Lögmannablaðið - 01.03.2014, Blaðsíða 4

Lögmannablaðið - 01.03.2014, Blaðsíða 4
4 lögMannaBlaðið tBl 04/13 leiðAri reynt á réttarríkið Á tyllidögum og í orði kveðnu taka langflestir undir að réttarríkið sé mikilvægt og að gæta skuli að því að mál fái rétta og sanngjarna meðferð. Vandinn er hins vegar sá að þegar óvæntir og ógeðfelldir atburðir eiga sér stað víkja slík sjónarmið gjarnan fyrir reiði og þeirri mannlegu þrá að vilja ná sér niður á þeim brotlega. Þá virðast fyrirbæri á borð við réttarríki og sanngjarna málsmeðferð fyrst og fremst tefja fyrir eðlilegum framgangi málsins. Þegar um hægist rennur fólki hins vegar allajafna reiðin og þegar horft er til baka telja flestir það mikilvægt að unnið hafi verið eftir þessum gildum. Fáir lögmenn hafa upplifað þetta ferli jafnskýrt og norski lögmaðurinn geir lippestad, sem tók að sér að verja Anders Bering Breivik í kjölfar ódæðisverkanna í Útey sumarið 2011. lippestad kom hingað til lands í febrúar og hélt fyrirlestur á vegum lögmannafélagsins um reynslu sína af málinu og á félagið hrós skilið fyrir þennan viðburð sem var einkar vel sóttur. lögmaðurinn lýsti þar reynslu sinni af málinu og samskiptum sínum við Breivik á afar hreinskilinn og opinskáan hátt, t.d. að hann hafi verið mjög efins um að taka málið að sér þegar fyrst var til hans leitað. Hann rifjaði upp hvernig konan hans, sem er hjúkrunarfræðingur, brást við þegar hann sagði henni að þetta verkefni stæði til boða. Andstætt því sem hann átti von á þá hvatti hún hann áfram, m.a. með þeim rökum að þegar fólk kæmi á sjúkrahús væri aldrei spurt að því hver viðkomandi væri heldur fengju allir sömu meðferðina. Ætti ekki sama að eiga við um sakborninga innan réttarkerfisins? Hann ákvað að taka að sér málið og fylgdi því eftir alla leið. Þótt réttarhöldin hafi verið afar ítarleg og farið hafi verið nákvæmlega yfir málið lá niðurstaða málsins ljós fyrir lengst af, sérstaklega eftir að fallið var frá þeirri málsvörn að Breivik væri geðveikur. Réttarhöldin snerust af þeim sökum ekki síst um hvernig haldið yrði utan um mál sem þetta. Að mati lippestad stóðst norska réttarkerfið þetta próf, virti réttindi sakborningsins og leyfði honum að tjá sig fyrir dóminum, jafnvel þótt hann væri Breivik. Hann fékk að njóta mannlegrar virðingar við réttarhöldin, eitthvað sem bandarískir og rússneskir viðmælendur lippestad skilja illa. Í Bandaríkjunum hefur lippestad verið spurður hvernig á því hafi staðið að sakborningurinn hafi fengið að vera í jakkafötum en ekki í appelsínugulum búningi líkt og tíðkast þar í landi. lippestad lýsti því einnig að fyrstu viðbrögð í Noregi hafi, skiljanlega, verið mikil reiði meðal fólks og hann og fjölskylda hans urðu fyrst um sinn jafnvel fyrir aðkasti. Hins vegar hafi mjög fljótlega myndast um það víðtæk samstaða að málsmeðferðin yrði byggð á grunngildum lýðræðis og réttarríkisins og þakkar lippestad það ekki síst skýrum og afgerandi skilaboðum frá lykilstofnunum samfélagsins. Fullyrða má að það tókst að tryggja eðlileg málsmeðferð og er það norsku þjóðinni til mikils sóma. Þótt Íslendingar samsvari sig með þeim gildum sem Norðmenn byggðu á, er ástæða fyrir okkur að staldra við og velta því fyrir okkur hvernig íslenskt samfélag og íslenskt réttarkerfi væri í stakk búið til þess að takast á við jafn erfitt mál. Vel var t.d. gætt að því að í máli Breivik að verjandinn og hans aðstoðarmenn fengju fullnægjandi aðstöðu og tíma til að vinna sína vinnu. Fá sakborningar og verjendur ávallt nægjanlegt svigrúm til þess að taka til varna? gefa dómstólar sér nægan tíma í réttarhöld? Þótt margt sé rétt gert hér á landi getum við alltaf gert betur í þessum efnum.

x

Lögmannablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Lögmannablaðið
https://timarit.is/publication/1132

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.