Lesbók Morgunblaðsins - 20.09.2008, Blaðsíða 13

Lesbók Morgunblaðsins - 20.09.2008, Blaðsíða 13
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 20. SEPTEMBER 2008 13 í því? Þegar ég vissi að þetta fólk væri að fara á Kjöl þá ákvað ég að fara með þeim því þar er ég nokkuð kunnug og fannst leiðangurinn spenn- andi. Ég ákvað að tína upp gamlar sögur af þessum slóðum þar sem börnin okkar þekkja mörg hver ekki lengur þekktar sögur af úti- legumönnum, draugum og tröllum. Það er annars merkilegt hvað við virðumst lít- ið stolt af arfi okkar og uppruna. Í mínum huga er það þannig að fortíðin kennir nútíðinni að stíga inn í framtíðina. Við mættum læra af for- tíðinni, taka hana með okkur og vera hreykin af þeim arfi sem við eigum í sögum, fortíð og mót- andi landslagi. Mér finnst stundum að íslenska þjóðarsálin sé frekar lítil í sér, þjáist jafnvel af minnimáttarkennd og vanti að vera stoltari af sér og sínum uppruna. Við vitum ekki hvert við erum að fara nema við séum þess meðvituð hvaðan við komum. Þetta skynjaði ég á Skot- unum sem komu hingað um daginn. Þeir sprönguðu um bæinn á pilsunum sínum og sögðu: „Að vera Skoti er hugarfar.“ Aldrei hef ég heyrt Íslending segja: „Að vera Íslendingur er hugarfar.“ Við erum ekkert sérlega stolt af því að vera Íslendingar, við erum kannski alltaf að rembast við að vera einhverskonar heims- borgarar. Þetta finnst mér svo dapurlegt vegna þess að börnin okkar alast upp og skynja ekki að það sé kannski dálítið merkilegt að vera Ís- lendingur, tala þetta einstaka tungumál og al- veg í lagi að vera montinn af því að tilheyra þessum hópi jarðarbúa.“ Hálendið inn í barnaherbergin Þú ert náttúruverndarsinni og virkjana- andstæðingur, má finna náttúruverndarsjón- armið í bókum þínum? „Já, ég er náttúruverndarsinni, en hvað varð- ar andstöðu við virkjanir þá vil ég heldur segja að ég sé meðmælt nýrri og ábyrgri hugsun í orku- og umhverfismálum. Ég vil líkt og flestir aðrir Íslendingar vernda náttúru landsins enda tel ég að náttúruvernd sé mun fýsilegri landnýt- ing en virkjanauppbygging fyrir orkufrek álver. Ég tel ekki rétt að færa miklar fórnir fyrir skammtímalausnir í efnahagsmálum. Í Draugaslóð vona ég að finna megi nátt- úruskoðun og náttúruupplifun. Mig langaði með bókinni að reyna að flytja hálendið inn í barna- herbergin. Ég hef tekið eftir því þegar ég er á fjöllum, til dæmis á Kili og víðar, að Íslendingar ferðast öðruvísi um landið en erlendir gestir. Í fjallaskála koma Íslendingar sjaldnast til að dvelja, en bruna í hlað, teygja úr sér á planinu og svo eru þeir farnir. Útlendingar staldra gjarnan lengur við, gista nokkrar nætur og njóta. Íslendingar keyra frekar í hringi með fram ströndinni og stundum eru krakkaormar í aftursæti að góna á DVD. Þá er hætt við að sambandið rofni við þetta land og ósnortin víð- ernin. Við þurfum að þekkja, upplifa og miðla áfram svo við sem þjóð skynjum þau ómet- anlegu verðmæti sem við eigum hér við hvert fótmál á ævintýraeyjunni. Við erum landverðir hér um stund og berum stóra ábyrgð gagnvart nýjum kynslóðum. Náttúra þessa lands er svo samofin sögunni okkar. Við erum mótuð af búsetunni í þessu stórbrotna landi. Á Hveravöllum er til dæmis minnisvarði um afar merkilega lífsbaráttu. Þar er fallegt listaverk, tvö hjörtu úr grjóti, umlukin rimlum, sem táknar frelsi og helsi og á að minna á Fjalla-Eyvind og Höllu. Svo gengur maður eftir pöllunum í gegnum hverasvæðið og sér magnaðan hver sem heitir Öskurhóll og orgar upp í himininn allan sólarhringinn. Aðeins fyrir ofan Öskurhól er stígur sem liggur út af hvera- svæðinu og upp að lítilli rúst. Þar er nokkuð vegleg hleðsla en hún er nánast ómerkt. Á pínu- litlu priki stendur: friðlýstar minjar. Ekkert gef- ur til kynna af hverju það er. Það er búið að sparka úr hleðslunni í gegnum tíðina og tína úr henni grjót til að hlaða í göngustíg. Þetta er ást- arhreiður og hamingjuhöll Eyvindar og Höllu. Við höfum ekki meiri áhuga en svo á fortíð okkar og því tákni sem þessi rúst er um lífið í landinu frá liðnum tíma að við hirðum ekki einu sinni um að hlífa henni með kaðli og setja upp skilti til upplýsingar. Þetta er kannski táknrænt fyrir það hvernig við lítum á okkar fortíð.“ Stjórnmálamenn spóla sig fasta Þú skrifaðir fyrir ekki ýkja löngu greinina Magra Ísland í tímaritið Herðubreið þar sem þú gagnrýndir Samfylkinguna fyrir að hafa brugð- ist Fagra Íslands-stefnunni. „Ég var ósátt við viðbrögðin við þessari grein. Einhverjir framsóknarmenn túlkuðu hana sem árás á umhverfisráðherra en það var engan veg- inn ætlun mín. Greinin var stuðningur við um- hverfisráðherrann sem er að reyna standa við fögru fyrirheitin í þessu plaggi. Hins vegar finnst mér ráðherrann ekki fá nægan stuðning meðal flokksfélaga sinna sem þó gátu notast við stefnuna góðu í kosningabaráttunni. En helst af öllu var ég að benda á það í greininni að sá stjórnmálaflokkur sem hefur verið við stjórnvöl- inn áratug eftir áratug virðist ekki þurfa að fylgja nýjum tímum og kröfum um ábyrga stefnu í umhverfis- og náttúruverndarmálum. Mér finnst í meira lagi merkilegt að Sjálfstæð- isflokkurinn komist upp með það kosningar eftir kosningar að vera ekki með neina stefnu í um- hverfis- og náttúruvernd. Mig og marga aðra hefur undrað að sjá stjórnmálamenn spóla sig fasta í álvers- og virkjanastefnu þrátt fyrir skýr skilaboð bæði frá almenningi og hagfræðingum um að þetta sé ekki skynsamlegt. Grein Halldórs Laxness, Hernaðurinn gegn landinu, sem birtist í Morg- unblaðinu fyrir hartnær fjörutíu árum, er enn í fullu gildi. Ég styð Þórunni Sveinbjarnardóttur eindregið í sínum störfum, enda beindi ég gagn- rýni minni að þeim hluta Samfylkingarinnar sem ekki virðir eigin stefnuskrá í náttúruvernd.“ Ertu pólítískur höfundur? „Að ætla að vera ópólitískur er bara fyndið því þá er maður að segja: Ég er ekki með í þessu samfélagi. Ég er pólitískur höfundur að því leyti að ég er alltaf að takast á við samfélagið. Það er afar mikil pólitík í því hvernig við komum fram við börn og þar af leiðandi er pólitík í mjög mörgum barnabókum en hún er misfalin. Mér dettur í hug Gallsteinar afa Gissa sem snýst um að börn eigi kröfu á tíma foreldra sinna og eins að foreldrar eigi þá kröfu á börn sín að þau séu ekki alveg hömlulaus. Það er pólitík eins og allt annað.“ Ertu flokkspólitísk? „Nei, ég er fyrir löngu búin að læra að það hentar mér ekkert sérlega vel, en auðvitað geri ég upp hug minn á fjögurra ára fresti. Það er heilög skylda þeirra sem taka þátt í mannlegu samfélagi.“ Hættulegur lesendahópur Þú hefur haldið þig við að skrifa fyrir börn … „Ætlarðu að spyrja hvenær ég ætli að fara að skrifa alvöru bækur?“ Nei, alls ekki. En fyrst þú nefnir þetta sjálf, ertu stundum spurð hvenær þú ætlir að fara að skrifa alvöru bækur? „Fyrst, þegar ég hætti sem blaðamaður og sneri mér alfarið að skriftum, var spurt: Hvenær ætlarðu að fá þér vinnu? Nú nennir enginn að spyrja að því lengur og sjálfsagt flestir búnir að gefa upp á bátinn að ég geri það nokkurn tím- ann. En ég fæ öðru hvoru spurninguna hvenær ég ætli að skrifa alvöru bækur og þá fær fólk langa fyrirlesturinn um að ég sé að skrifa alvöru bækur. Börn sem hlustendur, sem lesendur, sem neytendur þessa efnis eru skemmtilegri og meira krefjandi fyrir mig sem höfund en full- orðnir. Fullorðinn lesendahópur er alltaf eins og tekur litlum breytingum. Börn eru þakklátur lesendahópur en yfirgefa mann svo hratt að maður verður að vera á tánum alla daga. Einn daginn er lesandinn kominn á gelgjuna og rang- hvolfir augunum og getur ekki talað við mann lengur. Þetta er ör, kvikur og skemmtilega hættulegur lesendahópur. Ég veit að ég er á jarðsprengjusvæði þegar ég er að skrifa fyrir þetta fólk en mér finnst það líka yfirþyrmandi heiður. Á kvöldin þegar ég leggst út af á kodd- ann þá finnst mér ábyrgðin stundum sligandi. Ég hef tekið mér það bessaleyfi að tjá mig innan um viðkvæmar og óharðnaðar sálir og það er eins gott að vanda sig.“ svæði Morgunblaðið/Kristinn » „Síðustu árin hefur verið tekin upp aðskilnaðarstefna innan bókmenntanna. Við flokkum allt og setjum í litla kassa: „Hér eru bækur fyrir stúlkur á aldrinum 9–12 ára. Hér eru bækur fyr- ir káta drengi.“ Við segjum: „Börnin eru í þessu boxi, þau lesa þetta og okkur kemur það ósköp lítið við. Hér erum við, fullorðna fólkið, og eigum okkar menningarheim.“ Vegna þessa hugs- unarháttar eigum við nú fyrirbæri sem heitir barnamenning.“

x

Lesbók Morgunblaðsins

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lesbók Morgunblaðsins
https://timarit.is/publication/288

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.