SÍBS blaðið - 01.06.2024, Page 13
13
2. tbl. 2024
„Ég er svona ævintýramaður,“ segir Sveinn Hjörtur með
breiðu brosi og strýkur víkingaskeggið sem honum var uppá-
lagt að safna fyrir hlutverk sitt í þáttaröðinni. „Vegna stærðar
minnar hafa mér áskotnast mörg hlutverk í auglýsingum og
bíómyndum. Það er mjög skemmtilegt og kannski má líta á
það sem jákvæðu hliðina á því hlutskipti að vera svona stór
og mikill um sig.
Ég var stórt barn við fæðingu, eða 22 merkur og 53 sentí-
metrar. Ég veit ekki hvort það sé ástæða þess að svona fór
fyrir mér, hvort þetta hafi verið einhver efnaskiptasjúkdómur.
Ég byrjaði eðlilega á brjósti en þurfti strax meira en móður-
mjólkina og var fljótlega farinn að borða grauta og þess háttar
löngu áður en ungabörn byrja yfirleitt á slíku fæði. Svo var ég
bara nokkuð þéttur sem barn og unglingur, en var líka eitt-
hvað í íþróttum, til dæmis í handbolta. Ég hef þó alltaf verið
meira í hugvísindum en hitt, með áhuga á mörgum andlegum
málum og ætlaði mér alltaf að verða prestur þegar ég yrði
stór. Þessi áhugi kom í kjölfar erfiðrar lífsreynslu sem ég varð
fyrir þegar ég var tíu ára gamall. Þá missti ég eldri bróður
minn með sviplegum hætti. Hann var myrtur á mjög ljótan hátt
er hann vann hjá Landhelgisgæslunni. Það breytti allri minni
lífssýn að kynnast því svona snemma hvað sorg er, og hvað
dauði er. Þetta var árið 1980 og á þeim tíma var ekki haldið
eins vel utan um börn sem verða fyrir slíku áfalli og nú er gert.
Menn áttu bara að bera harm sinn í hljóði. Mamma blessunin
vann þannig aldrei úr sorg sinni og ekki heldur pabbi, sem
var varðstjóri í lögreglunni. Við systkinin vorum sex. Við erum
fjögur núna og þetta hefur verið djúpt sár á sálinni hjá okkur
öllum.“
Rokkandi þyngd
Sveinn Hjörtur er 188 sentímetrar á hæð, en þótt hann hafi
verið stór við fæðingu kveðst hann hafa verið frekar lágvaxinn
sem strákur. „Upp úr fermingu byrjaði ég svo snarlega að
stækka, tók allt í einu þennan svaka kipp og því fylgdu miklir
vaxtarverkir. En ég var mjög líkamlega hraustur, byrjaði í
kraftlyftingum og var kominn í dyravörslu á skemmtistöðum
18-19 ára gamall. Á þessum árum var ég alltaf nokkuð þéttur á
velli og rokkaði heilmikið í þyngdinni framan af en finnst ég þó
aldrei hafa verið beint mjög feitur þegar ég var ungur.
Ég kynntist barnsmóður minni þegar ég var 24 ára gamall
og við eignuðumst okkar fyrsta barn, sem var stúlka, þegar
ég var rúmlega þrítugur. Hún er núna 21 árs, nýbúin á klára
stúdentsprófið og ætlar að verða læknir. Þremur árum eftir að
hún kom í heiminn eignuðumst við tvíbura, stúlku og dreng.
Þau eru 18 ára, bæði í framhaldsskóla og pluma sig vel í lífinu.
Við barnsmóðir mín skildum nokkrum árum eftir fæðingu
tvíburanna, en höfum alltaf gætt þess að hafa gott samband
vegna barnanna okkar.“
Neyðarvörðurinn
Sveinn Hjörtur fór að vinna við símavörslu hjá Neyðarlínunni
árið 1997 sem markaði ákveðin tímamót hjá honum hvað
varðar líkamsþyngdina. „Þá byrjaði ég smám saman að bæta á
mig kílóunum, þessari skelfilegu kviðfitu. Þetta var vaktavinna
sem er mikil setuvinna og lífsmynstrið breytist mikið varðandi
svefn og mataræði. Það er mjög þekkt erlendis, til dæmis í
Ameríku, að neyðarverðir séu mjög þéttvaxnir og ekki bara
það heldur eru þeir lífshættulega þéttir. Menn sitja við símann
á löngum vöktum, yfirleitt eru það tólf tímar og maður veit
aldrei við hverju er að búast, það er algjör rúlletta. Adrenalínið
fer svo alveg á milljón þegar eitthvað gerist, til dæmis við að
fylgja eftir konu á leiðinni á fæðingardeildina með heiftar-
legar hríðir, mikið stress og óðagot í gangi, barnið kemur
kannski í heiminn áður en á spítalann er náð og neyðarvörður
þarf að virkja aðstoð á staðnum ef hægt er. En allt fer samt
oftast nær vel og mikill fögnuður þegar fyrsti gráturinn berst
í gegnum símtólið. Ég hef líka tekið á móti mörgum af ljótustu
morðum sem hafa verið framin hér á Íslandi og komið inn á
borð 112. Maður þarf að gera allt hárrétt, það má ekkert klikka
og í því felst mikil þjálfun með lögreglu, sjúkraliði, slökkviliði
og öðrum viðbragðsaðilum.“
Vakti það þá ekki aftur upp tilfinningar hjá þér frá morði
bróður þíns?
„Nei, ekki þá þótt mál hans hafi verið að flækjast fyrir mér
á seinni árum. Þarna vann ég með áfallateymi slökkviliðsins
og lögreglunnar þar sem menn styðja vel hverjir aðra. Auð-
vitað tók maður margt inn á sig og sumir atburðir sátu lengur
í manni en aðrir, en þó ekki þannig að það angraði mann og
ylli vanlíðan. Þetta var vinnan manns og maður nálgaðist
hana með mannlegri reisn, sem er um leið fegurðin og sorgin í
þessu starfi. Það sem kom mér persónulega í koll voru þessar
óheilbrigðu matarvenjur sem fylgdu álaginu í vaktavinnunni
sem ég stundaði svo lengi. Á næturvöktum var maður með
litla matarlyst þannig séð, hélt sér vakandi með gosdrykkjum,
matartímar mjög óreglulegir, mjög oft einhver skyndibitamatur
sem fljótlegt er að gleypa. Maður festist einhvern veginn í
þessu fari, ætlar sér alltaf að laga það en það gerist aldrei.
Svo hætti ég hjá Neyðarlínunni. Tvíburarnir voru þá á
leiðinni og ég orðinn langþreyttur á vaktavinnunni og óreglu-
lega lífsstílnum sem henni fylgdi. Ég fór að vinna dagvinnu hjá
gamla Toyota, hjá Páli heitnum Samúelssyni sem var ein-
stakur maður og gott að vinna hjá honum. Ég náði síðar meir
að létta mig með ýmsum hætti, fór alveg niður í 90 kíló og var
bara grannur og fínn. Svo skildi ég árið 2009 og byrjaði aftur
að þyngjast. Léttist aftur og þyngdist aftur. Ég var eins og jójó
með þyngdina.“
199 kíló!
Árum saman skiptust á þessi tímabil þar sem Sveinn Hjörtur
þyngdist og léttist á víxl. „En svo var ég orðinn alltof þungur.
Það var fyrir sex eða sjö árum að ég steig á vigtina sem upp-
lýsti mig um að ég væri orðinn 199 kíló! Og ég fékk algjört
sjokk. Ég hafði alltaf verið hár í loftinu en núna var ég líka
orðinn gríðarlega mikill um mig. Þá hafði ég sem sagt um all-
nokkurt skeið leikið talsvert í bíómyndum og auglýsingum. Ég
var þursinn í myndunum og var til dæmis sem slíkur notaður í
auglýsingu fyrir Dodge bílaframleiðandann. Það var rosalega
skemmtilegt verkefni og auglýsingin sýnd í tengslum við Súp-
erball úrslitaleikinn í Bandaríkjunum, sem hundruðir milljóna
manna sáu. Ég lék líka fanga í einni af Marvel-myndunum sem
frumsýnd verður næsta haust. Ég var sem sagt búinn að fá
helling af slíkum aukahlutverkum með þennan stóra búk, síða
úfna skeggið, stingandi bláu augun og svo framvegis. Það var
út af fyrir sig mjög fínt og gaf mér ágætis aukapening. En ég
var farinn að átta mig á því að ég væri allt of þungur og að
það stefndi í hættulegt ástand hvað heilsu mína varðaði.
Ég var sem betur fer enn með hnén og mjaðmirnar í lagi,
og ekkert bólaði á sykursýki 2 eða öðrum slíkum kvillum sem
hrjáir svo marga sem kljást við ofþyngd. Ég púa vindil ein-
staka sinnum en reyki ekki að staðaldri. Ég hætti að drekka
áfengi fyrir tólf árum síðan, ekki af því að það væri neitt
vandamál, ég hætti því af því mér þótti það ekki henta mér
lengur. Svo ég mátti því bara heita gott eintak af manni með
offitu. En núna var svo komið að ég yrði að fara að snúa við
blaðinu.“