Mosfellingur - 17.11.2022, Side 24

Mosfellingur - 17.11.2022, Side 24
 - Mosfellingurinn Helga Möller24 Myndir: Ruth Örnólfsdóttir og úr einkasafni. Diskódrottninguna Helgu Möller þarf vart að kynna enda löngu orðin ein ástsælasta söngkona þjóðarinnar. Ferill hennar hefur til þessa verið afar fjölbreyttur og lög hennar hafa átt miklum vinsældum að fagna. Helga er hvað þekktust fyrir að syngja með dúettinum Þú og Ég ásamt Jóhanni Helgasyni en einnig fyrir að taka þátt í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd árið 1986 í Bergen í Noregi en þar söng Icy tríóið lagið Gleði- bankinn eins og frægt er orðið. Helga fæddist í Reykjavík 12. maí 1957. Foreldrar hennar eru þau Elísabet Á. Möll- er fv. framkvæmdastjóri Geðverndar og Jóhann Georg Möller fv. skrifstofustjóri hjá Johnson og Kaaber en þau eru bæði látin. Helga á einn bróður, Árna Möller f. 1952. Sá Surtsey byrja að gjósa „Ég er alin upp á Sporðagrunni í Laug- ardalnum og það var yndislegt að alast þar upp. Dalurinn er nefnilega eitt stórt útivistarsvæði, hestar í haga, sundlaugin í göngufæri og alltaf eitthvað um að vera á fótboltavellinum. Á mínum uppvaxtarárum var mikið leikið úti við og það var farið í ýmsa leiki eins og yfir, fallin spýta, teygjó og snú snú. Árið 1963 fórum við fjölskyldan í sigl- ingu með Gullfossi til Kaupmannahafnar og Glasgow. Á heimleiðinni sigldum við fram hjá Vestmannaeyjum þar sem móðir mín er uppalin og við urðum vitni að því þegar Surtsey byrjaði að gjósa, þetta var stórkostleg sjón.“ Kom fram með kassagítarinn „Ég gekk í Laugalækjarskóla og Laugar- nesskóla og var í kór hjá Þóri Baldurssyni þegar ég var lítil, ég fékk að syngja einsöng með kórnum sem mér fannst mjög gaman. Ég kom síðar fram með kassagítarinn minn á skólaskemmtun og söng lög Janis Ian, Carol King og Joni Mitchell svo einhverjar séu nefndar. Það má eiginlega segja að ég hafi byrjað að syngja áður en ég gat talað, mamma sagði mér að ég hefði verið vön að syngja mig í svefn,“ segir Helga og hlær. „Ég kláraði stúdentinn frá Verzlunar- skóla Íslands og þar átti ég skemmtileg ár. Ég tók þátt í tónlistar-og leiklistarlífinu og var formaður nemendamótsnefndar í eitt ár. Á síðasta árinu mínu í menntaskóla var ég söngkona hljómsveitarinnar Celsíus. Ég hef verið mjög ánægð með alla þá skóla sem ég hef gengið í, svo ég tali nú ekki um kennarana.“ Söng í flugfreyjubúningi Það hefur löngum verið draumur ungra stúlkna að verða flugfreyjur og þar var Helga engin undantekning. Hún skellti sér á námskeið og fór í sitt fyrsta flug sumarið 1977. Helga starfaði hjá Icelandair í 32 ár og var mest í áætlunarfluginu, bæði innanlands sem utan. Hún lét af störfum árið 2020 og hefur komist að því að það er líf eftir flug- bransann og segist bíða spennt eftir því sem lífið hafi upp á að bjóða. Ég spyr Helgu hvað standi upp úr á starfsferlinum? „Skemmtilegasta ferðin sem ég fór í var þegar ég fór sem kynnir til Norðurlandanna til að kynna Halifax í Kanada sem þá var að byrja. Við vorum viku í þessari ferð og sýningarnar voru haldnar að kvöldi til og þar voru flutt tón- listaratriði frá Nova Scotia. Þegar líða tók á ferðina þá veiktist einn söngvarinn, ég tjáði hljómsveitarmeðlimunum að ég væri söngkona og kynni orðið prógrammið og ég gæti mögulega hlaupið í skarðið sem ég og gerði. Þetta vakti mikla athygli, sérstaklega þar sem ég söng í flugfreyjubúningnum,“ segir Helga og brosir. Þetta var töluvert átak Eftir að Helga hætti að fljúga fór hún í nám við Háskólann á Bifröst sem nefnist Máttur kvenna, og útskrifaðist þaðan vorið 2021. „Ég var að læra um stofnun og rekstur fyrirtækja því ég er að undirbúa mig vel til að geta látið drauma mína rætast, t.d ef mig langar til þess að stofna fyrirtæki,“ segir Helga. „Það var töluvert átak fyrir mig að setjast aftur á skólabekk eftir svona langan tíma og fjarvinnan var mikil en allt hafðist þetta nú og þetta var skemmtilegt nám.“ Ég spyr Helgu hvort hún ætli að opna söngskóla í Mosó? „Mér finnst gott að hugsa til þess að geta farið út í sjálfstæðan rekstur og geta ráðið tíma mínum sjálf en það er jafnframt mikil binding en ætli ég svari þessu ekki með því að segja, það er bara aldrei að vita.“ Heilsuferðir til Póllands Helga á þrjú börn, Maggý Helgu f. 1979, Gunnar f. 1987 og Elísabetu f. 1993 og þrjú barnabörn. Helga nýtur þess að vera með fjölskyldu og vinum en hún er einnig dugleg að ferð- ast, fara á tónleika, spila golf, prjóna og lesa góðar bækur. Hún hefur einnig gaman af sjálfsrækt og er til dæmis búin að fara í margar Detox ferðir sem Jónína Benedikts- dóttir bauð upp á. Nú er Helga sjálf að fara að leiða hópa í heilsuferðir til Póllands ásamt tveimur samstarfsfélögum og fyrsta ferðin verður farin í janúar 2023. Þetta var ótrúleg upplifun Helga á langan söngferil að baki og lög hennar hafa átt miklum vinsældum að fagna, svo ekki sé minnst á jólalögin. Við Helga rennum yfir ferilinn og ég spyr hana hvað standi upp úr? „Ætli það sé ekki þegar ég fór með þeim Eiríki Haukssyni og Pálma Gunnarssyni með Gleðibankann í Eurovision. Keppnin var haldin í Bergen í Noregi og við lentum í 16. sæti. Þetta var ótrúleg upplifun alveg hreint enda fyrsta lagið sem keppti í Söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva fyrir Íslands hönd.“ Alltaf til í að prófa eitthvað nýtt „Ég hef verið að kenna söng í Söng- skóla Maríu Bjarkar sem mér finnst mjög skemmtilegt. Kenni nemendum 16 ára og eldri en áður kenndi ég aðallega krökkum. Auk þess að kenna söng þá er ég að koma fram sem söngkona. Ég syng á tónleikum, í brúðkaupum, við útfarir og í afmælisveisl- um og oft hef ég verið fengin sem leyni- atriði. Söngurinn mun alltaf fylgja mér,“ segir Helga og brosir sínu fallega brosi. „Ég hef líka verið að taka að mér farar- stjórn í ferðum erlendis og svo tek ég að mér ýmis önnur verkefni, er alltaf til í að prófa eitthvað nýtt.“ Ég spyr Helgu að lokum hvað sé fram undan? „Ég er að fara að koma fram á tón- leikum Jóns Ólafssonar, Af fingrum fram, í Salnum í Kópavogi núna 24. nóvember. Þetta er svona bæði spjall og söngur og Elísabet Ormslev dóttir mín verður gesta- söngvari. Jólahlaðborðin taka svo við og ég kem til með að syngja mest á Bryggjunni í Grindavík þetta árið. Þegar aðventan er gengin í garð, þá fyrst kemst maður í há- tíðarskap,“ segir Helga og brosir. Það má eiginlega segja að ég hafi byrjað að syngja áður en ég gat talað, mamma sagði mér að ég hefði verið vön að syngja mig í svefn. Fjölskyldan: Elísabet, Helga, Gunnar, Elísabet, Maggý Helga og Jóhann Georg fermingardrengur. MOSFELLINGURINN Eftir Ruth Örnólfsdóttur ruth@mosfellingur.is Söngurinn mun alltaf fylgja mér HIN HLIÐIN Hverju myndir þú breyta á Íslandi ef þú ættir þess kost? Að allir Íslendingar geti búið við mannsæmandi aðstæður. Bestu kaup sem þú hefur gert? Þegar ég keypti íbúðina mína á Rauðalæk. Hvað myndi ævisaga þín heita? Einu sinni diskódrottning, alltaf diskódrottning. Hvað er fegurð? Allt það fallega sem þú sérð í kringum þig og í fólkinu sem þér þykir vænt um. Við hvaða aðstæður færðu gæsahúð? Þegar ég heyri og upplifi eitthvað sérstakt. Hvað drífur þig áfram? Ósýnilegur kraft- ur sem kemur yfir mig, tekur stundum svolítinn tíma en þá er ég óstöðvandi. Besta ráð sem þú hefur nýtt þér? Þegar pabbi minn kenndi mér að bera mig ekki saman við aðra, vera ánægð með mitt og gleðjast með öðrum þegar þeim gengur vel. Hvað óttastu mest? Að missa þá sem mér þykir vænt um. Helga Möller söngkona og fararstjóri nýtur lífsins eftir 32 ár í háloftunum með erlendi vini sínum í heilsuferð í póllandi í banastuði með helga björns

x

Mosfellingur

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Mosfellingur
https://timarit.is/publication/1311

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.