Austurglugginn


Austurglugginn - 20.11.2003, Page 9

Austurglugginn - 20.11.2003, Page 9
Fimmtudagur 20. nóvember AUSTUR • GLUGGINN 9 Saumaklúbbar deyja aldrei Það er að koma út ný plata með norðfirsku hljómsveitinni Súellen, sú fyrsta í þrettán ár. Blaðamaður Austurgluggans hitti félagana Steinar Gunnarsson og Guðmund R. Gíslason sem sögðu honum frá útgáfunni, sveppafárinu haustið 1986 og misheppnaðri tilraun til að fá Lindu Gray, hina orginal Súellen, í heimsókn um jólin. Fóstbræðurnir Steinar Gunnars og Gummi Gisla. „Það var kominn tími á þetta,” segir Guðmundur eða Gummi í Súellen þegar hann er inntur svara um tilurð útgáf- unnar. „Það var kannski rétt að gera þetta áður en við dræp- umstbætir Steinar við og uppsker hlátur félaga síns en þeir hafa verið saman í hljómsveitinni frá upphafi. Súellen var stofnuð árið 1983, sama ár og Bandaríkjamenn réðust inn í Grenada, Police gáfu út Every breath you take og síðast en ekki síst var sjónvarpsþátturinn Dallas einn af vinsælustu sjónvarpsþáttum í heimi. Svo vinsæll var þátturinn að nokkr- ir strákar á Norðfirði stofnuðu hljómsveit sem nefnd var í höfuðið á einni aðal söguhetjunni. „Við ætluðum að fá Lindu Gray til að koma hingað á út- gáfutónleikana sem við höldum vonandi um jólin,” segir Gummi en Linda þessi lék hina drykkfelldu og aumkunar- verðu Sue Ellen sem gift var hinum illræmda en samt við- kunnanlega olíufursta, J.R. Ewing. „Við fengum svar frá um- boðsmanninum hennar sem tjáði okkur að Linda væri upp- tekin á Broadway. Hún þakkaði gott boð enda sennilega eng- inn önnur hljómsveit í heiminum skírð í höfuðið á henn,” segir Gummi. Sennilega hefur það ekki hvarflað að hinum ungu Norð- firðingum, tuttugu árum áður að þeir ættu eftir að fá bréf frá umboðsmanni Lindu Gray! Frá umboðsmanni Lindu Gray for Kræsts seik (og nú er rétt að hafa upphrópunarmerkin þrjú)!!! Einn góðan veðurdag um haust... Það væri full einfalt að merkja Súellen með þessum al- ræmda “Eighties” stimpil því þar með væri maður að líkja þeim við Greifana, Rikshaw, Pax Vobis og aðrar hljómsveit- ir sem voru lentar á ruslahaugum rokksins um leið og þær lögðu upp laupana. Samt sem áður voru strákarnir í Súellen með sítt að aftan og með axlapúða sem þótti móðins á tím- um ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar fram að þriðja ráðuneyti Steingríms Hermannssonar. Allir nema trommarinn Jóhann Geir Árnason. Hann lítur eins út í dag og hann gerði árið 1987. „Hann hlýtur að vera geymdur í formalíni,” úrskýrir Gummi. „En ólíkt öðrum hljómsveitum á þessum árum var eitthvað á bak við umbúðirnar. „Þegar ég horfi til baka og lít yfir lagalistann á plötunni skammast ég mín ekki fyrir eitt einasta lag,” segir Steinar og Gummi botnar þetta: „Öll lögin á plöt- unni eiga það sameiginlegt að textarnir eiga sér stoð i raun- veruleikanum og þess vegna held ég að þessi tónlist hafi elst betur en margt af því sem var í gangi á þessum árum.“ „Þetta eru svona litlar sögur frá Norðfirði,” segi ég og tek Sveppalagið sem dæmi en lagið fjallaði um sveppafárið mikla á Norðfirði. „Já, það urðu allir vitlausir þetta haust,” fullyrðir Gummi og á við haustið 1986 þegar „ólíklegustu menn byrjuðu að drekka sveppasoð” og sögur af sveppanotkun ungra Norð- firðinga rötuðu í alla helstu fjölmiðla. Greinilegt er að á bak- við húmorinn sem óneitanlega er áþreifanlegur í laginu leyn- ist alvara. „Fólk vissi ekkert hvað það var að gera,” segir Steinar. „Menn drukku þetta í ótæpilegu magni og gerðu sér enga grein fyrir því að þetta var bara sýra. Eðlilega skemmd- ust margir af þessu varanlega.” Lagið fjallar þó ekki um neinn ákveðinn: „Það er algeng- ur misskilningur að Sveppalagið fjalli um einhvem ákveðinn mann. Þetta fjallar bara um þetta ástand sem var hérna sem við urðum vitni að.” Með gólftusku um hálsinn Lagið sem kom Súellen á kortið í íslenskri dægurtónlist var Símon er lasin. Símon var heldur ekki til en það leynir sér ekki á svip félaganna þegar þeir eru spurðir út í textann að einhver saga leynist þarna. “Æi, þetta er bara einhver bulltextisegir Steinar og vill greinilega ekki ræða þetta mál frekar. Hitt er hins vegar þekktara að Norðfirðingar komu laginu í efsta sæti vinsældarlista Rásar 2 með samstilltu átaki sem ekki hefur sést á Norðfirði, hvorki fyrr né síðar. Allir starfsmenn í öllum helstu fyrirtækjum staðarins hringdu í Rás 2. „Þeir hættu með símaaðferðina eftir þetta...” segir Steinar sposkur á svip og Gummi grípur fram í: „Já, við eyðilögðum þetta fyrir þeim.” Hann ljómar af hamingju en þess ber að geta að á fyrstu æviárum hljómsveitarinnar voru drengirnir á móti kerfinu enda undir áhrifum Utangarðsmanna, Killing Joke og annarra and-kerfiskalla. Þeir voru hins vegar líka undir áhrifum Smára Geirs og Ágústar Ármanns sem óneit- anlega voru orðnir kerfismenn þegar strákarnir hófu störf. Þessi áhrif hafa kannski orðið lífseigari því báðir eru þeir orðnir hluti af kerfinu sem þeir gáfu skít í fyrir tveimur ára- tugum. Annar er varðstjóri og hinn situr í bæjarstjórn. Er þetta ekki bara gangurinn? Ferð án enda Með plötunni fylgir veglegur bæklingur með myndum og stuttu æviágripi eftir Pjetur St. Arason, einn af hirðmönnum Súellen. Höfundurinn segir að þetta séu „nokkur orð um fyrstu tuttugu starfsár hljómsveitarinnar.” Þessi orð og sú staðreynd að platan nefnist „Ferð án enda” getur aðeins þýtt eitt: „Við getum ekki hætt,” segir Gummi. „Þetta er hópur af strákum sem ólst upp á Norðfirði og unnu saman í netagerð- inni. I hljómsveitinni voru ekki bara við heldur félagar okk- ar sem allir fengu virðuleg hlutverk innan hljómsveitarinnar - urðu t.d. rótarar eða ljósamenn.” Og við rótarana varð að koma fram af nærgætni því þeir voru ekkert síður viðkvæmir listamenn, auðsæranlegir: „Ég bað einu sinni vin minn, sem jafnframt var ljósamaður, um að fara útí búð að kaupa rafhlöðu fyrir mig,” segir Steinar. “Hann varð bara móðgaður og kallaði þetta yfirgang. Ég bað hann ekki um að gera neitt framar.” Hvort þetta er ástæða þess að hljómsveitin tók sér pásu árið 1993 skal ósagt látið. Allavega fannst þeim erfitt að ferðast og svona framkoma hefur örugglega ekki gert ferða- lögin léttari. En Súellen er komin aftur á sínum “eigin forsendum” eins og fóstbræðurnir orða það. Eða kannski fóru þeir aldrei - saumaklúbbar deyja nefnilega aldrei. jonknutur@agl. is í örmum nætur var fyrsta breiðskifa hljómsveitarinnar. Þeir eru ekk- ert of hrifniraf henni lengur og segja hana "óverpródúseraða". Hins vegar taka vökul augu sennilega eftir þvi að í stað kommu fyrir ofan "ú-ið" er hamar og sigð. Menn voru misjafnlega hrifnir af þessu framtaki sem var þó bara sakleysisleg leið til að kynna Litlu Moskvu. Þeir breyttu um stil og flögguðu bandariska fánanum eftir þetta. Soldið "Eighties" eða hvað? Þess má geta að á plötunni eru tvö leynilög af hinni ógleymanlegu "Zom aldrig stanser" hljóðsnældu sem kom út árið 1984. Framlag þessarar kassettu verður seint of- metið i sögu rokksins. Jóhann Geir Árnason, trommari: Var hann geymdur I formalini?

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.