Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 23.03.2023, Blaðsíða 6

Fréttir - Eyjafréttir - 23.03.2023, Blaðsíða 6
6 | | 23. mars 2023 Hópur Eyjamanna hittist á hverjum morgni hjá Reyni bakara við Dalveg í Kópavogi. Þeir fá sér morgunkaffi og skiptast á sögum og fréttum. Mæting er um níuleytið og sumir sitja alveg fram undir klukkan ellefu. Gunnar Sigurðsson rafvirkjameistari og vélstjóri frá Svanhól er fastagestur. „Við byrjuðum á að hittast í morgunkaffi tvisvar í viku á kaffistofunni í Lakkhúsinu hjá Himma í kringum síðustu aldamót. Þeir byrjuðu þar Gústi í Skálholti (Friðrik Ágúst Hjörleifsson), Siggi á Háeyri (Sigurður Guðmundsson), Haukur Sigurðsson, Einar Jónsson frá Berjanesi, Friðrik á Látrum (Friðrik Jónsson), Maggi í Dal (Magnús Oddsson), ég og fleiri,“ segir Gunnar. Himmi hét Hilmir Þorvarðarson og stofnaði og rak Lakkhúsið ásamt sonum sínum. Hann lést árið 2019. Það var oft þröngt setinn bekkurinn í kaffistofunni og sífellt bættist í hópinn. Síðar var farið að byrja daginn með morgungöngu í Fífunni. Félagarnir ganga utandyra eða inni þegar veður er vont. Eftir gönguna er farið í morgunkaffi hjá Reyni bakara sem Eyjamaðurinn Reynir Carl Þorleifsson bakarameistari stofnaði. Þar er nóg pláss og nú hittast menn þar alla morgna vikunnar. Venjulega koma 10-15 karlar en færri um helgar. Auk ofantalinna koma nokkrir sem eru búsettir í Eyjum og líta við þegar þeir eru í borginni. Margt ber á góma á þessum morgunfundum. Pólitíkin er mikið rædd en líka aflabrögð og sjómennska. Ekki eru allir á sama máli og því getur umræðan orðið lífleg. Mikið er rætt um báta og þegar Eyjamaðurinn Tryggvi Sigurðsson kemur í heimsókn er aðallega rætt um bátana, enda er hann hafsjór af fróðleik á því sviði. Menn fara margs fróðari af þessum fundum. Því var gaukað að blaðamanni að sumir séu þó spenntari fyrir því að tala um konur en báta! Fótboltinn er líka vinsælt umræðuefni og í hópnum eru m.a. stuðningsmenn Manchester United, Liverpool og Arsenal og halda þeir þétt með sínum liðum. Allir sameinast þó í eindregnum stuðningi við ÍBV í öllum greinum og eru í skýjunum yfir bikarmeistaratitli kvennaliðs ÍBV í handbolta. Flestir sem mæta í kaffið hjá Reyni bakara eru komnir á eftirlaun. Þeir segja að þessir morgunfundir bjargi alveg deginum. Menn drífa sig upp á morgnana í stað þess að liggja í leti og það að eiga skemmtileg samverustund með góðum félögum getur ekki verið annað en byrjun á góðum degi. Í kaffi hjá Reyni bakara F.v. Ágúst Birgisson, Gunnar Sigurðsson, Steinn Guðmundsson, Loftur Harðarson, Haukur Sigurðsson, Ólafur Örn Kristjánsson, Sigurður Guðmundsson og Guðni Einarsson. Ljósmynd/Ómar Garðarsson Eyjakaffi alla daga hjá Reyni bakara GUÐNI EINARSSON gudnieinars@gmail.com Foreldramorgnar í Landakirkju hafa verið fastur liður í starfi kirkjunnar í mörg ár. Í október 2021 hófu þeir aftur göngu sína eftir pásu og hafa verið fastur liður síðan. Prestar Landakirkju eru afskaplega ánægðir með að þetta starf hafi vaxið með þessum hætti og vonast til að það haldi áfram. Í gegnum árin hefur það tíðkast að foreldri haldi utan um starfið. Heba Dögg Jónsdóttir hefur umsjón með starfinu í dag og þegar hennar orlofi lýkur tekur einhver við keflinu af henni. Foreldramorgnar eru alla fimmtudaga frá 10 til 12 í Safnaðarheimili Landakirkju. Morgnarnir eru opnir öllum foreldrum ungra barna og verðandi foreldrar eru að sjálfsögðu velkomnir. Kvenfélagið Líkn býður upp á kaffi og léttar veitingar. Af og til er boðið upp á fræðslu sem viðkemur börnum og foreldrahlutverkinu og telji einhver sig hafa eitthvað fram að færa er honum velkomið að hafa samband. Blaðamaður Eyjafrétta kíkti á foreldramorgun og spjallaði við nokkrar mæður sem eru duglegar að sækja morgnana. Þær voru sammála um að þessi tími sé ótrúlega gefandi að svo mörgu leyti. Þeim þykir gott að geta skipst á góðum ráðum og spjalla við foreldra sem eru á sama stað og þær sjálfar. „Það er svo dýrmætt að koma og sjá að allir eru að kljást við allskonar atriði og finna að maður er ekki einn í þessu. Einnig er þetta frábær tími fyrir börnin að eiga í félagslegum samskiptum við aðra áður en þau fara í leikskóla,“ segir Heba sem að lokum vill hvetja þá sem hafa áhuga á að koma og láta aðra vita af starfseminni. „Það er svo gaman að sjá ný andlit.“ Foreldramorgnar Landakirkju Allir velkomnir: Alltaf svo gaman að sjá ný andlit DÍANA ÓLAFSDÓTTIR diana@eyjafrett ir. is Alltaf góður andi á foreldramorgnum í Landakirkju.

x

Fréttir - Eyjafréttir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.