Austurglugginn - 24.06.2016, Qupperneq 9
AUSTUR · GLUGGINN Föstudagur 24. júní Andri Snær Magnason er fæddur í Reykja-
vík þann 14. júlí árið 1973. Hann er ætt-
aður frá Neskaupstað og á marga vini og
ættingja á Austurlandi. Andri bjó eitt ár á
Seyðisfirði sem barn og hefur setið í stjórn
Skriðuklausturs.
„Byggðamál eru eitt af okkar mikilvæg-
ustu málum og við þurfum og viljum halda
uppi byggð um allt land. Forseti Íslands
á að vera meðal fólksins, hann kíkir ekki
í heimsókn heldur dvelur meðal lands-
manna. Forseti Íslands á að spyrja einfaldra
spurninga. Ef hópur af hugsjónafólki hefur
breytt heilu hraðfrystihúsi í skapandi mið-
stöð á Stöðvarfirði af hverju getur heill
banki ekki haldið úti hraðbanka í sama bæ?
Frændfólk mitt og vinir á Austurlandi
er fullt af hugmyndum og frumkvæði sem
ég hef heillast af. Ég tók virkan þátt í um-
ræðunni um framtíð Austurlands. Fyrsta
greinin sem ég skrifaði kringum 1999 fjall-
aði um möguleikann á því að byggja upp
millilandaflug á Egilsstöðum, möguleikann
á því að stofna alþjóðlegt menntasetur og
hvernig möguleikar til fjarvinnslu á tölvu
voru takmarkaðir með lélegum nettenging-
um. Ég hef fulla trú á framtíð Austurlands
en til þess að landsbyggðin vaxi og dafni í
heild þurfum við að sameinast um verk-
efnin sem þjóð. Það eru slík verkefni sem
ég vil taka þátt í og hrinda í framkvæmd
um allt land.“
Ástþór Magnússon er fæddur í Reykjavík 4.
ágúst 1953. Hann hefur ferðast um Austurland
og telur mikil tækifæri liggja í fjórðungnum.
„Á ferð um Austfirði heimsótti ég álverið á
Reyðarfirði. Sem forseti yrði ég öflugur málsvari
þess að auka atvinnutækifæri og byggja verk-
smiðjur til að framleiða fullbúnar vörur úr álinu
til útflutnings. Við eigum að stuðla þannig að
aukinni verðmætasköpun innanlands. Tilvalið
væri að hefja slíka framleiðslu á Austfjörðum.
Þá eru margvísleg tækifæri fyrir Austurland að
taka þátt í því að laða hingað starfsemi tengda
friðarmálum, lýðræðisþróun og náttúruvernd.
Ég hef talað fyrir því að stofnanir á vegum
Sameinuðu þjóðanna rísi á Íslandi. Þannig
má byggja upp nýjan atvinnuveg sem getur
skilað fleiri hundruð milljörðum í þjóðarbú-
ið og veitt þúsundum manns blómleg störf í
framtíðinni um allt landið. Með slíkri tekju-
aukningu sem land friðarins getum við veitt
ókeypis heilbrigðisþjónustu, bætt kjör eldri
borgara og öryrkja og hjálpað ungu fólki að
koma undir sig fótunum.
Nú eru mál að þróast þannig í Evrópu að
hætta er talin á upplausn og jafnvel styrjöld.
Ég vil afstýra því að Ísland verði skotmark í
stríði stórveldanna. Þjóðin getur treyst því að
ég mun standa dyggan vörð um fullveldi og
sjálfstæði íslensku þjóðarinnar gegn hernað-
arlegri og fjármálalegri íhlutun.“
Elísabet Kristín Jökulsdóttir er fædd 16.
apríl 1958. Hún er ættuð að austan og
kallar sig Austfirðing, þegar hún var 11 ára
eyddi hún sumri á Djúpavogi þaðan sem
afi hennar séra Jakob Jónsson var. Síðar
bjó Elísabet eitt ár í Neskaupstað þar sem
pabbi hennar var fæddur.
„Fyrst og fremst ættu Austfirðingar að
kjósa mig af því að þeir eru Íslendingar.
Þetta snýst ekki endilega um hvað ég get
gert fyrir Austfirðinga – eða jú líka. Ef ég
get gert eitthvað sérstakt fyrir Austfirðinga
þá ættu þeir að láta mig vita.
Ég tók þátt í Kárahnjúkabaráttunni og
var á móti byggingu Kárahnjúkavirkjunar.
Þar upplifði maður hvernig landshlutum
var att saman – í því tilviki suðvesturhorn-
inu á móti Austurlandi. Við eigum frekar
að setjast niður saman og finna út hvað
við viljum, hvaða lausnir eru til og hvernig
við getum leyst úr ágreiningi saman. Á
þessum tíma mátti ekki tala um þessa
litlu hluti, eins og fjallagrös og silfurberg.
Þá var maður bara stimplaður hippi. En
þetta er það dýrmætasta sem við eigum.
Fjallagrösin eru milljóna virði og silfur-
bergið sem er inni í öllum fjöllunum ykk-
ar er stórmerkilegt líka. Það eru demantar
inni í fjöllunum.
Austfirðingar eiga að kjósa mig af því að
ég skal passa fjallagrösin og silfurbergið.”
Framhald á bls. 11.
Davíð Oddsson: Svör bárust ekki frá framboðinu.
Forsetakosningar 2016
- Umfjöllun um forsetaframbjóðendur
Nýr forseti verður kjörinn á morgun og ganga Austfirðingar þá að kjörborðinu líkt og aðrir Íslendingar. Alls eru 9 einstaklingar
í framboði sem virðast í fljótu bragði ekki eiga miklar tengingar við Austurland. Austuglugginn varpar hér ljósi á austfirskar
tengingar frambjóðenda og veitir þeim tækifæri til að svara spurningunni: Af hverju ættu Austfirðingar að kjósa þig?