Fréttablaðið - 05.11.2009, Side 26

Fréttablaðið - 05.11.2009, Side 26
26 5. nóvember 2009 FIMMTUDAGUR UMRÆÐAN Oddný Sturludóttir skrifar um skóla- mál Gæði skólastarfs eru mælikvarði á gæði samfélags. Gott samfélag býr yfir góðum skólum. Skólum þar sem börn fá notið sinna styrkleika, þar sem þeim líður vel og ná færni og árangri í námi sínu. Skólum þar sem börn og unglingar þroska félagslega hæfileika sína og efla með sér lýðræðislega og gagnrýna hugsun. En skólinn er aldrei eyland og börn mótast ekki nema að litlu leyti í skólastofum. Skólinn er ávallt spegilmynd samfélagsins. Í alþjóðlegum samanburði koma íslenskir grunn- skólanemendur bæði vel og illa út. Við megum vera stolt af því hvað nemendum líður vel og hvað þeir telja umsjónarkennarann sinn sinna sér vel, það má lesa úr niðurstöðum PISA. En árangur fer þverr- andi í mörgum fögum, m.a. lestri og náttúruvísind- um. Það er verulegt áhyggjuefni. Stærsta áskorunin í stefnumótun menntamála er áhugaleysi nemenda en niðurstöður rannsókna segja okkur að mörgum íslenskum börnum leiðist í skólanum. Sýnt hefur verið fram á að áhugi ungra drengja á skólanámi dalar mjög mikið á fyrstu árum skólagöngunnar og mun meira en hjá drengjum í öðrum löndum. Hvað er til ráða? Áhugaleysi barna verður ekki til í skólastofunni, áhugaleysi barna á námi endurspeglast því miður í áhugaleysi samfélagsins. Það hefur viðgengist of lengi að um nám, starf kennarans og skóla almennt sé ekki talað af mikilli virðingu. Foreldrar eru auð- lind í skólastarfi og skólarnir mega gera stórátak í að opna dyr sínar fyrir þessum helstu bandamönn- um sínum. Margir foreldrar taka virkan þátt og eru sannir bandamenn skólanna en við foreldrar ættum öll sem eitt að gera stórátak í að taka það hlutverk okkar alvarlega. Hefur þú talað neikvætt um skóla barnsins þíns og starfið sem þar fer fram? Hefur þú talað neikvætt um kennara barnsins þíns svo barnið heyri eða tekið undir neikvætt tal barnsins í garð skólans eða kennarans? Slík skilaboð auka ekki virðingu og áhuga barna á námi. Rýnum til gagns og tökum þátt í skólastarfinu á uppbyggilegum nótum. Ekki er hægt að undanskilja þátt fjölmiðla hér; áhugaleysi samfélagsins á menntamálum endur- speglast kannski hvað gleggst í fátæklegri fjölmiðlaumfjöllun um menntamál. Þörf er á krefjandi skólapólitískri umræðu víðar en í háskólasamfélaginu. Bjart framundan Nú hafa orðið miklar breytingar á íslensku samfélagi og gjarnan spurt: Hvað höfum við lært af kreppunni? Margar breyting- anna eru neikvæðar: atvinnuleysi, tekju- tap og erfið skuldastaða heimilanna. Þessi veruleiki blasir við okkur í dag en í ofaná- lag hefur ójöfnuður á Íslandi aukist stórlega und- anfarinn áratug. Hátekjufólki var hlíft við skatta- hækkunum en höggvið í lág- og millitekjufólk. Sú skuggalega þróun hefur valdið ójöfnuði og breikk- að bilið milli ríkra og fátækra. Í samfélagi ójafnað- ar fá sumir gæðamenntun – og aðrir ekki. Jöfnuður í íslensku skólakerfi er eitt hið dýrmætasta sem við eigum, og af þeirri braut megum við ekki snúa. En jákvæðar breytingar eru margar. Nýleg og vönduð rannsókn sýnir fram á að börnum og ungl- ingum líður betur í kreppunni, neysla vímugjafa dregst sífellt saman, bóklestur eykst og margt bendir til þess að árangur í ýmsum námsgreinum, m.a. læsi, sé að aukast. Foreldrar taka ríkari þátt í skólastarfi og hafa rýmri tíma. Neysluhyggjan er á undanhaldi, eftirsókn eftir vindi minnkar. Lærum við af reynslunni? Mun okkur takast að byggja upp samfélag sem setur menntun og menningaruppeldi á oddinn, virðir gildi samstöðu og samhjálpar og styður við mikilvægustu stofnanir samfélagsins, skólana? Sjaldan er sú góða vísa of oft kveðin að ein sterkasta vísbendingin um árangur og líðan barna í skólum er áhugi og viðhorf foreldra til skólastarfsins, sem og gæði samveru- stunda barna og foreldra. Velferð barna er sameig- inlegt verkefni fjölskyldna og skóla. Einungis í sam- einingu getum við breytt samfélaginu til hins betra. Einungis í sameiningu getum við skapað börnunum okkar framúrskarandi menntun sem eykur alhliða árangur þeirra og gerir þau að hamingjusömum og sterkum manneskjum. Þegar kreppunni lýkur og við spyrjum hvert annað hvað við lærðum vona ég að við getum sagt með stolti að við settum börn- in í forgang og að þau verði full sjálfstrausts og vel menntuð fyrir þá framtíð sem bíður þeirra. Höfundur er borgarfulltrúi. Samfélagið og skólinn UMRÆÐAN Þórólfur Matthíasson skrifar um lántöku- kostnað Margt skrítið hefur verið sagt um lán og lántökukostnað síðustu mánuðina. Sumir þeirra sem taka þátt í opinberri umræðu um þau mál virðast hafa þann tilgang helstan að rugla fólk í ríminu og koma af stað misskiln- ingi. Nú síðast er ruglað saman verðinu sem greitt er fyrir þjón- ustu lánastofnana og magni þeirr- ar þjónustu sem seld er. Skoðum það á eftir, en skoðum fyrst viðskipti Arnars og Birgis við leigusala. Gefum okkur að Arnar leigi 100 fm íbúð í eitt ár en Birgir leigi jafn stóra íbúð í 10 ár. Báðir borga 50 þúsund krónur í leigu á mánuði. Heildarleigugjald Arnars verður 600 þúsund krónur, heild- arleigugjald Birgis verður 6 millj- ónir króna. Allt er það eðlilegt og engum dytti í hug að saka leigu- salann um að vera dýrseldari á þjónustuna við Birgi en Arnar. Gefum okkur að Anna og Birna taki báðar 1 milljónar króna óverðtryggt lán. Vextir eru 5% og greiðist árlega eftirá. Höfuðstóll greiðist í einu lagi í lok lánstím- ans (svona lán eru stundum kölluð kúlulán). Lán Önnu er til 1 árs og lán Birnu er til 10 ára. Við lok fyrsta ársins greiðir Anna 50 þúsund krónur í vexti og höfuðstólinn til baka, samtals 1.050.000 krón- ur. Birna greiðir 50.000 krón- ur og síðan 50.000 krónur um hver áramót. Að 10 árum liðnum greiðir hún 50.000 krónur í vexti auk höfuðstólsins. Samtals hefur Birna fengið 1 milljón og greitt 1,5 milljónir meðan Anna hefur fengið 1 milljón og greitt 1 milljón og 50 þúsund krónur. Er þá ekki lán Birnu 10 sinnum dýr- ara en lán Önnu? Svar- ið er nei. Þann tíma sem þær nutu sömu þjónustu hjá lánveitanda sínum greiddu þær nákvæmlega sömu upphæð fyrir þá þjónustu, 50 þúsund krón- ur fyrir að hafa 1 milljón króna að láni í eitt ár. Það að Birna ákvað að kaupa þjónustuna 9 árum leng- ur en Anna breytir nákvæmlega engu um þá staðreynd. Að þessu leytinu til er enginn munur á því að leigja íbúð og að leigja peninga. Í báðum tilvikum ræðst upphæð heildargreiðslunnar af mánað- arleigunni og lengd leigutímans, eins og eðlilegt er. Í kjölfar bankahruns og sam- dráttar í atvinnu standa nú marg- ir einstaklingar og mörg heimili í þeim sporum að eiga í erfiðleik- um með að greiða lán sín niður jafn hratt og áætlað var þegar lánin voru upphaflega tekin. Þessum aðilum stendur nú til boða að breyta lánum sínum. Í raun er verið að bjóða þeim að kaupa meiri þjónustu á óbreytt- um kjörum. Er það hagstætt eða óhagstætt? Það fer eftir því hvaða aðra möguleika viðkomandi lán- þegi hefur. Ef hann getur fengið ódýrara fjármagn annars staðar á hann að sjálfsögðu að notfæra sér það. Ef aðrir lántökumögu- leikar eru dýrari er hagstætt að að taka greiðslujöfnunartilboði stjórnvalda. Þeir sem eru í vafa um hvað sé þeim hagstæðast ættu að leita ráða hjá fagfólki, verka- lýðsfélögum, lífeyrissjóðum, Íbúðalánasjóði eða Ráðgjafastöð heimilanna. Lánþegar sem eiga í greiðsluvanda ættu ekki að leita ráða hjá lýðskrumurum og hálf- pólitískum lukkuriddurum. Þeir virðast vilja fá sem flesta með sér fram af hengifluginu. Höfundur er prófessor í hagfræði við Háskóla Íslands. Er plús mínus? UMRÆÐAN Guðrún Snorradóttir skrifar um einelti Bestu ár lífsins eru í framhaldsskóla. Þetta hafa margir heyrt og það er oftast mikil tilhlökkun að loknum grunnskóla að hefja nám í nýjum skóla og komast á næsta skóla- stig. Ábyrgðin eykst og horft er til nýrra viðfangsefna og nýrra ævintýra. Það á líka að vera gleði- efni að takast á við nám sem við- komandi hefur sjálfur valið sér. Félagslíf framhaldsskóla er gjarn- an sveipað miklum ljóma og hefur oft áhrif á val nemenda um skóla. Ungt fólk hefur mikla þörf fyrir að koma saman og skemmta sér og á að eiga kost á góðu og heil- brigðu félagslífi. Í framhaldsskólum er stærsti hluti nemenda undir lögaldri varð- andi áfengisnotkun. Það þarf að ná tvítugsaldri til að mega kaupa og nota áfengi. Félagslíf í framhalds- skólum ætti því að vera án allra vímuefna en er því miður ekki svo. Þeir sem hefja nám í fram- haldsskólum og foreldrar þeirra eru oft á tíðum grunlausir um þá drykkju sem fram fer hjá fram- haldskólanemendum. Nemendur verða fyrir hópþrýstingi án þess að gera sér grein fyrir því. Þessi hópþrýstingur er ekkert annað en einelti. Þeir sem vilja skemmta sér án áfengis fá ekki frið til þess. Þessi tegund eineltis hefur ekki verið í umræðunni. Það er ekki af innri þörf sem nemendur á fyrsta ári í fram- haldsskóla byrja að drekka. Það er vegna þess að þeir hafa heyrt það frá eldri ungmennum að þeir eigi að byrja að drekka á þessum aldri og séu jafnvel skrítnir ef þeir drekka ekki. Þeir verða fyrir einelti. Því miður eru sumir foreldr- ar á þessari skoðun líka og kaupa jafnvel áfengi fyrir börn sín. Með hátterni okkar full- orðnu erum við að taka þátt í þessum hópþrýst- ingi án þess kannski að átta okkur á því. Við full- orðna fólkið verðum að hætta að taka þátt í eineltinu. Eineltinu að styðja hópþrýsting og þröngva þannig fjölda ungmenna til að hefja notkun áfengis löngu áður en þau hafa löngun og leyfi til. Það er nefnilega hópur ungmenna sem vill skemmta sér án áfengis en fer í felur. Við eigum með öllu að tryggja réttindi þeirra sem vilja skemmta sér án áfengis á þeim aldri sem þeim er ætlað að vera án áfeng- is. Það á að vera svo sjálfsagt að fylgja lögum varðandi notkun áfengis að við eigum að vera hissa ef einhver brýtur lögin en ekki ef einhver heldur þau. Við þurfum að sameinast um það viðhorf og þá ákvörðun að fylgja eftir þeim lögum og reglum sem við höfum sjálf sett okkur. Að standa saman og senda sömu skilaboð er það sem skiptir máli. Með því gefum við ungu fólki frelsi til að vera án áfengis, tóbaks og annarra vímugjafa. Það er okkar, hinna fullorðnu, að létta af unga fólk- inu þeim hópþrýstingi að eiga að drekka áður en það hefur aldur til. Unglingar vilja vera án áfeng- is, þeir vilja lífsgæði, leyfum þeim það, sýnum þeim stuðning og kennum þeim að skemmta sér á heilbrigðan hátt. Höfundur er landsfulltrúi UMFÍ. Hópþrýstingur er einelti ODDNÝ STURLUDÓTTIR ÞÓRÓLFUR MATTHÍASSON GUÐRÚN SNORRADÓTTIR af ákveðnum vörumLA GE R-ÚTSALA 50-70%afsl. Nokkur verðdæ mi: Vindjakki Krakkaúlpur 2-laga jakka r Jakkar Buxur dömu r Skíða og snj óbrettafatna ður o.fl. 8.995 19.995 19.995 12.995 9.995 4.500 9.997 5.999 3.995 2.999 GÓÐ K AUP VÖND UÐ VA RA EKKI MISSA AF ÞESSU! TAKMARKAÐ MAGN!

x

Fréttablaðið

Direkte link

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Fréttablaðið
https://timarit.is/publication/108

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.