Lesbók Morgunblaðsins - 05.03.1983, Blaðsíða 3

Lesbók Morgunblaðsins - 05.03.1983, Blaðsíða 3
Verkið- vakti gífurlega athygli og var fádæma vel tekið bæði af gagnrýnendum og áhorfendum. Auk Royalty sýndu bæði Opéra Comique og Strand leikhúsin verkið. Samtals urðu sýningar 200. Kviðdómurinn reyndist ekki aðeins listrænn stórviðburður og „kassastykki" heldur mark- aði það tímamót. Fyrir 1875 höfðu meginlandshöfundar: Verdi, Wagner, Offenbach, o.fl. verið alls ráðandi á ensku óperusviði. Kviðdómurinn sem var enskari en allt sem enskt er — batt enda á þetta skeið; ensk gamanópera vaknaði af 150 ára Þyrnirósarsvefni. Kviðdómurinn markaði líka upphaf frjósamrar samvinnu af- burðamannanna W.S. Gilberts og Arthurs Sullivan. Á árunum 1875—1896 sömdu þeir fjölda gamanópera sem voru svo ljóð- rænar og gamansamar að ólík- legt er að þeirra líkar eigi eftir að líta dagsins ljós. Meðal þeirra eru Særingamaðurinn (The Sor- cerer, 1877), Skip hennar hátignar (H.M.S. Pinafore, 1878), Sjóræn- ingjarnir (The Pirates of Pen- zance, 1879), Patience (1881), Iol- anthe (1882) og kannski sú besta og áhrifamesta þeirra allra — Míkadó (1885). Nú, það hvarflaði ekki að D’Oyly Carte að leyfa tvístirninu Gil- bert og Sullivan að fara skildar leiðir. Næsta ári varði hann að mestu til að koma á fót Gam- ansöngleikafélaginu (The Com- edy Opera Company) til þess, eins og hann sjálfur komst að orði, „að tryggja að í Lundúnum væri leikhús sem eingöngu sýndi léttar óperur, en siðlegar, eftir enska höfunda og tónskáld". Haustið 1879 var Félagið stofnað; sjálfur varð D’Oyly Carte forstjóri og stuðnings- menn sem reiðubúnir voru til fjármögnunar urðu aðstoðarfor- stjórar. Á meðan á þessu stóð hafði honum tekist með hæfi- legum skömmtum af lægni og þrákelkni að fá þá Gilbert og Sillivan til þess að fallast á að vinna að öðru verki saman. Sullivan fékk texta í hendur í apríl 1877. Særingamaðurinn og Skip hennar hátignar Næsta vandamál var að finna leikhús. Opéra Comique, furðu- leg bygging undir Holywell og Wyth stræti, tengt Strand með heillöngum göngum var eina leikhúsið sem reyndist vera á lausu. Þótt það væri ekki talið happasælt hafði Félagið tekið það á leigu fyrir sumarmál. Særingamaðurinn var frum- sýndur 17. nóvember 1877. Verkinu var vel tekið, sýningar urðu 175. Það varð þó fljótlega ljóst að aðstoðarforstjórar D’Oyly Cartes áttu eftir að valda vandræðum. Þeim leist ekkert á óvenjulega hlutverka- skipan Gilberts. (Sjá grein um Gilbert hér að neðan.) í hvert skipti sem eitthvað dró úr að- sókn fylltust þeir skelfingu og heimtuðu að öllum yrði sagt upp, en skiptu svo algerlega um skoðun strax og aðsókn glædd- ist. Þrátt fyrir þessar heimiliserj- ur lék Gilbert á als oddi. Frum- legar tilraunir hans með flytj- endur og leikstjórn höfðu tekist og ummæli gagnrýnenda voru lofsamleg. Upptendraður byrj- aði hann þegar í stað að vinna að handritinu að Skipi hennar hátignar. Sullivan var ekki jafn gagn- tekinn. Bæði var það að hann Frh. á bls. 16. Þótt lögfræðistörfín gengju bögsulega þá jókst höfundarhróð- ur Gilberts jafnt og þétt. T.W. Robertson einn þekktasti leikrita- höfundur sjöunda áratugarins, oft kallaður upphafsmaður nútíma- leiklistar, tók Gilbert undir sinn verndarvæng, kenndi honum og mótaði. Fyrir atbeina hans var fyrsta ieikrit Gilberts sýnt í Lund- únum árið 1866. Það var Dulcam- ara eða The Little Duck and the Great Quack, jólaleikrit St. James leikhússins, sem var frumsýnt 29. desembcr það ár. Gilbert öðlaðist fljótt miklar vinsældir sem leikritahöfundur. Snemma árs 1870 var hann þegar í frcmstu röð höfunda, talinn jafn- vígur á gaman og alvöru. Þótt Gilbert hafi unnið með tónskáldinu Arthur Sullivan þegar árið 1871 þá hófst samvinna þeirra ekki fyrir alvöru fyrr en árið 1875, eins og fram kcmur í annarri grein hér í Lesbók. Á árunum 1875 til 1896 voru þrettán gamansöngleikir eftir þá félaga settir á svið. Gilbert gerði mikiö meira en semja textana. Hann vildi gjörbylta breskum gamanleik. Þar hafði hann aö leið- arljósi það sem hann lærði hjá Robertson og eigin afdráttarlausu hugmyndir. Með fulltingi Sullivans og D’Oyly Cartes réði hann eigin leik- ara og þjálfaöi þá af algjöru misk- unnarleysi. Fyrir æfíngar vann hann með líkön af sviðinu og spýtuleikara, þannig að hvert smá- atriði var þrauthugsað fyrirfram. Án efa skiluðu þessar aðgerðir ríkulegum árangri. Þær gífurlegu vinsældir, sem gamanóperur Gil- berts og Sullivans nutu má aö hluta rekja til góðrar leikstjórnar og heildarsvips sýninganna. Þetta hreif áhorfcndur og gæði sýninga gerðu það að verkum að eftirlík- ingar gengu ekki. Þrátt fyrir árangursríka sam- vinnu þeirra félaga fannst Gilbert alltaf að hann væri að sóa hæfí- leikum sínum með því að semja gamansöngleiki. Hann taldi sér trú um að alvarlegu verkin væru betri skáldskapur, en eins og sjá má af því sem hann lét eftir sig, var það fírra. En þessi firra skap- aði erfiölcika og árekstra í sam- vinnu hans við Sullivan. Eftir aö samstarfi þcirra lauk samdi Gilbert ekkert sem máli skiptir. Hann var aðlaður af Ját- varði VII. árið 1907, tuttugu og fjórum árum síöar en Sullivan: Viktoría drottning kunni ekki að meta hans hrjúfa húmor. „Ég er allur í rúst,“ sagði hann á gamals- aldri; „eflaust mikilfengleg rúst en rúst engu að síður — og eins og allar rústir nýt ég mín best í tunglsljósi." Síðla dags þann 29. maí árið 1911 þegar Gilbert var að kenna tveimur yngismeyjum sundtökin í garði sínum fékk hann hjartaáfall og lést. Hann hafði ævinlega óskað sér „að deyja að sumarlagi í eigin garði“. MÍKADÓ Söguþráður söngleiksins Míkadó, eða Bærinn Titipú, „Japanskur söngleikur í tveim þáttum," var frumsýndur í Savoy, leikhúsi Richards D’oyly Carte þann 14. marz árið 1885. Sýningar þá urðu 672. Sendiherra Japans reyndi að stöðva sýningar á þeirri forsendu að í leiknum væri gert grín að Japanskeisara, en Gilbert beindi aldrei spjótum sínum að Japön- um. Það voru Englendingar sem hann dró sundur og saman í háði og þá fyrst og fremst þá sem hann fyrirleit mest (og Sullivan dáði): stjórnmálamennina. Þrjár megin persónur verksins eru „pólitíkusar", dregnir sterk- um línum og af bitru háði — manngerðir sem við rekumst á í fteiri söngleikjum þeirra félaga Gilberts og Sullivans. Hinn dyggðum prýddi Míkadó, einvaldur Japans, er hinn dæmi- gerði „stjórnvitringur", dáður og virtur af öllum: En þegar skyggnst er undir yfirborðið reynist hann vera hættulega heimskur og haldinn kvalalosta. Eitt af hans fyrstu embættis- verkum var að leggja dauðarefs- ingu við daðri. * í Kó-Kó kynnumst við mann- gerð sem Gilbert nýtur að lýsa: hæfileikasnauðum leikmanni sem er hafinn til mikilla valda og mannvirðinga með fyrirsjáanlega grátbroslegum afleiðingum. Þeg- ar sagan hefst hefur hinn mikli Míkadó af visku sinni hafið hinn „arma skraddara“ Kó-Kó í tign- arstöðu Há-yfir-böðuls, og allir æðstu embættismenn ríkisins hafa sagt af sér fullir hneykslun- ar. Pú-Kó („Pooh-Bah“ hjá Gil- bert) persónugervir hinn hroka- fulla embættismann þar sem fjárgræðgin ein er yfirsterkari hófmóði og belgingi. Af blygðunarlausu siðleysi hefur hann tekið við öllum þeim stöðum sem losnuðu þegar Kó-Kó var gerðurað Há-yfir-böðli — og að sjálfsögðu við öllum laununum líka. Séu nægilegar mútur (sem hann kallar „Aðför að stolti sínu“) í boði er Pú-Kó reiðubúinn til að „leggja sig niður“ við hvað sem er: selja ríkisleyndarmál, „lagfæra" skjöl, og jafnvel neyta matar með miðstéttarfólki. „Pú- Kó,“ skrifaði breski rithöfundur- inn G. K. Chesterton, „er meist- araverkið i gamanóperunni Míka- dó. Hann er ekki bara skopstæl- ing á stjórnmálamönnum okkar: þeir eru svona." Nanki-l*ú, sonur Keisarans, hefur flúið hirðina til þess að koma sér hjá því að ganga að eiga hina forljótu Katishu, „eldri konu,“ sem að hans sögn „rang- túlkaði mína eðlislægu kurteisi sem daður, og krafðist giftingar samkvæmt lögum míns ágæta föður." Þegar Nanki-Pú kom til bæjar- ins Titipú „dulbúinn sem sekkja- pípublásari" hitti hann hina fögru (en afar sjálfsuppteknu) Nam-Nam („Yum-Yum“ í frum- texta) og varð þegar ástfanginn. En Nam-Nam reynist vera heit- bundin forráðamanni sínum, Kó- Kó skraddara, og Nanki-Pú held- ur á brott fullur örvæntingar. Vonir hans glæðast hinsvegar þegar honum berst til eyra að Kó-Kó hafi verið dæmdur til dauða fyrir daður. Hann skundar aftur til Titipú en kemst þá að því að hinn „rökfasti" Míkadó hefur ekki einasta náðað Kó-Kó heldur og gert hann að Há-yfir-böðli, „æðsta embætti sem borgari landsins getur fengið". Brúðkaup þeirra Nam-Nam og Kó-Kó stendur fyrir dyrum, og í hyldýpi örvæntingar ákveður Nanki-Pú að farga sér. Kó-Kó á hinsvegar einnig við vanda að etja. Míkadónum hefur borist til eyrna að aftökur hafi lagst af í Titipú og hann hefur því mælt svo fyrir að verði ekki hið fyrsta ráðin bót á þeirri óhæfu skuli embætti Há-yfir-böðuls lagt niður og Titipú svipt bæjarrétt- indum og gert að þorpi. Enda þótt Kó-Kó bægslist um með „litla listann" sinn með nöfn- um hugsanlegra „viðskiptavina“ þá er hann í raun of blíður og blauður til þess að taka nokkurn af lífi: „Það hvarlar þó ekki að þér að gæðablóð eins og ég hefði nokkurn tíma tekið að mér emb- ætti Há-yfir-böðuls hefði það hvarflað að mér að ég þyrfti að drepa einhvern!“ En þar sem hann kemst að því að Nanki-Pú ætlar að stytta sér aldur hvort sem er gerir hann honum kosta- boð. Nanki-Pú fær að vera kvænt- ur Nam-Nam í einn mánuð en að þeim tíma liðnum leyfi hann að hann sé hálshöggvinn með pompi og prakt: „Það verða stórkostleg opinber hátíðahöld — allar stúlk- urnar flóandi í tárum — um kvöldið verður flugeldasýning og þó þú munir að vísu ekki sjá hana þá veistu að hún verður." Nam-Nam er að skrýðast fyrir brúðkaupið þegar Kó-Kó upp- götvar smávegis vandkvæði: „í lögum Míkadósins mælir svo fyrir að kona hálshöggvins manns skuli grafin lifandi." Þetta lagaákvæði dregur talsvert úr áhuga Nam-Nam fyrir hjóna- vígslunni: „Sjáðu til, að vera grafin lifandi — það er eitthvað svo andlaus dauðdagi!" Þegar hér er komið sögu flytur Pú-Kó þær fréttir að „Míkadóinn ásamt fylgdarliði nálgist bæinn og verði hér á hverri stundu!" Hvað er nú til ráða? Nanki-Pú sér að hann muni aldrei njóta Nam-Nam og er því reiðubúinn að vinda sér í aftökuna þegar í stað; en það reynist Kó-Kó um megn: „Góði maður, ég er ekki ávallt viðbúinn að taka menn af lífi svona fyrirvaralaust — ég er alls ekki tilbúinn ennþá — ég hef ekki grun um hvernig á að fara að þessu — ég verð að taka mér einkatíma!" Allt í einu fær Kó-Kó hugljóm- un: „Hvers vegna ætti ég að drepa þig þegar vottorð um að ég hafi framkvæmt verknaðinn kemur að sama gagni?" Aftökuvottorð er samið og það staðfest af öllum helstu embættismönnunum Titi- pú — þ.e.a.s. Pú-Kó, sem auðvitað er „gróflega misboðið" með mikl- um mútum — til að hægt sé að losna við Nanki-Pú og Nam-Nam af sviðinu. Mikadóinn birtist ásamt Kat- ishu og hirð sinni. Honum er skýrt frá „aftökunni" og lýsingar- orðin ekki spöruð. Þegar Míkadó- inn hefur lesið dánarvottorð rétt- arlæknis (Pú-Kó) fær Kó-Kó áfall lífs síns: „Veslings maður, svo óðfús ertu að framkvæma tilskip- anir mínar, að þú hefur háls- höggvið ríkiserfingjann!" Míkadóinn er auðvitað fullur samúðar: „Þetta er ekki ykkar sök. Ef maður af háum stigum kýs að dulbúa sig sem sekkja- pípublásara, þá verður hann að taka afleiðingunum.“ En því mið- ur, lögin kveða skýrt á um refs- ingu þeim til handa sem hlutdeild eiga að dauða ríkisarfa: „Eitt- hvað seinvirkt, með sjóðandi olíu minnir mig — eða þannig, sko — ég veit það er eitthvað sniðugt en seinvirkt, og það er annaðhvort með sjóðandi olíu eða bráðnu blýi.“ Nei því miður, „í þessum heimskulegu lögurn" eru engin ákvæði um mistök: „I þessu til- viki koma í ljós vankantar á þess- ari lagagerð — en herðið upp hugann — ég breyti þessu á næsta þingi. Nú, jæja, þá er að- eins eftir að ákveða hvenær af- taka ykkar á að fara fram. Myndi það henta ykkur strax eftir há- degisverð?" Það er augljóst að Nanki-Pú verður að „rísa upp“ þegar í stað. En hann neitar af ótta við reiði Katishu og lýsir því yfir að svo lengi sem hún sé ógift verði ekki af holdtekju sinni. Kó-Kó verður því að velja á milli Katishu og sjóðandi olíu og tekst honum (án þess að ofreyna sig) að vinna ást- ir hennar; og Nanki-Pú (nú giftur Nam-Nam) birtist. Nú er öllum ljónum rutt úr vegi nema hinu falsaða aftökuvott- orði. En Kó-Kó verður ekki skota- skuld úr að útskýra það: „Ef yðar hátign segir: Takið þennan mann af lífi, þá er hann svo gott sem dauður. Þá má líta svo á að hann sé dauður, og fyrst svo er, því ekki staðfesta það? „Ég skil,“ segir hans hátign, „þetta mega teljast fullkomlega rökrétt og ánægjuleg málalok!" 3

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.