Heima er bezt - 01.12.2002, Qupperneq 15
Hallgrímur Jónasson.
sokkar sem ýmist náðu upp á mið læri eða í hné og
vettlingar sem voru belgmiklir og stórir en hlupu saman
við notkun, og svo sjóvettlingar.
Faðir minn og eldri bræður, Hjörtur og Magnús, gerðu
nokkuð að því að skjóta rjúpur. Þóttu þær góð
verslunarvara, væru þær ekki blóðugar að ráði. Gangverð
á þeim var 25 aurar fyrir stykkið. Verð á sokkum og
vettlingum man ég ekki.
Er búið var að prjóna og þæfa sokkana voru þeir
dregnir upp á fjöl, sem var í laginu eins og fótur, en
þynnri. Var það gert til þess að fá á sokkana snotrara lag
og svip. Við krakkarnir vorum látnir þæfa sokkana og
vettlingana, einkum þó sokkana, því vettlingarnir
þæfðust mikið af sjálfu sér við notkunina.
Ekki man ég nú eftir öðrum gjaldeyrisvörum sem faðir
minn hafði til þess að versla með fyrir jólin, nema þá ef
honum áskotnuðust örfáar krónur fyrir að veita
ferðamönnum gistingu og aðra aðhlynningu. Eitthvað
lítilsháttar mun hafa verið tekið fyrir það þegar
utanhéraðsmenn áttu í hlut, en innanhéraðsmenn fengu
allan beina ókeypis.
„Það er annað að kveðja á Kotum en komast í
Bakkasel“
En svo var að koma þessu í kaupstaðinn. Og venjulega
varð Akureyri fremur fyrir valinu en Sauðárkrókur. En til
Akureyrar var bæði löng leið og torfarin. Ég held satt að
segja að Öxnadalsheiði hafi verið einhver allra torsóttasti
ijallvegur af jafnri lengd, sem hægt var að finna á
Norðurlandi og kannski um landið allt. Þetta er
heiðakinnungur, annars vegar í djúpum dal og svo þröngur
að undirlendi um meginhluta hans er svo til ekkert. Eftir
dalbotninum liggur geysidjúpt hamragil, sem ár og lækir
falla til frá báðum hliðum. Torfærasti kaflinn á heiðinni
nefnist Giljareitur. Nafn sitt dregur hann af því að þijú
þvergil liggja ofan úr heiðinni og fram á gljúfurbarminn.
Hið vestasta þeirra og versta, heitir Dagdvelja og ber nafn
með rentu. í stórhríðum söfnuðust slíkar snjóhengjur í
þetta gil að það varð illfært bæði mönnum og skepnum.
Austari gilin, sem heita Hleinagil, voru raunar litlu
betri. Þegar verst lét var eina ráðið fyrir ferðamenn að
brjótast niður í sjálft árgljúfrið, sem er þama um 5
kílómetra langt, og eftir því endilöngu. Ef farið var niður í
gilið á norðurleið var ekki komið upp úr því fyrr en við
svonefnt Reiðgil en á vesturleið niður á Norðuráreyrum.
En það heyrði ég föður minn segja að frá Reiðgili á
Öxnadalsheiði væri sér sama, upp á vegalengdina að gera,
hvort hann færi heldur til Sauðárkróks eða Akureyrar.
En það voru ekki aðeins við Norðdælir, sem sóttu
gjarnan fremur verslun til Akureyrar en Sauðárkróks. Það
var jafnvel gert neðan úr Blönduhlíð. Frá Silfrastöðum
t.d., sem raunar heyrir nú til Norðurárdals, var oft sendur
maður, tíðum gangandi, í verslunarerindum til Akureyrar,
já, jafnvel fram að Grund í Eyjafirði, á meðan Magnús
Sigurðsson verslaði þar. Það sem út var tekið, var kaffi,
sykur, rúsínur og sjálfsagt sitthvað fleira, sem nauðsynlegt
þótti að hafa til jólanna.
Jólamaturinn
Þegar búið var að lesa húslesturinn eða jólahugvekjuna
á aðfangadagskvöld, var jólamaturinn borinn framan úr
búri og inn í baðstofu. Hver sat á sínu rúmi og tók við
sínum diski á hné sér. Maturinn var fyrst og fremst
hangikjöt, en það smökkuðum við aldrei nema á hátíðum,
og steikt hveitibrauð. Það sem ég fékk, man ég eftir, var
hálfur, reyktur bringukollur, hálfúr, reyktur magáll,
eitthvað meira af reyktu kjöti, tólgur eða bræðingur til
viðbits og ofan á þessum hátíðarmatföngum var svo
dálítill stafli af steikta brauðinu. Þessi matur átti að
endast okkur, með einhverju öðru, a.m.k. fram að nýári.
Og gamla fólkinu tókst þetta með prýði. Ég undraðist það
oft hvað það gat geymt matinn sinn lengi. Ég hugsa að
okkur krökkunum hafi gengið það ver.
Minnisstæðustu jólin
En eftir var mest ánægjan, sjálf jólagjöfin. Og það vill
nú svo til að bjartasta minning mín um jólin er tengd
ákveðinni jólagöf. Þau jól verða mér alltaf minnisstæð.
Ég man ekki hvað ég var gamall þá, en sennilega hefur
það verið um það leyti sem ég fékk berklana í vinstri
fótinn, en það er nú önnur saga, sem ekki verður sögð
hér.
Það var aðfangadagskvöld. Ég stóð úti við, suður við
Heima er bezí 527