SÍBS blaðið - 01.06.2024, Qupperneq 8
8
SÍBS-blaðið
Offita, yfirþyngd og slæm
efnaskiptaheilsa er vaxandi
vandi í nútímanum. Þetta á við
um allan heim og ekki síst á
Íslandi. Röskun í efnaskipta-
kerfum líkamans ýtir undir
og veldur lífstílssjúkdómum,
sem ég vil kalla eftir að við
sameinumst um að nefna
samfélagssjúkdóma hér eftir.
Slíkir sjúkdómar flokkast undir
ósmitbæra sjúkdóma. Þessi
vandi fær sífellt meiri athygli
fagfólks þar sem tölur sýna
að 80% af kostnaði við heil-
brigðiskerfi í Evrópu er vegna
ósmitbærra sjúkdóma.
Ekki einkamál
Allt of lengi hefur verið litið á
offitu og yfirþyngd sem vanda hvers og eins og gjarnan hafa
fylgt miklir fordómar allri umræðu um offitu. Vanþekking
hefur leitt til þess að fólk sem glímir við þennan vanda hefur
upplifað sig jaðarsett og ekki fengið ráðgjöf og meðferð við
hæfi. Þetta á sér að mörgu leyti eðlilegar skýringar því eins
og með svo margt annað þá tekur tíma að búa til þekkingu og
skilja orsakir sjúkdóma. Þekkingu læknisfræðinnar á offitu
hefur fleygt fram og í dag er mjög mikið vitað um meingerð,
orsakir og meðferð offitu þó það séu hvergi nærri öll kurl
komin til grafar. Eitt er víst að nógu mikil þekking er til staðar
til þess að offita hefur verið skilgreind sem langvinnur sjúk-
dómur og því eiga þeir sem glíma við þann sjúkdóm að fá fag-
lega, samhæfða og gagnreynda meðferð. Sjúkdómurinn offita
ekki spurning um leti, sjálfvalin örlög eða einfalt bókhald yfir
inntöku og eyðslu hitaeininga. Þetta er því miður flóknara en
það.
Fita er vefur rétt eins og vöðvar, bein og fleira og það má
líta á fituvef sem líffæri með fjölþætt og mikilvægt hlutverk í
líkamanum. Ójafnvægi í efnaskiptum líkamans leiðir til þess að
fituvefurinn hættir að starfa eðlilega og verður sjúkur. Í heila
manna er flókin stýristöð orkuefnaskipta og þyngdarstjórn-
unar. Þegar þyngdarstjórnunarstöðin í heilanum og fituvefur-
inn hætta að starfa eðlilega leiðir það af sér röskun á mörgum
flóknum ferlum í efnaskiptum líkamans. Það verður truflun á
stýringu seddu og hungurs, heilinn endurstillir þyngdarviðmið
sitt á hærri þyngd en var áður, það verður truflun á efnaskipta-
hormóninu insúlíni og margt fleira sem ekki verður útskýrt
nánar hér.
Þessar breytingar á lífeðlisfræði líkamans og sú röskun í
orkuefnaskiptum í frumum líkamans sem liggur þar að baki
geta svo með tímanum leitt af sér aðra langvinna sjúkdóma svo
sem hjarta- og æðasjúkdóma, háan blóðþrýsting, sykursýki af
tegund 2, röskun á blóðfitum, fitulifur, stoðkerfisverki, auknar
líkur á krabbameinum, heilabilun og fleiru.
Það er mikilvægt að vita að röskun á starfssemi í fituvef
getur verið til staðar löngu áður eða án þess að fólk sé að
glíma við mikla sýnilega yfirþyngd eða skilgreinda offitu út frá
þyngdarstuðli. Eins er mögulegt að vera með eðlilega starf-
andi fituvef og lífeðlisfræði þrátt fyrir skilgreinda yfirþyngd eða
offitu, að minnsta kosti í einhvern tíma. Offita og slæm efna-
skiptaheilsa snýst því um röskun á lífeðlisfræði líkamans en
ekki sýnilega fitu eða útlit.
En hverjar ætli séu ástæðurnar fyrir þessari hröðu aukn-
ingu á offitu og efnaskiptaröskun fólks út um allan heim? Af
hverju ætli sé orðið erfitt að halda sér í kjörþyngd í nútíma
samfélagi og af hverju er þetta líka orðið vandamál hjá börnum
allt niður á leikskólaaldur? Við þessum spurningum er ekki til
neitt einfalt svar. Mjög mikil þekking hefur myndast um þær
ástæður sem geta legið að baki og eitt er víst að það er engin
ein ástæða. Þetta er mjög fjölþætt. Hér verður leitast við að
útskýra á einfaldan hátt það helsta sem gerir þyngdarstjórnun í
nútíma umhverfi erfiða og hvað liggur að baki.
Þróunarlíffræði
Það getur verið mjög gagnlegt að skoða hluti frá sjónarhóli
þróunarlíffræði. Hinn viti borni maður (e. Homo sapiens) er
um þrjú hundruð þúsund ára gömul dýrategund. Flestum
fræðimönnum ber saman um að nútíma útgáfan sé um
hundrað og sextíu þúsund ára.
Allar breytingar á genamengi tegunda og þróun eigin-
leika út frá breytingum í umhverfi gerast mjög hægt. Bróður-
part þess tíma sem mannfólk hefur gengið á jörðinni hafa
aðstæður í umhverfi verið mjög stöðugar og allar breytingar
mjög hægar.
Um tíu þúsund árum fyrir Krist fara breytingar að gerast
aðeins hraðar og má þar nefna ræktun korns, búfénaðar og
fleira. Breytingar voru samt sem áður til þess að gera hægar
þar til í kjölfar iðnbyltingar og sérstaklega frá um það bil
Grein
Þyngdarstjórnun í
nútíma umhverfi
Kristján Þór Gunnarsson
læknir,
Heilbrigðisstofnun Suðurlands