Morgunblaðið - 02.11.1985, Blaðsíða 2
2 B
MORGUNBLAÐIÐ, LAUGARDAGUR 2. NÓVEMBER1985
Um framkvæmd
könnunarinnar
Spurningarnar sem hér er um
fjallað eru úr spurningavagni Hag-
vangs, en ýmsar fleiri spurningar
voru í könnuninni. Spurt var frá 29.
júní til 10. júlí 1985. Úrtakið var
1000 manns af landinu öllu, valið úr
þjóðskrá. Svarendur voru alls 770,
eða 77% af brúttóúrtaki, en 83% af
nettóúrtaki (þegar þeir sem eru er-
lendis, fjarverandi, látnir, sjúkir eða
vangefnir eru taldir frá). Þátttakend-
ur voru 18 ára og eldri og spurt var
í síma.
f töflum hér á eftir eru svörm
gefin fyrir heildina og ýmsa þjóð-
félagshópa. Oft er þeim sem sögðu
„veit ekki“ sleppt í töflunum, en
hlutfall þeirra er þá nefnt í texta.
Rétt er að minna á að í öllum
úrtakskönnunum eru skekkju-
mörk. Þau skipta litlu máli hér
þegar litið er á svör heildarinnar.
95% líkur eru á því að svör 770
manna úrtaks skeiki í mesta lagi
3—4% frá því sem fengist ef allir
landsmenn væru spurðir og oftast
minna. En þegar úrtakið er brotið
niður í þjóðfélagshópa hækka
skekkjumörkin. Sé hópurinn sem
prósentan er reiknuð út frá mjög
lítill (t.d. undir 50 manns) geta
skekkjumörkin auðveldlega farið
yfir 10%. Þetta ber að hafa í huga
þegar viðhorf einstakra þjóðfé-
lagshópa eru skoðuð, en fjöldinn
sem byggt er á er alltaf nefndur
i töflunum.
Skiptingin í þjóðfélagshópa
skýrir sig að mestu sjálf, en taka
má fram að skiptingin í tekjuhópa
byggir á spurningu um mánaðar-
tekjur heimilisins (brúttótekjur).
er vissulega á milli sumra svar-
anna. Sterkast fylgjast að viðhorf
manna til þess hvort stjórnmála-
menn segi yfirleitt sannleikann,
hvort málfar þeirra sé í takt við
tímann og hvort þeir takist á við
brýnustu vandamál íslendinga.
Skoðanir manna á þessum þremur
spurningum fara líka saman — en
í minna mæli — við afstöðu þeirra
til þess hvort ráðherra skuli velja
úr hópi þingmanna eða sérfræð-
inga, hvort stjórnmálamennirnir
segi allir það sama og hvort þing-
menn hafi of há laun.
Til að skýra þetta betur skulum
við líta á hvort svör manna við
spurningunum um stjórnmála-
mennina eru breytileg eftir því
hvort þeir telja að stjórnmála-
menn segi yfirleitt satt eða ekki.
54% þeirra sem telja að stjórn-
málamenn segi yfirleitt satt telja
líka að málfar þeirra sé í takt við
tímann, en einungis 27% þeirra
sem ekki telja að stjórnmálamenn
segi yfirleitt satt. 54% þeirra fyrr-
nefndu telja að stjórnmálamenn
takist á við brýnustu vandamálin,
en einungis 24% þeirra síðar-
nefndu. 41% þeirra sem telja
stjórnmálamennina segja satt
telja líka að þeir segi allir það
sama, en 58% þeirra sem neita
sannsögli stjórnmálamanna. 45%
þeirra fyrrnefndu vilja ráðherra
úr hópi þingmanna, en 30% þeirra
síðarnefndu. Og einungis 37%
þeirra sem eru trúaðir á sannsögli
stjórnmálamanna telja að þing-
mennirnir hafi of há laun, en 62%
hinna vantrúuðu telja þá oflaun-
aða. í öllum þessum tilvikum eru
svör manna breytileg eftir því
hvort þeir telja að stjórnmála-
menn segi yfirleitt sannleikann
eða ekki.
Hins vegar er enginn munur á
svörum þessara tveggja hópa þeg-
ar spurt er um hvort menn eigi
að hafa stjórnmál að atvinnu,
hvort afnema eigi þingrofsréttinn
og hvort forsetinn eigi að hafa
meiri pólitísk völd.
Þetta sýnir að nokkur tilhneig-
ing er í þá áttina, að þeir sem svara
einni spurningu um stjórnmála-
menn gagnrýnið geri það líka í
öðrum. Þannig hefur einhver hóp-
ur almennt vantrú á stjórnmála-
mönnum. En þetta er engan veginn
klippt og skorið: Flestir svarend-
anna gefa svör sem eru gagnrýnin
á stjórnmálamenn við sumum
spurningunum en ekki öllum.
Kynslóðabil?
í töflunum hér á eftir er afstaða
ólíkra þjóðfélagshópa til spurning-
anna sýnd og ofurlítið um hana
fjallað. Hér er ekki rúm til að
fjalla um þá skiptingu sem vert
væri, en eitt atriði skal þó nefnt.
Þó viðhorf óiíkra aldurshópa til
hinna ýmsu spurninga séu stund-
um dálítið breytileg er ljóst að
ekki er um skarpt kynslóðabil á þann
veg að ræða, að hinir yngri séu
gagnrýnni á stjórnmálamenn en
þeir sem eldri eru. Yngstu kjósend-
urnir skera sig ekki greinilega úr
hvað spurningarnar um stjórn-
málamennina varðar. Könnun
Hagvangs bendir þannig ekki til
þess að vantrú á stjórnmálamönn-
um sé útbreiddari meðal yngstu
kjósendanna en annarra.
Hverju eiga stjórn-
málamenn að
sinna meira?
Loks er rétt að fjalla stuttlega
um svör við spurningu, þar sem
14 málefni voru nefnd og spurt
hvort mönnum fyndist að stjórn-
málamenn ættu að sinna þeim
meira en nú er raunin. Nokkur
vandi er að túlka svörin og kemur
þar ýmislegt til.
í fyrsta lagi er orðalagið al-
mennt. Hvað þýðir t.d. það að
stjórnmálamenn eigi að „sinna
heilsugæslu meira en nú er raun-
in“? Þýðir það að þeir eigi að veita
meira fé í heilsugæsluna? Eða að
þeir eigi að auka þar aðhald og
ráðdeildarsemi? Svörin við spurn-
ingunni segja okkur bersýnilega
lítið um þetta. { besta falli er hér
um að ræða einhvers konar al-
menna forgangsröð; einhvers kon-
ar almennan kvarða á „vinsældir"
málaflokkanna.
í öðru lagi vekur það athygli að
drjúgur meirihluti vill að stjórn-
málamennirnir sinni öllum mála-
flokkum meira. Að vísu er hugsan-
legt að svo sé raunin. En hér getur
líka verið sá vandi á ferðinni að
form spurningarinnar bjóði frem-
ur upp á það að menn segi já en
nei. Og óneitanlega er dálítið skrít-
ið að tveir af hverjum þremur
svarendum segja að þeir vilji að
„stjórnmálamenn sinni minni rík-
isafskiptum meira en nú er raun-
in“ (sem er nú reyndar heldur
kauðalegt orðalag), en eigi að síður
vill meirihluti að stjórnmálamenn
sinni hinum málaflokkunum 13 í
meira mæli en nú er gert. Og þegar
sambandið milli skoðana á miniii
ríkisafskiptum og hinum mála-
flokkunum 13 er athugað kemur í
ljós — þvert á það sem við mátti
búast — að meðal þeirra sem vilja
ekki að stjórnmálamenn sinni
minni ríkisafskiptum í meira mæli
er heldur meiri andstaða við aukna
áherslu á hin málin en meðal
þeirra sem vilja minni ríkisaf-
skipti. Þetta gildir um öll málin
13 nema eitt, en munurinn er
mismikill. Þetta ýtir vissulega
undir grunsemdir um að form
spurningarinnar skipti hér máli.
Hér ber því að sýna varúð i túlk-
un. Að vísu sýnist enginn vafi, að
líta megi á niðurstöðurnar sem
einhvers konar forgangsröð: að
almenningur sé því mjög hlynntur
að stjórnmálamenn leggi ríka
áherslu á bætt launakjör, baráttu
við verðbólgu og nýiðnað — og að
varnar- og öryggismál, aðstoð við
þróunarlönd, minni ríkisafskipti
og opinber rekstur séu umdeildari.
En varast ber að oftúlka niðurstöð-
urnar. Fleiri og nákvæmari spurn-
ingar um sömu efni gætu gefið
aðra mynd.
Spurt var: Telur þú ad stjórnmálamenn fái hæfileg laun, fái of há laun, eöa
fái of lág laun?
Ofhá laun Hæfileg laun Oflág laun Alls(fjöldi)
Svarcndur í heild 55% 42% 4% 101% (747)
Kyn
Karlar 48% 45% 7% 100% (368)
Konur 61% 38% 1% 100% (371)
Tekjur
Undir 30 þúsund 72% 26% 2% 100% (100)
30—39 þúsund 63% 34% 3% 100% (101)
40—49 þúsund 57% 42% 2% 101% (106)
50—69 þúsund 45% 50% 5% 100% (148)
70 þúsund eða hærra 42% 50% 8% 100% (126)
Skólaganga
Skyldunám eða minna 63% 34% 3% 100% (184)
Gagnfræðapróf/landspróf 61% 38% 1% 100% (215)
Verklegt framhaldsnám (3—4 ár) 47% 47% 6% 100% (136)
Stúdentspróf 49% 49% 2% 100% (51)
Annað bókl. framhaldsnám (3—4 ár) 50% 44% 6% 100% (68)
Háskólapróf 30% 57% 13% 100% (47)
Annað 51% 42% 7% 100% (43)
Aldur
18—24 ára 63% 34% 2% 99% (128)
25—29 ára 58% 38% 5% 101% (85)
30—39 ára 46% 49% 5% 100% (189)
40—49 ára 55% 43% 2% 100% (128)
50-59 ára 53% 40% 7% 100% (105)
60 ára og eldri 63% 37% 0% 100% (99)
Rúmur helming-
ur segir þingmenn
hafa of há laun
Laun þingmanna hafa löngum
verið vinsælt umræðuefni á íslandi.
Oft er hneykslast á því að þing-
mannslaunin séu of há, einkum
þegar þau eru hækkuð. A móti er
svo stundum sagt að laun þing-
mannanna séu of lág miðað við
sambærilega hópa — og valdi því
jafnvel að hæfir menn telji sig stund-
um ekki hafa efni á að gefa kost á
sér til þingmennsku. En hvað finnst
almenningi í þessu efni? Könnunin
leiðir í Ijós að ríflega helmingur telur
að þingmennirnir hafi of há laun.
42% álíta hins vegar að þingmanns-
launin séu hæfileg, en einungis 4%
segja þau of lág. Auk þess sögðust
fáeinir svarendanna (3%) ekki hafa
skoðun á þessari spurningu og er
þeim sleppt í töflunni.
Þegar hugað er að afstöðu ólíkra
þjóðfélagshópa til þingmanns-
launanna kemur í sumum tilvikum
fram mjög umtalsverður munur.
Skýrastur er munurinn eftir tekju-
hópum eins og fram kemur í töfl-
unni. Þar kemur greinilega fram
að eftir því sem eigin tekjur lækka
eykst þeirri skoðun fylgi að þing-
mannslaunin séu of há. Þannig
telja 72% þeirra sem sjálfir hafa
minna en 30 þúsund krónur í mán-
aðarlaun að þingmannslaunin séu
of há, 26% telja þau hæfileg, en
2% of lág. Allt annað er upp á
teningnum þegar litið er á afstöðu
þeirra sem sjálfir hafa 70 þúsund
krónur eða meira á mánuði. Ein-
ungis 42% þessa hóps telja að
þingmennirnir séu ofaldir í laun-
um, 50% telja laun þeirra hæfileg
og 8% segja að laun þingmann-
anna séu of iág.
Svipuð tilhneiging kemur í ljós
þegar skoðaðir eru hópar fólks sem
hefur mismunandi skólagöngu að
baki, enda er nokkurt samband
milli lengdar skólagöngu og eigin
tekna. Rúm 60% þeirra sem stysta
hafa skólagönguna (skyldunám
eða minna, gagnfræðapróf eða
landspróf) telja að þingmennirnir
séu oflaunaðir. Þeir sem lokið hafa
lengri skólagöngu, en þó ekki há-
skólaprófi, eru dálítið annarrar
skoðunar; um helmingur þeirra
telur að þingmenn hafi of há laun.
Háskólamenn skera sig hins vegar
greinilega úr hvað þetta málefni
varðar. Einungis 30% þeirra sem
lokið hafa háskólaprófi telja að
þingmenn hafi of há laun. 57%
háskólamanna telja hins vegar
laun þingmanna hæfileg og 13%
telja þau of lág.
Skoðanamunurinn á launum
þingmanna er ekki eins mikill eftir
atvinnu eða aldri. Þó má nefna að
þeir yngstu (18—24 ára) og þeir
elstu (yfir sextugt) telja í heldur
ríkari mæli en aðrir að þingmenn
hafi of há laun.
Greinilegur munur reynist hins
vegar á afstöðu karla og kvenna.
48% karlanna telja þingmenn
oflaunaða, en 61% kvenna. Ein-
ungis 1% kvennanna telur hins
vegar þingmennina hafa of lág
laun, en 7% karla eru þeirrar
skoðunar. Loks má nefna að lítill
munur reyndist á afstöðu manna
eftir því hvort þeir búa á höfuð-
borgarsvæði, í öðru þéttbýli eða
dreifbýli.