Vestfirðir - 17.01.2019, Blaðsíða 12
12 17. janúar 2019
AB VARAHLUTIR – UMBOÐ EGILSSTÖÐUM
Vestfirskir listamenn
Ari Maurus
F. 30. maí 1860 Ísafirði. D. Júní 1927
í Kaupmannahöfn.
Öndvegisverk: Söng við
óperuhús í þýskalandi og
víðar.
„Einasti Íslendingur sem náð
hefur fullkomnun í sönglist“ svo
glæsta umsögn gaf blaðið Þjóðólfur
árið 1901 um söng hins íslenska
óperusöngvara Ara Maurus Johnsen
í Góðtemplarahúsinu í Reykjavík.
Blaðið bætti um betur og sagði að
söngur hans væri „að meiri list en
menn eiga hér að venjast.“ Annað blað
hafði þetta að segja „þóttust menn þá
varla hafa heyrt fegurri söng.“ Rétt
er að geta þess að söngskemmtun
þessi var haldin til að safna fé fyrir
minnisvarða um Hraundrangaskáldið
Jónas Hallgrímsson. En hvað með
þennan lofaða söngvara hann Ara
vestfirska? Jú, hann er sagður vera
fyrsti íslenski óperusöngvarinn. Ferill
hans var sannlega ótrúlega glæstur og
það víða um Evrópu. Þessi áðurnefnda
söngskemmtan í Góðtemplarahúsi
borgarinnar var hins vegar hans eini
söngur opinberlega hér á landi. Ari var
sannlega stjarna óperusenunnar og þá
sérílagi í þýskalandi hvar hann söng við
fjölmörg óperuhús ekki nóg með það
heldur söng hann einnig fyrir hirðfólk
Evrópu keisara sem drottningar.
Ísafjarðarpolli verður
hirðsöngari
Sonur ungra kaupmannshjóna í
Neðstakaupstað Ísafirði þeirra Daníels
Arasonar Johnsen og Önnu Guðrúnar
Duus. Dóttur áttu þau einnig og
nefndu Ástu. Kaupmaðurinn ungi
þótti efnilegur enda átti hann sér stóra
drauma og þá þurfti að sigla. Hjónin
fara á endanum til Kaupmannahafnar
og koma börnunum í fóstur til afa
og ömmu í Hafnarfirði. Um 1870
fá Ari og Ásta einnig að koma til þá
borg draumanna í Danaveldi. Bæði
bjuggu þau erlendis eftir það. Ásta
andaðist 1923 í Kaupmannahöfn.
Ara var strax komið til menntunar í
verslunarfræðum og greinlegt að vilji
foreldranna var að hann gengi í fótspor
föðursins. En annað kom á daginn.
Hann átti reyndar eftir að efnast vel
en það var vegna verslunar heldur
sönglistar.
Víst var listin í ættinni og það
sagt í báðum hans leggjum og
þá sérílagi sönglistin. Meðfram
verslunarnáminu stundaði Ari einnig
söngnám í Kaupmannahöfn. Það var
svo söngurinn sem varð ofan á því
þegar Ari er um tvítugt tekur hann
stóra skrefið og siglir til þýskalands
ganggert til að stúdera óperusöng.
Var hann nemi hjá Iffert nokkrum,
sem líklega hefur verið August Iffert,
þá frægur barítonsöngvari þar í landi.
Ari var einmitt barítón og að söngnámi
loknu hófst söngferill hans við helstu
óperuhús þýskalands. Í Berlín, Wimar,
Dresden, Hamborg og Leipzig. Eigi
er þó allt upp talið því Ari söng
einnig við Vínaróperuna og í Covent
garðinum í London. Lék hann hvert
stórhlutverk óperubókmenntanna
á fætur öðru má þar nefna hlutverk
Wolfraus í Tannhauser eftir Richard
Wagner. Hirðin dýrkaði hann og dáði
hvort heldur það voru drottningar,
prinsar eða keisarar. Bæði Vilhjálmur
þýskalandskeisari og kona hans
Ágústa drottning sem og Viktoría
Bretadrottning pöntuðu hann
sérstaklega til að syngja fyrir sig og
hirð sína. Ari var einnig fenginn til
að syngja á minningartónleikum um
Albert prins sem haldnir voru í Albert
Hall í London. Fékk hann þá ríkulega
greitt fyrir og það í hollenskum
gulldúkötum. Ari efnaðist óhemjuvel
og má því segja að viðskiptanámið
forðum hafi komið að góðum notum.
Sagt er að hann hafi verið á hátindi
ferils síns árið 1908. Skömmu síðar
eða um 1910 hættir hann að syngja
opinberlega og hefst þá annar farsæll
ferill og nú sem söngkennari.
Stórsöngvari verður
stórkennari
Ferill óperusöngvara er yfirleitt ekki
langur í tilfelli Ara spannaði hann þó
nærri þrjá áratugi. Margur söngvarinn
hefur eftir að söngferli líkur nýjan feril
að kenna söng. Það var einmitt það
sem Ari gerði og var vel látið af honum
í því starfi. Hann auglýsti meira að
segja á Íslandi og bauðst til að kenna
löndum sínun. Nokkrir þáðu þetta
magnaða tilboð má þar nefna Sigurð
Skagfield sem síðar átti eftir að gjöra
það gott sem óperusöngvari. Ari hafði
talsverða vikt ef svo má að orði komast
í óperuheiminum enda var söngferill
hans farsæll. Á hann var því hlustað
og fylgst með hans nemendum. Sumir
nemenda hans fengu uppáskrifað
meðmælendabréf frá Ara stórsöngvara
sem jafnan fleytti þeim inní nánast
hvaða óperuhús sem var. Nemendur
bera honum og vel söguna. Kristinn
Hallsson, söngvari, hafði það eftir
nemendum Ara að „þeir áttu ekki
nógu hástemd lýsingarorð til þess að
hrósa Ara.“
Hið örlagaríka ár 1918 gjörðist
margt og þá sérílagi hjá okkar Ara.
Víst fögnuðu margir stríðslokum
styrjaldarinnar en henni fylgdi einnig
gífurlegt verðhrun. Þá misstu margir
allt sitt og þar á meðal Ari. Nánast á
einni nóttu hvarf allur sá auður sem
hann hafði halað inn á sínum glæsta
óperuferli. Hann hélt þó ótrauður
áfram kennslu sem og verðbréfa
viðskiptum. Eftir að hafa dvalið í rúma
þrjá áratugi í þýskalandi flutti hann
aftur til Kaupmannahafnar. Hélt þar
áfram söngkennslu og tók lífinu með
ró það sem eftir var.
Ari andaðist árið 1927 og var
jarðsettur í Kaupmannahöfn 17. júní.
Elfar Logi Hannesson
Aðalheimild:
Ása Hjördís Þórðardóttir. Fyrsti íslenski
óperusöngvarinn. Ársrit sögufélags Ísfirðinga,
1984.