Morgunblaðið - 12.10.1979, Blaðsíða 23
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 12. OKTÓBER 1979
23
Kristinn Árnason
—Minningarorð
Fæddur 16. júní 1908
Dáinn 4. október 1979
Maður á besta aldri í einkennis-
búningi póstmanns með bréfbera-
tösku sína og hjól, tekur upp lítinn
strák vestur á Öldugötu og lætur
hann á hjólið sitt, síðan teymir
hann hjólið en strákur situr á
stönginni og heldur sér í stýrið.
Ánægjan leynir sér ekki á andliti
hans, ánægja og öryggistilfinning
barns, sem hefur eignast stóran og
sterkan vin. Það fer hið besta á
með þeim er þeir halda í áttina að
Garðastræti á fögrum haustdegi.
Þetta skeði fyrir þrjátíu árum
og engum þótti merkilegt nema
þessum tveim sálum, sem í hlut
áttu.
Og nú er aftur haust og við vinir
hans finnum kannski betur fyrir
haustinu og rökkrinu en oft áður,
nú er við þurfum að fylgja Kidda
til grafar. Það sannast nú sem oft
áður, að enginn á neitt nema það
sem hann hefur gefið. Fyrir mig,
móður mína og bróður var hann
eins og klettur í ólgusjó, sem
ávallt stóð beinn þótt brimið
mæddi á honum, það slípaði hann
aðeins og lagaði hans ytra borð.
Kristinn var einn þeirra manna
sem kunna að vinna úr því sem
lífið réttir þeim. Hann kunni að
snúa mistökum sínum upp í sigra
og miðla okkur hinum af reynslu
sinni. Hjartagæska, hlýja og
hjálpfýsi hans var einstök.
Kristinn fæddist í Reykjavík
árið 1908 og ólst upp á Óðinsgötu
21, hjá foreldrum sínum þeim
Árna Magnússyni fríkirkjuverði
og konu hans Málfríði Magnús-
dóttur. Kristinn varð snemma að
fara að vinna fyrir sér og var ekki
nema 14 ára er hann fór til sjós,
fyrst sem léttadrengur á Litla-
Þór, þá á Gullfossi og síðan sem
háseti á Gamla Geir, eða allt þar
til hann hætti sjómennsku vegna
lasleika um 1930. Þetta var harður
skóli og hefur eflaust sett mark
sitt á hann. Minnist ég margra
frásagna hans frá þessum tímum,
sem veittu mér sýn inn í þau
kröppu kjör, sem alþýða manna
mátti búa við í þá daga. Og ef sál
hans var með einni stétt manna,
þá var það hinn óbreytti
sjómaður, sem átti hjarta hans.
Árið 1935 giftist Kristinn eftir-
lifandi konu sinni Louisu Eiríks-
dóttur og eignuðust þau eina
dóttur, Árndísi Fríðu, sem búsett
er í Borgarnesi. Áður hafði hann
eignast son, Hauk, sem einnig er
búsettur í Borgarnesi. Á þessum
árum kynntist Kristinn Magnúsi
Guðbjartssyni hlaupara í KR, en
þeir störfuðu þá saman á póstin-
um. Hefi ég heyrt sagt, að alltaf
þeg'ar nýr maður byrjaði á póstin-
um þá hafi Magnús egnt hann upp
á móti sér, nema það að Kristinn
lætur það ekkert á sig fá en
tuskast við karl og hafði betur.
Upp frá því urðu þeir perluvinir
og Kristinn fer að æfa hlaup með
Magnúsi og það af svo miklu kappi
að þeir létu hann skrá sig í KR,
þar sem hann vann til verðlauna
a.m.k. í 2 eða 3 skipti, m.a. í 10000
m hlaupi. Kristinn hafði einnig
mikið yndi af knattspyrnu og var
oft meðal áhorfenda þegar KR
keppti.
Annar hæfileiki, sem Kristinn
bjó yfir var listræns eðlis. Hann
hafði óvenju fallega rithönd og
útskornu hlutirnir, sem hann skil-
ur eftir sig sanna hæfileika hans í
þá átt.
Árið 1954 eignast Kristinn son,
Gunnar, með Þuríði Jakobsdóttur.
Hann er búsettur í Reykjavík.
Að lokum vil ég láta í ljós
þakklæti fyrir að fá að kynnast
manni á borð við Kristinn með
alla hans kosti og galla og tel mig
vitrari fyrir bragðið.
Sigurþór Jakobsson
HM í Bridge:
Bandaríkja-
menn eru enn
langefstir
Ríó do Janeiró, 11. október.
BANDARÍSKA sveitin hefir enn
örugga forystu á heimsmeistara-
mótinu í bridge að loknum fjór-
um umferðum. Hefir sveitin feng-
ið 62 stig. Ástralía er með 49,5
stig og Italir eru í þriðja sæti
með 47 stig.
Úrslit í þriðju og fjórðu umferð
urðu þau að Bandaríkin unnu
Mið-Ameríku 17—3 pg töpuðu
fyrir Ástralíu 5—15. ítalir unnu
Brazilíumenn með 20—2 og töpuðu
fyrir Mið-Ameríku 5—15.'
Brazilíumenn unnu Taiwan 16—4.
Ástralía og Taiwan gerðu jafntefli
10-10.
Eitt hitamál hefir komið upp á
mótinu. í leik ítala og Mið-
Ameríku misheyrðist einum af
ítölsku spilurunum. Einn af spil-
urum Mið-Ameríku sýndi kurteisi
og aðstoðaði Itala sem varð til
þess að ítalir enduðu í réttum
spilasamningi. Hefir atvik þetta
verið mjög gagnrýnt af öðrum
spilurum í keppninni.
Rafn Garðarsson
—Hinsta kveðja
í dag verður borinn til grafar
Rafn Garðarsson klæðskeri, en
hann lést 2. október sl., langt fyrir
aldur fram, aðeins 39 ára að aldri.
Rafn fæddist á Dalvík 29. apríl
1940, sonur Þorbjargar Jónsdóttur
og Garðars Guðnasonar. Foreldr-
ar hans slitu samvistum þegar
Rafn var enn á barnsaldri og frá
sjö ára aldri til fjórtán ára
dvaldist hann hjá Sigurði bónda á
Helgafelli í Svarfaðardal. Þá kom
hann suður, fór í Skógaskóla og
lauk þar námi sínu.
Rafn sagði mér síðar, að hvergi
hefði honum liðið eins vel og í
sveitinni, og langtímum saman
gat hann rætt um hversu gott þar
hefði verið. Hann saknaði sveitar-
innar sárlega. Og hann sagði mér
líka, að það hefðu verið hræðileg
umskipti fyrir hann, fjórtán ára
unglinginn, að koma norðan úr
Svarfaðardalnum í höfuðborgina.
Mannlífið, hugsunarhátturinn,
allt gjörólíkt því sem hann hafði
alist upp við.
Eg kynntist Rafni Garðarssyni
ekki fyrr en hann var orðinn
liðlega tvítugur. Þá hóf hann
klæðskeranám hjá mér, og næstu
fjögur árin áttum við mikið saman
að sælda, eins og gefur að skilja
þegar unnið er daglega saman á
fremur litlum vinnustað. Við
slíkar aðstæður kynnist maður
einnig betur. Rafn hafði einmitt
til að bera mannkosti sem eru
ákaflega áríðandi í svona starfi.
Þægilegur í umgengni, snyrti-
menni hið mesta, áhugasamur um
starf sitt og stundaði námið því af
kostgæfni.
Eftir að námi Rafns lauk, hætti
hann störfum hjá mér og leitaði á
önnur mið í fagi sínu.
Fyrir fimm árum veiktist Rafn
af alvarlegri höfuðmeinsemd, sem
olli því að hann varð upp frá þeim
degi að vera á sterkum lyfjum,
bæði til að lina þjáningar sínar og
hefta framgang sjúkdómsins. En
hann vissi að þessi sjúkdómur yrði
ekki læknaður og að aðeins væri
um að ræða spurningu um tíma.
Eftir að hann veiktist mátti
hann í rauninni ekki vinna, þótt
hann yndi aðgerðarleysinu illa.
Því var það að hann vann fram á
síðasta dag við verslunina Pollý-
önnu, sem hann rak síðustu árin
ásamt kunningja sínum. En
þreyttur var hann að loknu dags-
verki og varð mest að liggja fyrir,
eftir að heim kom. Því er óhætt að
segja, að þrátt fyrir ungan aldur
hafi hann sannarlega ekki notið
lífsins á þann hátt sem jafnaldrar
hans almennt gerðu.
Rafn bjó hjá móður sinni og
stjúpföður, Óskari Sörlasyni, til
æviloka og undi þar hag sínum
vel. Þau hjón, Þorbjörg og Óskar,
ólu upp kjördóttur, sem nú er
þrettán ára. Þessi telpa var auga-
steinn Rafns og sem dæmi um
hæfileika Rafns get ég sagt frá
því, að þegar að því dró að
uppeldissystir hans færi í skóla í
fyrsta sinn, brá Rafn sér í bæinn
og gat grafið þar upp lestrarbæk-
ur eins og þær sem hann hafði
lært að lesa af. Með aðstoð
þessara bóka kenndi Rafn síðan
telpunni með þeim árangri, að hún
var næstum læs þegar að skóla-
göngunni kom.
Nú er Rafn allur. Foreldrar
hans og systkini sjá £ bak góðum
dreng sem örlögin höfðu ekki
ætlað langlífi. En það má til
huggunar telja, að þjáningum
hans er lokið, — lífsstríðið á enda.
Og um leið og ég kveð þennan
fyrrverandi nemenda minn hinstu
kveðju, bið ég fjölskyldu hans allri
huggunar í harmi þeirra.
H.Ö. Sigurðsson.
ATHYGLI skal vakin á því, að afmælis- og
minningargreinar verða að berast blaðinu með
góðum fyrirvara. Þannig verður grein, sem birtast
á í miðvikudagsblaði, að berast í síðasta lagi fyrir
hádegi á mánudag og hliðstætt með greinar aðra
daga. Greinar mega ekki vera í sendibréfsformi eða
bundnu máli. Þær þurfa að vera vélritaðar og með
góðu línubili.
Osvikin amerísk gæðavara
Litir: dökkblátt — rautt Stærðir: 12 — 14 — 16
hvítt — grátt — beige| S — M — L — XL
USA
SWEATSHIRTS
(háskólabolir
Verð kr: 5.500.-
Sendum í póstkröfu samdægurs
Laugavegi 37, Laugavegi 89,
sími 12861. sími 10353.