og elju? Ég er ekki maður sem ber mínar tilfinningar á torg eða hampa eigið ágæti. Alls ekki. Ég var ekki bara húsvörður. Ég mætti nemendum með virðingu og tók þau sem áttu jafnvel erfitt með mér í verkefni svo þau fundu til stolts og gleði. Ég veit það því ég á marga unga vini í dag sem hafa engu gleymt og láta mig vita af því. Ég veit að það var ekki í starfslýsingu minni en ég tók heldur ekkert fyrir það og það bitnaði ekki á mínum störfum. Ég sinnti líka þeim sem slösuðust og kom sjúkraflutningamenntunin og reynsla mín að góðum notum þar. Stjórnendur skólans leituðu mjög oft til mín. Þessi framkoma sveitarstjóra og meirihlutans er þeim til vansa. Það er ljótt að koma svona fram við fólk sem ekki hefur neitt af sér gert annað en að þjóna þessu annars góða bæjarfélagi af trúmennsku og heiðarleika. Verst að ég er ekki sá eini sem hefur fengið kaldar kveðjur og miður góða framkomu frá þeim. Ég bið ekki um vorkunn og snýst þessi pistill minn ekki um það heldur snýst hann um að benda á að stjórnsýsla sveitarfélaga, þar á meðal Dalvíkurbyggðar, er vandasamt verk í almannaþágu og verið er að sýsla með almannafé. Mér fannst rétt að mín hlið kæmi fram og var hvattur til þess að segja frá. Einar Arngrímsson Vegna óvandaðra stjórnsýsluhátta núverandi sveitarstjórnar Dalvíkurbyggðar síðastliðið kjörtímabil Undirrituðum var sagt upp störfum árið 2019 vegna skipulagsbreytinga

x

Norðurslóð

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Norðurslóð
https://timarit.is/publication/1253

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.