Morgunblaðið - 28.12.1957, Síða 14
14
# ngibjörg
Minningarorð
„Mínir vinir fara fjöld
feigðin þessa heimtar köld.
Eg kem eftir, kannske í
kvöld
ÞANNIG kvað Bólu-Hjálmar.
Þetta er karlmannlega mælt,
en þó með nokkrum sársauka.
Vinir og frændur fara nú hver
af öðrum, menn og konur sem
settu svip sinn á okkar sveit,
Vatnsnesið, á manndómsárum
sínum, fólkið, sem háði sína lífs-
baráttu án allra þeirra lífsþæg-
inda, sem nútíminn veitir og auk
þess gekk þá yfir landið eitt
mesta harðindatímabil nítjándu
aldarinnar frá 1881—1888.
Þetta fólk er nú flestallt farið
þá leið, sem Hjálmar frá Bólu
talar um í þeim ljóðlínum sem
tilfærðar eru hér að framan.
Og nú þann 22. okt. sl. hefir
vinkona mín og frænka, Ingibjörg
Árnadóttir húsfreyja á Bergs-
stöðum á Vatnsnesi orðið að
hlýða kallinu mikla á 95. aldurs-
ári, og hafði þá verið húsfreyja
75 ár í þessari sveit.
Ingibjörg Árnadóttir á Bergs-
stöðum var fædd að Neðri-Þverá
í Vesturhópi 25. ágúst 1863. For-
eldrar hennar voru hjónin Árni
Arason og Marsibil Jónsdóttir og
stóð að þeim báðum traust
bændafólk í ættir fram. Er Ingi-
björg var á fyrsta ári fluttist hún
með foreldrum sínum að Sigríð-
arstöðum í sömu sveit, þar sem
foreldrar hennar bjuggu mest
allan sinn búskap og komu upp
stórum barnahóp. Af 13 börnum
þeirra hjóna náðu 11 fullorðins-
aldri. Fjögurra ára gömul flutt-
ist Ingibjörg til föðursystur sinn-
ar, Guðríðar Aradóttur er bjó á
Sauðadalsá á Vatnsnesi og var
hjá henni til 18 ára aldurs, en
gekk þá að eiga Teit Halldórsson
smið frá Reynhólum í Ytra-
Torfustaðahreppi. Reistu þau bú
í Dalkoti vorið 1882 en fluttust
þaðan að Skarði í sömu sveit
vorið 1888 og bjuggu þar til árs-
ins 1897 að þau fluttust að Bergs-
stöðum, þar sem þau bjuggu til
ársins 1920 en það ár missti Ingi-
björg mann sinn. Eftir það
dvaldist hún hjá Pétri syni sín-
um á Bergsstöðum og konu hans,
Vilborgu Árnadóttur.
Þeim Teiti og Ingibjörgu varð
15 barna auðið, sem öll komust
til fullorðinsára. Af þeim eru
10 enn á lífi.
Þessi þurra upptalning á ártöl-
um og dvalarstöðum segir lítið
um hið langa óg merka ævistarf
Ingibjargar Árnadóttur því vil ég
sem sveitungi hennar og nágranm
í meira en hálfa öld reyna í fáum
orðum að lýsa að nokkru ævi-
starfi hennar.
Þegar Ingibjörg og maður
hennar flytja að Dalkoti í maí
1882 má svo að orði komast að
vetur væri genginn í garð, þótt
komið væri fram á sumar. Þá
voru komin hafþök af ís fyrir
öllu Norðurlandi og allir flóar
og firðir að fyllast og lá þessi
ís meira og minna landfastur til
höfuðdags.
Það hefur því verið köld að-
koma ungu konunnar með fyrsta
barn sitt nýfætt að afdalabýlinu
Dalkoti þetta vor, þar bíða henn-
ar engin lifsþægindi í hálfhrund-
um bæjarkofum. Þetta er fyrsti
áfangi Ingibjargar út í hina erf-
iðu lífsbaráttu, sem framundan
var. Unga konan gengur örugg
og ókvíðin á hólm við erfiðleik-
ana, hún trúir á lífið og fram-
tíðina og hún reynist köllun
sinni trú. Bústofninn er sáralít-
ill og eignir sínar í dauðum mun-
um gat hún borið með sér þegar
hún hélt til síns nýja heimilis.
Hún verður ein að sjá að mestu
um heimilið utanbæjar sem inn-
an, því maður hennar verður að
vinna sem flesta daga utan heim-
ilis til þess að hægt sé að afla
sér brýnustu lífsþarfa, en kaupið
var lítið þótt vinnudagurinn væri
langur.
Börnunum fjölgar svo að segja
með hverju ári og eru orðin fimm
er þau flytja frá Dalkoti 1888.
Þessi sex búskaparár þeirra í
Dalkoti sagði Ingibjörg mér að
M ö R C U TS Ti T/4 Ð1Ð L'augar'dagur 28. des. 1957
Frá „Hússtjórnar“-brunanum. Myndin sýnir er framhlið hússins er alelda og eldtungurnar leita
út yfir götuna. Ljósm.: Birgir Gunnarsson.
Árnadóftir
hefðu verið erfiðustu árin á sinni
löngu ævi. Fátæktin á þessu af-
dalakoti var svo mikil að því
verður tæplega með orðum lýst
og margan daginn mun ekkert
hafa verið til að næra börnin
á nema litill mjólkursopi og ma
nærri geta hvernig þau móður-
kjör hafa verið þegar börnunum
fjölgaði, en móðurást Ingibjarg-
ar og umhyggja öll fyrir börnum
sinum svo mikil, að þeirra vegna
hefði hún gengið eins nærri sér
og mannlegur máttur leyfir. Með
einstakri fórnarlund og einbeitt-
um vilja komst hún yfir þennan
erfiðasta kafla ævinnar, enda var
þrek hennar andlegt og líkam-
legt og skapgerð öll svo traust
að fágætt er. Vorið 1888 flytja
þau hjónin Ingibjörg og Teitur
með börn sin frá Dalkoti að
Skarði í sömu sveit. Þar búa þau
til vorsins 1897. Öll þessi ár er
lífsbaráttan hörð, jörðin kostarýr
og enn stækkar barnahópurinn,
svo þau eru orðin ellefu er þau
fara frá Skarði. Fyrstu árin í
Skarði er bústofninn ein kýr og
ein hryssa, en nokkrar kindur
eru þau búinn að eignast þegar
þau fara þaðan. Þrátt fyrir sára
fátækt og í alla staði erfið lífs-
kjör með sinn stóra barnahóp á
lélegu býli mun aldrei hafa sorfið
eins fast að og á árunum í Dal-
koti. Eins og áður varð Ingibjörg
að annast heimilið utanbæjar og
innan vegna fjarveru manns
síns við vinnu utan heimilis og
varð þá að fara sjálf langar kaup-
staðarferðir gangandi með eitt
hross í taumi til aðdrátta fyrir
heimilið.
I hinni ágætu afmælisgrein
Helga Tryggvasonar kennara,
sem hann skrifaði um Ingibjörgu
er hún var 90 ára, segir hann
meðal annars: „Marga kaupstað-
arferð þurfti Ingibjörg að fara
gangandi utan af Vatnsnesi og
alla leið inn fyrir Hrútafjörð áð-
ur en verzlun hófst á Hvamms-
tanga laust fyrir aldamótin. —
Hún kunni naumast að hlífa sér
við neitt verk, hvernig sem hún
var fyrirkölluð.“ Á seinni árum
þeirra í Skarði þurfti Teitur mað-
ur hennar að koma upp fjárhús-
kofa, var þá ekkert árefti til og
sótti Ingibjörg á einu hrossi hell-
ur upp á fjall, svo hægt væri að
koma þaki á kofann. .
Eftir að þau hjón komu að
Bergsstöðum á Vatnsnesi vorið
1897 má segja að færi að rofa
fram úr mestu erfiðleikunum.
Bæði fluttu þau á betra býli, bú-
stofninn stækkaði, elztu börnin
fóru að vinna heimilinu og að-
staða til að fá málsverð úr sjó
var þar fyrir hendi.
Allt þetta hjálpaði til þess að
afkoma öll var önnur en áður
var og lífsbaráttan ekki eins tví-
sýn og hörð eins og í Dalkoti og
Skarði. .Og seinasta áratuginn,
sem þau bjuggu, má segja að
afkoma heimilisins væri orðin
allgóð.
Þegar það er haft í huga, sem
að framan er sagt er það sann-
kallað afrek að koma upp hin-
um stóra barnahóp án nokkurrar
opinberrar hjálpar. — Þarna var
lífið fórn, oft blandin gleði og
hamingju, sem bægði skugga
skorts og erfiðleika frá. Ingibjörg
var ein af þeim konum, sem vaxa
í erfiðleikunum við hverja raun.
Henni var mikið gefið í vöggu-
gjöf og hún ávaxtaði pund sitt
vel. Hún gaf öðrum mikið en
krafðist lítils sjálf. Hún var börn-
um sínum fórnfús og ástrík móð-
ir, enda elskuðu þau hana mjög.
Okkur samferðamönnum hennar
gaf hún mikið og þeim mest er
kynntust henni lengst. Lífsgleði
og léttlyndi Ingibjargar var ó-
venjulegt. Eg held að engin hafi
hitt Ingibjörgu öðru vísi en með
bros á vörum og gamanyrði, hvað
erfið sem lífskjörin voru. Það
var alltaf gleði og birta í kring-
um hana og af þessum fjársjóði
sínum miðlaði hún öllum þeim
mörgu, sem hún mætti á lífsleið-
inni. Hún stráði gleði og birtu
inn í líf margra sem virtust vera
meira sólarmegin í lífinu. Mér
fannst eg alltaf fara frá henm
meiri og betri maður er eg
kvaddi hana. Það eru þessar
gjafir sem við samferðamenn
hennar fáum seint fullþakkað.
Þótt Ingibjörg léti af búskap
eftir langan og erfiðan vinnudag
sat hún ekki auðum höndum.
Nú má segja að nýtt tímabil byrj-
aði í ævi hennar. Allir sem
þekktu hana, vissu hver hagleiks-
kona hún var. Þar fór saman
listfengi og vandvirkni við allt
sem hún lagði hendur að.
Nú var það íslenzka tóvinnan,
sem hún helgaði krafta sína.
Hún spann og prjónaði úr ís-
lenzku ullinni meira og minna
á hverju ári fram á tíræðisald-
ur. Fyrir rúmum þremur árum
sýndi hún mér hvítt þelband
tvinnað og var hespan 7—8 lóð.
Oft sá eg Ingibjörgu á seinni
árum spinna þelkembur á rokk-
inn sinn og fannst mér sem
vinnugleðin geisla frá henni er
hún þeytti rokkinn og teygði úr
kembunum. Þá var það ekki síður
listrænt sem hún prjónaði úr
sínu hárfína bandi tvinnuðu og
þrinnuðu. Þar gat að líta alls
konar útprjón.
Ekki vann Ingibjörg þetta til
að hafa það sem söluvöru, nei,
hún gaf þetta vinum og vanda-
mönnum og margir hafa þeir ver-
ið, sem hún gaf eitt eða annað af
því sem hún hafði unnið, því
löngun hennar til að gleðja aðra
var svo ríkur þáttur í skapgerð
hennar.
Eitt er það sem eg get ekki
látið hjá líða að minnast á í
þessum fátæklegu minningarorð-
um og það er gestrisni þeirra
hjóna, Ingibjargar og Teits.
Kom eg oft að Bergsstöðum á
búskaparárum þeirra og mætti
þar sem aðrir óvenjulegri gest-
risni. Var þá oft veitt af meiri
rausn en efnin leyfðu. Þó var það
annað og meira en það sem
fram var borið, það var viðmót-
ið, viðtökur allar og alúð, sem
lýstu því að gesturinn var vel-
kominn og segja mátti oft að
„gleðigyðjan frjáls, gengi þar um
beina." Gestrisni á heimili þeirra
hjóna hlýtur að hafa orðið fleir-
um minnisstæð en mér.
Ingibjörg var kona bókhneigð,
las mikið á seinni árum og fylgd-
ist vel með öllu. Hún myndaði
sér rökfasta skoðun á hverju því
sem hún ræddi um og hélt fast á
sinni skoðun, ef því var að skipta.
Hún hélt sjón og heyrn til síð-
ustu stundar, þó hvort tveggja
væri nokkuð farið að daprast síð-
ustu árin. Ævikvöld hennar var
friðsælt og bjart, þar sem hún
naut ástúðar og umhyggju barna
sinna og annarra vandamanna.
Börn þeirra Ingibjargar og
Teits eru:
1. Davíð, dó ógiftur á fertugs-
aldri, stundaði smíðar.
2. Helga Marsibil, húsfrú á
Hvammstanga, gift Ólafi Ólafs-
syni.
3. Daníel, bjó á Bergsstöðum,
dáinn 1923, giftist Vilborgu Árna-
dóttur.
4. Anna Guðríður, ekkja, bú-
sett í Reykjavík, giftist Þórólfi
Jónssyni.
5. Sigurbjörn ógiftur smiður
á Hvammstanga.
6. Hólmfríður Margrét dó ógift
á þrítugsaldri.
7. Einar dáinn 1932. giftist Sig-
ríði Ingimundardóttur. Stundaði
smíðar.
8. Friðrik vélsmiður í Reykja-
vík giftur Karitas Bergsdóttir.
9. Jóhannes verkstjóri giftur
Guðrúnu Magnúsdóttir búsettur í
Garðahreppi.
10. Pétur bóndi og smiður á
Bergsstöðum giftur Vilborgu
Árnadóttir.
11. Baldvin dó ógiftur á þrí-
tugsaldri. Stundaði smíðar.
12. Guðrún María aðstoðarkona
við ljóslækningar í Keflavík.
13. Jakobína Kristín húsfrú á
Höfða í Kirkjuhvammshreppi gift
Páli Guðmundssyni.
14. Karl lausamaður ógiftur á
Bergsstöðum.
15. Haraldur búsettur í Reykja-
vík giftur Sigurbjörgu Kristjáns-
dóttur.
Það er einkennandi fyrir
þennan stóx-a barnahóp, hvað
þau hafa öll erft verklagni og
hagleik foreldranna, svo að bræð
urnir hafa flestir verið fjölhæfir
smiðir og svo ríkt er þetta í ætt-
inni að barnabörnin hafa erft
þessa kosti í ríkum mæli.
Nú munu niðjar Ingibjargar
vera um eitt hundrað. Það er
alltaf gott að eignast góða sam-
ferðamenn á lífsleiðinni, hvort
sem hún er löng eða stutt. Við
samferðamenn Ingibjargar eigum
henni mikla skuld að gjalda fyrir
hennar löngu og góðu samfylgd
og við kveðjum hana með virð-
ingu og þakklæti fyrir hennar
mikla göfuga og fórnfúsa ævi-
starf.
Blessuð sé minning þín.
Illugastöðum í nóv. 1957.
Guðm. Arason.
Til leiklistarnáms
UNGUR Reykvíkingur lagði í
gærkvöldi upp í langa utanför.
Fór hann áleiðis til Los Angeles
á vesturströnd Bandaríkjanna, en
þar mun hann stunda leiklistar-
nám — og býst við að hafa allt
að tveggja ára útivist. Þessi ungi
maður heitir Reynir H. Oddsson.
I rúmt ár hefur hann stundað
nám við leiklistarskóla Ævars
Kvarans, en nú innritast hann í
Pasadena Playhouse í Los Ang-
eles, en það er mjög frægur leik-
skóli, sem á m. a. útvarps- og
sjónvarpsstöð auk fjögurra leik-
húsa. Vikulega koma nemendur
skólans fram í sjónvarpsþáttum
— og einnig hafa þeir á hendi
minni hlutverk í leikhúsunum."
Leikskólinn hefur á sínum snær-
um marga fræga leikara og um
þessar mundir ber þar hæst
John Barrymore jr. og Margaret
O’Brien.
Þetta er ekki fyrsta utanför
Reynis H. Oddssonar, því að
hann er einn þeirra fáu íslend-
inga, sem stigið hafa á ástralska
grund. Hann hefur meira að segja
farið yfir þvera Astralíu, ýmist
fótgangandi eða á vörubílspalli.
Það eru liðlega tvö ár síðan hann
fór í hálfs árs utanferð með kunn
ingja sínum héðan úr Reykjavik.
Gistu þeir þá auk Ástralíu m. a.
Egyptaland og Arabíu — og unnu
í ferðinni fyrir fæði og fari bæði
á sjó og landi. Reynir er því
þaulvanur ferðalangur — og
fylgja honum óskir um árang-
ursríka för.