Lesbók Morgunblaðsins - 25.02.1984, Blaðsíða 4

Lesbók Morgunblaðsins - 25.02.1984, Blaðsíða 4
Hugdettur 3 EFTIR MATTHÍAS JOHANNESSEN VIII Sólarljóð hafa lengi verið að vefjast fyrir mönnum eins og aðrar fornbókmenntir okkar. Björn M. ólsen skrifaði um þau af einstakri skarpskyggni og hafði ugg- laust eftirminnileg áhrif á völuspárskýringar Nordals. Það er uppörvandi að ferðast með þeim um víðáttumik- ið og skáldlegt umhverfi þessara svipmiklu klassísku kvæða. Samt finnst mér ljóður á skýringum Björns M. Ólsens. Hann segir t.a.m. að fjaila vötn í 45. erindi kvæðaflokksins sé ekki annað en nýrri ritháttur fyrir fjarla (í fjarlægð). Miklu líklegra er, að skáldið eigi við augu deyjandi manns, sem lokast eins og vötn frjósi saman; þ.e.: fjalla vötn/ luktust fyrir mér saman — á banastundinni. ógleymanleg mynd mikils skálds. Slíkt hefði ekki átt að vefjast fyrir skáldlega sinnuðum og hugmyndaríkum fræðimanni eins og Birni M. Ólsen. Jafnóskáldlegum fræðimanni og Finni Jónssyni dettur ekki í hug að breyta stafsetningunni og ritar fjalla-vötn í Skjaldedigtning. En kannski það þurfi að minnsta kosti hálfkaþólskan mann, vanan táknrænu tungutaki sem fór því miður að miklu leyti forgörðum í fjörbrotum kaþólskunnar á sið- skiptaöld, til að sjá svo einfalda líkingu í réttu ljósi. Einfaldar textaskýringar eru alltaf beztar, en þær verstar þegar breyta þarf handritinu til að finna flókn- ar lausnir og langsóttar. Sólarljóð er kristið kvæði um mann, sem er hallur úr heimi. Tunga hans er til trés metin. Hann sér inn í annan heim. Annaðhvort hefur skáldið sjálft upplifað þetta eða það hefur hlustað á lýsingu og reynslu manns, sem talinn var látinn og fær að skyggnast bak við tjöldin, áður en hann nær sér aftur og sezt að í sínu gamla hröri, þ.e. slitna fati eins og Blöndal skýrir einn- ig þetta orð um líkamann, þetta blaktandi skar sem slokknar að lokum. Skáldskapur er oftast byggður á eigin upplifun og reynsluþekkingu, a.m.k. oftar en þeir vilja vera láta, sem helzt reyna að slá sig til riddara með því að gera einfalda hluti flókna. Það er ekki þar með sagt, að Dante hafi verið í helvíti. En hann hafði spurnir af því úr eigin umhverfi sem var heltekið af hugsuninni um þennan óttalega stað. Á Ítalíu voru til merkar latneskar bókmenntir um annars heims draumfarir, sem höfndur Sólarljóða hefur auðvitað þekkt. Utan um eigin reynslu hefur höfundur Sólarljóða einnig spunnið ímyndun um annan heim; m.a. líf á helvegum. Honum finnst hann sjá geislandi sól, sanna dagstjörnu, eins og hann kemst að orði, en sú stjarna var algengt tákn Krists á miðöld- um, og svo fagra veru, að honum þykir helzt sem þá sjái hann „göfgan guð“. í rannsóknum fræðimanna undanfarið á því fólki, sem hefur „dáið", en fer aftur inn í líkamann, hefur það vakið. athygli, hve margir þykjast hafa séð sólbjarta veru koma til sín og verður þessi reynsla ógleymanleg þeim, sem í komast. Þessi birta, eða bjarta vera, dregur „hinn látna" til sín og yfirleitt segjast „hinir dauðu“ ekki hafa viljað snúa aftur í líkamann, en ekki fengið Mynd eftir norsku listakonuna Anne Lise Knoff því ráðið.1* Af þessu hefur skáld Sólarljóða eða ein- hverjir kunnugir honum haft pata. Þvf verður sólin jafnvel sett dreyrsöfum, þegar persónan f kvæðinu verður höll úr heimi. Að sögn fræðimanna ber þeim, sem „dauðir" eru en dragast aftur inn í hrör sitt, saman um, að sú tilfinning sé heldur óskemmtileg, þegar þeir hverfa aftur inn í líkamann eftir dýrðlega reynslu af ljósinu bjarta eða þeim „göfga guði“, sem við þeim blasir annars heims. Sá, sem þetta reynir, verður „hræðslufullur" og „sjaldan hryggari", að því er segir f Sólarljóðum. Slík reynsla hefur sem sagt ekki þótt til- tökumál i guðfræði og trúarhugmyndum þess kaþólska skálds, sem orti Sólarljóð úr umhverfi sínu, þessa heims og annars. Björn M. ólsen tekur fram að sólin í kvæðinu geti ekki verið persónugervingur og þegar hún sé sett dreyrstöfum, sé aðeins um að ræða dreyrrauða geisla hennar. Mælandi lýsi helstríði sfnu og sérstaklega hinu síðasta kvöldi, „þegar hann sá sólina ganga í ægi í hinsta sinn“, eins og Björn kemst að orði. Og sönn dagstjarna getur að hans dómi og fleiri ekki verið ann- að en sólin. Allir kaþólskir menn vissu þó, að geisli var Ólafur helgi og Lilja María Guðsmóðir, svo að alkunn dæmi séu nefnd. Skáld Sólarljóða segir, að þessi sanna dagstjarna drúpi, þ.e. lúti höfði eða hneigi höfuð — og persónugerir sólina þannig með þessu hárfína og ná- kvæma vali á sagnorði. Eða hví skyldi hugur vitundarlítils deyjandi manns hvarfla viðstöðulaust að sólinni í ýmsum myndum, eins og á sér stað í kvæðinu — og gæti verið ósannfærandi. Sól ek sá — er ekki lýsing á banabeði þessa heims. Bak við slíkan skáldskap er önnur og meiri reynsla en jarð- neskt myrkur dauðastundar. Við vitum að vísu ckki hver sú reynsla var, en höfum leyfi til að koma fram með tilgátur. IX Kristnitakan á íslandi hefur valdið mörgum miklum heilabrotum. En mundi hún ekki vera ofureinfalt mál? Hvað munaði fjölgyðistrúarmenn, sem við köllum heið- ingja af gömlum vana, um að taka sér eitt guðið í viðbót við Þór og Óðin og aðra þá, sem voru þeim til trausts og halds? Þeir hafa auðvitað litið svo á, að Hvíti-Kristur gæti orðið þeim styrkur í lífsbaráttunni. í þennan styrk gætu þeir sótt aukinn kraft. Því var engin ástæða til að berjast á alþingi hinu forna út af þessu viðbótargoði. Þorgeir þurfti ekki heldur að leggjast undir feld af þeim sökum, svo einfalt sem málið var, enda er hér um orða- tiltæki að ræða frekar en athöfn. Og goðin þurftu ekki að reiðast neinum með eldgosi vegna þessa nýja banda- manns heiðingjanna. En ásatrúarmenn vöruðu sig ekki á því, að Kristur var ekki aðeins eitt goðið í viðbót, heldur guðs sonur. Þeir áttu eftir að gera sér grein fyrir því, þegar tímar liðu. Þeir gátu ekki haldið honum og öllum hinum goð- unum. En það var auðvitað markmið heiðingjanna, sem tóku við Hvíta-Kristi á Þingvöllum árið 1000. Þeir máttu hafa alla sína hentisemi, blóta á laun eins og hundaeigendur í höfuðborginni nú á dögum, svo að ein- falt dæmi sé tekið. Og svo þurftu íslendingar af hag- kvæmnisástæðum að hafa gott samstarf við kristni- boðskonungana í Noregi, eins og minn gamli góði sögu- kennari, Jón Jóhannesson, minnist á í frábærum sagnfræðiritum sínum. Þeir notuðu kristindóm í land- vinninga skyni. Sóru við sitt hvíta skegg að kristna lönd sín og óglöddust mjög yfir heiðingjum eins og Karla- magnús. Á hitt ber einnig að líta, hve margir landnámsmenn voru kristnir eða hálfkristnir fyrir kristnitökuna. Helgi (magri) var kristinn að kalla og þó blandinn mjög í trúnni, segir í Flateyjarbók. Ennfremur: Þessir og enn fleiri menn urðu kristnir ... en þeir voru margir, þó að þá létu eigi skírast að sinni, að trúðu á Krist og fyrir- létu skurðgoðavillu og allan heiðinn sið ... Kristni var vel þekkt fyrirbæri á íslandi árið 1000, ekki síður en erlendar hagfræðikenningar, sem hafa sundrað þjóðinni í tvær andstæðar fylkingar nú um stundir og má þakka fyrir meðan ekki hlýzt verra af. Heimsmynd sína hafa fslendingar ávallt sótt til er- lendra stórvelda. Þess má geta, að Axel Olrik segir, að „enginn heiðingi á 10. öld, a.m.k. þeirra sem voru í gáfaðra lagi, hefur verið alls ósnortinn af kristnum hugmyndum". Hitt er svo annað mál, að borgarastyrjöld hefði getað brotizt út á íslandi, ef fjölgyðistrúarmenn hefðu reynt að þröngva upp á kristna eingyðistrúarmenn skurðgoð- um sínum og hafurtaski þeirra. Þá hefðu þeir tekizt á, Hvíti-Kristur og Baldur hinn hvíti og góði ás. Kristnir sagnaritarar hafa augsýnilega snúið sögunni við eins og oft vill verða. Þeir standa ekki í sporum fjölgyðistrúarmanna og heiðingja, þegar þeir skrifa um kristnitökuna, heldur þeirra, sem hafa öllum stundum barizt hatrammlega fyrir fyrsta boðorðinu og engum

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.