Læknablaðið : fylgirit - 28.04.2015, Síða 3
LÆKNAblaðið 2015/101 FYLGIRIT 85 3
Læknablaðið
the iceLandic medicaL journaL
www.laeknabladid.is
Hlíðasmára 8,
201 Kópavogi
564 4104 – 564 4106
Útgefandi
Læknafélag Íslands
Læknafélag Reykjavíkur
Ritstjórn
Engilbert Sigurðsson,
ritstjóri og ábyrgðarmaður
Gerður Gröndal
Hannes Hrafnkelsson
Magnús Gottfreðsson
Sigurbergur Kárason
Tómas Guðbjartsson
Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir
Ábyrgð efnis
Vísindanefnd þingsins
Ritstjórnarfulltrúi
Védís Skarphéðinsdóttir
vedis@lis.is
Blaðamaður og ljósmyndari
Hávar Sigurjónsson
havar@lis.is
Auglýsingastjóri og ritari
Sigdís Þóra Sigþórsdóttir
sigdis@lis.is
Umbrot
Sævar Guðbjörnsson
saevar@lis.is
Forsíðumynd Þorkell Þorkelsson,
ljósmyndari Landspítala
Upplag 200
Prentun: Prenttækni ehf.
© Læknablaðið
Læknablaðið áskilur sér rétt til að birta og
geyma efni blaðsins á rafrænu formi, svo
sem á netinu.
Blað þetta má eigi afrita með neinum
hætti, hvorki að hluta né í heild án leyfis.
Fræðigreinar Læknablaðsins eru skráðar
(höfundar, greinarheiti og útdrættir) í
eftirtalda gagnagrunna: Medline (National
Library of Medicine), Science Citation In-
dex (SciSearch), Journal Citation Reports/
Science Edition og Scopus.
The scientific contents of the Icelan-
dic Medical Journal are indexed and
abstracted in Medline (National Library
of Medicine), Science Citation Index
(SciSearch), Journal Citation Reports/Sci-
ence Edition and Scopus.
ISSN: 0254-1394
Magnús Gottfreðsson
yfirlæknir vísindadeildar
vísinda- og þróunarsviðs
Landspítala
Hvatar og latar
í vísindarannsóknum
Á þessu vori er uppskeruhátíð vísinda á Landspítala haldin í 15. skipti. Árið hefur verið viðburðaríkt
í sögu spítalans, en þar hafa skipst á skin og skúrir. Kjaradeilur og verkföll hafa sett svip sinn á
starfsemina, en jafnframt hefur verið blásið til sóknar í endurnýjun tækja og húsakosts. Vísindamenn
á spítalanum hafa haldið áfram ötulu starfi sínu, kennslu og rannsóknum.
Á árinu gengu í gildi ný lög um vísindarannsóknir sem marka tímamót að mati undirritaðs, þar
sem markvissari nálgun verður nú beitt við umsóknir og leyfisveitingar. Nýju lögin eiga að gera
rannsakendum kleift að verja auknum tíma í framkvæmd verkefnanna sjálfra og úrvinnslu á niður-
stöðum. Með lögunum er einnig opnað fyrir möguleika á starfrækslu svokallaðs leitargagnagrunns
fyrir fræðimenn í klínískum greinum og jafnframt er gert ráð fyrir að varðveita megi gögn sem safnað
hefur verið með í sérstöku safni heilbrigðisupplýsinga, sé leyfi veitt fyrir því. Að mörgu leyti er um
hliðstæðu við lífsýnasafn að ræða. Þannig verður vonandi komið í veg fyrir að mikilvægum gögnum
sé eytt, sem leiðir til þess að þau eru skráð aftur síðar með mikilli fyrirhöfn ef fleiri rannsóknar-
spurningar vakna.
Margt fleira hefur þokast í rétta átt. Í árslok 2014 var ráðinn tölfræðingur til starfa á spítalanum, en
enginn slíkur hefur verið hér um árabil. Tölfræðingurinn sinnir kennslu og ráðgjöf til rannsakenda og
nú þegar hafa verið haldin námskeið í notkun tölfræðiforrita sem hafa verið fjölsótt. Þá hefur Klínískt
rannsóknasetur staðið fyrir námskeiðum í góðum klínískum starfsháttum, en þekking á því sviði er
forsenda þess að unnt sé að framkvæma klínískar lyfjaprófanir hér á sjúkrahúsinu. Sem fyrr stendur
bókasafnið fyrir margháttaðri kennslu, meðal annars í notkun skráningarforrita fyrir tilvitnanir. Ljóst
er að mikil eftirspurn er eftir allri þessari þjónustu og mikilvægt að efla hana enn frekar.
Í þrengingum undanfarinna ára hafa innviðir spítalans látið á sjá eins og flestum má vera ljóst af
umræðu síðustu mánaða. Þar ber hæst húsakost og nýliðun starfsfólks. Ýmislegt bendir til að framlag
spítalans til rannsókna og þróunarstarfs hafi dregist of mikið saman og sé verulega undir þeim við-
miðum sem tilgreind eru í vísindastefnu Landspítala og eru almennt viðurkennd hjá öðrum háskóla-
sjúkrahúsum á Norðurlöndunum.
Nýlegar tölur benda til að fjöldi birtra greina frá spítalanum sem skráðar eru í alþjóðlega gagna-
grunninn Scopus hafi dregist saman milli ára líkt og í fyrra. Ráðast þarf í nánari greiningu á orsökum
þessa og leita leiða til úrbóta. Margir hafa bent á að réttir hvatar þurfi að vera til staðar fyrir rann-
sakendur svo vel takist til, það er tími, fjármagn og aðstaða til að sinna verkefninu. Ef allt þetta er af
skornum skammti er hægt að tala um neikvæða hvata, eða lata, til rannsókna og vísindastarfs. Orðið
lati er nýyrði sem ég vona þó að lítið þurfi að nota á þjóðarsjúkrahúsinu í framtíðinni. Mikilvægt er
að skipuleggja starfið hér þannig að mikilvægi rannsókna og nýsköpunar sé viðurkennt og ráð fyrir
því gert í fjármögnun starfseminnar. Við þurfum ekki að leita langt til að sækja okkur fyrirmyndir í
því efni, eins og bent hefur verið á. Að öðrum kosti getur spítalinn misst aðdráttarafl sitt fyrir ungt
og velmenntað fólk. Höfum hugfast að hagsmunir góðrar klínískrar þjónustu, vísindarannsókna og
nýliðunar starfsfólks fara saman.