Fréttir - Eyjafréttir


Fréttir - Eyjafréttir - 23.03.2023, Page 16

Fréttir - Eyjafréttir - 23.03.2023, Page 16
16 | | 23. mars 2023 „Þetta er fimmti veturinn minn með ÍBV og hefur mig allan tímann dreymt um titil. Og loksins kom hann. Var biðin alveg þess virði og miklu meira en það,“ sagði Sunna Jónsdóttir fyrirliði ÍBV sem stýrði sínu liði til sigurs í úrslitaleik Bikarkeppninnar gegn Val í Laugardalshöllinni á laugardaginn, 31:29 í hörkuleik. Þrátt fyrir allt sem á undan var gengið, náðuð þið að stilla saman strengi þegar kom að leiknum stóra. „Auðvitað hafði þetta áhrif og við fundum alveg fyrir þessu. Við vorum að fara inn í skemmtilegustu viku og helgi ársins í handboltanum. Við erum líka með ungar stelpur sem áttu erfitt og vissu ekki í hvorn fótinn þær áttu að stíga. Við reyndum að einbeita okkur að handboltanum og njóta þess að vera í þessari stöðu. Algjör forréttindastaða en við vorum búnar að vinna fyrir þessu. Leggja hart að okkur og áttum skilið að vera á þessum stað. Við þéttum raðirnar og efldumst sem hópur. Reyndum að einbeita okkur að handboltanum. Hitt mátti taka síðar,“ sagði Sunna. Höfðuð þið trú á að þið mynduð klára þetta? „Já, það var draumurinn og við höfðum allar mikla trú á því, um leið vissum við að við vorum að fara í mjög erfiðan leik. ÍBV og Valur eru tvö bestu lið landsins og að þetta yrði stál í stál.“ Sunna er þakklát öflugum stuðningsmönnum ÍBV í leiknum. „Stuðningurinn var ólýsanlegur og ómetanlegt fyrir okkur því hann er okkar sterkasta og besta vopn. Hreint magnað að spila með ÍBV í þessari stemningu. Vá, get ekki lýst því, gæsahúð, hjartsláttur og allur pakkinn,“ sagði Sunna en þá er ekki nema hálf sagan sögð. Lögreglufylgd „Rútuferðin í Landeyjahöfn var skemmtileg. Tónlistin í botni og allir glaðir og lögreglufylgd frá Hvolsvelli. Algjörar drottningar. Heimsiglingin alveg ólýsanleg. Við sungum og trölluðum í fullum Herjólfi, flugeldasýning þegar við sigldum inn og móttökurnar á bryggjunni. Alveg magnað að upplifa þetta, stóðst allt væntingar og gott betur þó þær væru nógar.“ Tekurðu undir þá fullyrðingu að ÍBV sé besta lið á Íslandi í kvennahandboltanum? „Já. Ég held ég verði að taka undir það. Við erum búnar að vinna átján leiki í röð og vinna næstbesta lið landsins þrisvar í röð. Þær voru bikarmeistarar og höfðu reynsluna en við vissum ekki alveg hvað við vorum að fara út í. Það dugði þeim þó ekki,“ sagði Sunna stolt af sínum konum en enn eru tveir titlar í boði, deildar- og Íslandsmeistaratitillinn. „Við áttum gott kvöld saman og fögnuðum vel og innilega. Okkur var kippt niður á jörðina í hádeginu í dag. Tókum æfingu, hittumst og spjölluðum. Við eigum leik strax á miðvikudaginn gegn KA/Þór og á laugardaginn mætum við Selfossi hérna heima. Í næstu viku getum við tryggt okkur deildarmeistaratitilinn þannig að við verðum að halda vel á spöðunum. Halda einbeitningu en við erum komnar á bragðið og langar bara í meira,“ sagði Sunna sem í lokin vildi enn og aftur þakka stuðninginn. „Kærar, kærar þakkir fyrir allan stuðninginn sem er ómetanlegur. Við gerðum þetta fyrir ykkur og okkur öll. Gætum þetta ekki án alls stuðningsins. Það var áfall að missa markmanninn út af með rautt spjald en að horfa upp í stúku gaf svo mikinn kraft. Við áttum klárlega Höllina,“ sagði Sunna Jónsdóttir fyrirliði bikarmeistara ÍBV að endingu. Að fá hingað afreksfólk í fremstu röð til að leika með ÍBV í meistaraflokkum karla og kvenna í handbolta og fótbolta er mikil viðurkenning fyrir íþróttastarf í Vestmannaeyjum og meiri en flestir gera sér grein fyrir. Það eitt að eiga lið í efstu deildum í handbolta og fótbolta karla og kvenna er meira en flest félög á landsbyggðinni geta státað af. Að baki liggur mikil vinna margra og þegar uppskeran er Bikarmeistaratitill er gleðin mikil. Það sýndi sig á laugardaginn þegar stelpurnar okkar gerðu sér lítið fyrir og höfðu betur gegn Val þrátt fyrir mótlæti fyrir leik og í leiknum sjálfum. Verðugir fulltrúar fólks sem gengið hefur í raðir ÍBV eru Sunna Jónsdóttir, fyrirliði kvennaliðs ÍBV og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir sem gerði sér lítið fyrir og skoraði tólf mörk í úrslitaleiknum á laugardaginn. Báðar hafði þær dreymt um að vinna titil með ÍBV og verða hluti af samstöðu Eyjamanna og innilegri gleði þegar heim er komið. Eitthvað sem aldrei gleymist. Sunna fyrirliði og Hrafnhildur markadrottning meira en sáttar Sunna í skýjunum Mótlætið þétti hópinn: Stuðningurinn ólýsanlegur og gaf kraft

x

Fréttir - Eyjafréttir

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Fréttir - Eyjafréttir
https://timarit.is/publication/977

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.