Sumardagurinn fyrsti - 01.06.1972, Blaðsíða 3
SUMARDAGURINN FYRSTI
3
vegi. Skólanum hefur alla tíð auðnast að fá ýmsa ágæta sér-
fræðinga í þessum greinum til kennslu eða fyrirlestra um
einstaka þætti, en aðalkennslan eða grundvallarkennslan í
uppeldis- og sálarfræði hefur þó komið í hlut skólastjóra.
Föndur, myndmótun og hvers konar skapandi starf skipar
einnig og á að skipa veglegan sess í öllum fóstruskólum, og
hefur sá þáttur í skólanáminu blómgazt og dafnað hin síðari
ár eftir því sem starfsaðstaða í skólanum hefur batnað.
Námsgreinarnar í Fóstruskóla Sumargjafar eru mjögsniðnar
eftir því sem gerist á Norðurlöndum, enda höfðum við fóstru-
skólana í Svíþjóð til fyrirmyndar þegar í upphafi. I dvöl
minni á Norðurlöndum skólaárið 1969—1970 átti ég þess
kost að kynnast starfsháttum og starfsskrám skólanna þar,
og það mjög náið í Svíþjóð. Gat ég ekki séð að neinn megin-
munur væri á kröfum þeim, sem gerðar voru í Svíþjóð og
þeim, sem gerðar eru hér. Hlustaði ég m. a. á flutning hóp-
verkefna nemenda við Fóstruskólann í Uppsölum, sem fjöll-
uðu aðallega um uppeldisfræðileg efni og er einn liðurinn í
lokaprófi þeirra. Sama hátt höfum við á hér. — En munur-
inn á bóJcakosti skólanna og kennslutækjum var hins vegar
geysimikill, að ég ekki tali um allan annan ytri aðbúnað. Einn
er þó liður í fóstruskólanámi á Norðurlöndum, þar sem við
komumst ekki með tærnar, þar sem þeir hafa hælana. Það
er allt nám er við kemur músík og rytmik. Ég hef oft áður
gert þetta að umtalsefni, m. a. í skólaslitaræðum. Ekki er
þó þessum liðum áfátt í skólanáminu vegna þess, að ekki sé
skilningur fyrir hendi á gildi þeirra, heldur vegna þess, að
okkur skortir kennara, er hafa menntun og áhuga á allra
yngstu börnunum. Þeir hafa til skamms tíma ekki verið til.
Sl. haust var Fóstruskólinn svo heppinn að fá kennara, sem
við bindum miklar vonir við, en það er Njáll Sigurðsson, sem
hefur meðal annars próf í músíkuppeldi lítilla barna frá
Carl Orff Institut í Austurríki.
Fóstruskólinn hefur lengstum haft aðeins einn fastan
starfsmann, skólastjórann. Mikinn hluta kennslunnar hafa
stundakennarar leyst af hendi, og kenna um það bil 15—20
kennarar á ári hverju. Það hefur verið lán skólans, hve vel
skólanum hefur haldizt á kennurum. Minnist ég þakklátum
huga tryggðar kennaranna við skólann, góðrar samvinnu og
ágætra starfa.
Ég sagði áðan, að mikill munur væri á aðbúnaði Fóstru-
skólans hér og fóstruskóla á Norðurlöndum, og nefndi sem
dæmi bókakost og lestraraðstöðu. Skólinn á nú orðið ágætan
vísi að bókasafni, en aðstaða til útláns er algjörlega óvið-
unandi og lestraraðstaða engin. Bókakosturinn nýtist því
engan veginn, hvorki fyrir nemendur né kennara.
Skólinn á orðið allmikið safn t. d. barnabóka, bæði á ís-
lenzku og á norðurlandamálunum, og nota nemendur þær
óspart, er þær eru í verklega náminu. Koma þessar bækur
Fóstruskólans öllum barnaheimilum til góða. Allmargar bæk-
ur varðandi uppeldis- og sálarfræði og starfsemi barnaheim-
ila eru og til, sem nemendur nota í sambandi við lokaverk-
efni sín í uppeldisfræði, sem þeir vinna í gengjum eða smá-
hópum, en hér hamlar lestraraðstaðan stórlega. Utlánsstarf-
semin fer fram meira og minna á hlaupum í örlitlu herbergi,
sem jafnframt er kennarastofa og almenn skrifstofa. Er það
því ein af þeim afmælisóskum, sem efst eru á blaði, að skól-
inn fái svo rúmt húsnæði, að unnt verði að hafa aðstöðu fyrir
bókasafn og lestrarsal, sem verðugur er að bera það nafn.
Hika ég ekki við a ðsegja, að það myndi stórbæta fóstrunám-
ið og efla áhuga nemendanna á að vinna sjálfstætt. Fengju
þær því drýgra fararnesti héðan en ella.
Verklega númið skipar jafnan sess á við bóklega námið í
Fóstruskólanum. Skólinn teygir arma sína út um alla Reykja-
vík, til allra barnaheimila í borginni — og jafnvel út fyrir
borgina til Kópavogs og Hafnarfjarðar — og njóta nemend-
ur þar leiðbeininga í verklegu námi.
Má hér geta þess, að skólinn hafði s.l. skólaár 99 nema, um
lengri eða skemmri tíma, á 25 barnaheimilum. Þannig þurfti
að hafa samvinnu við yfir 80 forstöðukonur og fóstrur. í
verklega náminu gefur skólinn nemendum, í samráði við
fóstrur og forstöðukonur, margvísleg verkefni til úrlausnar
á barnaheimilunum. Samvinnan við barnaheimilin er því
orðið mjög yfirgripsmikið starf, og annar því ekki skólastjóri
einn.
Tvær fóstrur aðstoðuðu mig við þetta starf í aukavinnu
á árunum 1964—1966, þær Gyða Sigvaldadóttir og Gyða
Ragnarsdóttir, en skólaárið 66—67 starfaði hér við skólann
norsk fóstra, Tordis Holte, mér til aðstoðar við verknámsleið-
beiningu og sem föndurkennari. Tel ég, að það hafi verið
mjög vekjandi fyrir íslenzkar fóstrur að fá hingað erlenda
strauma inn í starfið. Er það sannarlega minnisverður þátt-
ur í starfsemi skólans, sem æskilegt væri að endurvekja.
Við starfi Tordis Holte tók Kristín Jónsdóttir, fóstra,
haustið 1967 og er hún jafnframt föndurkennari (ásamt
Guðmundi Magnússyni teiknikennara). Er það því miður
ekki fullt starf og er þegar orðið ljóst, að nauðsyn er hér á
fullu og föstu starfi, ekki sízt þar eð ákveðnar óskir hafa
komið fram frá mjög áhugasömum fóstrum og forstöðu-
konum um að auka verknámsleiðbeiningarnar af hálfu skól-
ans. Er það að sjálfsögðu mikið gleðiefni fyrir Fóstruskól-
ann og bendir ótvírætt á, að samvinnan hafi verið góð og
ánægjuleg, sem hún hefur og verið. Fyrirsjáanlegt er, að
þetta starf þarf að auka og efia. Auk þess hlýtur að standa
fyrir dyrum að fjölga nemendum um helming og jafnvel
meira.
Full nauðsyn væri á að ráða uppeklislegan ráðgjafa eða
konsulent við barnaheimili borgarinnar og reyndar ennþá
meiri nauðsyn fyrir barnaheimilin úti á landi. Ef unnt væri
að ráða uppeldislegan ráðgjafa fyrir barnaheimili borgar-
innar, væri mjög hagkvæmt að hafa hann á vegum Fóstru-
skólans og gæti hann þá jafnframt starfað sem verknáms-
leiðbeinandi. Það sem ég kalla uppeldislega ráðgjafa er e. t. v.
sambærilegt við námsstjóra á barnaskólastiginu. Teldi ég
árangursríkast að ráða slíkan starfsmann eingöngu til
skamms tíma í einu, t. d. 1 til 3 ár, og skipta síðan um. Að
sjálfsögðu ætti að ráða í þetta fóstru, sem einhverja viður-
kennda framhaldsmenntun eða sérmenntun hefði.
Þetta er enginn framtíðardraumur. Þetta þarf að gerast
og það sem fyrst. Eins og ég sagði áðan, er vettvangur
Fóstruskólans ekki eingöngu í skólahúsinu heldur er hvert
einasta barnaheimili í Reykjavík (og víðar) snar þáttur í
skólahaldi hans. Þess vegna er augljóst, að leiðin milli þessara
stofnana þarf að vera greið. Allt verkleg námið eða þjálfunin
byggist á því, að unnt sé að koma nemunum fyrir á barna-
heimilunum og njóta leiðsagnar þar. I þessari samvinnu við
barnaheimilin vill Fóstruskólinn ekki eingöngu vera þiggj-
andi, heldur vill hann og vera veitandi — og ber að mínum
dómi að vera það. Fóstruskólinn vill geta gegnt því hlutverki,
að vera vekjandi afl í því merka uppeldisstarfi, sem fer fram
á barnaheimilum Reykjavíkurborgar og þeim öðrum barna-
heimilum utan Reykjavíkur, sem hann á aðgang að. Hann vill
örva fóstrur til umhugsunar um bætta starfshætti, stuðla
að því, að þær auki og viðhaldi menntun sinni og víkki sjón-
deildarhring sinn.
Eftir að barnaheimilunum tók að fjölga að mun, varð nauð-
synlegt að halda fundi með fóstrum og forstöðukonum til
að ræða um verklega námið og framgang nemendanna í
starfi. S.l. 3—4 ár hafa þessir fundir orðið nokkuð fastir
liðir í vetrarstarfi skólans og verið haldnir nokkurn veginn
einu sinni í mánuði. Hef ég smám saman aukið verksvið
þessara funda með því að gera þá meira og meira að fræðslu-
fundum, þar sem ákveðnir starfsþættir eru teknir til um-
ræðu. Sýndar hafa verið uppeldislegar kvikmyndir og