Veiðimaðurinn - 01.03.1963, Síða 18
skorpunni, og ég dró hann hægt og var-
lega að bakkanum, þar sem ég gat seilst
til sporðsins og kippt honum upp á
bakkann — en um leið slitnaði upp úr
lykkjunni.
— Dag nokkurn fyrir mörgum árum
var ég á gangi meðfram ánni, var að fara
á engjar. Ég hafði veiðistöngina með mér,
eins og jafnan, er ég var við heyskap nærri
ánni. — Þetta var áður en farið var að
leigja ána fastri leigu. — Ég sé lax stökkva
nær hinum bakka árinnar, þar sem hún
rennur undir brattri hlíð. Sjálfsagt að
bjóða honum flugu. — Á þeim árum
þekkti ég ekki annað agn en flugu. — Að
laxinum varð ekki komizt öðru vísi en á
báti. Reri ég því ofan við staðinn, þar sem
hann stökk og lét fluguna berast þangað.
Reyndi ég nokkra stund árangurslaust.
Næsta dag sá ég laxinn stökkva á sama
stað og reyndi við hann á sama hátt, en
án árangurs. Þannig gekk í nokkra daga.
Alltaf sá ég hann stökkva á sama stað. Ég
sá næsta vel, að þetta var alltaf sami lax-
inn, 15 punda hængur, nokkuð leginn.
Daglega reyndi ég að tæla hann með
flugunni, en hann stóðst freistinguna;
þar til loks að ég fór upp í brekkuna og
kastaði fyrir hann þaðan. Aðstaðan var
óhæg með snarbratta brekkuna að baki,
en þetta dugði. í öðru eða þriðja kasti
var hann á og kominn á land eftir
stutta viðureign.
Harðskeyttasti og skapversti lax, sem
ég hef fengist við, tók flugu hjá mér þar,
sem svo hagar til, að áin er um 80 m
breið, djúp og straumlítil milli brattra
marbakka, ofan við allharðan streng.
Laxinn tók ofarlega í strengnum.
Hann kom á eftir flugunni leifturhratt
í fallegum boga, og festi öngulinn, að því
er mér virtist, á hinum venjulega stað í
neðri kjálkanum, framan við kjaftvikið.
Fyrst tók hann geysiharða roku upp fyr-
ir strenginn, þar sem lygnara var og
dýpra, þeyttist yfir að andstæðum bakka,
sneri þar snöggt við og stefndi að landi
mín megin svo hratt, að ég hafði ekki
við að draga inn línuna, þó ég hlypi
jafnframt frá ánni svo hratt sem ég gat.
Rétt við marbakkann sneri hann við og
þaut enn yfir að hinum bakkanum og til
baka aftur með svo miklum hraða, að í
þetta sinn gat hann ekki stöðvað sig við
grunnshallið, en stakk hausnum í snar-
brattan marbakkann.
Þegar ég loks hafði dregið inn línuna,
kom flugan laus og laxinn farinn. Hefur
hún vafalaust losnað í árekstrinum, hver
sem örlög fisksins hafa orðið. En ég vona
að hann hafi getað skolað sandinn úr
tálknunum og náð sér eftir höggið.
Oft er skopast að veiðimönnum fyrir
frásögur þeirra af stórum fiskum, sem
þeir hafa misst.
Sannleikurinn er samt sá, að óvenju-
lega stórir laxar missast ákaflega oft,
einkum ef þeir taka flugu. Veiðarfæri og
allur útbúnaður veiðimannsins miðast
við hið algenga og venjulega. Sé áin
vatnsmikil og botn ósléttur hefur stór
fiskur og orkumikill margfalda mögu-
leika umfram minni fisk til að losa sig.
Einhverju sinni var ég á veiðum einn
míns liðs. Áin var svo breið þar sem ég
ætlaði að reyna, að ég náði ekki á líkleg-
asta staðinn. Tók ég því bát, lagðist við
8
Veiðimaðurinn