Austurglugginn


Austurglugginn - 11.10.2007, Blaðsíða 10

Austurglugginn - 11.10.2007, Blaðsíða 10
10 AUSTUR · GLUGGINN Fimmtudagur 11. október Hitti kunningja um daginn sem hafði tekið leigubíl. Hann spjallaði við bílstjórann – sem spurði hvaðan kall kæmi? Farþeginn útskýrði það skipulega.“Já, þið eigið nú orðið helvíti gott fótboltalið þarna fyrir austan”, kvað sá við stýrið. Hinn hressilegi bilstjóri sagðist vera Skagamaður og hetjur þeirra slóða væru fótboltamenn og bæjarlífið færi eftir því hvernig liðinu gengi. “Þið megið vera stolt þarna fyrir austan því liðið ykkar er frábær auglýsing fyrir sveitarfélagið ykkar - vissi reyndar ekki að þetta væri sveitarfélag fyrr en ég fór að fylgjast með liðinu, enda mikið um það fjallað í fjölmiðlum”. Og bætti við, “uss ef við ættum ekki alltaf svona gott fótboltalið þá þyrfti sagnfræðing til að finna eitthvað um Skagann í þessum Reykjarvikur pésum”. Ferðaðist með einokunarflugfélaginu Svo hló leigubílstjórinn hlátri sem bar glöggt vitni mikilla reykinga í gegnum tíðina. Kunninginn kvaðst nú hafa orðið hugsi því á leiðinni suður, með einokunarflugfélaginu, þá sat hann við hliðina á manni. Eftir stutt spjall við sessunautinn þá sagði hann. “ Þetta nýja sveitarfélag ykkar væri nú varla þekkt meðal almennings ef liðið ykkar væri ekki búið að koma því á kortið”. Stór orð það hjá hinum kjaftfora sessunaut, eða hvað? Það er gömul saga og ný að setja samasemmerki á milli íþróttaliða og einstakra svæða eða sveitarfélaga. Eitt besta dæmið er heimabær leigubílstjórans. Hvað ætli það lið hafi skapað sveitarfélaginu ígildi margra heilsíðuauglýsinga? Margra! Eru styrkir styrkir? Oftast er talað um styrki þegar verið er að fjalla um framlög sveitafélaga til íþóttafélaga. Er það réttnefni? Jú vissulega er þarna verið að veita ákveðinni stafsemi stuðning. Orðið fjárfesting á þó betur við. Jákvæð umfjöllun í fjölmiðlum um vörutegundir fyrirtækja virka eins og blikkandi auglýsingaskilti. Stjórnendur fyrirtækis sjá væntanlega ekki eftir einni einustu krónu sem farið hefur í kostnað við vöru þegar hún er trekk í trekk í fjölmiðlum á jákvæðum forsendum – fyrirtækinu til heilla. Jákvæð umfjöllun um íþróttastarfsemi virkar eins fyrir sveitafélög. Góður árangur í íþróttum er blikkandi auglýsingarskilti! Fjárfesting skal það heita – ekki styrkir. Sé vel staðið að íþróttamálum þá skila krónurnar sér til baka í kassann. Menntun starfsmanna Fjárframlög til íþróttastarfsemi eru ekki eini mælikvarðinn á áherslu sveitafélaga á íþróttamálin. Hvað með þann metnað sem lagður er í starfsmannahald varðandi þennan málaflokk. Hér mætti velta ýmsu fyrir sér t.d hver er bakgrunnur þeirra embættismanna sem fara með íþróttamálin í viðkomandi sveitafélagi. Eru t.d gerðar sömu kröfur til menntunar og hjá sambærilegum sviðsstjórum? Þó menntun sé ekki eini mælikvarðinn þá vekur það vissulega upp spurningar ef sviðstjóri íþróttamála er ekki með háskólamenntun, ef þess er krafist af öðrum sviðstjórum. Það er ekki trúverðugt að ausa peningum til íþróttamála ef metnaður í starfsmannahaldi er ekki til staðar. Vonandi er þetta í lagi hér eystra – ef ekki þá skal upp með hausinn og úr því bætt hið snarasta. Hér er mikið í húfi og nægir þar að nefna að peningarnir sem í málaflokkinn eru settir séu nýttir til fulls. Fámenni og aðstöðuleysi Austurland hefur ekki átt mjög marga íþóttamenn eða íþóttalið sem hafa haldið merkjum svæðisins á lofti undanfarna árartugi. Algengara er þó að hér sé um að ræða öfluga einstaklinga – mætti þar nefna þrístökkvarann af héraðinu, kraftajötuninn frá Seyðis og svo auðvitað Stöddarann sparkvissa. Íþróttalið héðan að austan hafa ekki verið eins áberandi. Sennilega kemur þar aðallega til fámennið og aðstöðuleysið. Aðstaðan hefur þó verið að batna til mikilla muna t.d til knattspyrnuiðkunar. Einnig er von á því að hér fjölgi fólki á næstu árum og því ekkert því til fyrirstöðu að við eigum íþróttalið í fremstu röð hér eystra – eða hvað? Eitt er það sem áfram gæti verulega hamlað því og er það ferðakostnaður. Ferðakostnaður, landsbyggðarskattur Ætli lið frá Austurlandi að ná langt í hópíþrótt á landsmælikvarða þá þarf að safna grimmt – þannig að öll heimili verða dósalaus en stútfull af salernispésum og rækjusalati. Ætli lið farþegans í leigubílnum eyði ekki tífalt meiru í ferðakostnað en lið bílstjórans! Þessi landsbyggðarskattur er kominn til að vera. Vonandi kemur kostnaðurinn til með að lækka til dæmis með aukinni samkeppni í innanlandsflugi. Óraunhæft er þó að ætla að verulegar stökkbreytingar verði í lækkun á kostnaði – áfram kemur hann til með að sliga íþróttastarfsemi hér eystra. Sérstaklega á þetta við um afreksíþróttir þar sem keppinautarnir eru aðallega á hinu fræga suðvesturhorni. En hver á að borga brúsann – skattinn? Þó dósasafnanir og rækjusala séu góðra gjalda verð fjáröflun þá dugir það ekki til þegar landsbyggðarskatturinn er annars vegar. Sveitafélögin eru vissulega sá aðili sem mest er horft til, en hvað með fyrirtæki og einstaklinga? Hagsmunaaðilar leggi sitt af mörkum Jú svarið við þessu er stutt – allir sem hafa hagsmuni af því að Austurland eigi afrekslið í íþóttum eiga að leggja sitt af mörkum. Fyrirtæki, eins og sveitafélög, hafa væntanlega hagsmuni af því að svæðið sé vel kynnt. Sama má segja um einstaklinga – hafi þeir áhuga á að horfa á afreksíþróttir í heimabyggð þá þarf að standa við bakið á starfseminni. Allir hagsmunaaðilar verða að leggja sitt af mörkum, það er ekki pláss fyrir að neinn aðili spili frítt þar sem landsbyggðarskatt- urinn ætlar allt að drepa. Allt þetta er þó sagt með þeirri vissu að margir aðilar styðja ágætlega við bakið á íþróttum hér eystra – en betur má ef duga skal og alltaf haft hugfast hugtakið fjárfesting. Takið ykkur rúnt með Skagamanninum En það er val – auðvitað bara hægt að sleppa öllu þessu afreks bulli og vera bara á forsíðunum fyrir eitthvað allt annað. Við eigum jú fullt af fólki til að vera stolt af! Hvað með “athafnarmennina” okkar – sem kallaðir hafa verið kvótastrákar. Eigum við að vera stolt af þeim? Þá þarf reyndar ekki að styrkja mikið. Buddan þeirra er útþanin af gulli auðlindarinnar og mætti því við að borga eitthvað af landsbyggðarskattinum. Samviskutetrið ætti nú kannski betri daga ef “vinningshafarnir” í auðlyndalottóinnu borguðu nú eitthvað af því sem rennur til einokunarflugfélagsins. Ætli hinir nýríku heimsborgarar telji mikilvægt fyrir heimahagana að eiga afreksfólk í íþróttum? Tja, veit ekki – kannski þurfa þeir einn rúnt með skagamanninum. Samfélagsrýnir Austurgluggans Elvar Jónsson, stjórnmálafræðingur skrifar Hver á að borga brúsann? Ætli lið frá Austurlandi að ná langt í hópíþrótt á landsmælikvarða þá þarf að safna grimmt – þannig að öll heimili verða dósalaus en stútfull af salernispésum og rækjusalati.

x

Austurglugginn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Austurglugginn
https://timarit.is/publication/1687

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.