Helgarpósturinn - 01.12.1983, Page 14

Helgarpósturinn - 01.12.1983, Page 14
Jóhann Hjálmarsson í Helgarpóstsviðtali AÐAL DRYKKIRNIR KAFFIGUTL RIGNING eftir Egil Helgason Nóvember, og holskeflan enn einu sinni að steypast yfir bókmenntaþjóðina — ekki síst Jóhann Hjálmarsson og kollega hans í stétt gagnrýnenda. Sá undarlegi árstími jóla- bókaflóðsins. Ég inni Jóhann eftir því hvort honum finnist hann aldrei vera að drukkna í því ómælda prentmáli, sem kemur og fer líkt og snjórinn í Úlfarsfellinu? Náttúrlega er það satt að fáar þessara bóka verða manni minnisstæðar. Samt verður maður að reyna að setja sig í stellingar og handleika allar þessar bækur eins og þær séu mikilvægar. En auðvitað örvæntir mað- ur stundum þegar manni finnst sami rit- dómurinn gilda fyrir margar bækur; sömu kostir, sömu gallar. Ég er heldur ekki frá því að það hafi orðið nokkur breyting til batnað- ar á bókaútgáfunni. Hún er orðin dreifðari yfir allt árið, tii dæmis vegna bókaklúbb- anna. Við sem gagnrýnum að staðaldri höf- um því alltaf eitthvað til að skrifa um. Sjálfur hef ég líka haft þann háttinn á að skrifa stundum um erlendar bækur, þegar tími gefst frá íslenskum bókum og leiksýningum. — Hefurðu enhverja tölu á því hvað þú gagnrýnir marga titla á ári? Eg hef aldrei lagt í að telja það. Þeir hljóta að vera ansi margir. Frá því í september og fram að áramótum eru þeir vart færri en svona 25-30. Þetta er auðvitað heilmikill lestur. En bækurnar eru náttúrlega misjafn- ar, sumar þarf maður að lesa tvisvar eða jafnvel oftar, í öðrum sér maður strax í hendi sér hvernig málum er háttað. Þó væri auð- vitað ekki verra að hafa þann eiginleika, sem sagt er að Steinn Steinarr hafi haft. Honum á að hafa nægt að sjá kápu bókar til að vita hvernig hún væri, og til að ritdæma hana taldi hann sig ekki þurfa annað en að opna bókina og blaða í gegnum hana. Ég veit ekki til þess að neinn gagnrýnendanna hafi farið á hraðlestrarnámskeið, en ég býst við því að við sem erum búnir að vera lengi í þessu séum komnir í býsna góða lestrar- þjálfun. — Eftir tuttugu ára störf — hvað hefur þér fundist reka markverðast á þínar gagnrýn- andafjörur? Þarna heimtarðu nú af mér ansi voldugt bókmenntayfirlit. Þó finnst mér ekki hægt að líta hjá því að skáldsagnagerðin hér hefur verið í skemmtilegum vexti. Þar hafa komið fram margir skemmtilegir höfundar, við get- um til dæmis nefnt „fyndnu kynslóðina", sem lætur að sér kveða fyrir þessi jól einsog undanfarið... — Þú átt við... Ja...í svipinn verður mér hugsað til Einar- anna tveggja, Kárasonar og Más Guðmunds- sonar, Peturs Gunnarssonar, Steinunnar - Sigurðardóttur. Þeirra blómatími virðist standa núna — af skáldsögum þessa árs má nefna eina sem ég er búinn að lesa, sögu Þórarins Eldjárns, sem mér finnst benda til að hann sé vaxandi sagnahöfundur. — Fyndna kynslóðin, góð nafnbót. Hver eru helstu stíleinkenni hennar? Það sem mér finnst fyrst og fremst athyglisvert er gáskinn, leikurinn. Kannski er hann svar við drunganum sem var löng- um viðloðandi í skáldsagnagerðinni hér, þessari gífurlegu pólitísku alvöru, bókunum sem gengu einkum útá það að stórþjóðirnar voru að gleypa ísland með haus og sporði, að ógleymdri almennri svartsýni og heims- þjáningu... Heyrðu, viljið þið ekki annars hvítvín, seg- ir Jóhann allt í einu, líkt og þarna hafi honum runnið blóðið til skyldunnar að létta okkur blaðamönnunum heimsþjáninguna. Við játum, sem einn maður. Jóhann hverfur inní húsið, hundurinn gelt- ir og augun renna óhjákvæmilega um skilirí- in á veggjunum. Hér í raðhúsinu í Mosfells- sveitinni er vísir að hinu ágætasta Flóka- safni: Flóki frá ýmsum skeiðum —■ æsku- mynd af draumlyndri stúlku með stór augu, og svo hinar súrrealískari kynjamyndir þar sem handbragðið leynir sér ekki, sumar árit- aðar ,,til Jóhanns skálds Hjálmarssonar". Og næst glugganum og haustinu; Herðubreið máluð af ísleifi heitnum Konráðssyni, sumardagur bústólpans, ilmandi grænka og heiðtær blámi, skýin yfir fjallinu einsog dúnmjúkar englavoðir. Jóhann kemur inn með stóreflis karöflu með hvítvíni og skenkir í glös. Þessi mynd var á frímerki nýlega í tilefni af ári aldraðra, segir hann og bendir á Herðubreið ísleifs. Þetta er ísleifur einsog hann var bestur, áður en hann fór að taka mark á körlunum á Hrafnistu, sem sögðu að skýin hans væru alltaf eins og komin út úr rjómasprautu. Jóhann sest og við skálum, líklega í minn- ingu Tómasar. — Heyrðu, er þetta ekki annars hroðalega vanþakklátt starf að vera gagnrýnandi? Maður getur auðvitað ekki leyft sér að vera mjög hörundsár í þessu starfi. Maður getur átt von á öllu mögulegu, jafnvel því að höfundarnir fari að hatast út í mann fyrir að hæla sér. það getur verið ansi erfitt að vita hvenær maður gerir höfundinum til geðs og hvenær ekki. Ég hef auðvitað fengið ýmsar dembur í blöðum, aðallega fyrir mínar skoð- anir, en samt aldrei þannig aðkast að það hafi tekið á mig persónulega. Ég gæti gefið út vænt safn með einum saman skömmum og svívirðingum um sjálfan mig. Við sem erum framarlega í menningarumræðunni verðum auðvitað að taka því einsog sjálf- sögðum hlut að vera skotspónn, oft á tíðum. — Þú hefur ekki verið barinn? Ekki enn... — Hér eitt sinn varst þú í miklum brenni- depli í átökum vinstri og hægri manna, sem þá skiptu bróðurlega með sér menningunni. Nú hin síðari ár hefur manni þótt eitthvað friðlegra í þessum herbúðum. Ég leyfi mér að halda og vona að bæði hægri menn og vinstri menn séu farnir að sættast á það að bókmenntirnar skipti mestu máli, það sem menn skrifa. En það var tals- verður hasar í þessu á þeim árum og óspart skrifast á. Frá sjónarhóli okkar svokallaðra borgaralegra rithöfunda finnst mér að þetta hafi oft verið talsverð stríðni. En vissulega fannst okkur líka að veldi vinstri manna, sporgöngumanna Kristins E. Andréssonar og Rauðra penna, væri of mikið. Þessar deil- ur fyrir rúmum áratug voru visst andóf frá borgaralegri hlið, og þá reyndi ég aðallega að koma höggi á þá miklu trú að bókrnennt- irnar væru fyrst og síðast félagslegar. Ég gat ekki séð að þetta væri neitt nýtt eða frum- legt, heldur endurtekning frá stríðsárunum sem gæti endað í tómum sósíal-realisma. Ég býst við því að einhverjir okkar hafi þrátt fyrir allt ímyndaö sér að þeir væru að verja bókmenntirnar þegar við leyfðum okkur að efast um bókmenntagildi þessara félagslegu ritverka. 1 — Vinstri menn spyrtu ykkur gjarnan sam- an á þessum árum, þig og Matthías Johannessen, og uppnefndu ykkur Hattímas og Glókoll. Ykkar aðaliðja átti að vera sú að bera taumlaust lof hvor á annan.... Þessar hnútur held ég að hafi nú aðallega komið úr penna Magnúsar heitins Kjartans- sonar. Það var eiginlega íþrótt hans að eltast við okkur Matthías og fleiri höfunda sem skrifuðu í Morgunblaðið. Mig grunar að Magnús hafi alltaf séð eftir því að hafa ekki skrifað meira um bókmenntir, nokkur sýnis- horn slíkra skrifa sem komu út á bók fyrir nokkru bentu til þess að hann hefði getað orðið prýðilegur gagnrýnandi. En eftir á að hyggja finnst mér bara gott og blessað að hann skuli hafa nennt að standa í þessu, andsvör við því sem maður skrifar eru þó alltaf skárri en kalt tómlætið. En það er nú kannski táknrænt fyrir menningarumræð- una á þessum árum, að þegar leikurinn stóð sem hæst skrifuðu menn í Þjóðviljann að ég væri argasti fasisti, en á meðan voru ýmsir mjög virðingarverðir hægri menn að segja lesendum Morgunblaðsins að ég væri kommúnisti. Ég lét mér öll þessi ummæli ágæta vel líka... — Ekki sastu samt þegjandi undir þessum spjótalögum? Nei, nei, sjálfur held ég að ég hafi verið það kjaftfor í Morgunblaðinu að það hafi ekki þýtt fyrir mig að kvarta mikið. Á þess- um tíma var ég með fastan þátt í Morgun- blaðinu, sem hét Skoðanir. Þar gat maður látið ýmislegt flakka um bókmenntir, rithöf- unda og menningarmál, sem ekki átti heima í hinum málefnalegri ritdómum. Þarna gafst manni kjörið tækifæri til að efna til dálítils ófriðar um skoðanir manna. Jóhann brosir að endurminningunni, hell- ir aftur í glösin og býður hofnarvindil. Þessar deilur voru orðnar svo rúmfrekar á tímabili að ritstjórum blaðanna var hætt að verða um sel, held ég. Það var svo mikið skrifað um menningarmál að stjórnmálin féllu alveg í skuggann. Á endanum fórum við að draga okkur í hlé til að stjórnmála- mennirnir misstu ekki nöldrið sitt. Síðdegisrökkrið hefur næstum lagt undir sig flekkótt Úlfarsfellið, borgartýrur eru óðum að kvikna í Laugarnesinu og líklega mál að gefa gamalþreyttri menningarpóli- tíkinni frí. Ekki má heldur gleyma því að Jóhann er líka skáld, höfundur fjölmargra ljóðabóka, og mikilvirkur ljóðaþýðandi. — Hvenær byrjaðir þú fyrst að yrkja, Jóhann? Jóhann lítur upp með þvílikum skelfingar- svip að mér er skapi næst að draga spurning- una til baka. Svo hallar hann undir flatt og brosir i gegnum vindlareykinn. Fyrsta bindi endurminninganna getur varla verið langt undan úr því þú spyrð mig að þessu. Ég vona að ég verði aldrei svo illa haldinn að ég leiðist út á þær brautir. En ef ég á að svara þessu samviskusamlega, þá var ég fimmtán ára þegar ég fór fyrst að yrkja með það í huga að afurðirnar ættu kannski eftir að koma út á bók. Fyrstu til- raunir mínar í skáldskap voru harla bág- bornar. Ég lærði að yrkja og það var ekki áreynslulaust. Ég stökk ekki alskapaður útúr höfði íslenskrar bókmenntahefðar, heldur lagði ég á mig talsvert erfiði til að geta orðað það sem ég vildi segja. Nú, þegar ég var sautján ára þótti ýmsum góðum mönnum sem höfðu séð þetta hjá mér ástæða til að gefa það út. Það varð bókin Aungull í tímann 1956. — Þú nærð þarna í skottið á hinni marg- umtöluðu atómskáldabyltingu. Samt ertu líklega of ungur til að teljast atómskáld. Ertu maður einhverrar stefnu? Að sjálfsögðu las ég atómskáldin, Stein Steinarr og Jón úr Vör og lærði talsvert af þeim. Svo fór ég líka snemma að leggja mig eftir erlendum kveðskap, til dæmis japönsk- um og kínverskum kvæðum, sem alltaf hafa höfðað mikið til mín. En ef ég á að nefna eina stefnu frekar en aðra, þá hlýtur það að vera súrrealisminn. Um tíma var ég mjög upptek- inn af honum, og ekki síður súrrealískri myndlist en súrrealískum bókmenntum. Ég hef alltaf haft súrrealismann í farangrinum, em samt gerði ég mér fljótlega grein fyrir því að hann var ekki óþrjótandi frekar en aðrar skáldskaparstefnur. Það varð líka að koma eitthvað annað til. Á þessum árum fannst okkur orðið augljóst að atómskáldskapurinn væri að komast í nokkrasjálfheldu, hann var orðinn að skáldskap fyrir fáa og svolítið eins- og skáldin væru að skrifast á hvert við ann- að. Því hlaut að koma að því að einhver

x

Helgarpósturinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Helgarpósturinn
https://timarit.is/publication/47

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.