Austurglugginn


Austurglugginn - 29.07.2021, Síða 4

Austurglugginn - 29.07.2021, Síða 4
4 Fimmtudagur 29. júlí AUSTUR · GLUGGINN Austurglugginn - Fréttablað Austurlands // Miðvangur 2-4, 700 Egilsstaðir // S: 477-1750 • Ritstjórn: Gunnar Gunnarsson ritstjóri og áb.m: gunnar@austurfrett.is • Friðrik Indriðason blaðamaður : frett@austurglugginn.is • Björn Þór Björnsson, blaðamaður : frett@austurglugginn.is • Auglýsingar: Anna Dóra Helgadóttir: auglysing@austurglugginn.is • Áskriftir: Anna Dóra Helgadóttir: askrift@austurglugginn.is • Útgefandi: Útgáfufélag Austurlands ehf. • Umbrot og prentun: Héraðsprent Leiðari Langhlaup Baráttan við COVID veiruna stefnir í að verða langhlaup en ekki stuttur sprettur eins og margir vonuðu. Og að öllu óbreyttu verður Ísland orðið rautt land á næstu dögum með tilheyrandi samdrætti í komu ferðamanna. Það er eiginlega grátbroslegt hvað stjórnvöld hafa verið seinheppin með aðgerðir sínar hingað til í þessum faraldri. Síðustu stóru mistökin, af mörgum sem gerð hafa verið, var að hætta skimunum á landamærunum fyrir mánuði síðan. Þar með var smituðum ferðamönnum leyft að flæða inn í landið. Afleiðingarnar eru augljósar því vel yfir hundrað smit hafa komið upp daglega í þessari viku. Það vantaði ekki að stjórnvöld hafi verið vöruð við því að opna landamærin og hætta samtímis að skima alla ferðamenn sem fara um þau, erlenda sem innlenda. Slíkar viðvaranir komu frá sóttvarnarlækni og fleiri fagmönnum innan heilbrigðisgeirans. En stjórnvöld vildu frekar hlusta á kveinið í ferðaþjónustunni. Eini ljósi punkturinn í þessu er að stór hluti þjóðarinnar er fullbólusettur og veikist því ekki jafn harkalega og áður. Á móti kemur að sá hluti sem ekki er bólusettur, einkum ungt fólk, smitast nú í mun meiri mæli en áður hefur sést. Þá hefur þekktur læknir, Ragnar Freyr Ingvarsson, bent á að það þurfti aðeins þrjár nýjar innlagnir af COVID smituðum fyrir helgina til þess að Landspítalinn var færður á hættustig. Ragnar segir réttilega að stjórnvöld hafi brugðist þjóðinni á tvennan hátt. Í fyrsta lagi með því að opna landamærin fyrir bólusettum ferðamönnum sem smita frá sér þrátt fyrir bólusetninguna og að hafa vanrækt að undirbúa Landspítalann fyrir þá bylgju sem nú er í uppsiglingu. Björn Ingi Hrafnsson fjöl- miðlamaður sem fjallað hefur mikið um veiruna og afleiðingar hennar segir nýlega á vefsíðu sinni: „Við Íslendingar gerum sömu mistökin aftur og aftur og samt eru sumir ennþá undrandi á að afleiðingarnar verði þær sömu. Þetta gerðist líka í fyrra. Þá var slakað á landa- mærunum og veirusmit bárust inn með þeim afleiðingum að herða varð allar aðgerðir innanlands og marga mánuði tók að ná þeirri bylgju niður.“ Lausnin er einföld. Það þarf að koma upp betri vörnum á landamærunum en nú eru í gildi. Gott væri að byrja á að skima alla sem koma til landsins. Samhliða þarf, til skamms tíma, að taka aftur upp þær sóttvarnareglur sem dugðu til að kveða niður síðustu bylgjuna. FRI Þórunn Egilsdóttir fæddist í Reykja- vík 23. nóvember 1964. Hún lést á Sjúkrahúsinu á Akureyri 9. júlí 2021, en síðustu mánuði dvaldi hún heima á Hauksstöðum, glímdi við krabbameinið og vann að ýmsum verkefnum. Foreldrar hennar eru Egill Ásgrímsson, f. 1.4. 1943, og Sigríður Lúthersdóttir, f. 28.4. 1939. Bróðir Þórunnar er Egill Örn Egilsson, f. 31.8. 1966, sambýliskona hans er Tiffany Staton. Eiginmaður Þórunnar er Friðbjörn Haukur Guðmundsson, f. 21.4. 1946. Börn Þórunnar og Hauks eru Kristjana Louise Friðbjarnardóttir, f. 24.10. 1989, sambýlismaður hennar Axel Örn Sveinbjörnsson. Guðmundur Friðbjarnarson, f. 28.11. 1990, kvæntur Guðrúnu Helgu Ágústsdóttur. Börn þeirra eru Anna Lísa og Alma Þórunn. Hekla Karen Friðbjarnardóttir, f. 25.6. 2004. Þórunn gekk í Verslunarskóla Íslands, undi sér þar vel og var m.a. formaður Málfundafélags VÍ árin 1983-1984. Hún útskrifaðist sem stúdent vorið 1984 og hélt það haust austur til Vopnafjarðar til kennslustarfa. Þegar kennaraverkfall skall á réð Þórunn sig í sláturhúsið á Vopnafirði. Þar kynntust þau Haukur fyrst. Um vorið gerðist Þórunn kaupakona á Hauksstöðum í Vesturárdal, á heimili Hauks, og felldu þau hugi saman skömmu síðar. Þau giftu sig þann 27.6. 1987. Þórunn útskrifaðist með B.Ed.- gráðu frá Kennaraháskóla Íslands árið 1999. Hún starfaði við skólastjórn árin 2005-2008 og sem verkefnastjóri hjá Þekkingarneti Austurlands, nú Austurbrú, árin 2008-2013. Þórunn var kjörin í sveitarstjórn Vopnafjarðarhrepps 2010 og var oddviti sveitarstjórnar til ársins 2013. Þórunn sinnti fjölmörgum félags- störfum, sat í stjórn Kvenfélagsins Lindarinnar og voru verkefni þess henni alla tíð kær. Þá starfaði hún í félagsmálanefnd Vopnafjarðarhrepps, stjórn Menntasjóðs Lindarinnar, orlofsnefnd húsmæðra á Austurlandi, stjórn Sambands sveitarfélaga á Austurlandi, sveitarstjórnarráði og miðstjórn Framsóknarflokksins, ráðgjafanefnd Jöfnunarsjóðs sveitar- félaga og hreindýraráði. Vorið 2013 var Þórunn kjörin á Alþingi fyrir Framsóknarflokkinn. Hún sat í forsætisnefnd, sem ein af varaforsetum Alþingis, frá árinu 2015 þar til hún vék af þingi vegna veikinda árið 2019. Þá var Þórunn formaður þingflokks Framsóknarflokksins frá árinu 2015. Á Alþingi sat Þórunn í ýmsum fastanefndum og var að auki formaður samgönguráðs frá 2017 til dánardags. Í byrjun júní heimsótti hún Alþingi síðast, var baráttuglöð, bar sig vel og tók að sér að flytja ávarp þingkvenna á atburði á vegum heimsþings kvenleiðtoga. Fyrstu árin á Hauksstöðum lagði Þórunn áherslu á vinnu að bústörfum og umsjón stórs sveitaheimilis og naut þess. Eftir því sem tíminn leið tókst hún síðan á við ný og fjölbreyttari verkefni. Hún sinnti öllum þessum störfum af sama metnaði, alúð og ósérhlífni og fylgdist stolt með fyrrum nemendum sínum og samstarfsfólki. Þrátt fyrir vinnu að sambærilegum verkefnum á Austurlandi langa hríð kynntist ég Þórunni fyrst þegar við tókum báðar sæti á framboðslista fyrir þingkosningarnar árið 2013. Við áttum upp frá því einstakt samstarf í þeim verkefnum sem við settum á dagskrá eða urðu á vegi okkar. Við urðum líka alvöru vinkonur, sem ekki er alltaf sjálfgefið í ölduróti stjórnmálanna og gátum treyst á hvor aðra. Það var alltaf gaman á okkar ferðum, hvort sem við ferðuðumst í skafrenningi á öræfunum, í logni og blíðu við ysta haf eða spjölluðum við fólk á þéttbýlli svæðum. Símtölin voru að jafnaði nokkur á viku, ef við vorum ekki við störf á sama stað, og í þeim var fátt undanskilið. Þórunn var baráttukona, ósérhlífin, æðrulaus og alltaf tilbúin að takast á við þau verkefni sem á vegi hennar urðu hvort sem hún valdi þau sjálf eða hún fékk þau í hendurnar óumbeðið. Hún var útivistarmanneskja frá blautu barnsbeini, keppti á skíðum og var í sveit sem unglingur. Hún nýtti sína hæfileika og reynslu vel í öllum sínum verkefnum hvort sem þau tengdust bústörfum, kennslu eða stjórnmálum. Að kunna að búa til skyr eða hlúa að lömbum og trjáplöntum má yfirfæra á margt annað. Útför Þórunnar fór fram frá Vopnafjarðarkirkju laugardaginn, 24. júlí og var hún jarðsett í Hofskirkjugarði. Við íbúar Austurlands sjáum á eftir öflugri konu, leiðtoga, vini og góðri og heilsteyptri manneskju. Hennar verður sárt saknað en við getum þakkað minningarnar, sam- starfið og samvinnuna. Missir fjölskyldunnar er mikill, ég sendi Friðbirni Hauki, Kristjönu Louise, Guðmundi, Heklu Karen, foreldrum hennar og bróður, ásamt öllu hinu fólkinu hennar, innilegar samúðarkveðjur. Blessuð sé minning Þórunnar Egilsdóttur. Líneik Anna Sævarsdóttir Minning Þórunn Egilsdóttir 1964-2021

x

Austurglugginn

Beinleiðis leinki

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.