Austurglugginn


Austurglugginn - 07.01.2021, Page 4

Austurglugginn - 07.01.2021, Page 4
4 Fimmtudagur 7. janúar AUSTUR · GLUGGINN Austurglugginn - Fréttablað Austurlands // Miðvangur 2-4, 700 Egilsstaðir // S: 477-1750 • Ritstjórn: Gunnar Gunnarsson ritstjóri og áb.m: gunnar@austurfrett.is • Friðrik Indriðason blaðamaður: frett@austurglugginn.is • Auglýsingar: Stefán Bogi Sveinsson: auglysing@austurglugginn.is • Áskriftir: Stefán Bogi Sveinsson: askrift@austurglugginn.is • Útgefandi: Útgáfufélag Austurlands ehf. • Umbrot og prentun: Héraðsprent Leiðari Þegar fjallið öskraði Sérhver sá sem staddur var á Seyðisfirði þegar klukkuna vantaði fimm mínútur í þrjú, föstudaginn 18. desember 2020, á sína sögu af því hvar hann var og hvað hann var að gera þegar stóra skriðan féll. Sumir horfðu upp í hlíðina, veittu því athygli að Búðaráin varð fyrst mórauð áður en hún þornaði og svo splundraðist hlíðin. Sumir forðuðu sér á hlaupum, bakvið hús eða upp í mastur. Aðrir gátu ekkert komist, aðeins vonað hið besta. Drunurnar þrumuðu um fjöllin. Fólk leit í kringum sig til að átta sig á hvaðan þær kæmu, hvað væri að gerast. Í Ferjuhúsinu fór rafmagnið en fólkið fór út fyrir og rýndi upp í hlíðina, fylgdist með skriðunni koma niður á Framhúsið. Í gegnum gráma vegna misturs, rigningar og vaxandi myrkurs reyndi ringlað fólkið að rýna í hvað gerst hafði. Annarsstaðar í bænum sá fólk skriðuna hellast bæði yfir það svæði og Tækniminjasafnið. Í hönd fóru síðan tveir taugatrekkjandi tímar við að staðfesta að fyrir einhverja ótrúlega mildi hefði enginn svo mikið sem slasast í hamförunum. Það sem gerðist næst Síðan eru það sögurnar um það sem gerðist næst. Um skipulag og aga þegar þeim 600 einstaklingum sem staddir voru á Seyðisfirði var fyrirskipað að skrá sig og fara síðan upp í Egilsstaði. Um samkennd þegar „fallegasta jólaserían“ þokaðist niður Fjarðarheiðina og þegar Héraðsbúar, sem og aðrir landsmenn, gerðu sitt besta til að veita Seyðfirðingum skjól, öryggi og nauðsynjar. Öfugt við gistiheimilin í jólaguðspjallinu voru þau á Héraði opin og tóku við fólkinu sem kom eins og það var klætt. Síðan óvissan um hvort hætta væri á frekara hruni. Henni hefur ekki fyllilega verið eytt. Þegar hægt var að skoða stöðuna í björtu á sunnudeginum sást stór fleki við upptök skriðunnar sem að hluta hafði færst úr stað, ástæðan fyrir að umferð var svo takmörkuð fyrst á eftir og er að hluta til enn. En það var sérstakt að koma í bæinn þessa helgi. Eftir allt sem hafði á undan gengið var allt svo hljótt. Á laugardeginum sást ekkert kvikt á ferli, á sunnudeginum hoppuðu fuglar um göturnar. Óvissan var líka um hvar fólk gæti hafst við næstu daga, jafnvel vikur og mánuði. Margir Seyðfirðingar gátu ekki farið heim í tvær vikur. Einhverjir geta það ekki enn og þeir sem verst lentu í skriðunni eiga ekkert heimili lengur. Þá eru ótaldir þeir sem hafa ekki fundið friðinn til að þora að fara heim. Þegar storminn lægir Á mánudegi breiddi snjóinn yfir, íbúar voru að snúa heim, heilsuðust, föðmuðust, grétu og spurðu hvorn annan hvernig hinn hefði það. Þegar ráðafólk ríkisstjórnarinnar kom á þriðjudegi lá hvíti liturinn yfir öllu þannig að skriðan virtist jafnvel eðlileg í landslaginu. Áfallið kemur kemur í þrepum. Reiðin er eitt af þeim fyrstu. Hví var ekki rýmt fyrr og meira? Hví var ekki löngu búið að kosta til því sem þurfti til að verja byggðina? Síðan þarf að ganga í gegnum djúpa, dimma dalinn áður en sæst verður við orðinn hlut. Glíma við eftirköstin, saklaust rok getur minnt á drunurnar í fjallinu en eins og bent hefur verið á þá verður skriðan aftur græn. Sumar af þeim sem sögum sem þegar eru til hafa verið skráðar. Aðrar verða skráðar en sumar aldrei sagðar. Svo til á hverjum degi verða til nýjar sögur á Seyðisfirði. Hvað næst? Framundan er mikil vinna við að byggja Seyðisfjörð upp aftur. Heimili fólks hafa glatast og sögufræg hús en ekki mannslíf. Í faðmlögunum þakka Seyðfirðingar fyrir að hafa enn hvern annan. Spurningum er enn ósvarað um aðdraganda og framtíð. Sumum þeirra er ekki enn hægt að svara. Sumum er hægt að svara með fenginni reynslu. Af fyrri atburðum höfum við lært að þegja ekki um hlutina heldur tala um þá. Við vitum í grófum dráttum hvað gera þarf til að styðja við fólkið, það sem kallast áfallahjálp. Að fara ekki með gröfurnar beint inn í þykkildið og moka því út í sjó heldur fara með gát og reyna að varðveita muni fólksins. Á nýju ári færist lífið vonandi í fastar skorður hjá sem flestum á ný. Þannig virtist tilfinningin vera að verða í byrjun vikunnar og styrkist þegar vegurinn opnast og frystihúsið fer í gang á ný. Að hreinsa bæinn, byggja upp ný hús, reisa varnir og gefa íbúum ró og öryggi á ný mun ekki taka daga eða vikur heldur mánuði og ár. Taka þarf eitt skref í einu. Nokkur hafa þegar verið tekin. Þekkingin sem verður til við rannsóknir á næstunni nýtist víðar en á Seyðisfirði. Með hlýnandi veðurfari blasir við nýr veruleiki þar sem hætta á aurskriðum eykst því úrkoma fellur sem rigning en ekki snjór. Megi það sem lærist á Seyðisfirði verða til þess að bjarga bæði eignum og mannslífum í framtíðinni. GG Ef þú ert týndur og tröllum gefinn og tómlegt í sjálfs þíns húmi í hjartanu nístandi ólgar efinn og allt er rangt í tíma og rúmi, þá andaðu gæskur andaðu vel og hugsaðu um Hallormsstað, Atlavík og ævintýr, og óskrifað blað. Ef þú ert dapur og dauðanum nærri og drungi um æðar rennur og þú verður eins og smærri og smærri og smán þín í huga brennur þá andaðu gæskur andaðu vel og hugsaðu um Hallormsstað, Atlavík og ævintýr, og óskrifað blað. Ef von þín er horfin og hjartað er læst og hugurinn allur í molum ef lundin er bæði önug og æst og allt fer í handaskolum, þá andaðu gæskur andaðu vel og hugsaðu um Hallormsstað, Atlavík og ævintýr, og óskrifað blað. Kveðja - eftir Sigurð Ingólfsson

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.