Sjómannablaðið Víkingur - 01.03.2015, Síða 33
Sjómannablaðið Víkingur – 33
Við netabætingar
er betra að hafa
góðan vasahníf
við höndina.
Ljósmynd:
Ásgrímur Ágústsson
A ð vetrarlagi á árunum 1958 og 1959 var ég á sjóvinnu-
námskeiðum, sem Tómstunda- og æskulýðsráð Reykja-
víkurborgar hélt fyrir unglinga. Lærði maður þar að
splæsa, hnýta hina ýmsu hnúta, ríða net og bæta. Einnig lærði
maður kompásrósina utan að, og fleira, sem mætti verða ung-
lingum að gagni síðar á lífsleiðinni. Tilgangurinn var auðvitað
sá að byggja upp þekkingu fyrir þá, sem hefðu kannski seinna
áhuga á að gera sjómennsku að ævistarfi. Ég hef alla tíð búið
að þessu, þótt maður hafi ekki starfaði nema stuttan tíma á
sjó. Ekki síst hefur margt af því sem gerðist á sjó eða var sagt
um borð, setið í manni allar götur síðan og sumt meira segja
grafið sig í undirmeðvitundina, þótt maður hafi ekki áttað sig
á því fyrr en löngu seinna, jafnvel áratugum síðar. Segi ég hér
frá einu slíku þegar atvik sem mókt hafði í undirmeðvitund-
inni braust upp á yfirborðið.
Hnífurinn og hóran
Sumarið 1964 var ég háseti Karlsefni RE 24. Eitt sinn þegar verið
var að bæta rifið troll hafði ég týnt vasahnífnum mínum eða hon-
um öllu heldur verið stolið, þegar ég lagði hann frá mér, en
margir voru skæðir með að hirða vasahnífa, sem þeir sáu að ein-
hver hafði lagt frá sér. Þar sem ég átti engan vasahníf til vara,
neyddist ég til að notast við fiskihníf, sem ekki voru hentugir til
að nota við netabætingar, eins og menn vita.
Kemur þá til mín bátsmaðurinn, en hann hafði fyrir sið, eins
og margir, að stinga vasahnífnum í munn sér, þegar hann var
ekki að skera úr netinu. Hafði hann lent í því óhappi að fá á sig
brot með þeim afleiðingum, að munnvikin skárust beggja vegna
og bar hann þess greinileg merki síðan. Þessi bátsmaður, sem var
hinn ágætasti maður, var af gamla skólanum og hafði starfað á
síðutogurunum í áratugi. Nú horfir hann á mig sarga netið með
fiskihnífnum með miklum hneykslunarsvip og segir: „Jónas! Sjó-
maður sem ekki á vasahníf er jafn gagnslaus og kuntulaus hóra.“
Ég skildi um leið hvert hann var að fara, enda keypti ég mér
vasahníf, strax þegar í land var komið og síðan ekki meir um það
eða hvað?
Áráttuhegðun?
Þótt ég hætti til sjós ekki löngu síðar, hef ég alltaf gengið með
vasahníf á mér og skiptir ekki máli hvernig klæðnaðurinn hefur
verið, svo framarlega sem buxurnar hafa haft vasa. Um daginn
fór ég í verslunina Ellingsen, sem alltaf hefur haft þessa sömu
ensku vasahnífa til sölu. Keypti ég þrjú stykki með það í huga,
að gott væri að eiga varahnífa ef maður glataði hníf og líka það
að aldrei er að vita hvenær svona vasahnífar hætta að fást.
Ég fór að hugsa þetta betur þegar ég kom heim og ætl-
aði að láta vasahnífana þrjá í skúffuna hjá mér, þá voru þar fyrir
tveir hnífar. Ég fór þá í fataskápinn og viti menn, hnífar í öllum
buxnavösum. Hvað í ósköpunum var eiginlega í gangi með mig?
Eftir mikla umhugsun rann þetta allt saman upp fyrir mér
með allan þennan fjölda af vasahnífum. Málið er að ég vil alls
ekki vera kuntulaus hóra. Það kemur sko ekki til mála og allur
er varinn góður til að tryggja að svo verði ekki.
Þessi ábending bátsmannsins sat þá svona hressilega í undir-
meðvitundinni og ef þú lesandi góður ert á sömu bylgjulengd og
ég, þá get ég lánað þér vasahníf – eða tvo – enda vasahnífar rán-
dýrir í dag. Hrjái þig hins vegar einhverjar aðrar ranghugmyndir
get ég því miður ekkert hjálpað en bendi á sálfræðinga.
Jónas Haraldsson
Vasahnífarnir