Fréttir - Eyjafréttir - 23.03.2023, Side 2
Útgefandi: Eyjasýn ehf. - kt. 480278-0549
Ægissgötu 2 - 900 Vestmannaeyjum.
Ritstjórn og ábyrgð: Ómar Garðarsson og Sindri
Ólafsson - omar@eyjafrettir.is - sindri@eyjafrettir.is.
Umbrot: Leturstofa Vestmannaeyjum ehf.
Ljósmyndir: Blaðamenn Eyjafrétta.
Prentun: Stafræna Prentsmiðjan ehf.
Sími: 481 1300
Netfang: frettir@eyjafrettir.is.
Auglýsingar: auglysingar@eyjafrettir.is
Veffang: www.eyjafrettir.is
EYJAFRÉTTIR er áskriftarblað.
Eftirprentun, hljóðritun, notkun ljósmynda og
annað er óheimilt nema heimilda sé getið.
Nú líður senn að lokum loðnuvertíðar
og því ljóst að eitthvað mun draga úr
raforkuþörf í Vestmannaeyjum með
hækkandi sól. Steinunn Þorsteinsdóttir
upplýsingafulltrúi hjá Landsnet sagði í
samtali við Eyjafréttir að strengirnir sem
virkir eru séu að flytja um 12,5 MW.
„Síðustu vikur höfum við ekki þurft að
keyra neytt varaafl í Eyjum. HS Veitur hafa
hins vegar leigt af okkur varaaflsvélar til
eigin nota.“ Hún segir þetta mikla breytingu
frá fyrstu vikunum eftir bilunina þegar
olíukostnaður Landsnets vegna keyrslu fyrir
forgangsorku fyrstu 3 vikurnar frá bilun á
VM3 var um 25 milljónir króna.
Tvær leiðir í boði
Aðspurð um viðgerð á strengnum sem
bilaði sagði Steinunn. „Við höfum verið
að skoða tvær aðferðir til viðgerða á
strengnum. Annars vegar að gera við
strenginn með samskonar aðferð og gert
var þegar hann bilaði 2017 og nýta til þess
varastreng sem Landsnet á í Eyjum og hins
vegar að kaupa rúma 3 km af nýjum streng,
fleyta honum upp á Landeyjasand, tengja
hann þar við jarðstrengina á sama stað og
VM3 tengist nú og setja eina tengingu í
sjó. Aðferðirnar hafa ólíka kosti og galla
og er verið að meta þá nú. Við höfum haft
samband við verktaka sem sérhæfa sig
í viðgerð á sæstrengjum og bíðum eftir
tilboðum frá einhverjum þeirra.“
Hún segir þau hafa fundið streng sem til
er á lager í Evrópu og hafa fengið tilboð
frá framleiðanda strengsins. „Verði valið
að fleyta nýjum streng þarf að kaupa nýjar
tengimúffur til að tengja saman gamla og
nýja strenginn og hefur Landsnet einnig
fengið tilboð í slíkar múffur.“ Hún segir
líklegt er að viðgerðartími verði í júní –
júlí, en þá eru mun meiri líkur á veðri og
öldulagi sem hentar viðgerð en takmörk eru
á bæði veður- og ölduhæð meðan viðgerð
fer fram.
Skýrist á næstu dögum
„Við leigðum um daginn erlendis frá
tæki sem gerir okkur kleift að finna
strenginn þar sem hann hefur grafist niður
í sandinn og mæla þykkt sandlagsins ofan
á strengnum. Tækið reyndist bilað og var
því sent aftur út til viðgerða. Vonast er til
að það komi aftur á næstu dögum og að þá
verði hægt að gera þessar mælingar. Stefnt
er að því á næstu dögum verði búið að
afla nægra gagna til að hægt sé að ákveða
viðgerðaraðferð og semja við verktaka til
að sjá um viðgerðina.“
Brenndu olíu fyrir 25 milljónir
fyrstu þrjár vikurnar
Ekki þurft að keyra varaafl síðustu vikur
Samkeppnisstofnun hefur veitt
samþykki sitt fyrir samruna
Ísfélags Vestmannaeyja og
Ramma í Fjallabyggð. Kom
samþykki hennar á föstudaginn.
Aðspurður segir Einar
Sigurðssonar, stjórnarmaður í
Ísfélaginu, að nú taki við að vinna
að samrunaáætlun sem fari svo í
opinbera birtingu. Að ákveðnum
tíma liðnum verði hún tekin
fyrir á hluthafafundi hjá hvoru
félagi sem hefur lokaorðið um
sameininguna. Í kjölfarið verður
haldinn hluthafafundur sameinaðs
félags þar sem ný stjórn verður
kjörin.
„Rekstur félaganna hefur gengið
vel það sem af er ári, aflabrögð
góð og loðnuveiðin gekk vel. Ytra
umhverfið er og verður þó erfitt
næstu misseri og því skiptir máli
að halda vel á spilunum, bæði í
sjávarútvegi og annars staðar,“
segir Einar.
Tilkynnt var á dögunum að
Ísfélagið hefði fjárfest fyrir
umtalsverðar fjárhæðir í Ice
fish farm sem er í fiskeldi á
Austfjörðum. Um er að ræða
mjög stóra fjárfestingu en líka
mikið tækifæri þó áhættan sé
vissulega fyrir hendi. „Við höfum
trú á laxeldi en það er mikilvægt
þar eins og annars staðar að vanda
vel til verka,“ segir Einar sem
telur að greinin sé búin að slíta
barnskónum og læra margt.
„Það hafa stjórnvöld líka gert
og það kemur skýrt fram í nýrri
skýrslu matvælaráðherra, að mikil
tækifæri eru fyrir Ísland þegar
kemur að eldi, bæði í landi og sjó.
Greinin getur orðið mikilvægur
hluti í okkar landsframleiðslu og
mikilvæg í verðmætasköpun á
Íslandi.
Þetta mun auk þess leiða af sér
önnur tækifæri fyrir íslensk
fyrirtæki, bæði þegar kemur að
hugviti og að framleiða t.d. fóður.
Í okkar huga er þetta spennandi
verkefni, það er komin aðeins
lengri saga í sjóeldi hér á landi
en landeldi. Við teljum einnig
tækifæri þar líka þó svo að
Ísfélagið þurfi að sníða sér stakk
eftir vexti og muni einbeita sér
að sjóeldi að minnsta kosti næstu
misseri,” sagði Einar að endingu.
Samruni Ísfélagsins og Ramma samþykktur:
Fjárfesta í fiskeldi á Austfjörðum
Heimaey að landa loðnu hjá Ísfélaginu í Vestmannaeyjum.