Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 20

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 20
20 Varnirnar hlytu að hafa batnað „Þegar ég las þessa grein varð ég aftur fyrir sams konar hugljómun og þegar ég hitti þetta rannsóknarfólk fyrst árið 1995.” segir Ólafur og tendrast allur upp „Ég sem um það á rannsóknarstofunni að ég skoði þetta aðeins svona í lokin. Hugmyndin sem ég fæ þarna úr klínískri rannsókn er sú að ég spyr: ‚Hvernig getur þetta verið?’ Barnalegasta og einfaldasta skýringin er sú að azithromycin sýklalyfið sé að gera eitthvað við mannafrumurnar, eitthvað jákvætt, hjálpa frumunum og sennilega epíþel frumunum, af því að slímseigjusjúkdómur er rafmagnssjúkdómur í epíþelinu, eða varnarhimnunni. Það var búið að sanna það fyrir löngu. Varnirnar, eða eitthvað tengt rafhrifunum, hlytu að hafa batnað, því ekki var þetta vel þekkta sýklalyf að drepa sýklana að þessu sinni.” Hugmyndin passaði ekki inn í neitt Tilraunin sem Ólafur gerði og varð upphafið að þessu öllu, fólst í því að hann setti upp epíþelið eins og hann var vanur og lét svo ákveðinn skammt af azithromycini á frumurnar. Kenningin var einfaldlega sú að að rafhrifin í þekjunni myndu breytast. „Svo geri ég þessa tilraun og rafviðnámið í þekjunni jókst verulega! Ég kynnti þetta síðan og mönnum fannst þetta alveg áhugavert. En þetta var pínulítið of skrýtin niðurstaða. Þessi hugmynd passaði ekki inn í neitt. Fólk var að hugsa um sýkla og því fannst þetta bara fínt þannig séð. Það var enginn tilbúinn að taka þennan bolta.” „Það var ekki fyrr en Pradeep Singh, lungnalæknir og vísindamaður og vinur minn sem nú býr í Seattle hvatti mig áfram. Ég vissi að hann var mjög klár svo að ég ákvað því að halda áfram.” Það gerði hann með því að flytja inn lungna- frumur til Íslands og rækta þær í samvinnu við Þórarin Guðjónsson. Ólafur hafði náð sambandi við Guðmund Hrafn Guðmundsson, prófessor í líffræði og Þórarin um aldamótin til að undirbúa þetta. „Guðmundur Hrafn var lykilmaður í þessu til að byrja með og reyndist mér mjög vel í að ræða þetta og setja upp. Þórarinn Guðjónsson, prófessor og sérfræðingur í stofnfrumum, var síðan lykilmaðurinn í að þetta væri yfirleitt hægt. Án hans hefði þetta aldrei gerst.” Forsagan Ólafur kom því heim og fór að vinna með þessum frábæru líffræðingum og þeim tókst að koma upp frumuræktunarlíkaninu sem þeir notuðu úti og meira að segja að betrumbæta það. „Ég leiði svo eiginlega fyrstu styrkjaumsóknirnar til Rannís og við fáum einvherja smá peninga inn í þetta og gátum keypt það sem þurfti til og birtum okkar fyrstu grein árið 2006.” Sú grein sýndi að azithromycin yki rafviðnámið. „Seinna sýndum við líka, í samvinnu við lyfjafræðideildina hérna, að það væri ekki bara rafviðnámið sem færi upp, heldur minnkaði gegndræpi þekjunnar líka. Hún þéttist og veitir meira viðnám. Þetta er forsagan.” Margir hafa fengið hugmyndir Ólafur segir að í þessu tilfelli hafi hugmyndin byrjað hjá sér og hún hafi verið alveg á skjön við allt annað. „En það hafa margir fengið svoleiðis hugmyndir,” tekur hann fram til áréttingar. „Það er mikið af kláru fólki í þessum heimi, en þetta hefði aldrei orðið neitt nema fyrir tilstilli fólks sem var tilbúið að vera með,” tekur hann skýrt fram. „Auðvitað var ég með einhvern sannfæringar- kraft í byrjun en Guðmundur og Þórarinn hoppuðu á vagninn og voru síðar lykilmenn í að keyra þetta áfram.” Þekjan fékk vörn gegn bakteríum Grunnhugmyndin segir Ólafur að sé grasrótarhugmynd sem byggðist á vinnu bæði með sjúklingum og frumum. „Síðan birtum við grein árið 2010 sem er enn frekari lýsing á þessu módeli. Þá bjuggum við til svona varnar- og sóknartilraunir með því að setja pseudomonas bakteríuna ofan á frumurnar líka og létum azithromycinið verja. Þá kom í ljós að azitrhomycinið varði þekjuna fyrir bakteríunum án þess að drepa þær. Sú grein birtist í mjög öflugu bandarísku vísindatímariti, American Journal of Respiratory Cell and Molecular Biology, kallað Rauða blaðið og vakti talsverða athygli. Það var alger lykilgrein í þessu. Í þessari vinnu allri vorum við mjög heppin með meistara- og doktors- nema sem í upphafi voru hjá mér og Þórarni en síðar alfarið hjá honum. „Þannig að akakemíski þátturinn í þessu var áfram á góðu róli, en það er algerlega óvíst og raunar ólíklegt að neins konar lyfjaþróun hefði orðið ef ekki hefði komið til sögunnar læknanemi með óvenju mikla frumkvöðulskrafta í æðum.” Stofnun EpiEndo Það var í kringum 2007-8 að Ólafur er með fyrirlestur í lækna- deildinni um lungnasjúkdóma og lýsir þessum tilraunum. „Þá er í salnum Friðrik Rúnar Garðarsson, læknanemi. Friðrik fékk mikinn áhuga á verkefninu og ákvað að vinna að því á eigin spýtur. Hann vann mjög markvisst, fékk fjárfesta með sér og stofnaði sjálfur fyrirtækið EpiEndo árið 2014. Friðrik lagði á sig mikla vinnu, var gífurlega útsjónasamur og vann þarna mikið afrek við að koma fyrirtækinu á fót. Ég veit að reynsla, þekking og orðstír Þórarins hjálpaði til og vona að svipað megi segja um mig.” Fyrirtækið hefur svo þróast og þroskast og Ólafur segist sem betur fer hafa haldið þessum þræði því að honum finnist hann svo skemmtilegur. „Ég gat haldið áfram að verja tíma í þetta lengi vel en minna eftir því sem annir jukust í stjórnunar- störfunum á spítalanum, en ég náði alltaf að halda þræðinum.” Fyrirtækið segir hann að hafi svo tekið mikinn þroskakipp þegar Friðriki tókst að fá erlenda aðila meira inn, öflugan breskan stjórnarformann og tvo sænska forstjóra, hvorn á eftir öðrum. „Eftir að fyrirtækið var stofnað sat ég í ráðgefandi vísindaráði, Scientific Advisory Board og var síðan einnig í stjórn þess um tíma en er nú aftur kominn í vísindaráðið. Í vísindaráðinu sitja m.a. lungnalæknarnir David Singh, Peter Barnes og Wisia Wedzicha, sem öll eru þekkt alþjóðlega og vísindamaðurinn Michael Parnham, sem segja má að hafi fundið upp sýklalyfið azithromycin á sínum tíma. Það er auðvitað heiður fyrir mig að fá að vinna með slíku fólki þó ekki sé nema tímabundið, hvað sem síðar verður.”

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.