Austurglugginn - 02.12.2021, Blaðsíða 16
16 Fimmtudagur 2. desember AUSTUR · GLUGGINN
Vaskur flytur um helming þeirrar
vöru, sem til sölu er í verslun
fyrirtækisins á Egilsstöðum, beint
inn erlendis frá. Stjórnendur segja
það mikilvægt til að hægt sé að
bjóða samkeppnishæft úrval og
verð. Verslað er með fjölbreyttar
vörur sem styðja hver við aðra.
„Við byrjuðum á að flytja inn
rúmföt og handklæði. Síðan hefur
þetta aukist verulega síðustu tvö
ár. Nú orðið flytjum við inn 50%
af öllu sem við seljum í búðinni,“
segir Guðmundur Þór Þórðarson,
framkvæmdastjóri Vasks. „Þetta
var mikil framþróun til að geta
boðið meira úrval og betra verð,“
bætir Hafþór Valur Guðjónsson,
aðstoðarframkvæmdastjóri og einn
eigenda.
Fyrirtækið hóf göngu sína sem
Hraðhreinsun Austurlands árið
1989 og hefur verið í eigu sömu
fjölskyldu frá stofnun. Það var í
meira en áratug fatahreinsun, sem er
enn fyrirferðamikil, en bætti við sig
smásölu. Fyrst voru það hreinlætis-
og skrifstofuvörur, sem hentuðu vel
með þvotti fyrir gististaði, síðan
voru það hljóðfæri og íhlutir í þau
og í kreppunni jókst eftirspurn eftir
prjónavörum verulega. Við þetta
breyttist hlutverkið svo rétt þótti að
breyta nafninu í samræmi við það.
Þróunin hélt áfram. Vaskur fór að
selja skíðabúnað og hjólreiðavörur.
Síðustu misseri hafa meðal annars
barnaföt og leikföng bæst við.
Má ekki vera dýrara en
erlendis
„Áður en við byrjuðum að flytja
inn var til dæmis leikfangadeildin
eins og flestar aðrar leikfangadeildir
landsins. Það skilar engum árangri
að vera með sömu vörur og hinn
aðilinn í bænum þannig okkur
fannst við þurfa að hrista aðeins upp
í hlutunum. Afraksturinn er að við
erum með vöruúrval sem þú sérð
ekki í nokkurri annarri búð á Íslandi
og það finnst okkur mjög gaman,“
útskýrir Guðmundur.
Mest af vörunum er flutt inn
með Norrænu til Seyðisfjarðar.
Þjónustan er góð þar sem Smyril-
Line sækir pantanir víðs vegar um
Evrópu og stutt er fyrir danska
birgja að koma sendingum um
borð. En innflutningurinn tryggir
líka samkeppnishæft verð.
„Þegar vörur eru keyptar frá
Reykjavík þá leggst fyrst á þær
kostnaður við innflutninginn og
síðan flutningskostnaður innanlands.
Það getur kostað álíka mikið að
senda vöruna frá Reykjavík austur
og að sigla með hana frá Danmörku.
Verslun hefur breyst þannig fólk
óttast ekki að panta erlendis frá
sjálft. Þess vegna getum við heldur
ekki annað en tekið mið af verðinu
í Evrópu þegar við verðleggjum
vörurnar hér. Verðgagnsæið er orðið
svo mikið,“ segir Guðmundur.
Breytir ekki öllu hvar
birginn er
Hafþór og Guðmundur segja að það
hafi í sjálfu sér ekki verið áhætta
fyrir Vask að byrja að flytja sjálft
inn, aðeins framfarir. „Það breytir
ekki öllu hvort birginn er í Reykjavík
eða Danmörku. Það er svipað ferli
við að koma vörunum frá Reykjavík
til Egilsstaða eða frá Danmörku til
Egilsstaða,“ segir Guðmundur.
„Það er engin vara sem ekki hefur
gengið upp, þótt sumar gangi betur
en aðrar. Við erum með barnaföt,
sem enginn annar er með hérlendis,
sem fólk er greinilega ánægt með
því það bíður eftir þeim. Við erum
þó bara að reyna að versla með það
sem okkur finnst skemmtilegast,“
bætir hann við.
Vefverslunin er
búðargluggi
Vaskur hefur fært út kvíarnar því
fyrir rúmu ári opnaði það vefverslun
á www.vaskur.is sem smám saman
hefur bætt við sig. Með henni er
markaðssvæðið ekki lengur bara
Austurland heldur landið allt. En
heimafólk nýtir hana líka.
„Vefverslunin er okkar búðargluggi,
hann sýnir fólki hvað við höfum upp
á að bjóða. Austfirðingar eru okkar
helstu viðskiptavinir á netinu. Þeir
vita ekki endilega hvað við bjóðum
en sjá það þarna,“ segir Guðmundur.
Vöruúrvalið gerir Vaski enn frekar
kleift að keppa á landsvísu. „Við
erum til dæmis með frábæra birgja
sem selja okkur gæða vörur í
útivistardeildina. Hún er mjög flott
miðað við okkar litla markaðssvæði
en við erum líka á pari við verslanir
í Reykjavík,“ bætir hann við.
Sumarið var líka góð auglýsing
fyrir Vask, eins og aðra á Austurlandi.
„Íslendingarnir sem komu margir
hingað í fyrsta sinn í sumar voru
steinhissa á vöruúrvalinu. Þeir
sögðu að þetta minnti þá á gömlu
kaupfélögin, með margar deildir
innan sömu verslunarinnar,“ segir
Hafþór Valur.
Vörur sem styðja hver við
aðra
Kaupfélögunum, sem höfðu orð
á sér fyrir að selja allt sem fólk
gæti hugsanlega vantað, fækkaði í
kringum aldamóti. Í staðinn komu
sérhæfðari dagvöruverslanir og í
einhverjum tilfellum sérverslanir.
Þær hafa samt oft átt erfitt upp-
dráttar í hinum dreifðu byggðum.
Þeir útskýra að margar vörurnar
í Vaski myndu aldrei ganga einar
og sér en þær styðji hver aðra, til
dæmis fari skíðabúnaður á veturna
og hjólavörur á sumrin vel saman.
„Við getum leyft okkur að hafa
leikfangadeildina stærri því við
höfum útivistarfatnaðinn með
henni, til dæmis. Leikföngin ein og
sér myndu ekki bera sig á svona litlu
svæði,“ segir Guðmundur.
En hugsun kaupfélaganna, að
tryggja vöruframboð á staðnum, er
líka fyrir hendi. „Við höfum það að
vissu leyti á bakvið eyrað að þetta sé
þjónusta sem okkur langar ekki að
missa af svæðinu. Til dæmis þegar
Skógar hættu þá var engin verslun
eftir hér sem gat hugsað sér að vera
með skíði. Útivistarfatnaðurinn jókst
svo þegar Íslensku alparnir hættu,“
segir Hafþór Valur.
Þeir segja þjónustuna líka skipta
máli, auk þess að selja hjóla- og
skíðabúnað sinnir Vaskur viðgerðum
á hvoru tveggja. Hafþór Valur er til
dæmis nýkominn heim af Shimano
hjólaviðgerðanámskeiði í Svíþjóð.
Vöruúrval í heimabyggð
ekki sjálfsagt
En vöruframboðið og þjónustan
byggir alltaf á að heimafólk haldi
henni uppi með viðskiptum
sínum. Það á við um Vask, sem og
aðrar verslanir og þjónustuaðila á
Austurlandi sem á aðventunni hvetja
Austfirðinga til að versla í sinni
heimabyggð. Það er þó alltaf áskorun
á tímum netverslunar og ferðalaga.
„Við erum mjög þakklát fyrir
okkar föstu viðskiptavini og
heimamenn sem versla hjá okkur.
Við finnum að fólk vill versla hjá
okkur því það finnst við hafa góðar
vörur og þjónustu. Það kemur ekki
af sjálfu sér að þjónustuaðilar séu á
minni stöðum.“
Jólaverslunin í fyrra var góð, fólk
virtist versla heima fyrst það komst
ekki erlendis. Þeir segja vísbendingar
um sömu þróun nú. „Við tókum eftir
að fólk verslaði meira heima í fyrra
og okkur sýnist stefna í svipað núna,“
segir Hafþór Valur.
GG
„Beinn innflutningur gerir okkur samkeppnishæf
í verði og úrvali“
Verslun
Hafþór Valur Guðjónsson og Guðmundur Þór Þórðarson. Mynd: GG