Morgunblaðið - 15.04.1981, Blaðsíða 22

Morgunblaðið - 15.04.1981, Blaðsíða 22
2 2 MORGUNBLAÐIÐ, MIÐVIKUDAGUR 15. APRÍL 1981 Minning: Eiríkur Hjartarson rafvirkjameistari Fæddur 1. júní 1885 Dáinn 4. apríl 1981 Fyrir tæpum 36 árum geystist ég í hlað í Laugardal á gljá- brenndri, amerískri skartbifreið til að ganga í fyrsta sinn á fund tilvonandi tengdaföður, Eiríks Hjartarsonar, sem nú hefir horfið háaldraður á fund feðra sinna. Hann verður lagður til hinztu hvílu í Fossvogi í dag. í þá gömlu og glöðu daga var bíllinn eitt meiriháttar stolt mitt. Sakir brenglaðrar og beyglaðrar dóm- greindar var manngildi bíleigand- ans lagt að jöfnu við dýrleik bifreiðarinnar að gildismati ung- æðisins. Þá var ég-ungur að árum og fór með tilþrifum eins og glysgjarn negrahöfðingi, fjáður af fyrstu málverkasýningu. Af hundakætislegum hégóma, oflát- ungshætti og sundurgerð hins ástfangna, unga listamanns hugð- ist ég teikna elegant hringi með hjólbörðunum í hlaðvarpann, stækkaða eftirmynd af nýfengn- um festarbaugum okkar dóttur hans, „hins ljósa mans“, sem stuttu síðar varð minn betri helm- ingur og hjálparhella í erfiðri og ótryggri lífsbaráttu listarinnar. Tilvonandi tengdafólk mitt, sem beið í ofvæni í varpa við heimreið- ina að húsabaki umvafið trjá- gróðri og litríkum vorblómum skyldi fá að sjá á ökulagi og farkosti, að þar væri stór-akur- eyrskur fursti á ferð. Spennan óx og skartmennið bar skjótt að garði með gljáfunsað efrivararskegg. Kappinn var glæsilega klæddur og skæddur, nýkominn heim frá Am- eríku, forframaður eftir nokkurra ára dvöi í því umbrotalandi hraða og tækifæra, þar sem kyrrstaða og dauði komust aldrei á óskalistann nema í landlægri skotgleði. Þegar mest á reið, hefir jafnan flaustur og fum og önnur taugaveiklun helgripið undirritaðan og oftlega orðið honum að falli. Sem ég er í miðju hniti í trúlofunarhringa- beygjunni á sirkilstýrðum hjól- börðunum, birtist mér óvart yggli- brún alvörunnar eða öllu heldur brúnaþung og íbyggin ásjóna til- vonandi tengdapabba bak við rifs- berjarunna. Hræðslan og sektar- kenndin greip mig heljartökum og mér fundust hvassir og einbeittir, mikilúðlegir og ódysseifskir and- litsdrættir hans segja: Láttu dótt- ur mína í friði, þá saklausu, engilbjörtu og góðu stúlku, þú svarti og skuggalegi glæfrahund- ur! Mér varð svo mikið um þessa óvæntu sýn, að ég missti gersam- lega stjórn á rennivökrum far- kostinum, sem lenti með vélarhús- ið niður í kjallara slotsins. Það munaði ekki nema hársbreidd, að ég tæki með mér allan runnann, snúrustaurana, eldiviðarhlaðann og sjálfan húsbóndann niður í kjallara framan á krómslegnu grillinu, þar sem áður glömpuðu þúsund sólir á fjörmiklum góð- akstri hins glaða og sólríka sumars tilhugalifsins, eftir að hildarleik heimsstyrjaldarinnar síðari lauk. Það var framlágur og niðurbrotinn ökugapi og vonbiðill, sem göfugmennið, Eiríkur Hjart- arson, studdi upp úr bílflakinu og leiddi til stofu, þar sem veittir voru nokkrir hjartastyrkjandi geneverdropar um leið og hann bauð mig hjartanlega velkominn í fjölskylduna ásamt nokkrum dætrum og vestur-íslenzkri konu sinni, frú Valgerði. Hlýtt og vel- viljað viðmót allrar fjölskyldunn- ar stuggaði á brott allri ótíma- bærri hræðslu og rangskynjan í brjósti mér. Þannig getur oft einbeitt, svipmikil og persónurík ásjóna „kamóflerað" eða hulið mildan og viðkvæman innri mann eins og Eiríkur Hjartarson hafði að geyma. Frá þessum einkenni- lega stofnfundi kynna okkar Ei- ríks fór alltaf með afbrigðum vel á með okkur. Það var blátt áfram ómögulegt annað en láta sér þykja vænt um þenna hreinskipta og rex- og pexlausa tengdaföður og gæðagamm. í honum var góður málmur, ósvikinn og hreinn. Eina umræðuefnið, sem ég man frá þessum okkar fyrsta fundi var, að hann kvartaði sáran undan svefn- leysi og kvaðst naumast hafa fest ærlegan blund í 18 ár. Þá minnti ég á, að hann mætti vart eiga von á að festa svo mikið sem hænu- blund í næstu 18 árin, eftir að hafa eignazt annan eins grallara- spóa og mig fyrir tengdason. Þau ár urðu reyndar tvisvar sinnum átján, eða þrjátíu og sex talsins og endist aðrir tengdafeður betur. Nú er fögru og löngu mannlífi lokið, jákvæðu athafnaskeiði hins frjálsborna framkvæmdamanns, sem orti sinn fegursta óð í runn- um og rafmagni. I slóðina hans óx alltaf grænn gróður, birta og ylur í öllum skilningi. Margt ber því fagurt og áþreifanlegt vitni, svo sem einka vatns- og vindrafstöðv- ar, sem hann gerði víða um land, sem sumar hverjar veita ennþá ljós og hita. í>á dafnar og vex skrúðgarðurinn fagri hér í Laug- ardal, sem sumir kalla Eiríksgarð, að ógleymdri skógræktinni á eign- arjörð hans á Hánefsstöðum í Svarfaðardal, sem hann skenkti af einstakri rausn Skógræktarfélagi Eyfirðinga þegar hann fyllti átt- unda áratuginn fyrir tæpum sext- án árum, ásamt jörðinni allri og nýuppbyggðum húsakosti og rammgerðum girðingum með steyptum stólpum umhverfis skóginn, sem hann gróðursetti og skóp sjálfur. Þar ber að líta friðsama og fallega tjörn, sem hann lét grafa fyrir með stórvirk- um vélum, þar sem fuglar himins- ins eiga sér griðland og syngja um sumardaga og bjartar nætur. Svarfaðardalur hefir löngum þótt mikil snjóakista. Þessi frjósami og sumarfagri dalur gróandans virð- ist ekki síður vera mikil mann- ræktarstöð ef dæma má af lífs- hlaupi Eiríks Hjartarsonar og fleiri merkra Svarfdæla. Nöfn eru hér óþörf. Eftir áratugs brautryðjanda- starf með þátttöku í rafvæðingu Reykjavíkur, festi hann kaup á mýrarfláka í námunda við gufu- stróka þvottalauga Ingólfs, sem Reykjavík er kennd við. Þá fóru um dalinn digrir álar með sporða- köstum í vatnsósa og svamp- kenndum jarðveginum, sem Eirík- ur ræsti fram. Þar hóf hann búskap og framangreinda trjá- rækt, jafnhliða umsvifamiklum atvinnurekstri niðri í Reykjavík. Nú er gamli garðurinn hans einn mesti unaðsreitur gerður af manna höndum hérlendis. Laug- ardalsgarðurinn og öll torfan er nú í eigu Reykjavíkurborgar, þar sem vel er að verki staðið og stuðlað að viðhaldi og vexti þess- arar miklu paradísar borgarinnar, ef til vill síðustu vinjarinnar, sem ekki verður skurðgröfum og jarð- ýtum að bráð fyrir tilstilli hins nýja og andræktarlega ofskipu- lags hinnar ungu, róttæku og snöggbyltingartrúuðu reglustiku- nefndar. Ef eitthvað verður þess- um fagra dal til bjargar frá nýjum húsgrunnum, sem til hefir staðið að verpa, vil ég minna á, að allt að fjórtán metrar mældust þar eitt sinn niður á fasta undirstöðu. Ibúðarhús Eiríks, sem hann reisti fyrir rúmri hálfri öld, flaut eins og steinnökkvi í mýrinni á steyptum kjallaranum fyrstu árin. Um aldamót dokaði Eiríkur við um skeið i Akureyrarskóla. Síðan lá leiðin suður til Reykjavíkur, þar sem hann nam járnsmíði hjá Þorsteini Jónssyni járnsmið, sem reyndist honum mæta vel. Þá hélt hann til Ameríku og hóf nám í rafmagnsfræði hjá Hirti Þórðar- syni í Chicago, sem þá átti eitt stærsta safn íslenzkra bóka í Vesturheimi auk erlendra, sem vörðuðu Island. Safnið geymdi hann á einkaeyju sinni úti í Michigan-vatni. Hann var hún- vetnsk-borgfirzkrar ættar, stór- brotinn að allri gerð. Hann hafði smíðað stærstu túrbínu, sem þá var til í heimi hér og var stolt Ameríkana á heimssýningunni miklu í St. Louis 1904, þar sem Hjörtur hlaut gullmedalíu fyrir afrekið. Auk þess hlaut hann annað gull á sýningunni í San Francisco 1915. Hann fékk stað- fest yfir eitt hundrað einkaleyfi á uppfinningum sínum í Washing- ton. Þá var hann sæmdur ótal heiðursnafnbótum við ýmsa amer- íska háskóla. Doktorsnafnbót hlaut hann við Háskóla íslands 1930. Þó að Hjörtur biði Eiríki eignaraðild að iðjuveri sínu eftir nokkurra ára samleið og vináttu, þá héldu Eiríki engin bönd vegna ólæknandi heimþrár. Fyrir tæpum sjötíu árum gekk Eiríkur að eiga vestur-íslenzka afbragðskonu frá North-Dakota í USA, Valgerði Halldórsdóttur Ármann, af Ásgarðsætt í Árnes- sýslu, sem andaðist fyrir tæpum áratug. Þrjár elztu dæturnar eru fæddar vestanhafs. Hann hélt ánægður og sæil heim eftir margra ára útivist í sama mund og rafmagnið hélt innreið sína í Reykjavík 1918, frostaveturinn mikla, þegar menn léku sér að' bruna á skautum upp á Akranes. Þá herjaði Spánska veikin á mannfólkið með sama miskunnar- leysi og Svartidauði forðum. Það var ófögur og ófýsileg aðkoma fyrir eiginkonu og dætur, sem litu nú draumalandið og ættjörðina í fyrsta sinn. Aldrei æðraðist Val- gerður, sem var af bjargálna fólki komin þar vestra og þvi viðbrigðin ærin. Líf sitt helgaði hún börnum og eiginmanni. I nógu var að stússa og snúast, því brátt urðu börnin átta talsins, sjö dætur í röð og einn sonur, öll einstakt mann- kostafólk, þar sem enga vanmeta- kind er að finna. Þau hafa öll numið nytsamar og lifandi starfs- greinar og eru þessi í aldursröð: Margrét, píanóleikari og kennari við Tónlistarskólann í Reykjavík, ekkja Þórarins Björnssonar skóla- meistara. Hlín, garðyrkjukona, gift Carli Brand fulltrúa. Bergljót, vefkona og kennari, gift Eiði Hermundssyni trésmið. Unnur, kaupkona, gift Örlygi Sigurðssyni. Bergþóra, framreiðslukona, gift Níelsi K. Svane bifvélavirkja. Val- gerður, sem fæst við eplarækt langt fram yfir vanaleg heimilis- nöt, gift Michael Warrener, tæknifræðingi í Kent á Englandi. Auður, kennari, gift Andrési Gunnarssyni, rafvélavirkja. Hjörtur, ullariðnfræðingur, for- stjóri iðnaðardeildar SÍS, kvæntur Þorgerði Árnadóttur. Eiríkur var fæddur á Uppsölum í Svarfaðardal 1. júní 1885, sonur Hjartar bónda Guðmundssonar hreppstjóra, Jónssonar í Syðri- Grenivík í Grímsey. Séra Jón Norðmann segir í Grímseyjarlýs- ingu sinni, að heimili Guðmundar, afa Eiríks, hafi verið eitt helzta menningarsetur meðal eyjar- skeggja. Synir hans þáðu ítölsk fílabeinstöfl af prófessor Willard Fiske, þeim ameríska íslandsvini, fyrir tilþrif í þeirri göfugu mennt, skáklistinni. Kona Guðmundar hreppstjóra í Grímsey og föður- amma Eiríks var þingeysk, Ingi- björg Jónsdóttir, Gunnarssonar í Brennisteinshúsinu á Húsavík, þaðan sem áður var fluttur út brennisteinn úr Námaskarði við Mývatn í „Svovlstikker" og „Krudt“. Hjörtur Guðmundsson ólst upp frá ungum aldri við Eyjafjörð og gekk að eiga ljósa og lokkaprúða, svarfdælska heimasætu, Margréti Eiríksdóttur á Uppsölum, Páls- sonar í Pottagerði í Skagafirði, Þor- steinssonar, Páissonar skálds á Reykjavöllum, bróður Sveins læknis Pálssonar, sem fyrstur manna í heimi hér uppgötvaði hreyfing skriðjökla og tryggði sér þar með ódauðlegt nafn í jarðsögu heimsins. Móðurætt Eiríks Hjartarsonar einkennist af óbugandi langlífi. Espólín segir frá einum skagfirzk- um forföður Eiríks, að hann yrði 107 ára gamall og slægi síðasta sumarið á öðru hné. Það er ómældur styrkur lötum og metn- aðarlitlum listamanni að vera kvæntur konu af slíku elju- og seiglukyni. Sá gamli mun sjálfsagt aldrei hafa litið glóaldin né epli, hvað þá drottningarhun- ang eða krúsku, sakramenti ný- tízkunnar í hollustu. Móðuramma Eiríks, Margrét Gunnlaugsdóttir frá Skuggabjörgum, varð 92 ára. Bólu-Hjálmar orti blessunarvísur um það heimili og alla niðja Gunnlaugs. Móður Eiríks, Mar- gréti, skorti nokkrar vikur í ní- rætt er hún dó hér í dalnum á býli Malínar, dóttur sinnar, á Hafra- felli við Múlaveg. Margrét var góð kona og greind, glaðsinna og feitlagin. Hún reykti krítarpípu svo lítið bar á til hinzta dags. Reykjarpípuna faldi sú gamla á dömulega vísu undir pilsfaldinum. Bróðir Eiríks, Gamalíel, lézt fyrir nokkrum árum á Hrafnistu á tíræðisaldri, gamall og ástsæll réttarkóngur, sem söng og hvein í, svo heyra mátti um hálfan Svarf- aðardal í röggsamri stjórn á réttardag. Eftirlifandi af Upp- salasystkinunum, sem öllum lá lágt rómur nema Gamla, er Malín Ágústa, tæplega níutíu og eins árs að aldri, vistkona á Hrafnistu, einhver dömulegasta og andlega sprækasta vistmanneskjan þar í sveit, hæversk og prúð í fram- göngu og ræktuð af lestri góðra bóka. Hin systkinin voru Una og Páll, sem bæði létust gömul. Bróðirinn Ivar lét ungur lífið í umferðarslysi í Winnipeg frá eig- inkonu og börnum. Auk framan- taldra systkina eignaðist Hjörtur bóndi dætur tvær með sömu kon- unni utan hjónabands. Helga hét önnur, látin fyrir löngu, en hin er Sigrún, háöldruð kona, sem lengst af hefir verið búsett norður í Glerárþorpi. Hjörtur brá síðar búi og fluttist með fjölskyldu sína til Akureyrar, þar sem hann vann lengst af hjá svarfdælskum vini sínum og spítalahaldara staðar- ins, Einari Pálssyni, föður Matthí- asar heitins Einarssonar, skurð- læknis og yfirlæknis í Reykjavík. Einhver snjall, erlendur öldrun- arsérfræðingur svaraði þannig, þegar hann var spurður um ráð til langlífis, sem ekki er alltaf að sama skapi eftirsóknarvert: „Vís- indin þekkja ekki ennþá haldbetra ráð en að velja sér langlífa foreldra." Þannig öðlumst við líka miður æskilega galla og góða kosti í erfðir frá forfeðrum og formæðr- um. Gamall og grár, íslenzkur skólafrömuður sagði eitt sinn, að raðauglýsingar — raðauglýsingar — raðauglýsingar húsnæöi óskast Gleraugnaverzlunin Optik Hafnarstræti 20. óskar eftir herbergi fyrir erlendan starfsmann í 6 mánuði, frá 1. maí. Upplýsingar í síma 11828 á verzlunartíma, eftir lokun í síma 37255. Viljum kaupa 3ja herb. íbúð í steinhúsi útb. 250 þús. til 260. Kjallaraíbúðir koma ekki tii greina. Uppl. í síma 20637 eftir kl. 7. Til sölu GMC bifreið árgerð ’73 með dráttarstól, palli, 8 tonna krana, árgerð ’80, 12 metra festivagni meö skjólborðum og gámafestingum. Uppl. ísíma 91-52371.

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.