Morgunblaðið - 12.08.1983, Qupperneq 25

Morgunblaðið - 12.08.1983, Qupperneq 25
MORGUNBLAÐIÐ, FÖSTUDAGUR 12. ÁGÚST 1983 25 Fór Ingólfur þá með áhöfn sinni yfir á Hval 1 og var með hann um mánaðartíma, þar til Hvalur 6 kom til landsins um mitt sumar 1961, en þá fór Ingólfur með áhöfn sinni yfir á Hval 6. Var hann með Hval 6 næstu fimm hvalveiðiver- tíðir. Er Hvalur 9 kom til landsins 1966 tók Ingólfur við honum og var skipstjóri og skytta þar, allt til þess er hann fór í land um miðjan júlí sl. vegna veikinda þeirra er urðu honum að aldurtila 4. ágúst sl. Hafði Ingólfur því starfað á 32 af 36 hvalveiðivertíðum sem Hval- ur hf. hefur rekið hvalveiðar og hvalvinnslu og þar af verið skip- stjóri og skytta á skipum félagsins á 31 hvalveiðivertíð eða lengur en nokkur annar. Á þessu tímabili hafði hann veitt á fjórða þúsund hvali enda var hann skytta góð. Er það meira en nokkur annar íslendingur hef- ur gert og þó víðar væri leitað. Við það að dvelja með foreldr- um sínum í Hvalfirði á sumrin þá man ég eftir Ingólfi allt frá unga aldri, en fá tækifæri voru látin ónotuð að fá að vera á bryggjunni er hvalbátarnir komu inn með afla. Ég var aldrei í áhöfn á skipi undir stjórn Ingólfs svo ég kynnt- ist honum ekki að ráði fyrr en upp úr 1966 er ég hóf störf að nýju hjá Hval hf. að námi loknu. Sérstaklega kynntist ég Ingólfi vel er ég var ráðinn framkvæmda- stjóri Hvals hf. að föður mínum látnum 1974. Ingólfur var þrekinn maður og bar hann það með sér að þar fór sjósóknari í húð og hár. Hann var ósérhlífinn, gætinn en ötull sjómaður. Hann var ekki fyrir að kvarta og er ég sannfærð- ur um að hann hefur ekki átt sjö dagana sæla síðustu túrana, en' starfsáhuginn var óbilandi og ekki skyldi gefa sig fyrr en í fulla hnef- ana. Tækniþróun er ör á vorum tím- um og á það ekki hvað síst við um ýmis tæki og búnað er fyrirfinnast og krafist er um borð í skipum og finnst sumum nóg um á stundum. Fékk ég Ingólf oft til að kynna sér hinar ýmsu gerðir og reynslu ann- arra sjómanna af mismunandi tækjum og búnaði sem á markaðn- um voru hverju sinni og leggja sitt mat á notagildi þeirra fyrir hval- veiðibátana. Voru ráðleggingar hans í þessu efni einkar gagnleg- ar. Ingólfur lagði metnað sinn í að fara vel með og fór allt bruðl mjög í taugarnar á honum. Er komið var um borð í skip undir hans stjórn leyndi það sér ekki að góð umhirða og reglusemi var þar í hávegum höfð. Ingólfi hélst vel á fólki og voru sömu mennirnir með honum í ára- raðir. Er mér kunnugt um að hann hélt tryggð við marga af sínum mönnum alla tíð þó áratugir væru síðan þeir voru með honum til sjós. Eins og oft vill verða um borð í skipum þá myndast ýmsar sögu- sagnir í kringum „karlinn". Ingólfur fór ekki varhluga af því frekar en aðrir skipstjórar. Ef maður bar sannleiksgildi sumra af þessum sögusögnum undir hann þá hló hann bara dátt og hafði lúmskt gaman af, enda var hann léttur í lund og hrókur alls fagnaðar á góðri stund. Það hefur verið lán Hvals hf. að hafa notið dyggrar þjónustu manns eins og Ingólfs Þórðarson- ar og heyrði ég föður minn oft lýsa ánægju sinni yfir hve heppinn hann var að ná í Ingólf til að taka við af Norðmönnum þeim er voru skipstjórar á hvalveiðibátunum fyrstu árin og koma þessum nýja þætti íslensks sjávarútvegs yfir bernskuskeiðið. Kom fljótt í ljós að íslenskir sjó- menn voru fljótir að tileinka sér þennan nýja veiðiskap og komu kennsluhæfileikar Ingólfs þar vel í ljós við þjálfun yngri manna, enda minnast þeir hans oft sem „fóstra" síns. Ingólfur starfaði mikið að fé- lagsmálum sjómanna. Var hann lengi í stjórn Skipstjóra- og stýri- mannafélagsins Öldunnar. Einnig átti hann sæti í sjóslysanefnd um árabil. En mesta ánægju hafði hann af störfum sínum fyrir Slysavarnafélag íslands, sem hann helgaði krafta sína um lang- an aldur. Var hann gjaldkeri í stjórn þeirra merku samtaka í mörg ár. Hafði hann ætíð brennandi áhuga á slysavörnum og þá sér- staklega hvað varðaði öryggi sjó- manna á hafi úti. í mörg undanfarin ár höfum við haft þá reglu, ef nokkur tök hafa verið á, að hafa verklega æfingu áhafna með þau björgunartæki sem til staðar eru í skipunum. Hafa þessar æfingar farið fram við upphaf hvalveiðivertíða og hefur einnig verið kynnt sú utan- aðkomandi aðstoð sem menn mega reikna með að fá ef óhöpp hendir t.d. björgun með þyrlu o.fl. Var það Ingólfi einkar ljúft að sjá um að þessar æfingar tækjust vel. Fékk hann til samvinnu félaga sína í Slysavarnafélaginu, en þeir eru alltaf boðnir og búnir að að- stoða í tilfellum sem þessum. Eins og sést af framantöldu þá lætur Ingólfur eftir sig mikinn og langan starfsdag, enda kunni hann best við sig ef hann hafði eitthvað fyrir stafni. Hefur það verið mér sönn ánægja og lærdómur að hafa haft tækifæri til að vinna með manni eins og Ingólfi Þórðarsyni og mun ég lengi búa að þeim kynnum. Ingólfur giftist skólasystur sinni, Friðrikku Jónsdóttur frá Neskaupstað, 5. október 1945 en hún lést 12. júní 1979. Voru þau mjög samrýnd hjón. Eignuðust þau þrjú börn er öll eru á lífi. Að endingu vil ég fyrir mína hönd, móður minnar, systur og barna hennar, votta aðstandend- um Ingólfs okkar innilegustu hluttekningu vegna fráfalls hans langt fyrir aldur fram. Kristján Loftsson Sérhver maður elst upp við þá staðreynd, að eitt sinn skuli hver maður deyja. Þetta er nokkuð sem er, og því verður aldrei breytt. Hver og einn sættir sig við þessa staðreynd, ef til vill þangað til hún snertir hann sjálfan. Þegar ein- hver nákominn eða vinur fellur frá, þá er hann ekki svo sáttur við hina köldu staðreynd sem dauðinn er. Þannig var það með mig, þegar ég frétti lát Ingólfs Þórðarsonar skipstjóra. En ég var einn þeirra fjölmörgu, sem kynntust mannin- um og einn þeirra sem eignuðust vináttu hans. Ingólfur Þórðarson fæddist 19. janúar 1921. Foreldrar hans voru Jóhanna Matthildur Bjarnadóttir og Þórður Bergsveinsson útvegs- bóndi Berufjarðarströnd. Systkini hans voru Bjarni fyrrverandi bæj- arstjóri í Neskaupstað (látinn), Sigursveinn fv. skipstjóri hjá Hval hf., búsettur í Hafnarfirði, Sigríð- ur Þórðardóttir húsfrú í Neskaup- stað og Þórður skrifstofumaður í Neskaupstað. Ingólfur kvæntist ungur Friðrikku Jónsdóttur frá Neskaupstað, en hún lést 12. júlí 1979. Eignuðust þau þrjú börn, Grétar Kérúlf skipstjóra Höfn, Hornafirði, Hrefnu húsmóður í Mosfellssveit og Pétur Hafstein íþróttakennara á Akranesi. Barnabörn voru orðin tíu talsins og eitt barnabarnabarn. Ingólfur stundaði sjómennsku frá unglingsaldri. Lauk far- mannsprófi í Stýrimannaskólan- um í Reykjavík og var við fram- haldsnám í Danmörku eitt ár. Kenndi hann við Stýrimannaskól- ann í Reykjavík í meira en þrjá áratugi og jafnframt skipstjóri og skytta á einu hvalveiðiskipa Hvals hf. samhliða starfi sínu sem kenn- ari. Var Ingólfur í stjórn Öldunn- ar í nokkur ár. Þá fékk hann heið- ursskjal fyrir vel unnin störf í þágu Slysavarnafélags íslands. Hann var í stjórn sjóslysanefndar í mörg ár. Kynni okkar Ingólfs urðu með þeim hætti, að hann réði mig sem háseta óharðnaðan ungling, sex- tán ára. Hafði ég lítið í starfið nema lágmarksaldur og hæð í lofti. Átti ég að vísu því láni að fagna að hafa verið tvö sumur í fiskvinnu undir stjórn öndveg- ismanns af gamla skólanum, Skúla Þorleifssonar fyrrverandi glímukappa, sem var búinn að gera heiðarlega tilraun til að koma mér til manns. Má segja að Ingólfur hafi tekið þar við og reynt að halda áfram við verkið. Ingólfur var með afbrigðum góður skipstjóri. Honum var ef til vill ekki lagið að leggja sig eftir sálarlífi hvers manns í áhöfn sinni, heldur var hann styrkur stjórnandi, sem stýrði skipi sínu og áhöfn með hámörkun afrakst- urs í huga við lágmarksslit á skipi og skipsbúnaði. En hann gætti jafnan mjög vel að öryggi áhafn- ar. Hefi ég fáum mönnum kynnst um ævina, sem hafa haft jafn mikinn styrk til að bera sem stjórnendur. Til að vera góður stjórnandi má læra sumt af bók- um, sumt er hægt að læra í lífinu og enn er sumt sem verður ekki lært, heldur er mönnum meðfætt. Allt þetta þrennt hafði Ingólfur. Margir höfðu skoðanir á Ingólfi. Hann var þannig. Til dæmis gat hann verið svo fasmikill, þegar mikið lá við á veiðum, að menn í áhöfn hans voru lafhræddir. Þá var hann atkvæðamikill í skoðun- um, sem stundum gátu verið full afdráttarlausar. Af einhverjum ástæðum, þá fórum við snemma að skiptast á skoðunum. Byrjaði það þegar ég var á sjó undir hans stjórn. Hélt það síðan áfram heima í stofu hjá þeim hjónum í Miðtúni og síðan Selvogsgrunni, eftir að ég hætti á sjónum með honum. Vorum við báðir fullyrð- ingagjarnir í þessum umræðum okkar og einfölduðum hluti. Var þetta gert til að hafa meira púður í þeim. Eitt vorum við þó alltaf sammála um: Það var um þá skoð- un Ingólfs að allir þeir, sem ganga hinn svokallaða menntaveg ættu að eiga þess kost að vera á sjó einhvern tíma á námsferli sínum. Með þeim hætti mundi skilningur á stöðu og störfum hvors hóps um sig aukast. Menntamenn skildu þá betur kjör, allar aðstæður sjó- manna og skoðanir þeirra. Og sjó- menn sæju að sumt af langskóla- fólki er harðduglegt fólk og það sem er það ekki, því yrði bara kennt að vinna. Var mér oft hugs- að til Ingólfs á þeim tímum, þegar ég borðaði súrmjólkina í hádeginu uppi í Háskóla og hlustaði á skoð- anir háskólastúdenta, sérstaklega þeirra, sem vissu til dæmis allt um lífsbaráttuna, en skildu lítið. Með Ingólfi er horfinn einn af mörgum máttarstólpum þjóðfé- lagsins. Maður, sem hefur unnið nærfellt tvöfaldan vinnudag í þrjá áratugi, annars vegar við að afla þjóðarbúinu mikils gjaldeyris með sjómennsku sinni, og hins vegar við að undirbúa sem best þá, sem vildu leggja slíkt fyrir sig að ævistarfi. Það munar um þegar menn eins og Ingólfur hverfa af sjónarsviðinu, en dýrmæt minning um hann lifir og þau spor, sem hann markaði með störfum sínum verða ekki afmáð, heldur koma þeim einstaklingum, sem honum kynntust og þjóðfélaginu í heild til góða í nútíð og á ókomnum tímum. Magnús Hreggviðsson Þann 4. þ.m. lést í Borgarspítal- anum í Reykjavík eftir skamma veru þar Ingólfur Þórðarson, skip- stjóri, Selvogsgrunni 26, Reykja- vík. Hann var fæddur á Krossi í Beruneshreppi, S.-Múlasýslu, þann 19. janúar 1921. Foreldrar hans voru Þórður, útvegsbóndi þar, fæddur 24. apríl 1891, dáinn 19. september 1925, Bergsveins- sonar, bónda í Urðarteigi við Berufjörð, Skúlasonar, og kona hans Jóhanna Matthildur, fædd 25. maí 1890, dáinn 4. apríl 1972, Bjarnasonar, bónda á Kálfafelli í Suðursveit, Runólfssonar. Ingólfur er 4 ára þegar faðir hans ferst í sjóinn. Tveir bræður hans eru eldri, Bjarni, um langt árabil bæjarstjóri á Norðfirði við góðan orðstír, og Sigursveinn, skipstjóri, í mörg ár á hvalföngur- unum, nú á Tilkynningarskyld- unni í Reykjavík, tvö yngri systk- ini Ingólfs eru Sigríður, húsfrú, og Þórður, skrifstofustjóri, bæði bú- sett á Norðfirði. Ung móðir verður fyrir þungu áfalli með 5 börn sín ung og engin auðlegð í garði. Það hefur mér verið sagt að þá hafi hún sýnt mikinn kjark og dugnað og brugð- ist við vandanum af mikilli sæmd. Hitt heyrði ég einnig að synirnir hefðu fijótt komið henni til hjálp- ar og lagt sig alla fram um að verða að sem mestu liði, og þau börnin öll eftir bestu getu, reynd- ar orðlagt dugnaðarfólk. Ingólfur var því ungur að árum þegar hann sótti fyrst feng á rán- arslóð, og löng er hans sjómanns- saga, þó aldurinn væri ekki hærri en 62 ár, sem telst góður aldur nú til dags. Þessi fjölskylda bjó um árabil á Norðfirði og þar lauk Ing- ólfur gagnfræðaprófi. Fiski- mannaprófi lauk hann frá Stýri- mannaskólanum í Reykjavík 1944 og farmannaprófi frá sama skóla 1947. Námi við Fanö Navigation- skole í Danmörku 1948. Ingólfur er sjómaður frá frum- bernsku, hann siglir öll stríðsárin með fisk til Bretlands. Er kennari við Stýrimannaskólann í Reykja- vík frá 1947, í um hálfan fjórða áratug. Yfir sumarmánuðina þeg- ar honum var ætlað sumarfrí frá skólanum sló hann ekki slöku við heldur hélt beint á sjóinn, var lengst af skipstjóri á fiskiskipum og á hvalföngurunum frá vori 1952 samfellt til lokadags. Orðlögð góð skytta og traustur skipstjórnar- maður, dáður og virtur af sinni skipshöfn, einnig útgerðar- mönnum vegna hans trausta manndóms, dugnaðar og leikni í starfi. Sá er þetta ritar fór nokkrum sinnum í hvalveiðitúr með Ingólfi, þá komst ég að því hve mikið hann var virtur og dáður af skipsfélög- unum. Þar um borð ríkti ánægja og glaðværð, í allri gleði var skip- stjórinn einn af þeim kátustu og gerði sér engan mannamun, þar var enginn yfirmannarembingur í tísku. Ingólfur sagði mér oft að hvergi kynni hann lífinu betur en á sjó, hann var sjómaður af guðs- náð. Veiðimennskan var honum í blóð borin, reyndar átti hann ekki langt að sækja þá hneigð, faðirinn var orðlagður veiðimaður. 1 ensku blaði fyrir allmörgum árum var þess getið, þar sem mynd fylgdi af Ingólfi við hvala- byssuna, að hann ætti Evrópumet sem hvalaskytta, ef ekki meira ef að væri gáð. Mikið hefur hann veitt síðan og aldrei brugðist ver- tíð. íslensku hvalaskytturnar hafa frá því fyrsta reynst miklir veiði- og heppnismenn. Það vill þannig til að margir þeirra hafa ungir menn byrjað um borð hjá Ingólfi, jafnvel verið stýrimenn hjá hon- um og lært þar. Ég varð oft var við hve Ingólfur hafði góðan hug til þessara manna sinna allra og heita ósk í brjósti um að þeim mætti vel vegna. Eitt fannst mér athygli vert hjá Ingólfi hve hann var mikill dýra- vinur. Það leyndi sér ekki þegar hann kom í heimsókn í sveitina. Ég minnist þess hve bágt hann átti með að sjá mig aflífa hrossin. Hann sagði einu sinni þegar hann sá blóðið renna stríðum straum- um: „Þetta er nú það ljótasta sem ég hefi séð.“ Mér varð á að hugsa, þetta er sjálf hvalaskyttan. Þá fékk ég sönnun fyrir því að veiði- mennskan stafaði ekki af dráps- fíkn, heldur verðmætaöflun. Ég tók oft eftir því hve Ingólfur var rólegur og yfirvegaður þegar hann gekk að hvalabyssunni, þar var ekkert æði eða flaustur, reyndar setti hann sér þá reglu að hitta á þann stað, að dýrið væri dauðskot- ið. Þetta mun honum hafa tekist framar öllum vonum, reyndar orð á haft. Nú var Ingólfur ákafur dugnaðarmaður sem lét hlut sinn aldrei eftir liggja. Hann byrjaði sem skipstjóri með hinni orðlögðu flinku skyttu Kristjáni Þorláks- syni, þeim drengskaparmanni. Þar mun hann hafa lært vel til verka og búið að því síðar. Sjálfur byrjar hann að skjóta á Hval I, elsta og gangminnsta skipinu og vekur strax á sér athygli fyrir hve vel gengur. Síðar verður hann skip- stjóri og skytta á Hval III, á Hval VI og nú seinni árin á Hval IX. Enginn einn maður mun eiga stærri hlut í aflaverðmætum sem að landi hafa borist að Litla-Sandi á Hvalfjarðarströnd en hvalveiði- maðurinn Ingólfur Þórðarson. Hafa þó margir verið fengsælir. Á fjórða áratug hefur þessi heiðursmaður, Ingólfur Þórðar- son, og fjölskylda hans verið okkur nánustu fjölskylduvinir. Upphaf þeirra kynna var það að við tókum Grétar son þeirra í sveit að Eystra-Miðfelli, við það varð samgangur mikill milli heim- ilanna. Kona Ingólfs kom oft í sveitina til okkar með börn þeirra og hennar foreldrar einnig, og stóð við í lengri eða skemmri tíma eftir ástæðum. Þar var gott að sjá til hvalskipanna sigla Hvalfjörðinn og heyra til þeirra í talstöðinni. Svo var tiltölulega stutt leið á bryggjuna, þar sem hægt var að hitta ástvinina, sem af hafi komu. Oft fór konan, reyndar fleiri úr fjölskyldunni, í veiðiferð með Ing- ólfi. Állt var þetta áhugavert líf, tilbreyting frá venjubundnu kaup- staðalífi, kom í stað sumarfrís. Sumarfrí hefur Ingólfur líklega aldrei tekið, á þann hátt sem al- mennt er. Kona Ingólfs var Guðrún Frið- rikka, fædd 28. febrúar 1921, dáin 12. júní 1979, Jónsdóttir Kjerúlf Guðmundssonar, hann lifir í hárri eili á Hrafnistu og hefur mikið misst. Hugur okkar fullur samúð- ar leitar til hans á þessari stundu. Ingólfur var honum góður tengda- sonur. Sambúð þeirra hjóna var traust og á bjargi byggð, gagnkvæm ást og virðing, samhugur um gott uppeldi barna, einstök árvekni fyrir farsæld og frama unga fólks- ins, sem veitti þeim ómælda gleði og hamingju. Þau bjuggu við barnalán, börn þeirra eru þrjú: Grétar, skipstjóri og útgerðar- maður á Höfn í Hornafirði, hann á 5 börn, 2 þeirra frá fyrra hjóna- bandi, kona hans er Gerður Bjarnadóttir; Hrefna, húsmóðir í Mosfellssveitarbyggð, maður hennar Finnur Jóhannsson, smið- ur, frá Akranesi, þau eiga 3 drengi, og yngstur er Pétur Haf- steinn, íþróttakennari, hans kona Jóna María Sigurgísladóttir, þau eiga 2 börn og búa á Akranesi. Pétur og María voru bæði í sveit hjá okkur á Eystra-Miðfelli. Allt er þetta mikið sómafólk. Pétur er háseti á Hval IX, hann hefur verið með pabba sínum á hvalveiðum undanfarin sumur og Grétar einn- ig mörg sumur hér fyrr á árum. Það er margs að minnast þegar litið er yfir farinn veg, við hjónin eigum okkar kærustu minningar frá Eystra-Miðfelli, inní þann þátt tvinnast öll kynni við þetta ágæta fólk, sem alla tíð sýndi okkur órofa tryggð, og vináttu, sem aldr- ei gleymist. Ingólfur og Friðrikka voru alltaf boðin og búin til að rétta hjálparhönd, þegar með þurfti. Það var föst venja Ingólfs að koma í heimsókn til okkar áður en vertíð hófst og gista nótt, einnig þegar vertíð lauk, þegar því varð viðkomið. Þessum sið hélt hann þó hann væri orðinn einn og við flutt á Akranes. Þegar eitthvað var um að vera hjá fjölskyldu okkar voru þessir góðu vinir með okkur. Nú síðast á hvítasunnunni í vor, þegar yngsti sonur okkar og tvö elstu barnabörnin voru fermd í Saurbæ, þá kom hann í kirkju, var með okkur á veislustund og færði börn- um gjafir, eins og venjulega. Hann var glaður og hress að vanda. Hann var mjög ánægður yfir þess- ari síðustu samverustund með okkur á veisludegi, það frétti ég, við erum það ekki síður, engin vissi þá að feigðin var við næstu dyr. Við höfðum samúð með þess- um trygga vini okkar, hann var eins og vængbrotinn fugl eftir konumissinn. Hrefna dóttir hans og hennar fjölskylda voru hjá honum í íbúðinni sl. vetur á meðan þau byggðu sér hús. Þetta var Ing- ólfi ómetanlega mikils virði, ein- veran er ekki upplífgandi. Þau áttu fallegt heimili, Frið- rikka og Ingólfur, það heimili var honum kært, hann vildi eiga það eins og hún skildi við það, sú ósk hefur ræst. Ingólfur var lengi í stjórn Slysa- SJÁ NÆSTU SÍÐU

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.