Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 23

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 23
23 T-in tvö og læknisfræðin Þegar ég spyr Brynju um náms- og starfsferilinn svarar hún á sinn snaggaralega hátt. „Ég lærði tungumál en vinn í tölum. Hvort tveggja byrjar á T,“ bætir hún við og brosir út í annað. Hins vegar segir hún að það eina sem hana hafi langað til að læra í lífinu hafi verið læknisfræði. „Ég fór og ég reyndi, en svo bara gafst ég upp. Það reyndu 120 manns við inntökuprófið en 12 komust inn, þar sem ekki voru teknir fleiri inn. Sumir voru að fara þarna í þriðja skiptið,“ rifjar hún upp og segist hafa reynt í tvö ár og lesið í þrjú. „Ástæðan fyrir að ég hætti var líka að hluta til sú að ég er mikil félagsvera,“ segir hún. Tilhugsunin um að vera öllum stundum innilokuð yfir náminu heillaði hana ekki. „Ég varð að geta farið og hitt félagana og átt svolítið líf utan dagskrár skólans.“ Tungumálanámið Hún ákvað því að hætta og snúa sér að öðru námi í staðinn. „Það var auðveldast fyrir mig að læra tungumál svo að ég skráði mig í ensku og dönsku.“ Kennslan í ensku reyndist hins vegar að mati Brynju svo „afburða, einstaklega leiðinleg“ að hún segist hreinlega ekki hafa nennt að halda áfram. „Ég fór þá í frönsku í staðinn,“ heldur hún áfram. „Ég var ég svo heppin að fá tækifæri til að tala málið þar sem ég var að vinna sumarlangt í franska sendiráðinu. Þar voru ung hjón með lítinn dreng og það tókst mikil vinátta milli okkar. Þau eru síðan búin að fara vítt og breitt um heiminn en vinátta okkar er órofin. Auk þess eignaðist ég líka aðra franska vini á tímabilinu og var því lánsöm að fá svona góða þjálfun í málinu.“ Brynja segist hafa byrjað að heyra og kannski tala dönsku þegar hún var eitthvað um fimm ára. „Á miðhæðinni í húsinu okkar á Bollagötunni bjó Sigurður E. Hlíðar, sem var þingmaður og yfirdýralæknir og kona hans Guðrún. Þau voru mjög dönskutengd því að hún átti forfeður í Danmörku. Ég var mikið að skottast í kringum þau, því að þau voru mér svo góð. Ég fékk oft spurningar eins og t.d. „Har du været en god pige i dag?“ og þá lærði ég að svara. Þegar ég byrjaði svo að læra dönsku í skólanum fór ég alltaf niður til þeirra og las fyrir þau. Ég átti þar góða að svo að danskan lá afskaplega vel fyrir mér.“ Lífsförunauturinn Örlögin höguðu því svo til að árið 1971 kynntist Brynja hálfdönskum manni, Vatnari Viðarssyni sem var arkitekt. „Hann var búinn að eiga mjög flottan feril í Danmörku, en svo gerist það árið 1972-3 að bankarnir í Danmörku hættu að lána fé til bygginga. Vatnar hafði verið með átta manns í vinnu og heilmikinn rekstur en þetta ástand kippti stoðunum undan starfseminni.“ Brynja fór á þessu tímabili út til Danmerkur í háskólanám í dönsku. „Það var ekki hægt að kynnast manninum nema við byggjum eitthvað saman,“ segir hún og brosir. Þarna var starfsemin í Danmörku við það að fjara út, en Vatnar var kominn með nokkur verkefni heima á Íslandi. „Svo var mér farið að leiðast þarna úti og sagði að ég vildi helst fara heim. Sem við og gerðum. Við komum okkur fyrir á Bollagötunni og keyptum svo allt húsið smám saman. Þar bjuggum við alla tíð og ég bý þar enn. Sambúð okkar stóð í 43 ár, allt þar til hann lést 28. apríl árið 2015.“ Ferðamál og bókhald Þegar þau sneru heim til Íslands segist Brynja hafa ákveðið að söðla alveg um. Hún fékk vinnu hjá Pólaris, heildverslun, sem var með umboð fyrir Pan American. Svo var sett á stofn Ferða- skrifstofan Pólaris og fluttist hún þangað yfir og vann þar við bókhald og sölumennsku og var einnig skrifstofustjóri. „Ég var svolítið að fikta í tölum þar,“ segir hún og vill greinilega ekki gera mikið úr bókhaldsþekkingunni sem hún öðlaðist í Verslunar- skólanum „Ég var náttúrulega svo einstaklega heppin að bróðir minn, Jón H. Runólfsson, var löggiltur endurskoðandi.“ Atvinnulaus í korter Eftir að hún sagði upp störfum hjá Ferðaskrifstofunni Pólaris segist hún hafa verið atvinnulaus í u.þ.b. fimmtán mínútur. Þannig vildi til að á leið sinni frá húsakynnum Ferðskrifstofunnar Pólaris eftir að hún var búin að segja upp, gekk hún fram hjá Ferðaskrifstofu Reykjavíkur og þar stóð kona sem gaf henni merki um að koma til sín. „Þetta var Íslaug Aðalsteinsdóttir, sú mikla sómakona og hún sagði við mig að ef ég ætlaði einhvern tíma að söðla um skyldi ég tala við sig. Ég sagði bara að ég væri að söðla um núna og þar með var ég ráðin.“ Alvarleg veikindi Á Ferðaskrifstofu Reykjavíkur vann hún svo þangað til í febrúar 1995 en þá veiktist hún illa og var lögð inn á sjúkrahús. „Ég var mjög veik. Ég fékk svona slæman asma og sýkingu í lungun. Þetta markaði eiginlega ákveðin þáttaskil í sjúkrasögu minni. Ég var lengi búin að fá lungnabólguköst með tilheyrandi asma og mátti t.d. aldrei verða kalt, því að þá veiktist ég og fékk í lungun.“ Hún útskrifaðist af sjúkrahúsinu eftir nokkra daga en var áfram á lyfjum og segist hafa orðið mjög máttfarin af þeim. Ákveðin þáttaskil Þarna kviknaði fyrsti neistinn að stofnun Samtaka lungnasjúklinga þegar hún fór að velta því fyrir sér hvaða rétt hún hefði. „Veistu hver hjálpaði mér?“ spyr Brynja. „Konan sem þreif hjá mér,“ svarar hún og hlær. „Hún vissi allt um allt og benti mér á alls kyns lausnir. Ég var að vísu orðin allt of sein að sækja um margt, þannig að ég fékk heilar 8.000 kr. í bætur! Það fleytir manni langt! Ég komst alveg til tunglsins og til baka.“ Orkan hverfur gersamlega Eftir að hún náði sér vann hún um tíma fyrir Borgarljós, en fór svo að taka í auknum mæli að sér verkefni fyrir Jón bróður sinn. Það leiddi til þess að hún færðist smám saman yfir til hans. Árið 1997 veiktist hún svo aftur hastarlega og var sett í tilheyrandi lyfjameðferð. „Fólk sem hefur ekki verið með öndunarörðugleika veit ekki og skilur eðlilega ekki hvað maður verður ofboðslega máttlaus. Orkan hverfur gersamlega því að hún fer öll í að reyna að ná andanum,“ segir Brynja og bætir við:“ Hvað gerir maður þegar maður nær ekki andanum?“

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.