Austurglugginn


Austurglugginn - 07.01.2021, Page 6

Austurglugginn - 07.01.2021, Page 6
6 Fimmtudagur 7. janúar AUSTUR · GLUGGINN Mikill vatnsþrýstingur að neðan, hægfara framskrið jarðefna og þynging efstu jarðlaga voru þeir kraftar sem saman urðu til þess að stóra skriðan sem féll á Seyðisfjörð þann 18. desember fór af stað. Múli, hryggur sem gengur upp í klettabeltið, klauf skriðuna og varði húsin þar undir. Í Botnum, flatanum upp af byggðinni í sunnanverðum Seyðisfirði eru mikil setlög. Þau eru blanda af annars vegar jökulruðningi, efni sem myndaðist við jaðra ísaldarjökulsins við framskrið og hörfun í lok ísaldar fyrir um tíu þúsund árum, ásamt jökulurð frá minni skálarjöklum sem hafa hangið uppi í Efri Botnum. Hins vegar skriðuefni sem komið hefur úr skriðum og við frostveðrun eftir að jökullinn hopaði. Jón Haukur Steingrímsson, jarðverkfræðingur hjá Eflu, segir að í jökulgörðum og -urðum sem þessum sé mikið af silti, sem er fínna en sandur og ekki jafn stöðugt. Mælingar, sem hófust af alvöru eftir skriðuföll árin 2001-2, hafa sýnt að jarðvegurinn uppi í Botnum sígur hægt og rólega í átt að bænum. „Fyrir 2002 var lítið vitað um hvers vegna skriðurnar kæmu. Þær voru síðan mikið rannsakaðar næstu árin og um 2012-14 var hægt að slá því föstu hvað væri að gerast.“ Þrenns konar minni skriður Seyðfirðingar eru ekki óvanir skriðuföllum en þau hafa verið minni. Orsökum þeirra má skipa í þrennt. Í fyrsta flokknum eru litlir flekar sem fara af stað þegar yfirborð jarðar þyngist eftir miklar rigningar. Þessir flekar renna oft út í lækjarfarvegi, stífla þá um stund en brjótast svo fram af miklum krafti þegar stíflan brestur. Þá fylgir með jarðvegurinn sem hlaðist hefur upp og jafnvel meira. Í öðru lagi skriður frá vatni sem stöðugt streymir neðanjarðar og brýst fram í lindum. Hreyfing jarðefnanna yfir þeim þýðir að sumar lindirnar ýmis opnast eða lokast yfir árhundruð. Þegar ein lind lokast þarf vatnið að finna sér nýja leið og getur þá ruðst fram af talsverðum krafti. Í þriðja lagi eru það jarðvegsflekar eins og uppi í Botnum. Þeir hanga í brúninni í 30-37° halla, sem er í hámarki þess sem efnið sem þeir eru úr, jökulruðningarnir og skriðuefni, helst stöðugt í. Við þrýsting að neðan eða aukinn þunga yfirborðslaga í miklum rigningum geta slíkir flekar, sem eru 1-2 m á þykkt, runnið af stað. Kraftar úr þremur áttum Í stóru skriðunni sameinuðust allir þessir kraftar og segir Jón Haukur ómögulegt að segja hver þeirra eða hvernig hún hafi allra fyrst farið af stað. Það er hægfara sig á stóru svæði í áttina að klettabrúninni og við það byggist upp spenna í fremsta hluta setlaganna sem hanga þar yfir. Ljóst sé þó að einhvers staðar komist hreyfing á jarðlög sem leiði til þess að brot, eða sprungur, myndist í jarðveginum. „Við köllum þetta plastíska hegðun. Það er þegar þrýst er á efni þannig að það aflagar sig og gengur ekki til baka,“ segir hann. Þá fara að lokum að myndast sprungur. Í mikilli úrkomu fer vatn ofan í þær og finnur sér leið, annað hvort rennur það ákveðnar leiðir eða þrýstir sér út. „Í mikilli úrkomu finnur vatnið sér leið alls staðar þar sem eru glufur og lekaleiðir. Ef hún varir í skamman tíma, 1-2 daga, þá hefur kerfið undan en við fáum kannski minni skriður. Við sáum til dæmis að grunnvatnsstaðan lækkaði hratt um leið og stytti upp. En ef úrkoman er í lengri tíma, 5-10 daga eins og nú, eykst hættan á stærri skriðum. Vatnið dregur úr viðnámi milli kornanna, kerfið hefur ekki undan, jarðvatnsþrýstingurinn eykst og jarðvegurinn nánast lyftist upp,“ bendir Jón Haukur á. Þegar þrýstingur eða kraftar úr þessum þremur áttum er orðinn of mikill fer skriðan af stað. „Massinn á brúninni er um 20 metrar á þykkt en sárið eftir skriðuna er 15-17 metrar sem þýðir að afmyndunin byrjar 2-4 metrum yfir klöppinni. Síðan skríður þetta af stað, rekur sig í bogadregnum ferli frá láréttu sniði yfir í lóðrétt í jarðlögunum upp á yfirborðið.“ Ekki skyndilegur brestur Þessar hreyfingar eiga sér stað á löngum tíma. „Þetta brestur ekki allt í einu, það líða einhverjir klukkutímar frá því massinn byrjar að aflaga sig þar til skriðan fer af stað,“ segir Jón Haukur. Hann segir mögulegt að sjá vísbendingar um það sem sé að gerast með sprunguhreyfingum en erfitt hafi verið að raða þeim saman til að gera sér grein fyrir hvað væri að gerast. Í atganginum 18. desember, þar sem stór skriða hafði fallið á bæinn og eyðilagt hús nokkru innar, hafi það orðið ómögulegt. Eins sé vandasamt að meta hvaða sprungur geti verið varasamar. Í hlíðinni ofan Seyðisfjarðar er mikið af sprungum. Sumar haggast aldrei og aðrar hafa jafnvel horfið í gróður. Hann vonast til að bætt mælitæki auki verulega öryggi fólks á Seyðisfirði. „Það er að koma síritandi alstöð sem mælir hreyfingar á 30 mínútna fresti.“ Hann bendir einnig á að síritar sem senda upplýsingar um grunnvatnsstöðu í borholum, og teknir voru í gagnið í haust, hafi reynst vel í desember. „Nú fyrst höfum við meira en eina grunnvatnsmælingu á ári sem tekin er við góðar aðstæður,“ bendir hann á. Sagan þarf líka að vera þekkt þannig að hægt sé að segja hvenær hreyfing á fjallshlíðinni sé orðin hættulega mikil eða hættulega mikil uppsöfnun á vatni. Þær mælingar sem gerðar hafa verið undanfarnar vikur á bæði hreyfingum, úrkomu og í borholum, hjálpa til við það. Múlinn virkaði sem varnargarður Þegar stór og mikil skriða er komin af stað er fátt sem stoppar hana. Í þessu tilfelli reyndist Múli, hryggurinn sem samnefnt hús að Hafnargötu 10 stendur á ásamt fleiri húsum, mikilvægur. „Hann virkaði eins og varnargarður því skriðan klofar á honum. Grjótmassinn drífur ekki yfir Múlann, það er mikil grjóturð sem stoppar í 27° halla á honum,“ segir Jón Haukur. Þetta veldur því að innri armur skriðunnar er úr fínna efni og vatnsblandaðra sem fer hraðar en grófari hlutinn fer hægar, þótt í báðum tilfellum séu miklir kraftar að verkum. Jón Haukur bendir líka á að þau varnarmannvirki sem þegar voru á Seyðisfirði hafi gert sitt gagn í skriðuföllunum í desember. „Skriðumassinn hægir ekkert á sér fyrr en hann er kominn niður í 20° halla. Eftir því sem landið verður flatara minnkar viðnámið og orkan fer úr skriðunni. Þá fara fyrirstöðugarðar að virka. Í minni skriðunum gerðu gamlir varnarskurðir býsna mikið. Í Búðaránni var þró og þó hún væri ekki stór fór mikil gusa ofan í hana og át upp orkuna í skriðunni.“ Engar skyndilausnir Jón Haukur er meðal þeirra sem undanfarna daga, og reyndar þar áður, hafa hugað að því hvernig hægt sé að verja byggðina á Seyðisfirði fyrir skriðuföllum. Hann varar við væntingum um skyndilausnir. Fyrsta skrefið sé að auka vöktun, næst að koma upp kerfi sem veiti vatninu eftir öruggum leiðum úr Botnunum í mikilli úrkomu. Hann telur að tvö ár taki að koma upp slíku kerfi eftir reglum um mat á umhverfisáhrifum, útboð, skipulag og fleira. Enn lengri tíma taki að fá vissu fyrir því hvort þær aðgerðir virki sem skildi. „Ef við hefðum verið búin að setja upp svona kerfi fyrir tíu árum þá hefði það mögulega hjálpað við ákvarðanatökuna núna,“ segir hann og bætir við aðspurður að útilokað sé að fullyrða að nokkrar varnir hefðu komið í veg fyrir stóru skriðuna. „Það er erfitt að reikna út náttúruna. Þótt þú hannir eitthvað verður tíminn að segja til um hvort það virki en það þarf að byrja á einhverju til að verja byggðina. Sem betur fer eigum við þennan atburð vel skráðan svo við vitum hvaða aðstæður það eru sem kveikja á þessum stóru atburðum.“ GG Samverkandi kraftar ýttu stóru skriðunni af stað Forsögulegar skriður Þótt skriðuföll þekkist á Seyðisfirði er stóra skriðan sú stærsta sem fallið hefur þar síðan land byggðist. Vísbendingar hafa fundist í rannsóknum um skriður af svipaðri stærð úr Nautaklauf, þaðan sem skriðan féll aðfaranótt 18. desember, hafi fallið þar um 600-700 eftir Krist, um 200 árum áður en Ísland byggðist. Þá eru ummerki eftir enn eldri skriður við Dagmálalæk, Búðarána og á botni fjarðarins.

x

Austurglugginn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.