Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 28

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga - des. 2021, Blaðsíða 28
28 Ertu á leið til útlanda? Rabb og ráðleggingar um undirbúning fyrir flugið Nú, þegar kórónuveirufaraldurinn hefur haldið jarðarbúum í ríflega eins og hálfs árs gíslingu er farið að grilla í bjartari tíma. Mikill meirihluti okkar Íslendinga er tvíbólusettur og margir búnir að fá örvunarskammt að auki. Vel hefur gengið að viðhafa sóttvarnir og virða nauðsynleg fjarlægðarmörk manna á milli. Fólk er því eðlilega farið að hugsa aðeins út fyrir landsteinana. Nú á haustdögum hittumst við Andrjes Guðmundsson og Gunnhildur Hlöðversdóttir í morgunkaffi og ræddum um það sem lungnasjúklingar þurfa helst að hafa í huga þegar þeir fara í millilandaflug. Bæði hafa þau sínar reynslusögur að segja af ýmsum óþægindum sem vel hefði mátt koma í veg fyrir. Mikilvægi þess að skoða aðstæður á flugvöllum Andrjes rifjar upp þegar hann og eiginkonan flugu eitt sinni heim frá Berlín eftir að hafa verið á lengra ferðalagi. „Ég valdi náttúrulega ódýrustu ferðina þar sem það munaði heilmiklu. Ég vissi þó ekki að í Berlín væru tveir flugvellir. Þegar þau mættu svo út á flugvöll var engin aðstaða þar fyrir fólk, hvorki heilbrigt né sjúkt. Þau þurftu að ganga upp og niður stiga, aftur og aftur. „Við vorum með tvær ferðatöskur, súrefnissíuna og þar sem við vorum að koma úr hjólaferðalagi vorum við líka með hjálma og alls konar drasl. Þetta var því meiri háttar verkefni fyrir mig að fara upp og niður stigana og konuna með allar töskurnar,” rifjar hann upp og andvarpar. Þegar ég spyr hvort hann hafi ekki verið búinn að kynna sér aðstæður, segir hann að sér hafi ekki dottið í hug að það væru tveir flugvellir þarna. „Svo kom líka í ljós að það hefur lengi staðið til að leggja þennan flugvöll niður þar sem hann stenst engan veginn nútímakröfur og hefur sennilega verið hróflað upp þegar múrinn var byggður.” Var stundum orðinn ansi slappur Andrjes hefur starfs síns vegna ferðast mikið gegnum tíðina og eftir að hann veiktist var mikill munur þegar hann fékk ferðasíu sem hann segir þó oft ekki hafa dugað nema hluta af ferða- laginu. „Sérstaklega í lengri vegalengdunum, eða þegar ég þurfti að millilenda og stuttur tími var á milli fluga. Þá varð hún oft batteríislaus áður en ég náði á leiðarenda.” Hann segist hafa stundum verið orðinn ansi slappur. Þó að það sé ekki þörf á súrefni fyrir venjulegt fólk, þá er hlutfall súrefnis yfirleitt minna í flugvélum og fólk mettar almennt verr sem hefur veruleg áhrif á þá sem eru eitthvað veikir fyrir. „Ég var stundum kominn mjög lang niður í mettun, bara sitjandi í sætinu mínu, hvað þá ef ég þurfti að hreyfa mig eitthvað.” Bara neyðarsúrefni um borð Gunnhildur nefnir í þessu samhengi að hún hafi stundum heyrt sagt að það sé súrefni um borð ef þörf krefur. „En það er auðvitað bara neyðarsúrefni,” bendir hún á. „Þú getur ekki litið svo á að þú fáir bara súrefni hjá þeim ef sían dugar ekki. Neyðarsúrefnið er svo lítið.” Það er því nauðsynlegt að láta vita fyrirfram. Reyndar bendir Andrjes á að þrátt fyrir að þjónustan sé góð þá getir þú lent á aðila á þjónustuborðinu sem þekkir ekki vel til. „Ef við tölum aftur um þjónustuna, þá hef ég hringt og tilkynnt að ég sé með síu, eins og á víst að gera, en hef þá hitt á fólk sem skilur ekkert hvað ég er að tala um. Eftir að hafa beðið í ansi langan tíma eftir að ná sambandi, spyr það í forundran af hverju ég sé að láta það vita.” „Svo þarftu að vera með vottorð frá lækni um að þú verðir að vera með síuna,” bætir Gunnhildur við. „Ég man að vísu ekki eftir að hafa þurft að sýna það.” Andrjes samsinnir því. „Það er samt örugglega betra að hafa það,” segir Gunnhildur. Gunnhildur og Andrjes.

x

Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttabréf Samtaka lungnasjúklinga
https://timarit.is/publication/1564

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.